fbpx
Miðvikudagur 23.september 2020
Fókus

Svona massarðu 14 daga sóttkví

Fókus
Sunnudaginn 22. mars 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það eru fordæmalausir tímar sem krefjast fordæmalausra lausna. Íslendingar og aðrir víða um heim hafa margir þurft að kúpla sig úr félagslegum aðstæðum og setja nýja reglu á fastar venjur. Við stöndum öll saman í þessari krísu og því erum við hér með góð ráð til að halda heilanum uppteknum og brjóta upp á einsleita daga. Regla númer eitt er að muna að þetta er aðeins tímabundið og er bráðnauðsynlegt að hafa trú á eigin getu.

 

 

Dagur 1 – Aðlagaðu þig aðstæðunum
Fyrsti dagurinn hefur alla burði til þess að vera skemmtilegastur. Skyndilega hefur þú meiri tíma en vanalega og við fyrstu sýn er eins og allir möguleikar innan veggja heimilisins standi frammi fyrir þér. Þó er ekki best að hjóla strax í tiltektina sem þú átt eftir eða grípa til Netflix-þáttanna sem þig langar svo rosalega mikið að „hámhorfa“ á. Nei, fyrsti dagurinn gengur út á rólegheitin. Þó sakar ekki að sortera smáræði af fatnaði eða sækja í léttan lestur. Ef þú ert með fríðum förunauti í sóttkví eru ýmsar leiðir til að svala þorstanum, svo fremi sem veirueinkenni séu enn í lágmarki.

Dagur 2
Þú ert orðin/n aðeins vanari því sem fram undan er. Nú er kominn tími til að útbúa lista yfir reglugerð komandi daga. Á degi tvö skaltu þó leyfa tónlistinni og sköpunargleðinni að ráða. Settu þinn uppáhaldslagalista í botn, hentu í einn bakstur og tjúttaðu úr þér vitið á meðan þú hefur það. Það er ekki fyrr en á næstu dögum sem þú finnur fyrir því að þetta er og verður meira en bara löng helgi í heimasetu. En ilmi baksturinn vel mun það létta lundina.

Dagur 3

Settu þá reglu að forðast sjónvarpið. Sá tími mun sannarlega koma þegar allir skjáir heimilisins verða  eins og blakboltinn hans Toms Hanks – þinn besti vinur. Þess vegna er mikilvægt að mjaka sér upp í skjátímanum og huga fyrst að því hve lífið getur verið dásamlegt í þeirri háskerpu sem við sjáum það með okkar eigin augum.

Dagur 4

Settu langtímamarkmið. Í dag er dagurinn. Annars mun heil vika geta liðið eins og tveir mánuðir. Punktaðu niður litlu rútínuskrefin, með tilliti til slökunar og listarinnar í að breytast í sófakartöflu með ákveðnu millibili. Þetta er líka góður dagur til að grípa í gamlan spilastokk og drepa einn eða tvo klukkutíma með einum slíkum. Það hefur róað margan manninn að leggja til dæmis kapal fyrir sjálfan sig. Prófaðu.

Dagur 5

Jæja. Þetta er tíminn til að „binga“ eitthvað, eða hámhorfa. Takmarkalaust. Í aðeins einn dag mun sjónvarpsskjárinn verða tilvera þín. Þá er fyrir öllu að halda áhorfslistanum sem fjölbreyttustum.

Dagur 6

Þú sefur af þér megnið af þessum degi eða tekur því rólega, en ekki of letilega eftir hámhorfið. Góður dagur fyrir jógaæfingar.

Dagur 7

Þú tekur löng síma- og Messenger-spjöll við þína nánustu. Ef nánir vinir eða fjölskyldumeðlimir eru með þér í sóttkví, hveturðu þá til að gera hið sama. Það opnar hugann að tjá tilfinningar og viðurkenna fúslega ef þér leiðist.

Dagur 8

Nú ert þú formlega farin/n að hata heimilið þitt. Þá er best að hlaða í eitt deitkvöld, annaðhvort með nánasta eða sóló. Dekraðu nú einhvern veginn við þig. Við erum rétt rúmlega hálfnuð. Það er fagnaðarefni út af fyrir sig. Áttu enn eitthvert efni í bakstur?

Dagur 9

Þú ert farin/n að vingast við öll tuskudýr heimilsins, jafnvel raftækin. Nú væri ráð að skrifa niður sem flest sem snertir þína líðan, nöfn umræddra vina, tilfinningar eða jafnvel það sem þú hefur lært þessa rúmu viku þar sem heimurinn minnkaði töluvert. Að setja hlutina niður á pappír – eða í Word-skjal – getur fleytt geðheilsunni langan veg.

Dagur 10

Þú rifjar upp dansinn hans Daða og félaga. Nú sakar ekki að senda einlæg skilaboð á alla góða kunningja sem hafa haft jákvæð áhrif á líf þitt utan veggjanna sem hamla þér. Dagur 10 er einnig dagurinn til að fiska eftir öllu mögulegu á veraldarvefnum og kynna þér eitthvað nýtt og framandi. Jafnvel opna eina eða tvær YouTube-rásir og fá kennslu heim í stofu, hvort sem það er á nýtt loft-hljóðfæri eða  þjálfa hæfileika sem þú getur sýnt vinum þínum eftir fjóra daga.

Dagur 11
Þú ferð í gegnum skápana á heimilinu til að meta það sem er til. Í kjölfarið byrjar þú að elska heimilið þitt hægt og rólega á ný. Bara örlítið. Að því gefnu væri fínt að spreyta sig á ljóðagerð.

Dagur 12

Þú íhugar að senda skilaboð á gamla óvini og „settla“ hlutina, en lætur það eiga sig. Gott ráð til að berjast gegn furðulegu heilaprumpi er að sippa. Ef ekkert sippuband er til á heimilinu má hoppa á staðnum.

Dagur 13

Búðu þér til lista yfir allt sem þig langar að gera utanhúss, svo framarlega sem það kemur heilsu þinni ekki aftur niður á núllpunkt.

Dagur 14
Það er ljós við endann á göngunum! Og þú hefur fundið það. Hvort sem þú finnur fyrir því eða ekki, ertu gjörbreytt manneskja í dag en fyrir tveimur vikum. Reyndu að gleyma ekki þessum dögum.

 

Gott að hafa í huga almennt

-Þvoðu þér um hendurnar eins og þú fáir greitt fyrir það. Í minnst tuttugu sekúndur hverju sinni.
-Hnerraðu í olnbogann ef þess þarf.
-Mundu að þrífa hurðarhúna, lyklaborð, borð og allt sem þú ert í reglulegri snertingu við.
-Ef þú pantar þér mat eða biður trausta manneskju um að koma einhverjum birgðum á þig, vertu viss um að það sé alltaf skilið eftir í tveggja metra fjarlægð frá útidyrahurðinni.
-Ef það hefur reglulega verið hluti af rútínunni að stunda líkamsrækt, búðu til dagskrá þar sem heimaæfingar taka við tímabundið.
-Ef það eru börn á heimilinu er mikilvægt að hlusta á þau. Líklega munu þau finna fyrir einhverjum ótta eða ráðaleysi.
-Vertu í sambandi við lækni ef þú finnur fyrir einkennum.
-Drekktu nóg af vatni.
-Hefurðu heyrt um Skype eða FaceTime? Það er afar gagnlegt á þessum tímum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Fókus
Í gær

„Á hinsegin nótum“ í Hörpu – Tónlist hinsegin listamanna spiluð og gerð skil

„Á hinsegin nótum“ í Hörpu – Tónlist hinsegin listamanna spiluð og gerð skil
Fókus
Í gær

Nýjasta myndband bólulæknisins er rosalegt – Óvæntur endir

Nýjasta myndband bólulæknisins er rosalegt – Óvæntur endir
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Það getur verið viss áskorun fyrir þau að láta sambandið ganga“

„Það getur verið viss áskorun fyrir þau að láta sambandið ganga“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sunneva Einars og Birta Líf spjalla um OnlyFans – „Af hverju ertu ekki löngu búin að þessu?“

Sunneva Einars og Birta Líf spjalla um OnlyFans – „Af hverju ertu ekki löngu búin að þessu?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vigfús Bjarni: Þeim fjölskyldum gengur langbest sem ekki stunda hugsanalestur

Vigfús Bjarni: Þeim fjölskyldum gengur langbest sem ekki stunda hugsanalestur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona brást íslenska þjóðin við smitunum – „Varstu í alvöru að gera grín um kórónuveiruna?“

Svona brást íslenska þjóðin við smitunum – „Varstu í alvöru að gera grín um kórónuveiruna?“