fbpx
Miðvikudagur 08.júlí 2020
Fókus

Erjur vegna snyrtimeðferðar – Hóta kærum á víxl

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 11. júní 2020 13:10

Frá vinstri: Sigrún Lilja, Helena Íris og marblettir sem Helena kvaðst hafa fengið eftir meðferð á stofu Sigrúnar Lilju.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helena Íris Kristjánsdóttir segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við snyrtistofuna The House of Beauty í Reykjavík. Hún vill vara fólk við fyrirtækinu og segir að sér hafi verið hótað lögsókn af lögmanni snyrtistofunnar. Helena vakti fyrst athygli á málinu á samfélagsmiðlum og segir í samtali við DV að nokkrir fyrrverandi starfsmenn hafi haft samband við sig og farið ófögrum orðum um eiganda stofunnar, Sigrúnu Lilju Gyðju Guðjónsdóttur. DV ræddi við Sigrúnu Lilju sem sagði Helenu Írisi hafa verið „mjög erfiða“ í samskiptum.

„Þetta er komið á borð okkar lögfræðings og við munum kæra hana að sjálfsögðu,“ segir Sigrún Lilja um málið. Jafnframt hefur Helena Íris hótað hóplögsókn.

The House of Beauty

Á vef snyrtistofunnar er henni lýst sem líkamsmótunarstofu sem býður upp á „byltingakenndar meðferðir við mótun líkamans og samsetningu á þeim sem eru einnar sinnar tegundar á landinu.“ Á forsíðu vefsins stendur: „Líkamsmeðferðir sem virka.“

Helena Íris samþykkti að vera módel fyrir stofuna í skiptum fyrir 50 prósent afslátt. Hún er fimm barna móðir og var spennt fyrir meðferðinni.

„Ég fór í „full body make-over“ og borgaði 179 þúsund fyrir fimm vikna pakka, sex daga vikunnar. Allt átti að vera svo flott og öll appelsínuhúð bara horfin. Ég mætti í alla tímana og aldrei neitt vesen. Hreyfði mig og drakk mikið vatn fyrir og eftir tímann. Þegar þrjár vikur voru liðnar þá sagðist ég sjá engan mun og starfsfólkið sagði að þetta væri allt á réttri leið. Síðan kláruðust tímarnir og ennþá enginn munur á mér,“ segir Helena.

Helena segist hafa verið blá og marin eftir meðferðina.

„Það voru teknar „fyrir og eftir“ myndir sem sýndu að ég sé nánast alveg eins, fyrir utan að ég var blá og marin eftir allar þessar meðferðir. Ég ræddi við eigandann sem sagði mér að fara í blóðprufu og láta hana fá niðurstöðurnar, því nýrun voru greinilega ekki að virka að hennar sögn. Hún er nú ekki menntaður læknir. Samtalið endaði þannig að hún bauð mér nýjar meðferðir þegar það myndi líða á sumarið. Ég lét hana vita að ég væri til í aðra umferð og fékk þá bara þvílíkan dónaskap og yfirlýsingu að ég ætti að fara eitthvert annað. Hún sagði að starfsfólkið vildi ekki taka á móti mér því ég var dónaleg við það, einn besti starfsmaðurinn átti að hafa hætt út af mér. Ég hef aldrei heyrt annað eins og er í hálfgerðu sjokki.“

Helena Íris kveðst aldrei hafa verið dónaleg við starfsmennina og segist í samtali við DV eiga smáskilaboð frá starfsmönnum stofunnar sem sýni annað.

Fékk skilaboð frá lögfræðingi

Lögfræðingur snyrtistofunnar hafði samband við Helenu. „Hún var mjög dónaleg og þvílíkur hroki. Hún sagðist finna lykt af fjárkúgun og að ég verði kærð til lögreglu ef ég brýt skilmála fyrirtækisins, þar sem allar netníðingar og umfjallanir í fjölmiðlum verða kærðar til lögreglu. Ég ætla að svara þessum hótunum með hóplögsókn,“ segir Helena.

Helena Íris segir að fjöldi kvenna hafi haft samband við sig og farið ófögrum orðum um stofuna og Sigrúnu Lilju. Hún segir að minnsta kosti sex konur séu tilbúnar að styðja hana ef til málsóknar kemur.

„Sjö konur og fyrrverandi starfsmenn hafa haft samband við mig og fara ófögrum orðum um Gyðjuna,“ segir Helena Íris.

„Þetta eru svik og prettir. Enda þegar ég sagði eitthvað fékk ég strax lögmann á mig. Ég var blokkuð og get ekki sent henni tölvupóst eða skilaboð eða neitt,“ segir Helena Íris og sakar lögmann Sigrúnar um dónaskap. „Ég hef aldrei upplifað annað eins, þvílíkur dónaskapur.“

Helena tekur það fram að málið snýst ekki um peninga, heldur prinsipp.

Sigrún Gyðja svarar fyrir sig

Sigrún Lilja Gyðja Guðjónsdóttir, eigandi The House of Beauty, segir Helenu Írisi ljúga og sakar hana um dónaskap gagnvart starfsfólki.

„Hún heldur að hún geti bara gengið berserksgang, verið með dónaskap við starfsfólk og hótað okkur öllu illu og farið í fjölmiðla, og þá eigum við að gefa eftir. En það virkar ekki svona. Við ætlum að stoppa þetta. Fyrirtækjaeigendur eiga ekki að þurfa að standa undir svona. Þetta er komið á borð okkar lögfræðings og við munum kæra hana, að sjálfsögðu,“ segir Sigrún Lilja.

Segir meðferðirnar virka

Sigrún Lilja segir meðferðirnar virka. „En við vitum það að erfið gen og lífsstíll hefur áhrif á árangur meðferðanna. En við vitum alveg að þetta eru meðferðir sem virka og hafa farið sigurför um allan heim,“ segir hún.

Hún segir að meðferð Helenu Írisar hafi virkað og hún hafi náð árangri, en „kannski ekki akkúrat þeim árangri sem hún vildi. Hún vildi meira en hún náði klárlega árangri. En við höfum alveg séð betri árangur og þess vegna fórum við að ræða um hvað gæti verið að hafa áhrif á árangur hennar. Það er margt sem spilar inn í. Við vitum ekkert hvað manneskjan gerir þegar hún fer frá okkur, ef þú ferð heim og borðar hamborgara franskar beint eftir meðferð þá hindrar það að þú grennist, rétt eins og ef þú værir hefðir mætt í ræktina.“

Sigrún Lilja segir að ef viðskiptavinir séu ekki að ná árangri þá er meðferð gjarnan breytt. „Við gerum mjög mikið fyrir okkar kúnna og flestir ná góðum árangri en í þessu tiltekna máli töldum við okkur ekki geta haldið áfram með þessa konu í viðskiptum af sökum erfiðra samskipta. Þegar meðferðaaðilar treysta sér ekki lengur að taka viðskiptavin í meðferð vegna dónaskaps þá verð ég sem yfirmaður að virða mörk starfsfólks míns og binda endi á viðskipti ef þurfa þykir.“ segir Sigrún Lilja.

Peningar eða prinsipp?

Helena Íris segir að þetta snúist um prinsipp, ekki peninga. Hins vegar telur Sigrún Lilja hana vera á höttunum eftir peningum. „Ef þetta snýst ekki um peninga, heldur prinsipp, þá held ég að hún hefði aldrei farið að senda mér reikningsnúmer með nánast öllum skilaboðum sem hún sendir mér. Og gefið mér tíma til föstudags að endurgreiða sér annars myndi hún fara með þetta í fjölmiðla. Ef þetta er ekki fjárkúgun undir rós þá veit ég ekki hvað,“ segir Sigrún Lilja.

„Ég stóð við minn hluta samningsins,“ segir Sigrún Lilja og vísar í samning sem viðskiptavinir skrifa undir áður en meðferð er hafin. Í samningum kemur fram að The House of Beauty ábyrgst ekki útkomu meðferða.

Fyrrverandi starfsmenn

Helena Íris segir að nokkrir fyrrverandi starfsmenn Sigrúnar Gyðu hafi haft samband við sig eftir að hún deildi sögu sinni á Facebook. Sigrún Gyða segir að um sé að ræða starfsmenn sem hún sagði upp fyrir ári síðan.

„Þessir fyrrum starfsmenn eru ekki sjö talsins heldur þrír starfsmenn sem ég þurfti að reka í september síðastliðnum út af grun um þjófnað. “ segir Sigrún Lilja. Hún segir að það hafi komist upp grunur um þjófnað hjá einum starfsmanni og hinir starfsmennirnir hefðu verið nánir vinir hans.“ segir Sigrún Lilja og bætir við að þjófnaðurinn sé til skoðunar hjá lögmanni fyrirtækisins.

Starfsmaður staðfestir frásögnina

Sigrún Lilja segir að einn vinsælasti meðferðaaðili stofunnar hafi hætt í miðri meðferð, í fyrsta og eina skipti í sögu stofunnar, vegna meintrar ókurteisi Helenu Írisar.

Helena Íris segir það ekki vera satt. „Ég hef aldrei verið dónaleg eða haft orðaskipti við neinn starfsmann,“ segir hún.

Umræddur starfsmaður sendi skilaboð á blaðamann og staðfesti frásögn Sigrúnar Lilju.

Yfirlýsing

The House of Beauty sendi frá sér yfirlýsingu sem mun birtast á samfélagsmiðlum snyrtistofunnar. Hana má lesa hana hér að neðan.

Tilkynning frá The House of Beauty vegna ummæla viðskiptavinar

Í ljósi þess að viðskiptavinur hefur opinberlega farið að breiða út illt umtal um stofuna telur THOB ástæðu til að koma réttum upplýsingum um starfsemina á framfæri. Vegna trúnaðar við viðskiptavini okkar munum við ekki tjá okkur í smáatriðum um málið sem er nú í höndum okkar lögfræðings.

Við leggjum alla áherslu á að þjónusta okkar viðskiptavini vel og er það okkar helsta markmið að þeir nái sem allra bestum árangri. Flestir ná góðum árangri en auðvitað kemur það fyrir að einstaklingar hefðu viljað sjá meiri árangur. Margt getur þar spilað inn í, svo sem lífsstíll og erfðir. Komi það fyrir bjóðumst við til að aðstoða viðskiptavini okkar við að gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að ná tilsettum árangri.

Í samningum sem gerðir eru við meðferðir kemur fram að stofan getur ekki ein og sér borið ábyrgð á því hve mikill árangur næst ekki frekar en að einkaþjálfarar geta borið ábyrgð á því að viðskiptavinir þeirra nái tilsettum árangri. Er það þó okkar reynsla að árangurinn sé góður og upplifun viðskiptavina okkar hefur að jafnaði verið mjög jákvæð.

Fylgi viðskiptavinur ekki okkar ráðgjöf getur stofan ekki borið ábyrgð á því. Klári viðskiptavinur alla sína tíma sem hann hefur hlotið gegn ríflegum afsláttum en upplifi ekki tilsettan árangur getur stofan ekki ein borið ábyrgð á því en hefur reynt að koma til móts við slíkt með aukinni þjónustu. Komi viðskiptavinur svo dónalega fram við starfsfólk stofunnar að það biðjist undan því að þjónusta þá biðjum við viðkomandi að leita annað.

Að sjálfsögðu hörmum við það þegar viðskiptavinur sem hefur hlotið ríflega afslætti af þjónustu vegna samkomulags milli stofunnar og viðkomandi aðila er ekki nægilega sáttur við sinn árangur. Það er þó ekki þannig að stofan geti ofan á það að veita ríflega afslætti veitt ókeypis þjónustu eftir hentisemi viðskiptavina vegna hótana um meiðyrði.

Stofan hefur aldrei og mun aldrei láta undan þrýstingi fólks sem er að reyna að verða sér úti um ókeypis þjónustu jafnvel þó hótanir berist stofunni um neikvæða umfjöllun opinberlega, enda hefur hún faglega og vandaða viðskiptahætti í fyrirrúmi í sinni starfsemi.

Með vinsemd og virðingu, The House of Beauty.

Uppfært:

Ef Helena Íris fær endurgreitt segist hún ætla að gefa allan peninginn til góðgerðamála.

„[Sigrún Lilja] getur millifært sjálf inná reikning hjá Matarhjálp. Reikningsnúmer 0701-15-480058 Kennitala: 270658-6959,“ segir Helena Íris.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum

Valgeir bjargaði lífi föður síns en tókst ekki að bjarga bróður sínum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sigurður Páll lýsir strangri sóttkví í Rúmeníu: „Eins og í gamalli rússneskri njósnamynd“

Sigurður Páll lýsir strangri sóttkví í Rúmeníu: „Eins og í gamalli rússneskri njósnamynd“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Drepfyndinn hrekkur fer eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum

Drepfyndinn hrekkur fer eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum
Fókus
Fyrir 6 dögum

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Gréta ósátt með Keiluhöllina – ,,Þetta er spurning um að sýna ábyrgð“

Gréta ósátt með Keiluhöllina – ,,Þetta er spurning um að sýna ábyrgð“
Fókus
Fyrir 1 viku

Þorvaldur í miklum vanda á Tenerife – Óttaðist dimman fangaklefa og barsmíðar

Þorvaldur í miklum vanda á Tenerife – Óttaðist dimman fangaklefa og barsmíðar
Fókus
Fyrir 1 viku

Goslokahátíð með breyttu sniði: Engin skemmtun á laugardagskvöldið

Goslokahátíð með breyttu sniði: Engin skemmtun á laugardagskvöldið