fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Fókus

Hollywood í klóm veirunnar – „Sjáumst næsta vor“

Fókus
Sunnudaginn 22. mars 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áhrifa COVID-19 faraldursins gætir víða í Hollywood – allt frá frægasta þegni bresku krúnunnar til tónlistarhátíðarinnar Coachella. Viðburðum hefur verið frestað, frumsýningum seinkað og tökum á vinsælum sjónvarpsþáttum kollvarpað vegna veirunnar sem greindist í Wuhan í Kína í byrjun árs. DV ákvað að stikla á stóru um áhrif COVID-19 á afþreyingarbransann vestanhafs, en þar sem gríðarlega mikið magn af afþreyingarefni er framleitt á ári hverju eru litlar sem engar líkur á að við verðum uppiskroppa með skemmtiefni á næstunni, þrátt fyrir áhrif kórónaveirunnar.

Auð bíósæti

Úr bíóheimum kennir ýmissa grasa. Margir tóku andköf þegar að MGM-kvikmyndaverið tilkynnti um miðjan febrúar að nýjasta Bond-myndin, No Time to Die, yrði ekki frumsýnd í Kína í apríl. Þá urðu aðdáendur James Bond utan Kína fyrir miklum vonbrigðum þegar sýningum myndarinnar um heim allan var frestað fram í nóvember á þessu ári. Þá átti að frumsýna myndina Peter Rabbit 2: The Runaway í mars en búið er að fresta henni fram í ágúst.

Lengri bið Bond mætir ekki á réttum tíma.

Taka átti upp myndina Misson: Impossible 7 á Ítalíu, Mekka kórónavírussins. Tökuliðið ætlaði að eyða þremur vikum við tökur í Feneyjum en þurfti að bylta þeim áformum vegna veirunnar og fresta tökum um óákveðinn tíma. Einnig er búið að gera tveggja vikna hlé á tökum á The Batman með Robert Pattinson í aðalhlutverki.

Leikarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn John Krasinski hefur frestað frumsýningu myndar sinnar, A Quiet Place Part II, sem átti að fara í almenna sýningu 12. mars. „Ég ætla að bíða með að sýna myndina þar til við getum öll séð hana saman,“ skrifaði John á Twitter. Þá sagði Dwayne „The Rock“ Johnson frá því á Instagram að Fast and Furious 9 yrði ekki frumsýnd á alþjóðavísu í maí í ár eins og áætlun gerði ráð fyrir heldur í apríl á næsta ári. „Sjáumst næsta vor,“ sagði hann. „The Rock“ bauð síðan upp á aðra tilkynningu á Instagram þann 14. mars þar sem hann sagði frá að tveggja vikna hlé væri gert á tökum á nýjustu Netflix-myndinni hans, Red Notice, en í öðrum hlutverkum í henni eru Ryan Reynolds og Gal Gadot.

Frumsýna átti margar myndir í Kína í febrúar og mars, þar á meðal Óskarsmyndirnar Jojo Rabbit, Little Women og 1917, en öllum frumsýningum hefur verið aflýst vegna COVID-19.

Hátíðarhöld í óvissu

Mikil óvissa Ekki er ljóst hvenær kvikmyndahátíðin í Cannes fer fram.

COVID-19 hefur einnig mikil áhrif á ýmsar kvikmyndahátíðir. Forsvarsmenn kvikmyndahátíðarinnar í Cannes í Frakklandi, sem oftast fer fram í maí, hafa ekki frestað hátíðinni en segjast fylgjast náið með ástandinu. Því gæti farið svo að hátíðinni yrði frestað. Þá mun Tribeca-kvikmyndahátíðin ekki fara fram í New York frá 15. til 26. apríl, en hátíðinni hefur ekki enn verið fundin ný dagsetning. Einnig er búið að fresta kvikmyndahátíðinni SXSW í Texas, sem átti að hefjast um miðjan mars og standa til 22. mars. Skipuleggjendur vinna nú að því að finna nýjar dagsetningar fyrir hátíðarhöldin. Úr tónlistarbransanum er það helst að frétta að árlegu kántrítónlistarverðlaununum, ACM, hefur verið frestað fram í september, en veita átti þau verðlaun þann 5. apríl næstkomandi í Las Vegas.

Piparjónkan í Bandaríkjunum

Kórónavírusinn hefur einnig haft gríðarleg áhrif á framleiðslu sjónvarpsefnis. Hlé hefur verið gert á tökum á raunveruleikaþættinum The Amazing Race, sem felst í því að láta fólk ferðast heimshluta á milli og leysa gátur. Þetta var tilkynnt í lok febrúar og tekið skýrt fram að enginn í tökuliði eða meðal keppenda hefði greinst með vírusinn.

Enginn rekinn heim Tökum á Survivor hefur verið frestað.

Aðdáendur The Bachelor og The Bachelorette urðu líka fyrir höggi þegar ákveðið var að sextánda sería af The Bachelorette yrði eingöngu tekin upp í Norður-Ameríku, en ekki um heim allan. Þá er einnig búið að fresta tökum á nýjustu þáttaröð raunveruleikaþáttarins Survivor, en tökur áttu að hefjast seinna í þessum mánuði á Fídjíeyjum. Áætlað er að tökur hefjist seinni hluta maímánaðar ef allt gengur að óskum.

Varðandi leikna þætti er það helst að frétta að tökum var frestað á Grey‘s Anatomy þann 12. mars. Stefnt er að því að hléið vari í að minnsta kosti tvær vikur. Þá er einnig búið að fresta tökum á unglingadramanu Riverdale.

Kaldhæðni örlaganna Tökur á læknadrama í pásu.

Mikið hefur einnig breyst í spjallþáttum vestanhafs og hefur þeim annaðhvort verið slegið á frest eða þeir teknir upp án áhorfenda.

„Okkur þykir leitt að valda ykkur vonbrigðum“

Hugsar um heildina Mariah Carey er hjartahlý.

Tónlistarmenn hafa einnig þurft að breyta sínum plönum vegna COVID-19. Idol-stjarnan Kelly Clarkson hefur frestað tónleikaröð sinni í Las Vegas, sem átti að hefjast á fyrsta degi aprílmánaðar. Hún hefst hins vegar ekki fyrr en í júlí. Celine Dion hefur einnig þurft að fresta tvennum tónleikum í Bandaríkjunum og Miley Cyrus hætti við að koma fram á fjáröflunartónleikum í Melbourne í Ástralíu þann 13. mars, með þeim afleiðingum að hætt var við herlegheitin. Söngkonan Mariah Carey hefur frestað tónleikum sínum á Hawaii fram í nóvember og Jonas Brothers halda ekki tónleikaröð í byrjun apríl í Las Vegas eins og áætlað var. „Okkur þykir leitt að valda ykkur vonbrigðum, en það er mikilvægt að allir geri það sem þeir geti til að flestir séu heilbrigðir,“ sögðu söngelsku bræðurnir á samfélagsmiðlum.

Þrususöngkona Celine Dion frestar líka.

Skellt í lás

Í fjórða sinn í sögu skemmtigarðsins Disneyland, sem var opnaður í Kaliforníu árið 1955, hefur garðinum verið lokað, sem og hótelum á svæðinu tengdum garðinum. Forsvarsmenn garðsins vinna náið með yfirvöldum og verður garðurinn opnaður aftur þegar það þykir hentugt og öruggt.

Ótrúlegt en satt Disneyland er lokað.

Þá, líkt og hér á landi, hefur einu frægasta leikhúsi heims, Broadway verið lokað þar til um miðjan apríl.

Ein vinsælasta tónlistarhátíð heims, Coachella í Kaliforníu, átti að fara fram í apríl en hefur verið frestað fram í október.

Þá hefur viðburði á vegum dragdrottningarinnar RuPaul, DragCon verið aflýst, en DragCon átti að fara fram í maí í Kaliforníu.

LA Pride, hinsegin dögum í Vestur-Hollywood, hefur einnig verið aflýst, en gleðihöldin áttu að fara fram um miðjan júní. Skipuleggjendur eru að fara yfir stöðuna og hugsanlega verður hátíðin haldin síðar á árinu.

Bíða með brullaupið

COVID-19 hefur einnig mikil áhrif á einkalíf stjarnanna, en þar ber helst að nefna brúðkaup söngkonunnar Katy Perry og leikarans Orlandos Bloom, sem tilkynntu nýverið að þau ættu von á sínu fyrsta barni saman. Þau ætluðu að ganga í það heilaga í Japan í sumar, en hafa nú frestað þessum stóra degi um óákveðinn tíma.

Stór ákvörðun Orlando og Katy hafa frestað brúðkaupi sínu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 4 dögum

Antonio Banderas með COVID-19

Antonio Banderas með COVID-19
Fókus
Fyrir 4 dögum

Einn þekktasti fasteignasali landsins á lausu

Einn þekktasti fasteignasali landsins á lausu
Fókus
Fyrir 1 viku

Góður undirbúningur skilar sér í vel heppnaðri útilegu

Góður undirbúningur skilar sér í vel heppnaðri útilegu
Fókus
Fyrir 1 viku

Margrét gerði eldhúsinnréttinguna eins og nýja fyrir nokkra þúsundkalla

Margrét gerði eldhúsinnréttinguna eins og nýja fyrir nokkra þúsundkalla