fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Unnur Sara tvöfaldaði tekjurnar í Covid

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 6. desember 2020 09:00

Unnur Sara Eldjárn. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarkonunni Unni Söru Eldjárn tókst að snúa vörn í sókn og tvöfalda tekjurnar í COVID-faraldrinum. Hún kennir nú öðrum tónlistarmönnum að gera slíkt hið sama.

Tónlistarkonan Unnur Sara Eldjárn varð, eins og flestir tónlistarmenn, skyndilega atvinnulaus í vor þegar fyrsta bylgja kórónuveirufaraldursins reið yfir. Það fékk hana til að prófa nýja hluti sem hafa skilað sér í mikilli tekjuaukningu frá tónlistarveitunni Spotify, raunar svo mikilli að núna er hún að kenna öðrum listamönnum hvernig snúa megi ástandinu sér í hag.

„Allt í einu var ég með margar klukkustundir á dag sem ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera við. Þetta eru svo ótrúlega skrítnir tímar svo ég passaði mig á því að búast ekki við neinu sérstöku af mér. Ég fylgdi einfaldlega því sem lét mér líða vel og hjálpaði tímanum að líða örlítið hraðar. Sjálfsmildi er svo mikið lykilatriði í þessu. Það kom mér virkilega á óvart að ég skyldi svo fá brjálaðan áhuga á þessum heimi streymisveitnanna,“ segir hún.

Unnur gaf út sína aðra breiðskífu „Unnur Sara syngur Gainsbourg“ árið 2018 og er lagið „La javanaise“ komið með yfir 1,3 milljónir spilana á Spotify.

„Það gerðist einmitt út af lagalista sem ég komst inn á fyrir tilviljun á sama tíma og platan kom út. Sú reynsla sýndi mér að það væri alveg þess virði að skoða þetta nánar. Þótt sú gagnrýni eigi fullkomlega rétt á sér að Spotify borgi listamönnum ekki nóg eru þetta samt tekjur sem fara að skipta máli þegar maður er kominn á marga lagalista eða einn stóran og er að fá reglubundna spilun á hverjum sólarhring. Mér tókst til dæmis að tvöfalda mínar tekjur með þessari vinnu minni í vor og ætla þess vegna að leggja meiri áherslu á þessa hluti með nýju plötuna mína sem kemur út á næsta ári og inniheldur líka ábreiður af franskri tónlist.“

Unnur Sara Eldjárn. Mynd/Valli

Heldur námskeið

Fyrir þremur vikum hélt Unnur Sara fyrsta námskeiðið fyrir tónlistarmenn um hvernig er hægt að komast á lagalista Spotify.

„Það voru margir tónlistarmenn að senda mér skilaboð og spyrja mig um það hvernig ég gerði þetta. Ég ákvað bara að svara eftirspurninni með því að auglýsa námskeið á Zoom,“ segir Unnur og bætir við að viðbrögðin hafi farið fram úr hennar björtustu vonum. Hún hefur nú haldið nokkur námskeið fyrir 50 íslenska listamenn.

„Það er búið að vera ótrúlega gaman hjá okkur. Ég hef fengið fréttir af því að einhverjir hafi komist inn á lagalista í kjölfarið, en skemmtilegast finnst mér að heyra að fólk upplifi að það geti í alvöru verið gaman að markaðssetja tónlistina sína á netinu. Þetta er samt að sjálfsögðu ekki fyrir alla. Það fer auðvitað svolítið eftir hvaða tónlist viðkomandi er með, hversu vel hún hentar á lagalista.“

Bjartsýn

Unni Söru þykir sárt að sjá hvaða áhrif kórónuveirufaraldurinn hefur haft á listamenn og menningarstarfsemi, hún er samt sem áður bjartsýn á ný tækifæri.

„Að vera tónlistarmaður snýst mikið um að geta aðlagað sig nýjum aðstæðum og geta átt mismunandi tímabil. Ég vil meina að núna geti líka verið tækifæri til að fara út fyrir þægindarammann og prófa eitthvað nýtt, sem endar jafnvel á að virka betur en það sem maður var að gera áður. Maður sér með listamenn eins og Helga Björns, Daða Frey og Bríeti góð dæmi um hvernig hægt er að aðlaga sig breyttum aðstæðum og koma tónlistinni sinni á framfæri á nýjan og skapandi hátt. Í því samhengi er ég fullviss um að það séu ónýtt sóknarfæri inni á lagalistum Spotify fyrir marga íslenska tónlistarmenn. Það er allavega nægur tími akkúrat núna til að kanna málið,“ segir hún.

Unnur Sara Eldjárn. Mynd/Valli

Sviðslistir

Unnur Sara byrjaði í BA-námi í sviðslistum í haust í Montpellier í Suður-Frakklandi. Hún hefur verið mikið í tónlist frá því að hún man eftir sér og þykir gaman að fá að þróa sig á öðrum vettvangi listarinnar. Unnur Sara segir að fólkið í Suður-Frakklandi sé indælt og opið.

„Það er kannski veðurfarið sem hefur þessi áhrif að það er ekki sama lífsgæðakapphlaup þarna eins og víða. Maður fær meira rými til að vera og njóta. Svo eru Frakkarnir alveg einstaklega duglegir að bjóðast til að hjálpa manni við hvað sem er, það er hægt að læra ótrúlega margt af menningunni þarna,“ segir hún.

Unnur Sara dvaldi í Nice í fjóra mánuði á síðasta ári.  „Þar komst ég að því að landið er alveg jafn frábært og franska tónlistin sem ég hef verið að hlusta á og syngja og því einföld ákvörðun að fara aftur til Suður-Frakklands í nám”.

Útgöngubann

Unnur Sara segist hafa verið búin að ákveða að fljúga heim til Íslands ef sett yrði á útgöngubann í Frakklandi, sem gerðist fyrir nokkrum vikum. Hún er nú á Íslandi og stundar fjarnám.

„Maður er ótrúlega heppinn að vera frá Íslandi og eiga val um að koma heim í svona ástandi. Nú bíð ég bara spennt eftir því að fá að fara út aftur í janúar þegar ástandið verður vonandi orðið betra og halda áfram með líf mitt í Montpellier.“

Unnur Sara gaf út lagið Zou Bisou Bisou í september og ætlar að gefa út plötu næsta sumar. Lögin verða í svipuðum anda, frönsk popptónlist frá sjöunda áratugnum.

Þú getur fylgst með Unni Söru á Facebook (facebook. com/unnursaramusic) og lesið nánar um námskeiðið hennar á Facebook-viðburðinum „Hvernig kemst ég inn á Spotify playlista?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki