fbpx
Laugardagur 04.júlí 2020
Fókus

Guðmundur á Akureyri opnar sig – COVID-19 setur strik í reikninginn – „Hef drullað yfir marga og öskrað á stjórnendur Samherja“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 19. mars 2020 15:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þessi veira er ekki að hjálpa til og ég bið fyrir öllum sem þurfa þessa aðstoð,“ segir Guðmundur Ómarsson, vinsæll athafnamaður á Akureyri. Guðmundur er vinnuþjarkur og farsæll í starfi en undir yfirborði velgengninnar á sér stað erfið barátta við alkóhólisma.

Guðmundur þarf mjög á áfengismeðferð að halda en þarf að bíða lengur eftir henni en vanalega vegna COVID-19. „Biðtíminn er lengri þar sem plássum hefur fækka. Það er væntanlega bara einn í herbergi til að forðast smit. Það veit svo sem enginn hver biðtíminn er, maður bíður bara,“ segir Guðmundur í samtali við DV. Hann hefur þó ekkert út á þjónustu heilbrigðiskerfisins við áfengissjúklinga að setja og segist njóta viðtala við ráðgjafa frá SÁÁ. En biðin eftir meðferð er erfið og Guðmundur hefur áhyggjur af þeim sem eru í sömu sporum.

Tilefni þess að DV hafði samband við Guðmund er áhrifarík og opinská grein sem hann ritaði á Facebook um glímu sína við sjúkdóminn. „Meðferð? Það er kannski rangt af manni að vera að ræða þetta þegar maður er ekki heill í hausnum og drukkinn. En raunveruleikinn er bara svona. Ég er einn af þeim sem læt bara vaða og segi hvað mér finnst,“ segir Guðmndur. Hann segir að enginn geti skilið alkóhólisma sem ekki þjáist af honum sjálfur:

„Fyrir ykkur hin sem ekki skiljið þetta þá er ég í raun að fórna öllu til að komast á barinn til að geta fengið lyfið mitt. Kvíða og þunglyndislyfið, drekka til að gleyma. Það sjá það allir að það er ekki tengt neinni skemmtun, ekkert djamm, bara vanlíðan.“

Guðmundur féllst á að DV endurbirti grein hans þó að honum þyki ekki þægilegt að setja sjálfan sig í sviðsljósið með þessum hætti. „Ef þú heldur að þetta geti hjálpað einhverjum skaltu bara láta vaða,“ sagði hann við blaðamann DV.

Pistill Guðmundar Ómarssonar er eftirfarandi:

Meðferð? Það er kannski rangt af manni að vera að ræða þetta þegar maður er ekki heill í hausnum og drukkinn. En raunveruleikinn er bara svona. Ég er einn af þeim sem læt bara vaða og segi hvað mér finnst. Ég hef drullað yfir marga og öskrað á stjórnendur Samherja og sagt hluti sem ég hef séð eftir. Sé reyndar ekki eftir að hafa lesið þeim pistilinn, en sé eftir mörgu öðru.

Er líka einn af fáum sem getur verið drukkinn og skrifað status án stafsetningarvillna sem mér finnst sjálfum hálf furðulegt. „“

Er líka einn af þeim sem hef getað rekið fyrirtæki með góðum árangri þó svo ég sé að berjast við þennan sjúkdóm, en fjölskyldan mín hefur þurft að þjást fyrir það og það er það versta við þetta allt. Skítt með skandalana sem maður hefur gert, sagt eða skrifað. Auðvitað snýst þetta allt fyrst og fremst um fjölskylduna.

Núna er staðan sú að ég er bara að bíða eftir að komast í meðferð og vissulega hefur þessi veira áhrif á allt, það tefur fyrir öllu þar sem plássum í meðferð hefur fækkað um helming til að reyna að aðskilja fólk.

Það virðist ekkert vinna með manni þessa dagana. Það virðist allt vera að fara til helvítis. Ég er gjörsamlega berskjaldaður og það er bara þannig, veit ég á góða að og veit ég á góða vini sem lesa þetta sem koma til með að vera mér innan handar þegar maður kemur út í edrú lífið.

Það er enginn sem skilur þennan sjúkdóm nema þjást af honum sjálfur. Ég hef heyrt sögur um hvað ég hafi það gott og geti verið með fyrirtæki og látið aðra vinna en á sama tíma sit ég á bar og er að fá mér bjór og menn halda að ég sé að skemmta mér. Þetta er svo langt frá því að vera skemmtun, var það fyrir 20 árum þegar maður var að byrja að drekka en fljótlega varð þetta vandamál.

Fyrir ykkur hin sem ekki skiljið þetta þá er ég í raun að fórna öllu til að komast á barinn til að geta fengið lyfið mitt. Kvíða og þunglyndislyfið, drekka til að gleyma. Það sjá það allir að það er ekki tengt neinni skemmtun, ekkert djamm, bara vanlíðan.

Það eru fáir sem þora að setja þetta á blað og viðurkenna vanmátt sinn en svona er þetta. Það eru líka margir með fordóma fyrir þessum sjúkdómi eða þessari fíkn og mér finnst oft erfitt að horfa framan í fólk sem mér finnst vera í æðri stöðu en ég í þjóðfélaginu en staðreyndin er sú að það hafa allir einhverja veikleika og ég veit það að ég er ekki verri maður en náunginn sem vinnur í bankanum í jakkafötunum með bindið. Það hefur hver sinn djöful að draga og flestir eru með grímur á andlitinu flesta daga og það veit enginn hvernig þeim líður.

Ég ætla ekki að láta þenna sjúkdóm koma mér í gröfina og ætla að fá mér aðstoð til að komast útúr þessum vítahring. Þar til ég kemst í meðferð ætla ég samt vissulega að halda haus og horfa framan í alla þá sem vilja horfa í augun á mér því ég veit að ég er hvorki aumingi, skíthæll eða ræfill þó svo ég sé það óheppinn að þurfa að glíma við þennan sjúkdóm.

Þetta á eftir að styrkja mig og ég kem til með að verða mun sterkari maður eftir meðferð, ég hef verið grjótharður seinustu árin þó það sé full vinna að vera alkoholisti, það eru aðeins þeir allra hörðustu sem þrauka og ég er einn af þeim sem betur fer. Þó ég hafi verið með þennan sjúkdóm þá hef ég verið áreiðanlegur þegar kemur að vinnunni og hef alltaf staðið við mitt og ég veit að menn hafa borið traust til mín sem mun ekki breytast.

Ég ætla ekki að hafa áhyggjur af Covid-19 þar sem ég hef sprittað mig bæði að innan og utan seinustu árin með áfengi. Það sem ég er að reyna að koma frá mér í þessum pósti er að það er venjulegt fólk sem fær þennan sjúkdóm, fólk sem felur þetta mjög vel og býr jafnvel í næsta húsi. Þetta stendur ekki utan á manni og það er til lækning við þessum sjúkdómi og ég ætla í fyrsta skiptið núna að gefast upp og fá aðstoð. Á sama tíma hvet ég þá sem eru í sömu sporum og ég að leita sér aðstoðar því það hlýtur að vera til betra líf en að vera þræll bakkusar. Fariði svo að drífa ykkur í því að kaupa Apple tölvu eða iPad því það er ekkert verra en að vera í sóttkví með Windows tölvu sem er líklega full af einhverjum vírusum…

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Hríseyingar einstaklega heiðarlegir – Sjálfsafgreiðsluskúr með helstu nauðsynjum

Hríseyingar einstaklega heiðarlegir – Sjálfsafgreiðsluskúr með helstu nauðsynjum
Fókus
Fyrir 5 dögum

YouTube-stjarna ferðast um Ísland á húsbíl

YouTube-stjarna ferðast um Ísland á húsbíl
Fókus
Fyrir 1 viku

Jóhannes Kr. og Sölvi um símtölin eftir að dóttir Jóhannesar dó

Jóhannes Kr. og Sölvi um símtölin eftir að dóttir Jóhannesar dó
Fókus
Fyrir 1 viku

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“
Fókus
Fyrir 1 viku

Eftirminnileg atvik í íslensku sjónvarpi – Öskrandi fyndið og óþægilegt

Eftirminnileg atvik í íslensku sjónvarpi – Öskrandi fyndið og óþægilegt
Fókus
Fyrir 1 viku

Íslendingar á leið í sólina – „Alltaf ákveðinn hópur sem gefur ekkert eftir til að komast í góðann hita“

Íslendingar á leið í sólina – „Alltaf ákveðinn hópur sem gefur ekkert eftir til að komast í góðann hita“