fbpx
Laugardagur 04.febrúar 2023
Fókus

Róbert Marshall: Forréttindi að vera í herberginu þar sem hlutirnir gerast

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 18. júlí 2020 07:00

Róbert Marshall Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Róbert Marshall er nýr upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Hann fann fyrir djúpri köllun til að gera samfélaginu gagn eftir að horfa yfir Ermasundið þar sem afi hans lést í stríðinu.  Hér má í heild lesa forsíðuviðtal við Róbert sem birtist í helgarblaði DV 10. júlí.

„Ég kann mjög vel við mig í þessu starfi. Það eru einhverjar stressstöðvar í heilanum á mér, ættaðir aftur úr blaðamennskufortíðinni, sem njóta sín í aðstæðum þar sem verkefnin liggja ekki alveg ljós fyrir í byrjun dags,” segir Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Gengið var frá ráðningu Róberts seinni hluta marsmánaðar en hann hafði þá greinst með COVID-19 og var í einangrun ásamt fjölskyldunni. Hann er mikill útivistargarpur og hefur síðustu ár, ásamt Brynhildi Ólafsdóttur eiginkonu sinni, sinnt alhliða fjallaleiðsögn, þjálfun og útivist. Útbreiðsla COVID-19 var rétt að hefjast og ekki komið samkomubann þegar Róbert fór með hóp gönguskíðafólks norður í Mývatnssveit í mars en áður en yfir lauk greindust 19 af 23 úr hópnum með sjúkdóminn. Sjálfur segist Róbert hafa fengið „lúxusútgáfu af þessum veikindum” en sá þarna hversu gríðarlega smitandi sjúkdómurinn var.

Verkefni Róberts fyrir ríkisstjórnina snerust strax frá upphafi mikið um upplýsingagjöf vegna COVID-19. „Í byrjun vorum við mjög mikið að svara erlendum fjölmiðlum og okkur þótti mikilvægt að koma því á framfæri hvernig við værum að takast á við útbreiðsluna. Katrín Jakobsdóttir er mjög þekkt erlendis og sem forsætisráðherra er hún stjórnmálastjarna á erlendum vettvangi. Ég held að fólk átti sig ekki alveg á því hversu mikil ásókn er í viðtöl við hana hjá erlendum fjölmiðlum. Við höfum þurft að velja og hafna mörgum viðtalsbeiðnum. Allt krefst þetta undirbúnings og samvinnu, og hefur verið krefjandi.”

Mynd/Sigtryggur Ari

Enn sami strákurinn

Róbert á fjölbreytilegan feril að baki. Hann er fyrrverandi alþingismaður og sat á þingi fyrir Samfylkinguna, var þingmaður utan flokka og loks fyrir Bjarta framtíð sem hann tók þátt í að stofna. Á þingi gegndi hann meðal annars þingflokksformennsku, formennsku í allsherjarnefnd, formennsku í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og sat í umhverfis- og samgöngunefnd, Þingvallanefnd og Norðurlandaráði. Hann starfaði við fjölmiðla um árabil og var aðstoðarmaður samgönguráðherra, Kristjáns Möller, áður en hann settist sjálfur á þing árið 2009. Róbert er fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands og var um tíma forstöðumaður fréttasviðs 365. Hann er uppalinn í Vestmannaeyjum þar sem hann stundaði fiskvinnslu, netagerð og sjómennsku. Já, Róbert hefur komið víða við.

Brynhildi eiginkonu sinni kynntist hann í fréttamennskunni en hún er einnig fyrrverandi fréttamaður. „Ég á fimm börn; tvö úr fyrra hjónabandi, tvö með Brynhildi og svo átti hún eina dóttur fyrir. Yngsti sonur minn er á fimmtánda ári og sá elsti að skríða í þrítugt. Ég er að reyna að venjast þeirri hugmynd að brátt á ég son á fertugsaldri,” segir Róbert og tekur fram að hann hafi byrjað ungur að eignast börn. Hann er 49 ára, verður fimmtugur á næsta ári og segist alltaf jafn hissa á því að vera enn sami strákurinn, þvert á fyrri hugmyndir um að eldast. „Maður verður ekki gamall inni í sér. Síðan er ég alltaf að upplifa eitthvað nýtt og er alltaf undrandi yfir því hvað lífið hefur upp á mikið að bjóða. Það finnst mér dásamlegt.”

 

Upplifði sig í búbblu

Með fram þingmennskunni var Róbert mikið að leiðsegja og fór síðan á fullt með eigin rekstur þegar hann ákvað að hætta þingmennsku árið 2016. „Ég var forvitinn um hvort það væri hægt að lifa af verkefnum tengdum útivistinni og það tókst. Við höfum sinnt ýmiss konar leiðsögn fyrir Ferðafélag Íslands og séð um þjálfun Landvætta. Þá ákvað ég að nýta þekkingu mína úr fjölmiðlun og dagskrárgerð, við Guðmundur Steingrímsson gefum út tvisvar á ári útivistartímaritið Úti og við Brynhildur og Tómas Marshall bróðir minn gerðum útivistarþætti fyrir RÚV. Þegar ég hætti á þingi ákvað ég að gera upp við mig árið 2020 hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór,” segir Róbert kíminn og heldur áfram: „Ég fann strax í haust að það var farið að toga í mig að skipta um vettvang. Þegar ég byrjaði að vinna í stjórnarráðinu fann ég hvað ég saknaði þess að vera á eiginlegum vinnustað. Ég og Brynhildur erum bara með sitthvora skrifstofuna heima og auðvitað hittum við mikið af fólki þegar við erum að þjálfa og leiðsegja en ég fann hvað ég hafði gott af þessari breytingu – að vakna á morgnana, fara út, sinna vinnunni og koma síðan heim. Ég hef alltaf verið pólitískt „animal” og mikill áhugamaður um stjórnmál. Ég var satt að segja farinn að finna fyrir samviskubiti yfir því að vera ekki að gera neitt fyrir samfélagið. Mér fannst ég vera kominn inn í einhverja búbblu þar sem ég væri ekki að gera gagn. Að mörgu leyti fannst mér ég hafa verið ágætis þingmaður og verið sterk rödd á ákveðnum sviðum.”

Mynd/Sigtryggur Ari

 

Rödd náttúrunnar

Hann tekur fram að hann sé auðvitað ekki kjörinn fulltrúi nú og tilheyri engum
stjórnmálaflokki. „En ég er stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og kaus Kötu og VG síðast. Þegar ég horfði yfir sviðið fyrir síðustu þingkosningar var enginn sem ég treysti jafn vel til að vera forsætisráðherra og hún,” segir hann. Róbert bendir á að hann hafi kynnst Katrínu og Svandísi Svavarsdóttur vel í þingstörfunum á sínum tíma og þau náð vel saman. Það sem hann er stoltastur af þegar kemur að þingstörfunum er þátttaka hans í að ný heildarlög um náttúruvernd urðu að veruleika. Sigrún Magnúsdóttir var þá umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn en Róbert sat i umhverfis- og samgöngunefnd ásamt Svandísi sem þá var fyrrverandi umhverfisráðherra og höfðu lögin upphaflega verið samin í hennar ráðherratíð. „Ég er stoltur af því að hafa verið rödd náttúrunnar og rödd umhverfisins. Ef þú leggur þig fram við að vera rödd ákveðins málstaðar þá ertu alltaf að afla honum fylgis. Mér finnst að á síðustu tíu árum hafi þær hugmyndir sem skipta mig mestu orðið ríkjandi; femínismi, umhverfisvernd og mannréttindi.”

Mikilvægt að geta aftengt sig

Frá því hann var barn í Vestmannaeyjum hefur Róbert verið í miklum tengslum við náttúruna og ungur var hann kominn í skátana. „Ég veit hvað það er mikið meðal fyrir nútímafólk að komast í óspillta náttúru. Það eru forréttindi okkar hér á landi að vera alltaf í innan við tveggja tíma fjarlægð frá hreinni náttúru. Það er fjársjóður sem fáar þjóðir eiga. Ég held að samfélagið væri betra ef fleiri væru áskrifendur að þessu fyrirbæri sem náttúran er. Það er mikilvægt að geta aftengt sig og komist út úr þessu firrta borgarsamfélagi.”

Spurður hvort hann eigi einhvern uppáhalds stað segir Róbert: „Það er einhver sérstök líðan sem fylgir því fyrir mig að vera í Langadal í Þórsmörk. Það má segja að þar sé mitt andlega lögheimili. Þarna get ég staðið og séð upp á Eyjafjallajökul, það er útsýni inn í Þórsmörkina en líka upp á Mýrdalsjökul í hina áttina. Á þessum stað mun andi minn sitja á steini eftir minn dag. Ég á marga uppáhalds staði en þarna finn ég fyrir alveg sérstökum tengslum. Meira að segja bara að standa við eldhúsvaskinn í skálanum og vaska upp – það er bara eitthvað sem er alveg rétt við það.”

Lífið stækkar án áfengis

Róbert hefur talað opinskátt um baráttuna við Bakkus en í ljós kemur að útivistin tók ekki við af áfengisneyslunni heldur varð útivistin einfaldlega betri eftir að hann varð edrú. „Ég var engin skólabókarfyllibytta en var yfirleitt að fá mér tvo, þrjá bjóra á kvöldi eða þá léttvínsglas. Á ferðalögum um landið var ég bara með bjórkippu í bílnum, eins og margir gera. Ég hljóp líka alltaf mikið, alveg frá því ég var 17 ára gamall. Þegar ég hékk sem mest á Ölstofunni með sígarettu og bjór þá var ég alltaf að hlaupa. Útivistin og hlaupin hafa alltaf verið hluti af lífi mínu. En það er með þau eins og önnur svið lífsins að þegar þú tekur áfengið út þá fer maður að njóta alls miklu betur. Ég er 12 spora maður og hef unnið í sjálfum mér, ég tilheyri samtökum sem njóta nafnleyndar en eru mjög framarlega í símaskránni. Án áfengis stækkar lífið svo mikið. Það verður auðveldara að koma sér í form, auðveldara að halda prógrammi, auðveldara að vera til staðar fyrir fjölskylduna og sinna öllu sem þarf að sinna.”

Kveðjan skrifuð í sjúkraskýrslur

Ástæðan fyrir því að Róbert hætti að drekka var ekki síst sú að hann vildi ekki enda eins og faðir sinn heitinn. Foreldrar Róberts kynntust í London, móðir hans er íslensk en pabbi hans frá Skotlandi. Þau eignuðust dóttur saman og fluttu síðan til Íslands þar sem Róbert fæddist. Faðirinn, Anthony Marshall, leiddist út í ofdrykkju og skildu þau þegar Róbert var sjö ára. Anthony lést einn og yfirgefinn í London árið 2003. „Enginn vissi hvað varð um hann í tólf ár. Hann var það einsamall. Systir mín komst að því fyrir fimm árum að áður en hann dó bað hann um að sendiráði Íslands í London yrði gert viðvart um að hann væri að kveðja en hinsta kveðjan komst því miður ekki til skila. Hún er skrifuð í sjúkraskýrslur sjúkrahússins og ljóst að síðasta hugsun hans var hjá börnunum sem hann yfirgaf fyrir Bakkus og líf á götunni. Á sínum tíma fannst mér ég sjá inn í það hyldýpi sem tók pabba minn. Ég var ekki kominn þangað en þetta er sjúkdómur sem endar eins hjá öllum. Menn eru bara misjafnlega langt komnir. Pabbi komst aldrei út úr þessu. Áfengið bara greip hann og heltók. Þetta er harmleikur, eins og svo margir aðrir sem áfengi og vímuefni hafa kallað yfir fólk.”

Mynd
Mynd/Sigtryggur Ari

Afi lést í baráttu fyrir land sitt

Róbert var á slóðum föður síns síðasta haust þegar hann var að vinna þátt af Úti um Marglytturnar, hóp íslenskra sundkvenna sem synti yfir Ermarsundið. „Það urðu ákveðin straumhvörf hjá mér í þeirri ferð. Á landsbyggðinni í Bretlandi blasir svo við hversu útbreiddur áfengis- og vímuefnavandinn er. Þarna var hópur fólks sem enginn var að hugsa um, hópur af langt leiddum sjúklingum. Á sama tíma var Brexit í gangi og ég upplifði svo sterkt algjöran aðskilnað stjórnmálanna og almennings. Mér finnst stjórnmálaflokkarnir þarna úti, og kosningakerfið, algjörlega hafa yfirgefið fólkið í landinu. Það var grátlegt að horfa upp á þennan mikla vanda á götunum. Óháð hægri eða vinstri pólitík þá er þarna gjá milli þings og þjóðar. Þetta leiðir hugann að því að ef það er ekki gott fólk í pólitík þá gerast slæmir hlutir.“ Bretlandsferðin vakti upp enn fleiri minningar hjá Róberti. „Ég eyddi tíu dögum í Dover þar sem ég horfði yfir Ermarsundið í átt til Frakklands. Afi minn, James Marshall, dó á Ermarsundi árið 1943. Hann var á skipinu HMS Jaguar sem var eitt þeirra sem sótti innlyksa hermenn til Dunkirk,” segir hann og rifjar í leiðinni upp að gerð var samnefnd kvikmynd um þessa miklu baráttu á ströndum Frakklands í seinni heimsstyrjöldinni. „Skip afa míns komst laskað við illan leik til Dover. Einu eða tveimur árum síðar dó hann í sprengjuárás á Ermarsundi. Þetta var stuttu áður en pabbi fæddist. Það var auðvitað hræðilegt fyrir ömmu að missa afa á þessum viðkvæma tíma og föðurmissirinn litaði alla barnæsku pabba, allt hans líf. Mér finnst þessir atburðir svo nálægt okkur, að afi minn hafi tekið þátt í þessu stríði og að fólk af hans kynslóð hafi tekið þátt í bardaganum vitandi að það myndi mögulega láta lífið. Ég upplifði svo sterkt að þetta var kynslóð sem tók slaginn og barðist gegn vondu fólki. Þetta ýtti við mér og ég komst að þeirri niðurstöðu að það er ekki hægt að fara í gegnum lífið með því að leika sér bara. Maður þarf að leggja sitt af mörkum og skila sínu, það getur verið gaman og það getur verið fjárans fórn.” Það var þarna sem Róbert fann að hann vildi skipta um gír og leggja sitt af mörkum áfram. „Það var samt ekkert plan hjá mér að fara að vinna fyrir ríkisstjórnina en þetta gerði það að verkum að þegar Katrín bauð mér þetta starf þá vissi ég strax að ég vildi reyna mig við það.“

Forréttindi að vera þar sem allt gerist

Spurður hvað hafi komið honum mest á óvart í starfi upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar segir hann: „Það hefur komið á óvart hvað forsætisráðuneytið er skemmtilegur vinnustaður. Þarna vinnur gríðarlegur fjöldi af hæfileikaríku fólki. Ég vinn náið með Kötu en líka með hennar aðstoðarfólki, Lísu Kristjánsdóttur og Bergþóru Benediktsdóttur. Lára Björg Björnsdóttir og Unnur Brá Kolbeinsdóttir eru líka aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar eins og ég,” segir hann en Lára er fyrrverandi upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar og núverandi aðstoðarmaður á sviði jafnréttismála, en Unnur Brá er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokks og núverandi aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þarna eru líka gamlir kunningjar og vinir eins og Bryndís Hlöðversdóttir og Stein
unn Valdís Óskarsdóttir. „Þetta er skemmtilegt teymi og verkefnin eru gríðarlega fjölbreytt og skemmtileg. Mér finnst líka mjög skemmtilegt að upplifa Katrínu sem forsætisráðherra og sjá hvað hún gerir þetta vel. Það eru bara forréttindi að fá að vera í herberginu þar sem hlutirnir gerast. Þetta er líka allt annað en að vera á þingi. Ég vissi alveg hver væri munurinn að vinna hjá löggjafarvaldinu og hjá framkvæmdavaldinu,” segir hann og viðurkennir að það sé mun skemmtilegra að vera þar sem ákvarðanir eru teknar.

Mynd/Sigtryggur Ari

Borðuðu ost í beinni

Við komumst ekki hjá því að ræða uppákomu þegar Katrín átti að vera í beinni útsendingu í breska morgunþættinum This Morning Live um miðjan júní en ekki vildi betur til en þáttastjórnendur reiknuðu með Katrínu klukkan 9 að íslenskum tíma en Róbert gerði ráð fyrir viðtalinu klukkan 11. „Þetta auðvitað skrifast á mig, en samt ekki alveg. Þegar ég var fréttamaður og talaði við Hong Kong þá talaði ég við fólk þar á þeirra tíma. Þetta viðtal hafði átt sér sex daga aðdraganda og ég hafði nokkrum sinnum sent póst og spurt hvort hún ætti ekki örugglega að vera klukkan 11 að íslenskum tíma, en ekki fengið sérstaka staðfestingu. Þáttastjórnendur eru svo í beinni útsendingu klukkan 9 að staðartíma að spyrja um Katrínu en hún er þá bara á fundi og ég sit sveittur á efri vörinni á skrifstofunni. Þau sátu uppi með þetta klúður og þurftu að borða ost í beinni útsendingu í 10 mínútur en þetta skipti svo sem litlu fyrir okkur. Ég tók hins vegar alfarið á mig sökina, bæði þvi ég hefði getað gengið harðar á eftir staðfestingu en líka því mér þótti þetta fyndið,” segir hann og vísar til þess að hann hafi áður komist í klandur út af klukkunni. Hann sagði starfi sínu lausu sem fréttamaður á Stöð 2 árið 2005 eftir að hafa sagt rangt frá klukkan hvað það lá fyrir að bandarísk stjórnvöld hefðu vitað af stuðningi Íslendinga vegna Íraksstríðsins og ritaði Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, harðort bréf frá sér vegna þessa. Nokkrum árum síðar staðfesti Morgunblaðið að frétt Róberts var efnislega rétt; ákvörðunin um stuðning Íslands við innrásina í Írak var tekin af Davíð og Halldóri einum.

Spila Bowie með trúarofsa

En lífið er ekki bara pólitík því Róbert er líka í hljómsveit. „Þegar ég hætti á þingi tók ég ákvörðun um að stofna hljómsveit. Ég og Þór Freysson, gamall félagi minn af Stöð 2, stofnuðum þá hljómsveitina Lizt sem hefur spilað síðustu fjögur ár. Ég er söngvari og gítarleikari. Við höfum spilað lög Bowie af miklum trúarofsa. Líklega höfum við haldið um 40 Bowie-tónleika þar sem við flytjum um 30 lög hans. Ég stend þá á sviðinu, spila á gítar og syng. Það er eitthvað í röddinni minni sem er á svipuðum slóðum og Bowie. Stór orð en ég tel mig geta staðið undir þeim.” Hann segir tónleika sveitarinnar ekki mikið auglýsta en þeir hafi þó spilað til að mynda á Græna hattinum á Akureyri, Barion í Mosfellsbæ og Gamla bíói í Reykjavík. Fyrir áhugasama er hljómsveitin Lizt með eigin Facebooksíðu og þangað fór blaðamaður rakleiðis eftir viðtalið til að sannreyna hvort rödd Róberts líktist í raun Bowie. Merkilegt nokk þá eru þarna mikil líkindi. En endilega sannreynið þetta sjálf.


Viðbót í netútgáfu:

Hér má sjá myndband frá æfingu Lizt sem Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar streymdi fyrr á þessu ári þar sem Bryndís Ásmundsdóttir slóst í hópinn. Við mælum sérstaklega með Ziggy Stardust á 17:45 og China girl á 22:45.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fékk nálgunarbann gegn manni sem er sannfærður um skyldleika þeirra

Fékk nálgunarbann gegn manni sem er sannfærður um skyldleika þeirra
Fókus
Í gær

Heiðar og Kolfinna kaupa fasteign í Kópavogi

Heiðar og Kolfinna kaupa fasteign í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Camilla Rut flutt úr einbýlishúsinu í litla sæta íbúð – „Þetta tókst“

Camilla Rut flutt úr einbýlishúsinu í litla sæta íbúð – „Þetta tókst“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Opnar sig um „erfitt“ fósturlát Demi Moore og skilnaðinn

Opnar sig um „erfitt“ fósturlát Demi Moore og skilnaðinn