fbpx
Föstudagur 14.ágúst 2020
Fókus

Ráð fyrir fjölkært fólk til að díla við COVID-19 – „Fyrir fólk sem á fleiri en einn maka getur verið mjög erfitt að vera í sóttkví“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 24. mars 2020 13:28

Thomas Brorsen Smidt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Thomas Brorsen Smidt, kynjafræðingur er fjölkær (e. polyamorous). Hann segir samfélag fjölkærra á Íslandi og alls staðar í heiminum glíma við ýmsa erfiðleika vegna kórónuveirunnar sem pör í hefðbundnum samböndum (e. monogamy) þurfa ekki að spá eins mikið í. Hann deilir með lesendum ráðum frá fjölástar samfélaginu um hvernig er hægt að takast á við COVID-19 faraldurinn.

Polyamory, eða fjölástir, er þegar fólk er í upplýstum og meðvituðum ástarsamböndum með fleiri en einum aðila í einu. Grundvallaratriði í fjölástum eru opin samskipti. Fólk ákveður reglurnar fyrir sín sambönd í fullu samráði við alla aðra aðila sem viðkoma sambandinu. Fjölásta fólk vill aðeins fá að elska þau sem það vill á þann hátt sem það vill, án dóma samfélagsins.

Samfélag sem fer vaxandi

Thomas hefur búið síðastliðin tólf ár á Íslandi. Hann segir að samfélag fjölkærs fólks á Íslandi fari vaxandi. Það er enginn formlegur klúbbur eða félag fyrir fjölástir, svo það er erfitt að meta hversu margir eru í fjölsamböndum á Íslandi í dag.

„Það hafa hins vegar verið framkvæmdar rannsóknir erlendis. Rannsókn sem var gerð í Bandaríkjunum sýnir að um 20 prósent einstaklinga hafa einhvern tíma upplifað einhvers konar form af samþykktu „non-monogamy“, sem getur verið allt frá trekanti til fjölsambands þar sem þrír aðilar búa saman (e. triad). Aðrar rannsóknir gefa til kynna að um fjögur til fimm prósent Bandaríkjamanna séu í fjölsambandi hverju sinni.“

Lítið land

Aðspurður hvort það sé erfiðara fyrir fólk að koma út úr skápnum sem fjölkært í litlum samfélögum eins og á Íslandi segir Thomas:

„Ég veit ekki hvort það sé erfiðara. Það er erfiðara að fela það í svona fámennum samfélögum. Fjölskylda þín og samstarfsfólk kemst frekar fljótt að þessu því þetta er svo lítið land, segir Thomas.

Thomas lifir lífi sínu á útopnu. Hann var frekar ungur þegar hann áttaði sig á því að hann gæti elskað fleiri en eina manneskju í einu. Hann vissi þó ekki hvað fjölástir væru fyrr en hann nálgaðist þrítugt.

Vinnufélagar hans, fjölskylda og vinir vita að hann er fjölkær. Thomas er giftur og býr með eiginkonu sinni. Í fjölkærum samböndum kallast sá aðili hreiðursmaki (e. nesting-partner). Thomas á einnig kærustu og kemur eiginkonu hans og kærustu mjög vel saman.

Thomas segir að fólk geti lært mikið af fjölkæru fólki og fjölsamböndum, þó svo að það stundi það ekki sjálft. Eins og hvernig er hægt að takast á við afbrýðissemi og varðandi samskipti. Hvernig er hægt að skilgreina og setja skýr mörk í sambandi, hvernig er hægt að stunda öruggt kynlíf og viðhalda sjálfstæði í samböndum.

Ranghugmyndir

„Það er mikið af ranghugmyndum um fjölkært fólk, mjög mikið. Ég held að ein algengasta ranghugmyndin um fjölkært fólk sé sú að fjölástir sé annað orð fyrir framhjáhald. Eða samband þar sem er leyfilegt að halda framhjá. Þetta er ekki satt því að halda framhjá þýðir einfaldlega að ljúga að makanum þínum og fjölsambönd eru akkúrat öfugt við það. Fjölsambönd snúast um að hafa samþykki og blessun allra sem koma að sambandinu,“ segir Thomas og heldur áfram.

„Fleiri ranghugmyndir eru til dæmis að fjölkært fólk sé líklegra til að fá kynsjúkdóma, að við séum alltaf í orgíum, að sambönd okkar séu óstöðug og að það sé slæmt fyrir börn að alast upp í kringum fjölsambönd.“

Erfiðleikar

Fjölkært fólk þarf að glíma við hina ýmsu erfiðleika sem fólk í hefðbundnum sambandsformum (e. monogamous relationships) þarf ekki að hugsa eins mikið um. Thomas vill þó taka það fram að hann átti sig á því að sum pör í hefðbundnum samböndum séu að glíma við svipuð vandamál.

„Eitt af því sem getur verið frekar pirrandi er að fólk gerir ráð fyrir að maður sé „monogamous“ þar til það kemst að því að maður er það ekki. Þetta eru ekki stórir hlutir, heldur litlir, pirrandi hlutir,“ segir Thomas og nefnir dæmi.

„Eins og þegar það er árshátíð í vinnunni þinni færðu miða fyrir þig og einn maka. Þá ertu kominn í aðstæður sem flestir þurfa ekki að pæla í, þú þarft að velja maka til að taka með á árshátíðina sem getur verið mjög vandræðalegt og leiðinlegt. Þetta er ekki kúgun eða neitt svoleiðis, en þetta eru litlir erfiðleikar sem fjölkært fólk þarf að glíma við,“ segir hann.

Thomas nefnir einnig fjölskyldulög á Íslandi og hvernig það geta einungis tveir einstaklingar verið skráðir fyrir barni.

„Þetta er ekki einungis eitthvað sem fjölkært fólk er að glíma við, heldur einnig hinsegin fólk. Fjölskyldulög á Íslandi eru byggð í kringum hugmyndina um einkvæni (e. monogamy) gagnkynhneigðs fólks,“ segir hann.

Eins og má sjá á myndinni er Thomas við öllu búinn.

Erfiðleikar á tímum COVID-19

„Ástandið núna er augljóslega erfitt fyrir alla. Ég er alls ekki að gera lítið úr aðstæðum annarra. En margir fjölkærir einstaklingar reiða sig á að geta átt samskipti utan heimilisins til að geta viðhaldið rómantískum eða persónulegum samböndum. Því þegar þú átt í meira en einu sambandi, þá þarftu að leggja þig meira fram. Þú þarft að hlusta á alla og mæta þörfum allra. Svo fyrir fólk, sem á fleiri en einn maka, getur verið mjög erfitt að vera í einangrun, sóttkví eða sjálfskipaðri sóttkví,“ segir hann.

Thomas bætir við að á tímum eins og þessum sé sérstaklega mikilvægt að tala við hvert annað, vera opin og hreinskilin um tilfinningar sínar og ráðleggur hann fjölkæru fólki að nýta sér tæknina, eins og FaceTime og Skype.

Hann gefur fjölkæru fólki fleiri ráð til að takast á við ástandið vegna COVID-19 sem má sjá hér að neðan.

Ef þú ert fjölkær þá eru hér nokkur ráð til að díla við COVID-19

Þú skalt forðast:

Stefnumót í persónu

Heimilispartý

Hittast með börnin að leika

Ferðalög

Hitta maka í áhættuhóp

Heimsækja vini

Hittast í hóp

Spilakvöld

Hafðu varan á þegar þú:

Ferð með máltíðir eða vörur til makans (Gott er að klæðast hönskum þegar það fer með mat og að þeir sem taka við mat eða vörum, þrífi umbúðir og annað vel.)

Ferð með gjafir og bréf í póst

Það sem er öruggt:

Spjalla á FaceTime/Skype

Símakynlíf og kynlíf í gegnum FaceTime/Skype

Stefnumót á netinu

Senda myndir

Spilakvöld í beinni

Símtöl

Taka námskeið á netinu

Horfa á mynd saman í gegnum tölvu (e. watch party)

Bókaklúbbur á netinu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Hundur beit barn
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er eins og hún geti ekki sætt sig við „nýju konuna“ sem er núna orðin stjúpmóðir barna hennar“

„Það er eins og hún geti ekki sætt sig við „nýju konuna“ sem er núna orðin stjúpmóðir barna hennar“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn virtasti fjölmiðill heims fjallar um íslenska fasteign – Metin á 108 miljónir

Einn virtasti fjölmiðill heims fjallar um íslenska fasteign – Metin á 108 miljónir
Fókus
Fyrir 1 viku

Undratækið sem Solla notar alla morgna – „Jafn mikilvægt og að bursta tennurnar“

Undratækið sem Solla notar alla morgna – „Jafn mikilvægt og að bursta tennurnar“
Fókus
Fyrir 1 viku

Bríet komin með kærasta – Nældi sér í gítarleikara Kaleo

Bríet komin með kærasta – Nældi sér í gítarleikara Kaleo