fbpx
Fimmtudagur 02.júlí 2020
Fókus

Draugalegustu staðir Íslands – „Mér fannst alltaf eins og einhver væri að koma upp tröppurnar.“

Auður Ösp
Laugardaginn 6. júní 2020 12:30

Eyðibýli við Ísafjörð. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Trúin á yfirnáttúruleg fyrirbæri á sér djúpar rætur í íslenskri þjóðarsál. Það eru kannski ekki allir sem trúa á drauga í bókstaflegum skilningi en það kemur ekki í veg fyrir
að óhugnanlegur sögur af íslenskum vofum hafi borist á milli kynslóða. Má þar nefna húsvörðinn sem sagður er ganga aftur í húsnæði gamla Kennaraháskólans og flöskudrauginn á Ströndum sem sagður er ráfa um með fullan strigapoka af brennivínsflöskum. DV tók saman nokkur af þekktustu „draugahúsum“ Íslands.

MOKKA KAFFI
Mokka kaffi á Skólavörðustíg er með elstu kaffihúsum hér á landi en það var opnað seint á sjötta áratugnum. Árið 2013 skrifaði Anna Kristín Ólafsdóttir meistararitgerð í hagnýtri menningarmiðlun sem ber heitið Reimleikar í Reykjavík: Draugasögur úr miðbænum. Þar kemur meðal annars fram að margir hafi fundið fyrir óvenjulegri nærveru á staðnum og starfsmenn hafi oft fengið á tilfinninguna að þar séu fleiri gestir á ferð en þeir sem sjást með berum augum.

„Ónefnd stelpa, sem vann á kaffihúsinu fyrir nokkrum árum síðan, sagði mér að hún hefði helst ekki viljað vera ein í húsinu þegar kom að því að loka á kvöldin. Hún hræddist það. Alltaf hafði hún á tilfinningunni að hún væri ekki einsömul, þrátt fyrir
að aðrir starfsmenn væru farnir heim. Það voru því ófá kvöldin sem hún bað vinkonur eða kærasta að veita sér félagsskap á meðan hún lokaði. Fleiri starfsstúlkur hafa verið gripnar svipaðri tilfinningu í húsinu þrátt fyrir að þær hafi ekki allar óttast það sem þær upplifðu.“

Önnur fyrrverandi starfsstúlka lýsir því að hlutir hafi átt það til að hverfa og „birtast aftur, eins og einhver hefði fengið þá lánaða“. Þá segist hún alltaf hafa fundið fyrir sterkri nærveru í húsinu.

„Það skipti heldur ekki máli hvort það var fullt af fólki inni í húsinu eða hvort það var bara tómt, mér fannst alltaf eins og einhver væri að koma upp tröppurnar.“

HVÍTÁRNESSKÁLI
Sæluhúsið í Hvítárnesi er án efa alræmdasta draugahús Íslands. Reglulega heyrast þaðan óhugnanlegur sögur af draugagangi og hafa í raun gert allt frá því húsið var byggt árið 1930.

Í sjónvarpsþættinum Fjallaskálar Íslands, sem sýndur var síðastliðinn vetur, kom fram að oft og tíðum hafi draugagangurinn í húsinu verið svo yfirgengilegur að fólk hafi flúið þaðan unnvörpum, jafnt kvölds og morgna og um miðjar nætur, margt með þá tilfinningu innanbrjósts að verið sé að kyrkja það.

Meirihlutinn af þessum sögum snýst um sama drauginn, unga gráklædda stúlku sem sögð er sækja á karlmenn sem gista í ákveðinni koju í skálanum. „Draugakojan“ fræga snýr þvert, ólíkt öðrum kojum í skálanum, og er staðsett við dyrnar. Fornar bæjartóftir eru á bak við skálann en ekkert er vitað hverjir voru ábúendur á staðnum. Sagan segir að gráklædda stúlkan hafi eitt sinn verið heimiliskona á bænum, sem ýmist á að hafa verið myrt af ástmanni sínum eða orðið úti.

VOGASTAPI
Vogastapi er sunnan Voga á Reykjanesskaga. Svæðið er ekki aðeins annálað fyrir fallegt útsýni og mikið fuglalíf heldur einnig fyrir reimleika. Í gegnum tíðina hafa heyrst ófáar sögur af dularfullum manni við vegbrúnina á akveginum við Stapa sem húkkar sér far. Sumir segja hann halda á mannshöfði.

Samkvæmt lýsingum fólks sest hann upp í bíl hjá þeim sem bjóða honum far en svarar engu þegar á hann er yrt. Eftir skamma stund er hann síðan horfinn.

Í bók Árna Björnssonar, Íslenskt vættatal, kemur fram að Stapadraugurinn hafi hrellt ferðamenn en látið minna á sér kræla eftir að nýja Reykjanesbrautin var lögð.

HVANNEYRI
Í apríl 2014 greindi héraðsblaðið Skessuhorn frá því að draugagangur hefði ítrekað raskað næturró íbúa á nýjum nemendagörðum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Það vakti sérstaka athygli að um ný hús var að ræða en flestir tengja reimleika fremur við gamlar byggingar. Kenningar voru uppi um að um væri að ræða fylgjur sem tengdust fólkinu sem þarna væri fremur en húsunum sjálfum.

Björg Harðardóttir, sem sat í stjórn nemendagarða Landbúnaðarháskólans, sagði að fyrst hefði verið talið að eitthvað væri að rafmagninu í húsunum enda hefðu ljósaperur enst afar illa. Maður var í kjölfarið fenginn til að mæla rafsegulsviðið.
„Það kom hins vegar í ljós að húsið virtist vera í fullkomnu lagi en hins vegar vildi hann meina að einhverjir fleiri hefðu flutt hingað inn með okkur.“

FRAMHALDSSKÓLINN Á LAUGUM
Í gegnum tíðina hafa heyrst margar sögur af draugagangi í húsnæði Framhaldsskólans á Laugum. Dæmi eru um að nemendur hafi ekki getað gist í ákveðnum herbergjum á heimavistinni sökum reimleika og samkvæmt heimildum blaðamanns hafa landsþekktir miðlar neitað að stíga fæti inn í húsið.

SUÐURGATA
Í júní árið 2000 greindi DV frá því að draugagangur væri nokkuð algengur í nágrenni við gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu og vilja sumir meina að það sé í raun ekki hægt að búa í hverfinu vegna reimleika. Til dæmis má nefna að fólk hefur heyrt óútskýranlegan umgang í gömlu slökkvistöðinni við Tjarnargötu og í húsunum við Tjarnargötu og Hólatorg. Eigendaskipti eru tíð í sumum húsum í hverfinu, til dæmis á Ásvallagötu.

Í febrúar árið 1953 áttu sér stað hörmulegir atburðir í húsinu að Suðurgötu 2 í Reykjavík. Húsbóndinn á heimilinu, sem var 35 ára gamall lyfjafræðingur, eitraði fyrir konu sinni, sjálfum sér og þremur börnum sem voru á aldrinum þriggja til sex ára. Á náttborði húsbóndans fannst glas merkt Eitur og bréf frá honum. Í bréfinu stóð að hann væri dauðvona vegna veikinda og að hann gæti ekki hugsað sér að skilja konuna og börnin eftir. Dillonshús var á sínum tíma flutt upp á Árbæjarsafn og hafa starfsmenn safnsins oft orðið varir við umgang og óróleika í því.

HÖFÐI
Í gegnum tíðina hafa ýmsar sögur farið af draugagangi í Höfða og segja margir að þar sé eitthvað dularfullt á sveimi. Reimleikarnir hafa oft verið tengdir við einn af fyrrum íbúum hússins, Einar Benediktsson skáld. Sögur af draugagangi í húsinu urðu sífellt fleiri upp úr 1950 og varð það meðal annars til þess að þáverandi sendiherra Breta sá sig tilneyddan til að flytja þaðan út.  Höfðadraugurnn svokallaði varð síðan frægur á níunda áratugnum þegar leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs fór fram í húsinu.

AUSTURSTRÆTI 8
Í gegnum árin hafa margar sögur komið fram um draugagang í Austurstræti 8 í miðborg Reykjavíkur, þar sem fataverslunin Gyllti kötturinn er nú til húsa. Í meistararitgerð Önnu Kristínar Ólafsdóttur, Reimleikar í Reykjavík: Draugasögur úr miðbænum, kemur fram að eigendur Gyllta kattarins hafi séð dularfulla stúlku birtast í stiga verslunarinnar og virðist hún nokkuð hrekkjótt. Stúlkan er sögð vera ung, líklega tíu ára gömul, með svart sítt hár og suðrænt yfirbragð og klædd gamaldags fatnaði.
„Stuttu eftir að ég leigði fyrir rúmum þremur árum þá fór ég að vera svolítið mikið ein hérna á kvöldin, þá fór ég að finna fyrir nærveru hennar og svo svona einstaka sinnum sem að ég hleypi því að þannig að ég sé henni bregða fyrir,“ sagði Hafdís Þorleifsdóttir, annar eigenda verslunarinnar, í viðtali við Margréti Sigvaldadóttur þjóðfræðing árið 2009.

SÆLUHÚSIÐ VIÐ JÖKULSÁ Á FJÖLLUM
Á heimasíðu Nordic Adventure Travel segir frá sæluhúsinu við Jökulsá á Fjöllum.
„Allt fram til ársins 1947, þegar Jökulsá á Fjöllum var brúuð á Mývatnsöræfum, var lögferja frá Grímsstöðum aðeins norðar en brúin var reist. Þar var hlaðið sæluhús úr steinlímdu grjóti árið 1881. Í kjallaranum var hesthús og svefnloft fyrir ofan, þar sem var einnig eldstæði. Óhætt er að fullyrða að fæst sæluhúsa á landinu á þessum tíma hafi verið eins vel búin. Hvað sem því líður varð ekki öllum svefnsamt þar. Húsið varð alræmt vegna draugagangs. Gestir þess heyrðu högg og hávaða, þeim fannst þreifað á sér og hundar létu illa. Stundum virtist einhver vera að rífa þakið af húsinu. Þeir sem vissu lengra en nef þeirra náði þóttust kenna ógurlega ófreskju. Einn þeirra, Jóhannes Jónsson (Drauma-Jói), lýsti henni sem kafloðnum og ægilegum veturgömlum kálfi. Þetta hús stendur enn þá og bíður eftir gestum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 4 dögum

Í ljós þrisvar í viku – Brenndi á sér augnhimnuna

Í ljós þrisvar í viku – Brenndi á sér augnhimnuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sakamál: Blóðbað á herstöðinni í Keflavík

Sakamál: Blóðbað á herstöðinni í Keflavík
Fókus
Fyrir 1 viku

Skapandi fólk skálar á HönnunarMars – Smartpartý út um allan bæ

Skapandi fólk skálar á HönnunarMars – Smartpartý út um allan bæ
Fókus
Fyrir 1 viku

Heitasti „sjálfustaðurinn“ á Hönnunarmars – Verkinu er ætlað að efla jákvæða sjálfsmynd

Heitasti „sjálfustaðurinn“ á Hönnunarmars – Verkinu er ætlað að efla jákvæða sjálfsmynd
Fókus
Fyrir 1 viku

Það leið yfir Aron Mola og hann sá blóð vegna öfgafullrar megrunar – missti 13 kíló á mánuði

Það leið yfir Aron Mola og hann sá blóð vegna öfgafullrar megrunar – missti 13 kíló á mánuði
Fókus
Fyrir 1 viku

73 ára keppandi í America‘s Got Talent sannar að aldur er bara tala

73 ára keppandi í America‘s Got Talent sannar að aldur er bara tala
Fókus
Fyrir 1 viku

Ragna fann æðri mátt eftir að hafa leiðst út í neyslu á unglingsárum

Ragna fann æðri mátt eftir að hafa leiðst út í neyslu á unglingsárum
Fókus
Fyrir 1 viku

Vikan á Instagram: „Alltaf sætur og alltaf fágaður“

Vikan á Instagram: „Alltaf sætur og alltaf fágaður“