fbpx
Sunnudagur 17.janúar 2021
Fókus

Fór í Ayahuasca-athöfn sem vakti hana til lífsins – „Það hófst annar kafli eftir það“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 20. desember 2020 09:00

Beta Reynis. Mynd/Olga Helgadóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Næringarfræðingurinn Elísabet Reynisdóttir, betur þekkt sem Beta Reynis, segir sögu sína á einlægan og fallegan hátt í nýju bókinni Svo týnist hjartaslóð. Beta segir höfund bókarinnar, Valgeir Skagfjörð, ekki aðeins hafa skrifað sögu hennar heldur hafi hann einnig heilað hana og hjálpað henni að horfast í augu við fortíð sína.

Svo týnist hjartaslóð segir frá baráttu Betu við að komast í gegnum veikindi og fóta sig aftur í lífinu. Hún segir frá átakanlegri ástarþráhyggju og meðvirkni sem hún hefur glímt við. Í samtali okkar rifjar Beta upp kafla úr bókinni sem er henni einstaklega áhrifamikill. „Þetta lýsir þegar ég stend á þessum tímamótum, að fatta að ég er komin í algjört rugl,“ segir hún.

Kafli úr bókinni

„Þessar vangaveltur gera ekkert gagn. Þær gera ekkert annað en að sökkva mér lengra ofan í sálardjúpið, blinda skynjun mína og bregða svefnhöfgi yfir innsæið. Þegar einar dyr lokast opnast aðrar. En ég kem ekki auga á neinar aðrar dyr. Ég mæni á þessar sem hafa lokast á mig og bíð eftir því að þær opnist aftur. Þá kemur sjálfsbjargarviðleitnin til skjalanna. Hún er eins og sjálfvalin stýring sem ýtir mér í einhverja átt án íhlutunar míns eigin vilja eða ásetnings. Ég gríp í það haldreipi eins og svo margir gera. Ég leita á náðir lyfja til að deyfa sársaukann svo ég komist í gegnum daginn og annarra lyfja til að hjálpa mér yfir landamæri vökunnar og svefnsins. Allt svo þekktar aðferðir. Ég kynntist þeim í veikindum mínum og þótt það hafi fennt í sporin kann ég enga betri aðferð til að bæta líðanina.

Svo nú er ég ekki bara fráskilin kona á fimmtugsaldri. Ég er fráskilin fjörutíu og átta ára gömul tveggja barna móðir á þunglyndis- og svefnlyfjum í þráhyggju yfir manni sem hefur hafnað mér og sorg yfir manninum sem ég hef skilið við; og þar að auki í bullandi skömm gagnvart öllu og öllum fyrir að vera á þessum stað í lífinu.“

Heimaeyjargosið

Beta var aðeins fjögurra ára gömul þegar hún var vakin um miðja nótt og þurfti að flýja heimili sitt vegna Heimaeyjargossins, þann 23. janúar 1973. Þessi upplifun hafði mikil áhrif á Betu og verður hún smá klökk þegar við ræðum um hana.

„Sumar tilfinningar hef ég lokað inni. Þegar við Valli fórum að ræða þetta og ég fór að upplifa þessa gosnótt, þá áttaði ég mig á að ég hef alltaf átt erfitt með að tala um hana,“ segir hún.

Í bókinni fléttast inn minningar Betu úr æsku, frá nóttinni örlagaríku, hvað hafi tekið við, lífi hennar sem stúlku og seinna meir ungrar konu, ásamt sögum af forfeðrum hennar.

Beta Reynis. Mynd/Olga Helgadóttir

Kippt út úr tilverunni

Þegar Beta var 33 ára og í blóma lífsins, með tvö ung börn, þar af annað aðeins þriggja mánaða, var henni kippt út úr tilverunni þegar hún skyndilega veiktist og greindist með sjaldgæfa taugasjúkdóminn Guillian-Barré. Í nokkra mánuði lá Beta lömuð inni á spítala og í endurhæfingu á Grensás. Um tíma var hún viss um að þetta væru endalokin, hún væri að deyja.

Í bókinni fer Beta yfir þennan tíma, allt frá greiningu sjúkdómsins, í gegnum stærstu niðursveiflurnar og endurhæfinguna sem tók allan hennar lífsins vilja og kraft.

„Líf mitt breyttist þegar ég veiktist. Ég þurfti að búa mér til líf í öðru umhverfi. Allt í einu var ég heilsulaus. Ég var við dauðans dyr en fékk upprisu. En ég fékk aldrei tækifæri til að syrgja það að hafa misst heilsuna,“ segir hún og bætir við að það hafi tekið gríðarlega á að fara frá því að vera fullfrísk kona með marga bolta á lofti í að vera ári seinna með rétt svo næga orku til að koma börnunum út í leikskóla og skóla og kannski út í búð.

Það liðu nokkur ár þar sem Beta var föst í þessu undarlega lífi sem henni fannst ekki vera sitt eigið. Hún þekkti ekki sjálfa sig, glímdi við heilsubrest og var orkulaus. Hún ákvað að taka málin í eigin hendur og lærði næringarfræði.

„Ég gefst ekki upp. Ég leita einhverra leiða til að finna líf mitt og heilsuna mína aftur. En það var ekki fyrr en í desember í fyrra sem ég fór í athöfn sem vakti mig til lífsins. Það hófst annar kafli eftir það,“ segir hún og vísar til skynörvandi lyfsins Ayahuasca, sem er gjarnan notað í athöfnum til að vinna úr áföllum og tilfinningalegum sársauka.

Þar byrjaði úrvinnslan

Beta taldi sig vera á góðum stað í desember í fyrra en sú skoðun átti eftir að breytast. Það var röð tilviljana sem leiddu til þess að hún fór í Ayahuasca-athöfn og fann loksins sinn innri frið.

„Ég ákvað að fara í athöfnina en hafði ekki hugmynd um hvað ég átti í vændum. Þar upplifði ég lömunina, veikindin, óttann við dauðann, höfnun. Það var eins og einhver hefði opnað vídd í hausnum mínum, þar sem ég var búin að troða poka niður í svarthol og loka. Þar byrjaði úrvinnslan sem varð til þess að ég fer í röð viðtala og úr því kom hugmyndin að ég ætti að skrifa bók,“ segir Beta.

Síðan þá hefur hún farið í nokkrar athafnir með sjamönum sem hún treystir fullkomlega.

Beta Reynis. Mynd/Olga Helgadóttir

Veikindin og hjónabandið

Í bókinni opnar Beta sig um ástina, sambönd og höfnun. Í dag segist hún sjá að hún hafi verið haldin rómantískri ástar-þráhyggju og verið vanmáttug af meðvirkni. Beta hefur sótt Al-Anon fundi um árabil og einnig fundi fyrir ástarfíkla.

Veikindin höfðu mikil áhrif á hjónaband hennar og segir Beta frá því að hún hafi upplifað tvenns konar ótta, ótta um að missa eigið líf annars vegar og ótta um að missa eiginmann sinn hins vegar.

„Finnst að við eigum að rækta sambandið og heila okkur en þá dynja á okkur lífsins óviðbúnu áföll og við náum ekki að vinna úr neinu þeirra áður en það næsta hrynur yfir,“ segir Beta í bókinni um hjónaband sitt.

Ætlaði að klára þetta

Á einum tímapunkti var Beta komin nær því að gefast upp en nokkurn tíma áður. Hún var í ástarsorg og verkjaði svo í hjartað að hana langaði ekki að lifa lengur. Hún rifjar það augnablik upp í bókinni. „Ég tek í stýrið og stefni beint framan á flutningabílinn. Best að klára þetta. Hávær og langdreginn lúðraþytur berst frá flutningabílnum. Ég bíð eftir skellinum […] Það er eins og einhver rífi í stýrið hjá mér rétt áður en bílarnir rekast á og bíllinn stefnir út í kant.“

Við ræðum aftur um tenginguna við Guð og æðri mátt og segist Beta vera viss um að þarna hafi einhver gripið inn í og bjargað henni. Aðspurð hvernig það hafi verið að opna sig um svona ótrúlega persónulega og viðkvæma reynslu í bókinni viðurkennir hún að það hafi verið erfitt.

„Ég hafði aðeins sagt frá þessu atviki á Al-Anon fundum og það vissi eiginlega enginn af mínum nánustu af þessu. Ég hef horfst í augu við þetta og hef þurft að lýsa þessu augnabliki og tilfinningunni þegar þér finnst ekki þess virði að lifa, ég hélt að mér myndi aldrei líða þannig. En ég veit núna að það eru margir sem hafa átt svona augnablik og ég bið fólk um að leita sér hjálpar, því þetta líður hjá,“ segir hún.

Tilfinningaþrungin stund á Esjunni

Frá því að Beta var lömuð og var að glíma við eftirköst veikindanna átti hún sér draum um að ganga Esjuna. Það liðu sextán ár þar til hún lét þann draum rætast. Hún lýsir stundinni þegar hún kom loksins á toppinn.

„Þetta voru blendnar tilfinningar. Ég hefði getað farið fyrr upp Esjuna en ég geymdi það, ég veit ekki af hverju. Þetta er eins og þú myndir alltaf geyma besta súkkulaðið því þú myndir ekki tíma að borða það. Ég horfði oft á Esjuna og hafði margoft rætt við vini mína um að fara með mér, því ég vissi að þetta yrði tilfinningaþrungin stund,“ segir hún.

Beta fór að lokum upp Esjuna með nágrannakonu sinni, sem hún segir að hafi verið hárréttur félagsskapur í þetta verkefni sem hafi verið frekar andlegt heldur en líkamlegt. „Þetta var töfrum líkast. Ég held þetta hafi verið stund fyrir mig að klára þetta, sleppa takinu á þessum veikindum og draumum að ég væri komin þarna og nú gæti ég haldið áfram. Þetta var dásamleg tilfinning að standa þarna uppi á Steini og horfa yfir Reykjavík.“

Kom út sem heil manneskja

Þetta er fyrsta bók Valgeirs og var Beta á báðum áttum hvort hún væri tilbúin að opna sig á þennan hátt fyrir framan alþjóð. Í dag er hún fegin því bókin spilaði stórt hlutverk í að hjálpa henni að finna innri frið. „Valgeir tók mig í ótrúlega þerapíu. Ég sagði við hann í lokin: Þó ég borgi allan þennan kostnað og það komi aldrei út nein bók þá kom heil manneskja úr þessu samstarfi,“ segir Beta.

„Með því að vera sönn, ef ég get hjálpað einhverjum, þá verð ég sátt. En ég veit það stundum ekki hvað varð til þess að ég opinberaði mig svona. Ég segi það bara í hreinskilni, þá held ég að það hafi verið einhver sem ýtti okkur áfram,“ segir Beta og bætir við að stundum velti hún fyrir sér hvort það sé heimska eða æðri máttur sem ráði för.

Bað til æðri máttar

Í gegnum árin hefur lífið fært Betu krefjandi verkefni, sem sum hafa verið henni um megn, og á þeim tímum hefur hún leitað til æðri máttar. Hún rifjar upp 2017, sem reyndist henni erfitt ár.

„Eitt við mig, ég gefst ekki upp en ég var alveg að bugast. Ég bað til Guðs og æðri máttar um hjálp og mér fannst ég alltaf vera leidd áfram,“ segir hún og nefnir að í gegnum ótrúlegar tilviljanir hafi vegir hennar og annarra legið saman og í gegnum það hafi hún fengin einstök tækifæri. Hún nefnir vinskap sinn og listakokksins Alberts Eiríkssonar.

„Það er eins og ég hafi staðið á leiksviði og lífið hafi sent mér réttar manneskjur á réttu augnablikunum til að hjálpa mér,“ segir hún.

Beta Reynis. Mynd/Olga Helgadóttir

Hefði vilja horfast í augu við óttann

Þegar Beta horfir til fortíðarinnar hugsar hún að hún hafi gert margt rétt í veikindunum. Hún dvaldi oftast ekki í að hún væri svona veik. Á meðan hún brosti lömuð í sjúkrahúsrúminu grétu vinir hennar frammi á gangi.

„Ég vildi að ég hefði fengið þá hjálp við að horfast í augu við óttann minn, því ég var auðvitað óttaslegin. Í staðinn bældi ég hann niður og harkaði af mér. En ég er líka þakklát fyrir að ég hafi ekki alveg áttað mig á alvarleikanum,“ segir hún.

Beta segir að hún hafi velt því fyrir sér hvort hún hefði náð sér fyrr ef hún hefði fengið að tala um tilfinningar sínar, ótta og vanmátt sinn gagnvart því að hugsa um börnin sín eftir veikindin. „Ég var ekki hæf til að vera eiginkona eða móðir, ég var ekki hæf til að fara aftur út í lífið. En einhvern veginn var kerfið okkar þannig að það var litið svo á að ég hefði náð mér af sjúkdómnum og var send heim, fékk einhvern hjólastól og svo bara bless. Þetta var svo erfitt því ég sagði aldrei neitt, ég sagði ekki að ég væri að bugast. Árin liðu og ég komst í gegnum þetta. Sem betur fer.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er ástfanginn af uppáhalds vændiskonunni minni“

„Ég er ástfanginn af uppáhalds vændiskonunni minni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þess vegna mega aðeins ógiftar og barnlausar konur keppa í Miss Universe Iceland

Þess vegna mega aðeins ógiftar og barnlausar konur keppa í Miss Universe Iceland
Fókus
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar 10 vísbendingar um að kona sé að daðra við þig

Afhjúpar 10 vísbendingar um að kona sé að daðra við þig
Fókus
Fyrir 3 dögum

Klikkuðustu beiðnirnar sem hún hefur afgreitt á OnlyFans – „Hafið þið heyrt um Fruit Looping?“

Klikkuðustu beiðnirnar sem hún hefur afgreitt á OnlyFans – „Hafið þið heyrt um Fruit Looping?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þess vegna deilir Páll Óskar aldrei myndum af heimilinu sínu

Þess vegna deilir Páll Óskar aldrei myndum af heimilinu sínu
Fókus
Fyrir 5 dögum

Nicole Kidman afhjúpar „óhugnanlegar“ aukaverkanir sem hún upplifði eftir leik

Nicole Kidman afhjúpar „óhugnanlegar“ aukaverkanir sem hún upplifði eftir leik