fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Fókus

Reynsluheimur íslenskra mæðra sem eignast börn með hörundsdökkum mönnum: „Í hans heimalandi sjá karlar ekki um börnin“

Auður Ösp
Sunnudaginn 22. mars 2020 09:00

Barneignir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Sonur minn hefur til dæmis sagt við mig áður að hann vilji ekki vera brúnn. Mér þótti mjög leiðinlegt að heyra það og reyndi að segja honum að allir væru fallegir og flottir alveg sama hvernig maður lítur út,“ segir íslensk kona sem á barn með hörundsdökkum manni.

Árið 2018 voru 9 prósent barna á Íslandi skráð með eitt íslenskt og eitt erlent foreldri og teljast því af blönduðum uppruna. Íslenskar mæður telja að þeirra eigin forréttindi yfirfærist sjálfkrafa á börnin þrátt fyrir reynslu barnsfeðra þeirra af rasisma og fordómum gegn dökku litarhafti á Íslandi.

Þetta kemur fram í niðurstöðum lokaverkefnis Önnu Árnadóttur í meistarnámi við Menntavísindasvið HÍ, en í tengslum við verkefnið kannaði Anna reynsluheim hvítra, íslenskra mæðra sem hafa eignast börn með hörundsdökkum mönnum af erlendum uppruna.

Taka meiri ábyrgð á uppeldinu

„Þegar ég sat einn áfanga í Háskólanum komu ástandsárin á Íslandi eitt sinn upp í umræðu og heyrði ég þá í fyrsta sinn af þeirri stefnu Íslendinga að vilja ekki „litaða“ hermenn til Íslands, því ákveðnir stjórnmálamenn vildu ekki menga íslenska genamengið. Mér varð þá hugsað til æskuvinkonu minnar sem var kölluð „kanamella“ fyrir það eitt að vilja djamma með þeim og eiga þar kærasta. Í gegnum hana frétti ég af fleiri stúlkum sem fengu þetta neikvæða viðurnefni fyrir að verja tíma með hermönnunum og ég heyrði ýmsar niðurlægjandi sögur af framkomu íslenskra ungmenna gagnvart vinkonu minni og hennar vinahóp.

Þótt ég hafi ekki upplifað þetta sjálf, hefur þetta alltaf setið í mér og ég viðurkenni að það hafi haft áhrif á fyrirfram gefnar hugmyndir um verðandi þátttakendur þar sem ég tel að fordómar séu ríkjandi í reynslu þeirra,“ segir Anna, en í tengslum við rannsóknina ræddi hún við sjö íslenskar mæður á aldrinum 20–49 ára. Þrjár þeirra eignuðust börn með manni frá Afríku, tvær eignuðust barn með manni frá Evrópu, ein með manni frá Asíu og ein með manni frá Ameríku.

Allar mæðurnar í hópnum segjast taka meiri ábyrgð á uppeldi barna sinna en feðurnir gera. Ein móðirin, Ásrún, segist finna mun á sér og öðrum íslenskum konum sem hún þekki varðandi sameiginlega ábyrgð foreldra á uppeldi:

„Við erum nokkrar hér í umhverfinu sem erum búnar að vera óléttar á sama tíma og erum búnar að eiga á sama tíma núna, þannig að í samanburði við þær, þú veist ég er náttlega búin að vera [óskiljanlegt] þá er þetta bara mjög svipað náttlega nema auðvitað mennirnir þeirra eru þú veist með börnin og kannski meira til staðar og umm já það er kannski helsti munurinn.“

Þá segir önnur móðir, Hafrún:

„Í hans heimalandi sjá karlar ekki um börnin þannig að hann þurfti alveg að venjast því að ég get alveg farið út og hann geti alveg séð um [son] án þess að það sé eitthvað skrítið eða að hann sé að gera mér greiða.“

Mæðurnar ræða einnig þær jafnréttishugmyndir í uppeldinu sem leiða til „blindu“ á hörundslit. Eyrún, sem á tvo syni með manni frá Afríku, er ánægð með að börn hennar séu með blandaðan trúarbragðabakgrunn.

„Ég sé þetta sem svo stóra gjöf fyrir þá af því að þeir verða svo rosalega víðsýnir, þeir koma svo út úr þessu sem, þú veist, með rosalega mikla þekkingu á íslam og menningu, þú veist afrísku.“

Fordómar hjá foreldrum

Fram kemur í niðursstöðum Önnu að mæðurnar hafi allar reynslu af rasisma og öráreitni hér á landi sem hefur haft áhrif á líðan þeirra. Barnsfeður þeirra sömuleiðis. Tvær af mæðrunum, Ásrún og Eyrún, segja fjölskyldur sínar ekki hafa tekið vel í að þær væru með lituðum mönnum.

Eyrún segir að foreldrar hennar hafi á sínum tíma haft fordóma bæði gegn hörundslit manns hennar og trú hans.

„…  þurftu kannski svoldið að venjast þessu og svo er hann múslimi líka þannig að það hefur alltaf flokkað niður með trúna sko, með að vera múslimatrúar, það er að svona kannski einhver svona hindrun í þeirra huga sko hjá foreldrum mínum.“

Fordómar í samfélaginu gagnvart útlendingum og/eða hörundsdökku fólki virðast vera nokkrir ef marka má upplifun feðranna.

Ein móðirin, Hafrún, segir mann sinn til að mynda hafa lent í alvarlegu kynþáttaníði á vinnustað.

„Það var eitthvað með það að hann settist í sætið hjá konunni og hún varð reið út af því og æpti á hann held ég þar og svo kom hann heim og þá fékk hann skilaboð frá henni með fullt af myndum af öpum.“

„Eru þetta börnin þín?“

Allar mæðurnar hafa einhverja sögu að segja sem endurspeglar rasisma og kynþáttafordóma í íslensku samfélagi. Hafrún segist til að mynda hafa áhyggjur af þeim tíma þegar sonur hennar fer að skilja meira, og að honum fari að líða eins og hann sé eitthvað öðruvísi vegna þess hve margir spyrja um kynþátt föður hans.

Ein úr hópnum, Iðunn, nefnir atvik þar sem dóttir hennar hennar varð fyrir barðinu á rasískum ummælum af hálfu bekkjarfélaga síns.

„Ég man einhvern tímann eftir þá heyrði ég það utan af mér ekki frá minni sko, þá hafði einhver strákur í bekknum hjá minni elstu verið að segja þú veist hérna „ég er bara hræddur við […] hvað hún sé brún?” … það varð ekkert meira af því, það var enginn sem var tilbúinn til þess að styðja þetta eitthvað með hann sko, þannig að þú veist það varð bara að engu, annars hefði ég þurft sko að tala við foreldra og eitthvað svona sko, en þetta voru náttlega bara svona fordómar að reyna kveikja upp eitthvað svona.“

Önnur móðir, Þórunn, talar einnig um viðhorf  til kvenna sem sofa hjá svörtum mönnum en þá sé gefið í skyn að þær séu tilbúnar að sofa hjá hverjum sem er ef um er að ræða svarta innflytjendur.

„Alveg eins og það eru stelpur í Keflavík sem eru sagðar vilja bara sofa hjá einhverjum körfuboltastrákum sem koma, einhverjum svörtum körfuboltastrákum og þær eru kallaðar móttökunefndin og þetta er svona, þetta er leiðindastimpill einhvern veginn.“

Þá segist Hafrún hafa lent í því að fólk segi við hana að maðurinn vilji bara vera með henni fyrir peninga og til að fá ríkisborgararétt.

„Fólk hélt að ég væri bara með honum út af því að hann væri svartur og þar af leiðandi myndi ég laðast að öllum svörtum og svo hélt það líka að hann væri bara með mér fyrir visa og peninga.“

Jórunn nefnir eitt dæmi um rasisma sem situr í henni. Hún var á biðstofu á hárgreiðslustofu og var bæði með elsta son sinn og bróðurson, þá gekk inn maður og hafði uppi rasísk ummæli sem hann taldi vera fyndin.

„Ég og strákarnir bíðum inn á biðstofunni á meðan mamma er í klippingu og hérna annar þeirra er þú veist bláeygður og hvítur og ljóshærður og strákurinn minn er þú veist hann er ljósbrúnn með svart hár og brún augu … þá kemur karlmaður inn segir „já … eru þetta börnin þín? Átt þú þessi bæði“ sagði hann og ég segi „nei ég á bara annan þeirra“, „nú dettur mér skemmtilegur brandari í hug“ … og fer að tala um brandarana af tveimur svertingjum sem voru að labba eftir strönd oooog „þetta er ekki pabbi hans, hver er þetta þá?“ eitthvað svona þá var það mamma hans og þá, svo spyr hann „vitið þið hver þetta er?“ alla inn á biðstofunni og það þorir þú veist það bara einhvern veginn segir enginn neitt, það vill enginn taka undir þetta hjá honum.“

Fyrsta hvíta manneskjan inn í fjölskylduna

Fram kemur í rannsókn Önnu að allar mæðurnar hafi haft uppeldishugmyndir sem bera vott um hvíta forréttindahyggju. Þær hafi sjaldan gert sér grein fyrir forréttindum sínum sem hvítir Íslendingar, þar sem þær hafa aldrei þurft að hugsa um eigin hvítleika og hlutverk sitt í viðhaldi kerfisbundins rasisma.

Tvær úr hópnum, Ásrún og Jórunn, lýsa til að mynda því þegar þær heimsóttu fæðingarland barnsfeðra þeirra. Þar nutu þær áberandi meiri virðingar innan þess samfélags og meiri forréttinda en aðrir vegna þess að þær voru hvítar. Þá segir Jórunn að börn hennar njóti meiri forréttinda í landi föður þeirra en heimamenn þar sem þau séu ljósari á hörund.

„Ég er fyrsta hvíta manneskjan inn í þeirra fjölskyldu … en það er líka þú veist þau eru með enn mjög mikla litafordóma, af því að ef þú ert of dökkur, þá ertu heldur ekki nógu góður … því dekkri sem þú ert því lægra settur ertu því að þá hefurðu unnið úti … ég er komin upp á bara stall núna, ég á svo ljós börn.“

Mikilvæg rannsókn

Í niðurstöðunum nefnir Anna meðal annars að rannsóknin varpi jósi á „blinduna“ á hörundslit sem einkennir íslenskt samfélag vegna almennra viðhorfa um kynþáttajafnræði sem ríkja á Íslandi.

Niðurstöðurnar bendi til þess að þrátt fyrir að hvítar íslenskar mæður séu meðvitaðar um rasisma í íslensku samfélagi, þá hugsa þær minna um hvít forréttindi sín (e. white privilege). Þær hafi viðteknar hugmyndir um kynþáttajafnrétti á Íslandi og séu haldnar hugmyndum um „litblindu“ (e. color-blindness) á hörundslit, sem hefur áhrif á uppeldisfræðilegar hugmyndir þeirra.

„Rannsóknin er mikilvæg hvað varðar innsýn á þá þætti sem hafa áhrif á velferð barna sem eru dökk á hörund, einkum þegar kemur að aðlögun þeirra að samfélaginu og baráttu gegn fordómum og fáfræði sem stuðla að rasisma í íslensku samfélagi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Fyrir 3 dögum

Eldhús Gígju hefur tekið ótrúlegum breytingum í gegnum árin

Eldhús Gígju hefur tekið ótrúlegum breytingum í gegnum árin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristjón pælir í „undarlegri“ gátu sem hann fékk senda í brúnu umslagi – „Hver eru skilaboðin?“

Kristjón pælir í „undarlegri“ gátu sem hann fékk senda í brúnu umslagi – „Hver eru skilaboðin?“
Fókus
Fyrir 1 viku

Tímavélin – Mörgum var órótt þegar fyrstu tölvuspilasalir Íslands hófu starfsemi

Tímavélin – Mörgum var órótt þegar fyrstu tölvuspilasalir Íslands hófu starfsemi
Fókus
Fyrir 1 viku

Stjörnuspá vikunnar – „Veðrið speglast í þér og ég held að það sé rigning mest alla vikuna“

Stjörnuspá vikunnar – „Veðrið speglast í þér og ég held að það sé rigning mest alla vikuna“