fbpx
Fimmtudagur 02.apríl 2020
Fókus

Nærmynd: Brynhildur Guðjónsdóttir: „Hún sannar þetta með smár og knár“

Auður Ösp
Laugardaginn 22. febrúar 2020 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynhildur Guðjónsdóttir, leikkona og leikstjóri, var á dögunum ráðin leikhússtjóri Borgarleikhússins. Eftir útskrift úr leiklistarskóla fyrir rúmlega tveimur áratugum hefur hún farið með fjölda burðarhlutverka í leikhúsi, leikið í sjónvarpi og kvikmyndum og haslað sér völl sem leikskáld. En hver er þessi smágerða kjarnakona sem virðist vera bæði þrjósk og hlýleg á sama tíma? Vinir og samstarfsfélagar segja hana þrjóska og ákveðna en jafnframt hlýja, fyndna og glaðlega. Hér verður stiklað löngum og afkastamiklum ferli þessarar hæfileikakonu.

Skemmtilegt og málglatt barn

Brynhildur Guðjónsdóttir er fædd í Svíþjóð þann 26. september 1972. Hún er einkabarn foreldra sinna, Guðjóns Magnússonar og Margrétar Pálsdóttur. Guðjón er menntaður kennari sem síðar varð starfsmannastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Margrét er menntuð fóstra en faðir hennar, afi Brynhildar, rak lengi vel verslunina Liverpool á Laugavegi. Margrét tók seinna meir við rekstrinum.

Lítil hnáta. Ljósmynd/Tímarit.is

Brynhildur flutti ávarp á sjötíu ára afmæli Alþjóðlega leiklistardagsins í mars 2018 og rifjaði þá upp þegar hún komst fyrst í kynni við töfra leikhússins. Árið var 1978, hún var sex ára gömul og fór ásamt foreldrum sínum að sjá Kardemommubæinn í Þjóðleikhúsinu.

„Fyrir rúmum fjörtíu árum fór lítil stúlka í leikhús með foreldrum sínum. Hún sat eins og ljós alla sýninguna, söng með og fylgdist grannt með öllu sem fyrir augu bar. Hún tók inn allt sem fyrir skilningarvitin var borið: Ræningjar og ljón, eldsvoði og asnakerra og einn og tveir og þrír og einn og tveir og þrír. Tjaldið féll að lokinni sýningu, þykkt og djúprautt. Áhorfendur klöppuðu. Heimurinn sem barnið hafði fengið að búa í um stund var horfinn sjónum en að eilífu greyptur í minnið. Frammi í fatahengi trompaðist svo stillt og prúð stúlka. Foreldrarnir, kennari með alskegg í brúnum flauelsbuxum og fóstra með stór gleraugu í fjólubláu pilsi og háum leðurstígvélum, vissu ekki hvaðan á þau stóð veðrið. Þau hálfskömmuðust sín fyrir hamhleypuna sem, löðrandi sveitt um hausinn, æddi um alla ganga og henti sér æpandi á Þjóðleikhústeppið með allar taugar þandar og ný-uppgötvaðan heim í brjóstinu. Allt fór vel að lokum, við komumst klakklaust út í rauða Taunusinn og heim í Kópavog. Þetta var umbreytandi upplifun, upplifun sem breytti DNA-i barnsins, vakti áhuga, bjó til orku og víkkaði sjóndeildarhringinn.“

Foreldrar Brynhildar giftu sig ung. Í samtali við Lifðu núna árið 2018 kom fram að Brynhildur hefði notið handleiðslu „framsýnna foreldra með sterkar klassískar rætur“ og að fjölskyldan hefði ætíð verið afar samheldin.

Þá sagði Brynhildur í viðtalinu að foreldrar hennar hefðu flakkað töluvert þegar hún var ung stelpa en litla fjölskyldan bjó í Svíþjóð í eitt ár, þegar Brynhildur var sjö ára gömul. „Mamma og pabbi voru alltaf virk í félagsstörfum af ýmsum toga og sem dæmi var pabbi í alþjóðlegum félagsskap sem kallast Round table. Á vegum þess félagsskapar ferðuðust þau gífurlega mikið og hingað komu auk þess erlendir félagar í  heimsókn,“ sagði Brynhildur og bætti við að foreldrar hennar hefðu alltaf unnið „geysilega mikið.“  Hún hefði því orðið svokallað lyklabarn snemma, og frá tíu ári var hún í sveit öll sumur.

Ljósmynd/Tímarit.is

„Af því að ég er einbirni þurfti ég mjög fljótt að hafa ofan af fyrir mér þegar þau voru í vinnu. Ég var sífellt að búa til og skapa og það kom fljótt í ljós að ég ætlaði einhverjar ákveðnar leiðir. Þau hafa leiðbeint mér í lífinu en ég geri ekki eins og þau. Það kom til dæmis aldrei til greina að ég færi í verslun og viðskipti og tæki við Liverpool. Ég var bara unglingur þegar ég gaf út þá yfirlýsingu að ég ætlaði ekki að vinna í búðinni næsta sumar heldur væri ég búin að fá mér vinnu á kaffihúsi neðar í götunni.“

Brynhildur var stundum kölluð Brynka. Árið 2005 lýsti móðir Brynhildar dóttur sinni þannig í samtali við DV:

„Hún var afskaplega skemmtilegt barn, málglöð og dugleg stúlka. Hún var mjög ljúf og góð og kunni að leika sér. Hún söng mikið en okkur datt aldrei í hug að hún myndi verða leikari.“

Úr DV í febrúar 1988. Brynhildur var þá 16 ára gömul og var í starfskynningu hjá Sjónvarpinu.Ljósmynd/Tímarit.is

Annáluð tungumálakona

Að loknum grunnskóla fór Brynhildur í Menntaskólann í Reykjavík. Hún var þar á náttúrufræðibraut en hún lét eitt sinn hafa eftir sér í viðtali að hún hefði kosið að fara á þá braut þó svo að hún hefði aldrei verið sterk í stærðfræði. „Það kom ekki annað til greina en að ögra sér svolítið með það.“

Á menntaskólaárunum fór hún meðal annars til Frakklands í málaskóla. Að loknu stúdentsprófi  lá leiðin í Háskóla Íslands þar sem hún lauk BA-námi í frönskum bókmenntum og málvísindum, ítölsku og rúmensku við með viðkomu í háskóla í Suður-Frakklandi.

„Í Frakklandi komst ég á bragðið með að vera erlendis og velti því fyrir mér um tíma að fara í skóla þar. En ég ákvað að fara til Bretlands frekar vegna þess að leikhúsið þar er frekar líkt íslensku leikhúsi,“ sagði Brynhildur í samtali við Morgunblaðið árið 1999.

Á sínum tíma birtist viðtal við Brynhildi á vef Þjóðleikhússins þar sem hún sagði að eftir stúdentspróf hefði henni ekki fundist hún vera tilbúin í leiklistarnám. Hún ákvað því að fara í BA-nám fyrst. Þá hefði hún ákveðið að fara frekar í leiklistarskóla erlendis heldur en að reyna við Leiklistarskólann hér heima þar sem að hún leit svo á að leiklistarnámið þyrfti að vera framandi og „pínu hættulegt.“

Árið 1995 útskrifaðist Brynhildur með BA-gráðu frá Háskóla Íslands og fór einnig með lítið aukahlutverk í kvikmyndinni Nei er ekkert svar. Um haustið hóf hún nám við Guildhall School of Music and Drama í Lundúnum, virtan leiklistarskóla sem meðal annars hefur útskrifað Orlando Bloom, Daniel Craig, Ewan McGregor og Joseph Fiennes. Það var ekki alltaf auðvelt að vera blankur leiklistarnemi í stórborginni en í samtali við Nýtt Líf árið 2004 rifjaði Brynhildur meðal annars upp að hún hefði „lifað á ristuðu brauði og hummus í þrjú ár.“ Þegar foreldrar hennar komu í heimsókn og þau fóru saman út að borða var Brynhildur að eigin sögn svo ánægð að fá loksins almennilegan mat að það lá við að hún gréti af gleði.

Brynhildur, nýútskrifuð og upprennandi stjarna. Ljósmynd/Tímarit.is

Komst strax inn í bransann

Ófáir eru þeir íslensku leikarar sem reynt hafa fyrir sér árangurslaust í leikhúborginni London en svo bar við rétt fyrir jól að ung íslensk leikkona steig á fjalir Oliver sviðsins i sjálfu þjóðleikhúsi Breta á suðurbakka Thamesár. Þetta er Brynhildur Guðjónsdóttir sem kallar sig Inku Magnusson og lauk námi við Guildhall School of Music and Drama síðastliðið vor.

Þannig hófst grein sem birtist í DV  janúar árið 1999 en þar var rætt við Brynhildi sem hafði landað hlutverki Skellibjöllu (Tinkerbell) í uppsetningu Breska þjóðleikhússins á Pétri Pan.

Ljósmynd/Tímarit.is

„Ég fer í prufur þegar ég er laus hér og lifi bara einn dag í einu. Mér hefur gengið vonum framar síðan ég lauk námi í júní í sumar. Þá fékk ég hlutverk í Gate-leikhúsinu og svo þetta strax á eftir. Ég fékk líka tilboð frá Konunglega Shakespeare-leikhúsinu um tvö hlutverk og níu mánaða starf en valdi Þjóðleikhúsið af ýmsum ástæðum, bæði hef ég mikið dálæti á Pétri Pan og hef elskað Tinkerbell frá því ég var barn,“ sagði Brynhildur.

Það sama ár flaug Brynhildur heim og tók þátt í uppsetningu Þjóðleikhússins á söngleiknum Rent. „Ég leik Mímí sem er ofsalega tragískur karakter. Þetta er sextán, sautján ára stelpa sem er með eyðniveiruna, háð krakki og vinnur fyrir sér sem dansari á sadó-masóklúbbi,“ sagði hún í samtali við DV á sínum tíma. Brynhildur viðurkenndi jafnframt í viðtalinu en henni fyndist ákveðnir söngleikir mjög skemmtilegir en Andrew Loyd Webber þætti henni „alveg ofsalega leiðinlegur.“

Í nóvember þetta ár birtist viðtal við Brynhildi og þáverandi mann hennar, Atla Rafn Sigurðsson leikara, í Morgunblaðinu. Brynhildur lýsti þar meðal annars spennunni og taugatitringnum sem myndast áður en leikarinn fer inn á sviðið.

„Hjá mér er þetta þannig að ég fer að svitna um leið og ég finn hvernig adrenalínið pumpast út í líkamann, lófarnir verða þvalir og sjáöldrin þanin! Þetta gerist fyrir hverja einustu sýningu en fer eftir því hver ábyrgðin er í sýningunni.“

Þá sagðist hún ekki finna fyrir pressu varðandi útlitið eins og sumir leikarar. „Það tekur allavega ekki milda orku frá mér að halda mér til.  Ég er eins og ég er og vonandi boðleg fyrir það sem ég er að gera.“ Þá sagðist hún einkum nota frístundirnar til að „ræka sambandið við fjölskyldu og vini. Þá kom fram að hún notaði frönskukunnáttuna einkum til að lesa bækur „og aftan á vínflöskur.“

Ljósmynd/Tímarit.is

Sló í gegn sem Edith Piaf

Brynhildur var fastráðin við Þjóðleikhúsið á árunum 1999 til 2011, áður en hún fór yfir í Borgarleikhúsið. Hlutverk Brynhildar á íslensku leiksviði eru nú komin á þriðja tuginn. Hún sló rækilega í gegn þegar hún fór með titilhlutverkið í uppsetningu Þjóðleikhússins á Edith Piaf árið 2004. Brynhildur, sem þá var 32 ára gömul, lék söngkonuna ástsælu á öllum ævistigum, allt frá því hún var barn og þar til hún lést.

„Brynhildur Guðjónsdóttir hefur sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna með túlkun sinni á Edith Piaf. Dökk yfirlitum, lágvaxin og grönn leikkonan er með ótrúlega stóra og breiða rödd. Gagnrýnendur sem og áhorfendur hafa keppst við að lofa frammistöðu Brynhildar og þykir engu líkara en goðsögnin Piaf hafi endurholdgast á sviðinu í meðförum hennar. Það kemur því verulega á óvart að leikkonan hefur aldrei lært söng,“ kom fram í grein Ský á sínum tíma.

Árið 2004 var Brynhildur ein af sex þjóðþekktum Íslendingum sem tóku þátt í verkefni á vegum Samtaka iðnaðarins sem gekk út á að kynna íslenska tísku. Hver og einn af þátttakendum vann með teymi fagmanna og var afraksturinn kynntur í tímariti Morgunblaðsins.

Brynhildi Guðjónsdóttur leikkonu fannst sjálfsagt að leggja íslenskum fagmönnum á sviði tískunnar lið. „Erlendis hefur það lengi vel tíðkast að leikarar séu í samvinnu við þekkt tískuhús, þótt hér á landi sé ekki hefð fyrir slíku,“ segir Brynhildur sem hefur ákveðnar skoðanir á fötum. „Föt geta breytt fólki og haft ótrúleg áhrif á vaxtarlagið þar sem flott hönnun getur dregið fram það fallega sem manneskjan vill undirstrika. Svo er náttúrulega alltaf hægt að klæða sig eftir skapi og föt geta verið ákveðin yfirlýsing. Ég hef mjög gaman af fallegum fötum og hef gaman af því að klæða mig upp á. En fatastíll minn frá degi til dags einkennist frekar af þægindum en yfirlýsingum svona almennt séð, þar sem ég er mikið í gallabuxum og bol,“ segir hún en kveðst þó vita að það sé ekkert ægilega smart.

Ljósmynd/Tímarit.is

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Brynhildur ræddi um tísku og fatnað í viðtali, því árið 2003 ræddi hún við Fréttablaðið og meðal annars um skó sem voru í miklu uppáhaldi. Þar ljóstraði hún því upp að væri með einstaklega smáa fætur.

Ég á skó sem eru algjörlega guðdómlegir. Þeir eru skærbleikir með háum og mjóum hæl, úr rúskinni, opnir í tána og með bleiku blómi. Þeir eru númer 35 og þar af leiðandi á við meðalgemsa. Ég er algjör Öskubuska í þeim. Þeir nýtast mér ekki sem skyldi í íslenskri veðráttu en ég tók mig út eins og prinsessa í brúðkaupi í London í 35 stiga hita á vel hirtum krikketvelli. Þeir henta vel á þannig samkomum. En eins og vænta má af alvöru Öskubuskuskóm endist maður ekki lengur í þeim en til tólf á miðnætti, fæturnir þola ekki meira.“

Brynhildur segir það ekki algengt að finna skó hér á landi sem smellpassa svona á hana. „Ég keypti þessa í Flex í Bankastræti í sumar. Þeir stóðu uppi í glugga og kölluðu svo hátt í mig. Ég sneri mér við til að athuga hver væri að hrópa og þarna stóðu þeir og biðu. Það er gjarnan þannig með skó,“ segir Brynhildur og viðurkennir fúslega að vera með skóáráttu. „En það þarf ekkert að lækna svoleiðis, ég get lifað nánast eðlilegu lífi með þessu.“ Brynhildur segist þó ekki safna skóm en að kannski geri hún það seinna ef fjárráð leyfa. „Í dag á ég fáa en sérstaka skó.“

Ljósmynd/Tímarit.is

Í janúar 2005 var Brynhildur  tekin fyrir í liðnum „Kostir og Gallar“ í DV. Fram  kom að kostir Brynhildar væru þeir að hún væri „sterk leikkona, hæfileikarík og metnaðargjörn.“

Hún er ákveðin og víðsýn, finnur nýjar hliðar á öllum málum og kann að nálgast hluti svo hún geti unnið með þá. Hún leggur sig alla fram við það sem hún tekur sér fyrir hendur og er glaðleg og skemmtileg.

Gallar Brynhildar voru sagðir vera þeir að hún ætti það til að vera „of ákveðin, svo það jaðraði við þrjósku. Hún fæst ekki til að víkja frá þeim ákvörðunum sem hún tekur. Hún er stundum of dómhörð á sjálfa sig og umhverfi sitt. Hún er er lítillát þrátt fyrir að hafa gert stóra hluti.“

Edda Arnljótsdóttir, leikkona og vinkona Brynhildar, lýsti henni sem dásamlegri manneskju „og ótrúlega klár.“ Þá lýsti Harpa Þórsdóttir, listfræðingur og vinkona Brynhildar, henni sem einstaklega fjölhæfri. „Hún er ein af fáum manneskjum sem ég þekki sem getur bókstaflega allt. Ef hún vill eitthvað þá leitar hún leiða til að ná því, hún nær árangri í öllu sem hún ætlar sér. Hún er ótrúlega hæfileikarík og ferlega fyndin. Hún getur verið frekar gagnrýnin, bæði á sjálfa sig og aðra.“

Fjölhæf með eindæmum

Af öðrum hlutverkum sem Brynhildur hefur hlotið mikið lof fyrir má nefna Sólveigu í Pétri Gauti árið 2006, Brák árið 2008, Danielu í Gullregni Ragnars Bragasonar árið 2013 og Njál í Njálu árið 2016, en hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir öll framan nefnd hlutverk. Fyrir utan leikhúsið hefur Brynhildur farið með hlutverk í kvikmyndum á borð við Okkar eigin Osló, Duggholufólkið, Málmhaus og Sumarbörn. Þá hefur hún leikið í sjónvarpsþáttaröðum á borð við Heimsendi og Stelpurnar, þar sem hún var einnig ein af handritshöfundum. Þá hefur hún nokkrum sinnum komið fram í áramótaskaupi RÚV.

Brynhildur hefur einnig látið til sín taka sem leikskáld. Hún hreppti Grímuverðlaunin 2008 sem Leikskáld ársins fyrir Brák sem samið var sérstaklega fyrir Söguloft Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi. Þetta sama ár hlaut Brynhildur styrk úr Minningarsjóði frú Stefaníu Guðmundsdóttur árið 2008 og var einnig handhafi Íslensku bjartsýnisverðlaunanna. Þá skrifaði hún, og lék aðalhlutverkið í Frida, viva la vida sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu árið 2009, en verkið fjallaði um ævi og störf mexíkósku listakonunnar Fridu Kahlo.

Árið 2011 bauðst Brynhildi að fara á styrk sem rannsóknarnemi í leikritun í Yale, en það er þriggja ára nám sem hún fékk að taka á einu ári, sökum reynslu og fyrri starfa. Árið 2014 ræddi hún við Fréttatímann um ákvörðunina um að fara út í óvissuna. „Ég bara ákvað að fara þó svo að ég vissi í raun ekkert hvert ég væri að fara. Það krafðist alveg gífurlegs hugrekkis fyrir mig að segja bless við öryggið. Þegar maður er búinn að vera í fastri vinnu á gemsanum og bara skipta um gír.“

Á öðrum stað í viðtalinu sagðist Brynhildur vera mjög heimakær. „Mér líður eiginlega best hérna í húsinu mínu.“

Það sama ár ræddi við Fréttablaðið við nokkra af samstarfsmönnum Brynhildar og bað þá um að lýsa henni í stuttu máli.

„Hún er rosalega frjó, gefandi og hlýr karakter. Hún er mjög klár og gefur allt í það sem hún gerir. Hún er allt umvefjandi karakter, það er allt eða ekkert hjá henni. Hún er mjög orkumikil og það er í henni svona frumkvöðull. Svo er hún bara manneskja sem er gaman að tala við um allan andskotann. Bæði klár og hlý,“ sagði Arndís Hrönn Egilsdóttir leikkona.

„Hún sannar þetta með smár og knár, flestum betur. Hefur bein í nefinu. Og það er ekkert smá nef. Svo er hún hjarta- og hugumstór. Örlát, blíðlynd og fanta lista maður,“ sagði Ólafur Egill Egilsson, leikari og leikstjóri. Þá sagði Nína Dögg Filippusdóttir leikkona að Brynhildur væri „eitt hæfileikabúnt.“

„Hæfileikar í hverju horni hjá þessari stelpu. Hún er einnig bráðskemmtileg og rosalega vel gefin enda með nokkrar háskólagráður. Fegurðin skín úr augum hennar sem hún gefur af sér til allra.“

Árið 2014 lék Brynhildur Karítas í samnefndu verki Kristínar Marju Baldursdóttur sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu. Hún skrifaði einnig verkið Fíl sem sett var upp í Kassanum í Þjóðleikhúsinu það sama ár. Það var fyrsta leikverkið sem Brynhildur skrifaði sem ekki var byggt á sögulegum grunni, en í fyrrnefndu viðtali við Fréttatímann lýsti hún því sem verki um „konu og karl sem bæði hafa beðið andlegt og tilfinningalegt skipbrot og mismunandi leiðir þeirra til að takast á við það.“

Á seinustu árum hefur Brynhildur fært sig æ meir af sviðinu og yfir í leikstjórnina. Árið 2018 var hún sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar.

Orðin södd sem leikkona

Brynhildur er í sambúð með Heimi Sverrissyni kvikmyndagerðarmanni. Hún var áður gift Atla Rafni Sigurðssyni leikara og eignuðust þau dótturina Rafnhildi. Áður bjuggu þau Bryn­hild­ur og Heim­ir í vest­ur­bæ Reykja­vík­ur en fyrr á árinu festi parið kaup á fast­eign­inni Fáfn­is­nesi 3 en húsið teiknaði Þor­vald­ur S. Þor­valds­son arki­tekt og var það kosið feg­ursta hús Reykja­vík­ur 1973.

Seinasta vor losnaði staða leikhússtjóra Þjóðleikhússins og fljótlega fór að berast sögusagnir þess efnis að Brynhildur hefði áhuga á stöðunni.

„Ég er manneskja með mína menntun, framgang í listum, á 48. aldursári og er að hugleiða það alvarlega; hvort ég eigi ekki bara að sækja um þetta starf. Ég er ekki þekkt fyrir að klúðra málum. Ég hef bara sagt þetta í þröngum hópi minna vina. Staðan er laus og tíminn líður. Maður vill veg íslenskrar leiklistar sem mestan og bestan. Um annað snýst það ekki,“ sagði hún þegar Vísir bar orðróminn undir hana í maí síðastliðnum. Magnús Geir Þórðarson, fyrrverandi borgarleikhústjóri, var að lokum ráðinn í starfið en fram kom að Brynhildur hefði verið ein af umsækjendum.

Eftir að staða borgarleikhússtjóra var síðan auglýst laus til umsóknar breiddust út margar getgátur um hver myndi hreppa hnossið. Nafn Brynhildar bar þá á góma. Stjórn­ ­Leik­­fé­lags Reykja­víkur ákvað þó að birta ekki nöfn þeirra sjö sem sóttu um stöðu borg­­ar­­leik­hús­­stjóra.

Þann 14. febrúar síðastliðinn var síðan tilkynnt að Brynhildur hefði verið ráðin sem næsti leikhússtjóri Borgarleikhússins en fagnaðarlætin munu hafa verið mikil þegar starfsmönnum leikhússins var tilkynnt um ráðninguna á sameiginlegum fundi. Brynhildur mun taka við starfinu af Kristínu Eysteinsdóttur um næstu mánaðamót. Í samtali við Fréttablaðið á dögunum lofaði hún spennandi tímum.

„Þetta eru náttúr­­lega mjög stór tíma­­mót í mínu lífi. Ég er að stíga inn á nýjan vett­vang í leik­hús­heiminum þar sem ég lifi og hrærist. Ég var bara orðin södd sem leik­­kona og fann að ég varð að blaka mínum vængjum á annan hátt. Mitt yndi er að fá að segja sögur og það geri ég bara með öllum þeim meðulum sem leik­húsið býður upp á. Nú var bara komið að því að ég vildi fá að þakka fyrir mig og segja sögur á annan hátt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

10 kostulegustu Facebook-hóparnir á Íslandi

10 kostulegustu Facebook-hóparnir á Íslandi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jesús, djöfullinn og Björn – Mikil leynd hvílir yfir kvikmyndinni

Jesús, djöfullinn og Björn – Mikil leynd hvílir yfir kvikmyndinni
Fókus
Fyrir 5 dögum

Yfirmenn Reebok Fitness bornir þungum sökum – „Þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slysin gerast“

Yfirmenn Reebok Fitness bornir þungum sökum – „Þetta er ekki spurning um hvort, heldur hvenær slysin gerast“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Þetta er manneskjan sem ber ábyrgð á öllum óþolandi Tik Tok-dönsunum sem barnið þitt elskar

Þetta er manneskjan sem ber ábyrgð á öllum óþolandi Tik Tok-dönsunum sem barnið þitt elskar
Fókus
Fyrir 1 viku

Ráð fyrir fjölkært fólk til að díla við COVID-19 – „Fyrir fólk sem á fleiri en einn maka getur verið mjög erfitt að vera í sóttkví“

Ráð fyrir fjölkært fólk til að díla við COVID-19 – „Fyrir fólk sem á fleiri en einn maka getur verið mjög erfitt að vera í sóttkví“
Fókus
Fyrir 1 viku

Leifur, níu ára, segir slæmt að eiga afmæli í dag og hlakkar til þess að kórónuhelvítinu ljúki – „Eins og hjá frænku minni sem á afmæli 11. september“

Leifur, níu ára, segir slæmt að eiga afmæli í dag og hlakkar til þess að kórónuhelvítinu ljúki – „Eins og hjá frænku minni sem á afmæli 11. september“