fbpx
Þriðjudagur 29.september 2020
Fókus

Tímavélin: Sumargleðin sló í gegn ár eftir ár

Auður Ösp
Fimmtudaginn 16. júlí 2020 21:20

Ljósmynd/Tímarit.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sumargleðin fór út um allt land á árunum 1972 til 1986 og skemmti hátt í 600 sinnum.  Vinsældirnar voru með hreinum ólíkindum og dæmi voru um að landsbyggðafólk stýrði sumarfríum sínum eftir komu skemmtikraftanna. Það var söngvarinn ástsæli Ragnar Bjarnason  sem ýtti hugmyndinni af stað ásamt Ómari Ragnarssyni, skemmtikrafti og fréttamanni. Skrautfjaðrir Sumargleðinnar, auk Ragnars og Ómars, voru meðal annars Karl Guðmundsson eftirherma, Bessi Bjarnason leikari, Magnús Ólafsson leikari, Þuríður Sigurðardóttir og Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkonur, bræðurnir Halli og Laddi, að ógleymdum Hermanni Gunnarssyni og Þorgeiri Ástvaldssyni sem störfuðu í Sumargleðinni síðustu árin.

Í viðtali við Morgunblaðið árið 1994 rifjaði Ragnar upp hvernig Sumargleðin varð til. Árið 1971 kom hann fram á héraðsmótum Sjálfstæðisflokksins ásamt Svavari Gests.

„Þar skemmtum við á milli ræða og lékum svo fyrir dansleik á eftir og gafst þetta vel. Þegar Svavar hætti, tók ég við hljómsveitinni og þegar héraðsmótin voru aflögð ákvað ég að halda áfram með skemmtanir í þessum dúr.“

Allt fylltist á augabragði

Í ævisögu sinni árið 1992 rifjar Ragnar upp þegar hann bar hugmyndina undir Ómar Ragnarsson, sem þá var fréttamaður og landsþekktur skemmtikraftur.

„Við Ómar vorum sammála um að í stað þess að vera með fólk á fleygiferð út úr salnum væri nær að reyna að halda því inni – og til þess kunnum við ráð! Það var þá sem hugmyndin að Sumargleðinni kviknaði. Við sáum að skemmtun hlyti að ganga miklu betur ef við værum án stjórnmálamanna og ræðuhalda. Það kom líka á daginn að var rétt mat. Síðar, þegar ljóst var að héraðsmótin yrðu ekki haldin oftar, fór ég til Ómars og sagði: „Nú er ég að hugsa um að láta þetta verða að veruleika næsta sumar! Þú verður með, er það ekki?“  Ómar var í fyrstu dálítið hikandi þegar á reyndi því að hann hafði í raun nóg að gera – en ákvað svo að slá til. Síðan gaf ég þessu fyrirbæri nafnið Sumargleðin.“

Ljósmynd/Tímarit.is

Í umfjöllun Ský árið 2008 voru árdagar Sumargleðinnar einnig rifjaðir upp:

„Fyrsta skemmtun Sumargleðinnar var auglýst í Húnaveri sumarið 1972. Skemmtunin átti að hefjast kl. 21.00 en það var enginn mættur þegar klukkan var langt gengin í tíu. Skömmu seinna birtust fyrstu gestirnir og það var engu líkara en send hefðu verið út skilaboð um alla sveitina því það fylltist allt á augabragði. Skemmtunin og ballið tókust vonum framar og Sumargleðin naut þess að gleðja landann næstu sumur.“

Stappfullt félagsheimili

Meðlimir hljómsveitarinnar tóku jafnan virkan þátt í skemmtiatriðunum. Undirbúningur hófst upp úr áramótum á hverju ári þegar liðið hittist í klukkutíma í senn og lét allt vaða. Á daginn voru skemmtiatriði fyrir börn og fjölskyldur og á kvöldin var dansað inn í nóttina þar sem Ómar Ragnarsson tók slagarann Sveitaball og tjúttaði uppi á sviði.

 

„Það var mikill söngur í þessu og við vorum með allt efni frumsamið. Ómar bjó til dæmis til mikið af textum. Ég bjó til grind af dagskránni og svo unnum við þetta í sameiningu. Við spiluðum bingó þar sem bíll var í verðlaun, vorum með alls konar uppá- komur, getraunir, skemmtiþætti, grínþætti, söng og músík og svo var gífurlegt fjör á ballinu. Við vorum með eftirhermur, notuðum nöfn á fólki úr plássunum og fengum fólkið til að hjálpa okkur en það hafði mjög gaman af því. Við vorum með barnaskemmtanir á sunnudögum og laugardögum og létum krakkana taka mikinn þátt í þeim,“ rifjaði Ragnar upp í viðtali við Morgunblaðið árið 1994.

Ljósmynd/Tímarit.is

Krakkarnir tóku virkan þátt

Elfar Logi Hannesson leikari skrifaði á dögunum pistil á vef BB þar sem hann rifjar upp þegar hann var lítill strákur á áttunda áratugnum og Sumargleðin kom í bæinn.

„Vel man ég þegar Sumargleðin kom á Bíldudal. Rosalega höfðum við krakkarnir gaman og víst fengum við að taka virkan þátt í skemmtuninni. Það var alltaf stappfullt félagsheimili og orkan í salnum áður en tjaldið var dregið frá eins og í alvöru kábojamynd. Þakið var nærri farið af kofanum. En um leið og ljósin voru dempuð í leikhúsinu á Bíldudal varð þögnin í áhorfendasalnum líkt og hjá látbragðsleikara. Samt var engin af okkur púkunum á rítalíni. Svo byrjaði fjörið.“

Ljósmynd/Tímarit.is

Alls staðar var húsfyllir

Árið 1974 gengu bræðurnir og skemmtikraftarnir Halli og Laddi til liðs við Sumargleðina. Í ævisögu sinni sem kom út árið árið 1991 kallar Laddi Sumargleðina „eitt frægasta fyrirbæri sem sést hefur í íslensku skemmtanalífi“ og bætir við að „sagnfræðingar eða þjóðfélagsfræðingar eiga örugglega eftir að skrifa um hana þykkar bækur.“ Hann rifjar einnig upp hversu skemmtileg ferðalögin voru þegar Sumargleðin flakkaði út um allt land.

„Það var alls staðar húsfyllir. Ég hafði ekki haft hugmynd um að það byggi svona margt fólk í landinu, en það var eins og það sprytti upp úr fjöllum og dölum og móum og mýrum. Við ókum um eyðilegar sveitir og komum inn í kaupstaði þar sem engan var að sjá á götum úti og um kvöldið var síðan fullt út úr dyrum í félagsheimilinu.“

Ljósmynd/Tímarit.is

Hættu á toppnum

Frá 1980 var Sumargleðin einnig haldin í Reykjavík á haustin og stundum fram í desember, fyrst á Sögu og síðan á Broadway. Sumargleðin fór í síðustu landsreisuna árið 1986, en þá var markaðurinn orðinn svo breyttur að menn töldu ekki ráðlegt að halda þessu áfram. Í viðtali við DV árið 2006 sagði Ragnar að Sumargleðin hefði hætt á toppnum og því væru minningarnar frá þessum tímum afar góðar.

„Við bulluðum og grínuðum út í eitt og þessi tími var sá allra gleðilegasti í mínu lífi. Það var mjög gefandi að ferðast um landið og kynnast Íslendingum.“ 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Vikan á Instagram: „Suðaði um myndatöku, sést það?“

Vikan á Instagram: „Suðaði um myndatöku, sést það?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað get ég gert til að hætta að elska hana ?

Hvað get ég gert til að hætta að elska hana ?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Stjörnuspá vikunnar – „Þú býrð til blævæng úr peningaseðlum og þeytir þeim út í loftið“

Stjörnuspá vikunnar – „Þú býrð til blævæng úr peningaseðlum og þeytir þeim út í loftið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta eru bestu skáldsögurnar að mati álitsgjafa DV

Þetta eru bestu skáldsögurnar að mati álitsgjafa DV
Fókus
Fyrir 4 dögum

Melkorka fær frábærar hugmyndir – Vírapils og gervirass

Melkorka fær frábærar hugmyndir – Vírapils og gervirass
Fókus
Fyrir 4 dögum

Pétur Jóhann með COVID-19 – Vaknaði í svitabaði á afmælisdegi eiginkonunnar

Pétur Jóhann með COVID-19 – Vaknaði í svitabaði á afmælisdegi eiginkonunnar