fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Þóra Sigurðardóttir: Ástin breyttist og stækkaði – Urðum meistarar hvors annars

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 20. júní 2020 07:30

Þóra Sigurðardóttir Myndir/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þóra Kolbrá Sigurðardóttir neyddist til að endurskoða líf sitt eftir að hafa ofkeyrt sig í vinnu. Hún var með sífellt samviskubit gagnvart börnunum en nýtir nú hverja stund til að vera með þeim. Þóra segir frá því þegar hún kynntist manninum sínum, matreiðslumanninum Völundi Snæ Völundarsyni, glasabarninu sem þau eignuðust og óvænta barnið sem kom í kjölfarið. Hún er afar stolt af bókinni sinni, Foreldrahandbókinni, sem hún skrifaði upphaflega í nettu maníukasti og brjóstaþoku, og gaf nýverið út í endurbættri útgáfu.

Þóra Sigurðardóttir með Morgan Kane. Mynd/Ernir

Ég saknaði þess alltaf að eiga ekki hund þegar við fluttum aftur heim til Íslands. Þegar við bjuggum á Bahamaeyjum áttum við sex hunda þegar mest var, fjóra Labradorhunda og tvo blendinga. Að eiga hund er mikil skuldbinding og það var einhvern veginn aldrei rétti tíminn. Síðan kom eitt stykki heimsfaraldur og ég held að það hafi verið á degi tvö í innilokuninni sem ég lagði til við Völla að við fengjum okkur hund,“ segir Þóra Kolbrá Sigurðardóttir og á þar við eiginmann sinn, Völund Snæ Völundarson, einn þekktasta matreiðslumann landsins. Saman eiga þau börnin Baldvin Snæ, 12 ára og Móeyju Mjöll, 10 ára. Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn er síðan Labradorhvolpurinn Morgan Kane. „Saman valdi fjölskyldan nafnið Morgan en við bættum síðan við nafninu Kane og heitir hann þá eftir uppáhaldssögupersónu tengdaföður míns, sem hefur lesið allar bækurnar um Morgan Kane, hetju villta vestursins. Ég er nú orðin hvolpamóðir á ný. Góður hundur er eins og framlenging af manni sjálfum,“ segir Þóra. Morgan Kane er nývaknaður þegar viðtalið hefst en litlir hvolpar þurfa að leggja sig yfir daginn rétt eins og ungbörnin.

Kynntust á Bahamaeyjum

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Þóra komst fyrst í kastljósið sem annar umsjónarmanna Stundarinnar okkar. Hún og leikarinn Jóhann G. Jóhannsson stýrðu þættinum með miklum sóma á árunum 2002–2007 og brugðu sér gjarnan í hlutverk þeirra Birtu og Bárðar. Lengi vel ráku Þóra og Völli veitingastaði við góðan orðstír. Þegar þau kynntust rak Völli veitingastað á Bahamaeyjum. „Við kynntumst meðan hann bjó úti. Við hittumst á Bahamas 5. maí 2005. Ég fór heim til Íslands tveimur vikum seinna en hann kom heim um sumarið og þá byrjuðum við saman. Ég var úti hjá honum í nóvember og þá ákvað hann að biðja mín, reyndar eftir að ég var búin að segja honum að ég hefði fullan hug á að giftast honum. Við giftum okkur sumarið 2006 en höfðum þá aldrei búið saman.“

Þegar þau fluttu aftur til Íslands tók við rekstur á Pallinum á Húsavík, Borginni restaurant á Hótel Borg og Nora Magasin. Spurð hvort þau sjái fyrir sér að snúa aftur í veitingahúsarekstur segir hún: „Okkur finnst gott að fara út að borða og styðjum við bransann þannig. Við fáum reglulega tilboð um að hella okkur út í veitingareksturinn á ný en sá kafli er búinn og annar kafli hafinn.“ Völli sinnir þó áfram matreiðsluástríðunni þótt hann reki ekki veitingastað og Þóra stýrir matarvef Mbl.is þar sem hún birtir uppskriftir, ráð og hvaðeina sem tengist mat.

Veitingageirinn erfiður bransi

„Á matarvefnum hef ég reynt að vera rödd þessa reksturs frekar en að standa á kantinum og gagnrýna. Þegar öllu var lokað vegna COVID-19 stofnuðum við á matarvefnum hóp á Facebook þar sem við bjuggum til vettvang fyrir veitingastaði til að koma sér á framfæri, til dæmis með heimsendingum. Ég held rosalega mikið með veitingabransanum á Íslandi. Áður en við Völli helltum okkur saman í veitingabransann hér hafði ég bara reynslu af rekstrinum á Bahamas þar sem rekstrarumhverfið er mun einfaldara.

Hér unnum við allan sólarhringinn og bara kláruðum okkur alveg. Þetta er brútal bransi hér. Fólk heldur oft að veitingamenn séu að okra á því og veitingafólk hafi það upp til hópa svakalega fínt. Þetta er hins vegar hörkupúl og fáir endast lengi. Ég bendi fólki á að þegar það sér reikninginn þá sé gott að hafa í huga að um 50% er launakostnaður, þar af stór hluti opinber gjöld, og nánast allur afgangurinn hráefniskostnaður og leiga. Hér er formúlan þannig að ef þú átt 10% eftir, fyrir skatta og gjöld, þá ertu í toppmálum. Rekstrarumhverfið er alls ekki hliðhollt minni og meðalstórum fyrirtækjum. Ég hef mikla samúð með veitingamönnum, dáist að þeim og reyni að styðja við  þá eins og ég get. Nú er ég á vettvangi sem hentar mér betur, að miðla. Það er einhver rómantísk mýta að það sé svo frábært að öll fjölskyldan sé saman í veitingarekstri. Ég þekki slíkar fjölskyldur og þær eru ofboðslega þreyttar. Fólk velur auðvitað fyrir sjálft sig og við ákváðum að kúpla okkur út úr þessu.“

Hún segir það hafa haft sín áhrif þegar ákveðið var að byggja við Hótel Borg þar sem þau ráku veitingastað. Borg restaurant var opnað í ársbyrjun 2013 og um haustið var ákveðið að byggja við en til að það væri hægt þurfti í raun að loka veitingarekstrinum á meðan. „Við reyndum mikið að halda þessu gangandi. Þegar maður er á hamstrahjólinu sér maður oft ekki almennilega hvað er í gangi. Eftir á blasir við mér kristaltært að við hefðum átt að fara út úr þessum rekstri miklu fyrr. Við vorum einhvern veginn heltekin af því að bjarga einhverju sem ekki var hægt að bjarga.“

Eftir á blasir við mér kristaltært að við hefðum átt að fara út úr þessum rekstri miklu fyrr, segir Þóra. Mynd/Ernir

Nýr taktur hjá fjölskyldunni

Þóra segir þau í raun hafa hugsað lífið upp á nýtt. „Við biðum algjört skipbrot. Það tók langan tíma og mikla vinnu í að tjasla okkur saman og það er vinna sem tekur á og krefst mikillar sjálfskoðunar. Að standa frammi fyrir því fertug að þurfa að endurhugsa allt lífið kostar mikil átök en það er jafnframt eitt það dýrmætasta sem ég hef gert. Við endurhugsuðum allt og skoðuðum vel fortíð okkar  og hvernig líf okkar hafði þróast yfir í það sem það var í dag. Við settum fjölskylduna í fyrsta sæti og börnin okkar. Í dag lít ég til baka og er stolt af þessari vegferð og þeirri manneskju sem ég er í dag. Mér finnst ég hokin af reynslu og loksins búin að læra hvað skiptir mestu máli. Að vera í þeirri stöðu að þurfa að vinna á aðfangadagskvöldi ár eftir ár er galið. Sérstaklega þar sem ég var ekki að bjarga mannslífum. Ég var bara að þjóna til borðs, brosa og taka við skömmum frá fólki sem vildi fá matinn strax en þurfti að bíða aðeins lengur því eldhúsið var undirmannað. Á meðan biðu börnin heima í sparifötunum. Það var frekar glatað. Ég tók nokkur ár þar sem ég bókstaflega vann yfir mig og brann upp eins og eldspýta. Ég var líka alltaf að farast úr samviskubiti yfir því hvað ég var lítið með börnunum mínum og fannst ég oft versta móðir í heimi,“ segir hún.

Takturinn hjá fjölskyldunni allri hefur því breyst mikið á síðustu árum. „Núna nýti ég hvert tækifæri til að vera með börnunum mínum. Mér finnst það óhemju skemmtilegt og þau eru alveg frábær. Þó ég sé móðir þeirra þá ætla ég að halda því fram að þau séu óvenju vel gerðar manneskjur,“ segir hún og brosir. „Ég er orðin mjög meðvituð um hvað tíminn með þeim er stuttur. Við erum enn á þeim stað núna að þeim finnst ég enn skemmtileg og finnst gaman að vera með mér.“

Þóra situr með blaðamanni í eldhúsinu heima en skyndilega heyrist dularfullt hljóð og hún ákveður að athuga hvort það sé ekki í lagi með Morgan Kane. Hún kemur fljótt aftur, segir hann hafa verið að naga stígvélið sitt en það sé nú komið á öruggan stað.

Fékk nett maníukast

Foreldrahlutverkið er Þóru hugleikið, svo hugleikið að hún skrifaði bókina Foreldrahandbókina eftir að hún eignaðist eldra barnið sitt. Bókin kom fyrst út árið 2010, var uppseld í fjölda ára en var gefin út að nýju í fyrra eftir að Þóra bætti við heilmiklu efni. Nýja útgáfan er um 440 blaðsíður og þetta er því sannkölluð biblía nýbakaðra foreldra. „Ég skrifaði þessa bók í nettu maníukasti sem stóð yfir í tvö ár. Þremur dögum eftir að strákurinn minn fæddist uppgötvaði ég að ég vissi hreinlega ekkert hvað ég var að gera og upplifði svakalegan vanmátt. Ég hélt að ég yrði bara mjög flink í móðurhlutverkinu en fann þarna fyrir miklu óöryggi yfir því hvað ég vissi lítið. Mér fannst allt flókið, þetta óx mér gríðarlega í augum og mér fannst allir kunna miklu betur en ég að vera foreldri. Þetta tímabil er því ekki gott í minningunni.“

Þóra er alin upp af kennurum og telur það hafa sitt að segja þegar hún fór markvisst að viða að sér upplýsingum um foreldrahlutverkið. „Ég fór að hringja í vinkonur mínar og biðja um ráð og skrifaði allt hjá mér því ég var með svo mikla brjóstaþoku að ég mundi ekki neitt. Ómeðvitað hringdi ég síðan í þær til skiptis þannig að engin þeirra fattaði hvað ég vissi í raun lítið. Allt í einu var ég síðan komin með gríðarlega mikið af skrásettum upplýsingum. Þar sem ég vissi hvað þessar upplýsingar hefðu skipt miklu fyrir mig fannst mér ekki annað koma til greina en að deila þessu áfram. Ein hugmyndin var að búa til bækling, jafnvel prenta og dreifa sjálf á heilsugæslustöðvar.“

Pabbar fá líka fæðingarþunglyndi

Hún fylltist svo eldmóði, leitaði til fjölda sérfræðinga sem allir vildu gjarnan deila upplýsingum, og fékk foreldra með ólíka reynslu að baki til að segja frá í bókinni. „Reynsla okkar allra er svo misjöfn og þarna birtist gjarnan ólík sýn á sama hlutinn. Fyrir mér var það mikilvægt til að nýbakaðir foreldrar gætu séð að það er ekki endilega nein ein rétt leið. Mér leiðist líka þegar það er verið að fela sannleikann. Þegar ég var ólétt að fyrra barninu mínu las ég bandaríska bók um brjóstagjöf þar sem stóð orðrétt: „Brjóstagjöf getur verið ögn óþægileg.“ Þetta er rétt í huga sumra kvenna, margar konur upplifa brjóstagjöfina sem algjöran draum en fyrir öðrum er þetta virkilega erfitt og sársaukafullt. Ég trúi því að fólk sé betur í stakk búið til að takast á við erfiðleika ef það hefur fengið viðeigandi upplýsingar. Sængurkvennagrátur er annað atriði sem oft er ekki talað hreinskilnislega um. Ég hafði lesið að á þriðja degi eftir fæðingu gæti ég farið að skæla og orðið meyr fyrir móðurhlutverkinu. Staðreyndin er að það verður algjör umpólun á hormónakerfinu hjá nýbökuðum mæðrum og því verða þær oft viðkvæmari en ella. Ég fjalla líka um alls konar atriði sem fólk hugsar oft ekki út í, eins og af hverju naflastrengurinn er einmitt svona langur eða af hverju geirvartan er einmitt eins og hún er. Það eru rökréttar skýringar á þessu öllu. Minn draumur var að búa til bók þar sem nýbakaðir foreldrar gætu á einfaldan hátt flett upp hverju sem er sem tengist þeirra nýja hlutverki og barninu þeirra.“

Þrátt fyrir að bókin hafi verið uppseld í mörg ár vildi Þóra ekki láta endurprenta hana nema endurbæta hana líka. Nú, tíu árum eftir fyrstu útgáfu, hefur heilmikið bæst við. „Ég komst ekki til þess að sinna þessu verkefni vel fyrr en fyrir um þremur árum. Þá hellti ég mér út í þetta af fullum þunga, ég henti út efni sem mér fannst ekki lengur passa og bætti við nýju efni. Ég fékk líka sérfræðinga til að lesa yfir til að tryggja að ekkert væru úreltar upplýsingar. Pabbar fá líka meira pláss í nýju útgáfunni. Pabbar geta til að mynda fengið fæðingarþunglyndi en það hefur ekki verið hávær umræða um það. Auðvitað getur fólk gúgglað en það eru misáreiðanlegar upplýsingar á netinu. Þarna eru allar upplýsingar á einum stað og mjög þægilegt fyrir mæður með brjóstaþoku að fletta upp í einni og sömu bókinni.“

Þóra Sigurðardóttir varð margs vísari þegar hún vann að Foreldrahandbókinni. Mynd/Ernir

Glasabarnið og óvænta barnið

Þóra segir að eftir að þau Völli gengu í hjónaband hafi þau ákveðið að hella sér út í
barneignir. „Enda fannst mér ég vera orðin rígfullorðin, rétt rúmlega þrítug. Það var því ekki eftir neinu að bíða og ég hugsaði um fátt annað. Eftir margra mánaða tilraunir ákvað ég að láta tékka á mér því ég hugsaði sem svo að ef það væri eitthvað ekki í lagi þá væri eins gott að díla við það strax. Ég var greind með endómetríósu og úr varð að ég fór í glasameðferð. Ég var svo heppin að það gekk strax í fyrstu tilraun sem var algjört kraftaverk. Svo kom Móa tveimur árum seinna – algjörlega óplönuð og eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það er læknisfræðileg skýring á því en blæðingarhléið sem verður á meðgöngu og í brjóstagjöfinni gefur líkamanum tækifæri á að vinna á endómetríósunni sem eykur frjósemi á ný og úr varð Móa. Ég er kannski ekki með þetta 100% rétt útskýrt en það er svo algengt að fólki sem glímir við ófrjósemi sé sagt að fá sér hund eða hætta að hugsa um þetta. Það er algjörlega óþolandi og vissulega fékk ég mér hund en það þurfti töluvert meira til að verða ófrísk.“ Hún segir samband hennar og Völla hafa þróast og styrkst í gegnum árin, það gangi í raun alltaf betur og betur. „Ég hafði ekki áttað mig á því að ást gæti breyst og stækkað og orðið svo miklu meira. Foreldrar mínir hafa verið giftir í 44 ár. Ég hafði því fyrirmyndina en var ekki búin að öðlast skilninginn. Það var eitt sinn sagt við mig að til að hjónaband gæti gengið upp þá þyrftu hjónin að vera meistarar hvort annars og bæta hvort annað upp. Ég held að það sé lykillinn að okkar hjónabandi. Við erum bæði afskaplega langt frá því að vera fullkomin en höfum náð þessu jafnvægi. Ég held líka að börnin okkar séu góður vitnisburður um að okkur var ætlað að vera saman.“

Alein á Jökulsárlóni

Í sumarfríinu reiknar Þóra með að fjölskyldan verði á flandri innanlands. „Langþráður draumur minn rættist í byrjun maí þegar við leigðum okkur húsbíl. Ég reikna með að við gerum það aftur í sumar. Það má segja að ég sé með húsbílablæti. Eftir á fannst okkur fyndið að eftir níu vikur innilokuð saman að við skyldum þá ákveða að fara í ferðalag öll saman innilokuð í enn minna rými. Þetta var algjörlega dásamlegt og sannkölluð minningasköpun. Mér finnst þetta húsbílaferðalag í raun vera eitt það svalasta sem ég hef gert og mig dauðlangar að við fjölskyldan fáum okkur samstæða jogginggalla. Áður en við ferðuðumst um landið tókum við prufurúnt um Snæfellsnesið. Ég hef ferðast mikið um landið og á mjög góð útivistarföt. Eftir þennan fyrsta rúnt pakkaði ég hins vegar upp á nýtt og fór bara í jogginggalla því þegar maður er húsbílakona þá er maður í þægilegum fötum.“ Þeim fannst þau nánast vera einu ferðalangarnir á Íslandi í vor, og kannski voru þau það. „Síðustu ár hef ég oft ætlað að fara að Seljalandsfossi en aldrei fengið bílastæði. Nú vorum við ein þar og gerðum ekki annað en að taka myndir. Þegar við komum að Jökulsárlóni vorum við líka ein og lögðum eins og fautar til að hafa sem best útsýni úr húsbílnum. Þetta var svona „Palli var einn í heiminum á Jökulsárlóni“. Þarna voru bara við og nokkrir selir. Líklega vorum við þar í tvo, þrjá klukkutíma. Þetta var alveg súrrealísk reynsla miðað við stöðuna síðustu ár þar sem allt er krökkt af ferðamönnum. Við reiknum alveg með því að það verði margir Íslendingar á ferðinni um landið í sumar en okkar plan er að ferðast meira um landið okkar. Við ætlum sem fjölskylda að búa til enn fleiri góðar minningar.“ Og nú fær Morgan Kane að fara með.

Viðtalið birtist fyrst í helgarblaði DV 12. júní. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“