fbpx
Fimmtudagur 09.apríl 2020
Fókus

Una Margrét komin með nóg af áróðri innanhúsarkitekta – Eru Íslendingar leiðifífl? – „Ljótt. Kuldalegt. Ömurlegt.“

Fókus
Þriðjudaginn 25. febrúar 2020 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Una Margrét Jónsdóttir, dagskrárgerðarkona og rithöfundur, segir ríkjandi straumi innanhúsarkitektar á Íslandi stríð á hendur í pistli sem hún birtir á Facebook. Ljóst er að margir eru sammála henni að umrædd tíska sé orðin heldur þreytt. Einn þeirra sem deilir pistli hennar er Hallgrímur Helgason rithöfundur og tekur hann undir orð hennar.

„Niður með grámóskuna! Í helgarblöðum Morgunblaðsins birtist oft umfjöllun um íbúðir og innréttingar, oftast á vegum Mörtu Maríu sem er þekkt fyrir Smartland. Ein slík umfjöllun birtist núna um helgina. Þar eru birtar myndir úr íbúð í Breiðholti sem innanhússarkitekt var nýlega fenginn til að endurhanna. Í undirfyrirsögn segir: „Dökkar innréttingar, fallegt gólfefni og veggir í mjúkum litum mætast á heimilinu“,“ skrifar Una Margrét í gær.

Alltaf sama íbúðin

Hún segir að svo virðist sem innanhúsarkitektar á Íslandi þekki bara nokkra liti. „Mjúkum litum? Hverjir eru þessir litir? Aðeins þrír: hvítt, grátt og svart. Fjórar myndir eru birtar úr íbúðinni og hvergi sést nokkur litur nema hvítt, grátt og svart – með einni smá undantekningu: lítil græn grein í blómavasa sést á tveimur myndunum. Að öðru leyti virðist innanhússarkitektinn ekki þekkja nema þessa þrjá liti, ef liti skyldi kalla. Því það er leitun á litum sem hafa minni lit til að bera en þessir þrír,“ segir Una Margrét.

Hún segist hafa fengið nóg eftir að hafa horft á þetta í mörg ár. „Ég væri nú ekki að skrifa pistil um þetta ef ég væri ekki búin að sjá samskonar myndir og umfjallanir aftur og aftur og aftur á undanförnum árum! Það er eins og maður sé alltaf að sjá sömu íbúðina: grá og kuldaleg eldhúsinnrétting, snjóhvít stofa með glerborði og svörtum sófa, grá og hvít svefnherbergi. Og ég verð að segja eins og er að þegar ég skoða þessar myndir koma alltaf sömu þrjú orðin upp í huga mér: Ljótt. Kuldalegt. Ömurlegt,“ segir Una Margrét.

Liturinn er úreltur

Hún nefnir fleiri dæmi máli sínum til stuðnings. „Samt er alltaf brýnt fyrir manni að þetta sé afskaplega fallegt. Í umfjölluninni núna um helgina eru birtar litlar myndir af eldhúsinu eins og það var áður: fremur vinalegt eldhús, bleikir veggir og brúnir skápar. En það var auðvitað ófært. Nú einkennist eldhúsið af gráum stálskápum frá gólfi og upp í loft, svörtum stólum og svörtum og hvítum eldhúsbekk. Eindregið er gefið í skyn að þetta sé nú aldeilis breyting til batnaðar. Lítum svo á aðra umfjöllun sem birtist 12. desember sl. Þar er talað við ungt fólk sem keypti sér gamla íbúð og var að mestu ánægt með hana – nema baðherbergið. Mynd birtist af baðherberginu eins og það var, flísar í fallegum dökkbláum lit að neðan og hvítar fyrir ofan. Unga konan segir að raunar hafi ekkert verið að flísunum, nema að „liturinn var heldur úreltur“. Og svo birtist mynd af baðherberginu eins og það er núna. Hvítt og grátt,“ segir Una Margrét.

Svo virðist sem flestir litir séu ekki í tísku í dag. „Setningin „liturinn var heldur úreltur“ er táknræn fyrir þá stefnu sem hefur ríkt meðal arkitekta bæði innanhúss og utan undanfarin ár. Auðvitað er dökkblár litur úreltur! Allir litir eru úreltir nema hvítt, grátt og svart!“

Áróður

Una nefnir svo annað dæmi úr Morgunblaðinu. „Og í Morgunblaðinu 27. september 2019 birtist umfjöllun um tvær íbúðir, ljósmyndir á sjö síðum. Allt er hvítt, grátt og svart, nema hvað í annarri íbúðinni eru sumar innréttingar úr brúnum viði og má vissulega telja það nokkra dirfsku. Jú, fyrir einhverja slysni hefur eitt málverk í litum álpast inn í hina íbúðina. en það er algjör undantekning. Annars er þess gætt að ekki sjáist aðrir litir en hvítt, grátt og svart. Sérstaklega er þetta passað í barnaherberginu. Gráir veggir, svartur skápur, hvítt rúm. Og yfir stendur: „Hér má sjá hvað barnaherbergið er hlýlegt og heldur vel utan um þann sem þar býr.“ Hlýlegt! Hann var góður þessi,“ segir Una Margrét.

Hún segir að henni sé í raun sama hvernig annað fólk býr en henni sé ekki sama um áróður fyrir þessari stefnu. „Einhver segir nú kannski að mér komi það ekkert við hvernig annað fólk kýs að innrétta heimili sín. En mér finnst það koma mér við þegar áróður fyrir þessum stíl er hafður uppi í hverju blaðinu á eftir öðru. Mætti maður vinsamlegast fá að sjá eitthvað annað við og við? Og á einn hátt kemur mér þetta beint við: utanhússarkitektar virðast líka vera með litina grátt og svart á heilanum. Á seinni árum hefur risið í miðbæ Reykjavíkur fjöldinn allur af gráum og svörtum háhýsum – eins kuldalegum og ömurlegum og hægt er að hugsa sér,“ segir Una Margrét.

Að lokum spyr hún sig hví sumt fólk virðist hata liti. „Hvað veldur þessu hatri á litum á seinni árum? Ég las einu sinni bók um páfugl sem fór að vinna með mörgæsum, en litir hans fóru mjög í taugarnar á þeim og þær reyndu að sannfæra hann um það að einu réttu litirnir væru hvítt og svart. Það mætti halda að þessar mörgæsir hefðu náð völdum meðal arkitekta á seinni árum. Sem betur fer fara ekki allir eftir tísku grámóskunnar og seinna ætla ég að birta hérna myndir af íbúð í öðrum anda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Logi finnur björtu hliðarnar og greinir frá fimm COVID-nýyrðum

Logi finnur björtu hliðarnar og greinir frá fimm COVID-nýyrðum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslendingar missa sig yfir Tígrisdýra kónginum

Íslendingar missa sig yfir Tígrisdýra kónginum
Fókus
Fyrir 5 dögum

Skotheld ráð sem breyta innkaupaferðum þínum í Covid-faraldri

Skotheld ráð sem breyta innkaupaferðum þínum í Covid-faraldri
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sunneva Einars kveður einkennislitinn og orðin dökkhærð

Sunneva Einars kveður einkennislitinn og orðin dökkhærð
Fókus
Fyrir 1 viku

Patrekur Jaime útskýrir hvað „tea“ þýðir: „Þá veistu að það sé gott“

Patrekur Jaime útskýrir hvað „tea“ þýðir: „Þá veistu að það sé gott“
Fókus
Fyrir 1 viku

Ester lést af slysförum aðeins 38 ára gömul – Söfnun hafin til styrktar syni hennar

Ester lést af slysförum aðeins 38 ára gömul – Söfnun hafin til styrktar syni hennar