fbpx
Þriðjudagur 19.janúar 2021
Fókus

Erfiðleikarnir móta mann gríðarlega mikið

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 29. nóvember 2020 09:12

Skúli Bragi Geirdal. Mynd/Valli

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlamaðurinn og frumkvöðullinn Skúli Bragi Geirdal er aðeins með 24 tíma í sólarhringnum en lætur það ekki stoppa sig. Samhliða vinnu sem dagskrárgerðarmaður var hann að gefa út spil og kaffimál. Skúli veit að mikil vinna skilar sér, hann fór frá því að vera sextán ára á blóðþrýstingslyfjum vegna ofþyngdar, í að keppa á Íslandsmóti í fitness.

Skúli Bragi Geirdal er 28 ára Akureyringur sem er nýfluttur suður til Reykjavíkur. Hann er dagskrárgerðarmaður hjá N4 og grafískur hönnuður. Hann var að gefa út spilið Kjaftæði, og Umhverfismálið, sem er kaffimál búið til úr kaffi, með tveimur vinum sínum.

Skúli þekkir það af eigin raun að leggja inn vinnuna og uppskera það sem hann sáir. Þegar hann var 16 ára var hann í mikilli yfirþyngd og á blóðþrýstingslyfjum. Hann hefur síðan þá keppt tvisvar í fitness og leggur ríka áherslu á að hafa jafnvægi á milli hreyfingar og næringar til að líða sem best, bæði líkamlega og andlega.

Spilið kjaftæði er komið í verslanir. Aðsend mynd.

Kjaftæði

Það er óhætt að segja að enginn dagur sé eins hjá Skúla Braga. „Ég er svona „alt muligt man“ á N4. Ég geri allt frá að græja sjónvarpsfrétt í að setja upp auglýsingar fyrir Dagskrána, ritstýra blaðinu eða búa til sjónvarpsþætti,“ segir hann. En þar með er vinnudegi Skúla ekki lokið. Hann er að vinna í hinum ýmsu verkefnum á hliðinni.

„Ég og tveir félagar mínir, Elís Orri Guðbjartsson og Sindri Már Hannesson, vorum að gefa út vöru sem heitir Umhverfismálið, sem er kaffimál búið til úr kaffi, og fjölskyldu- og partýspilið Kjaftæði.“

Þetta byrjaði allt á því að þá þrjá langaði að gera eitthvað saman. Þeir voru með fundi reglulega þar sem hver þeirra þurfti að koma með þrjár hugmyndir, sama hversu bjánalegar þær voru.

„Svo fórum við yfir hugmyndirnar og gerðum þetta nokkrum sinnum. Síðan komust við að þeirri niðurstöðu að það væri sniðugast að búa til spil. Við hugsuðum hvernig við gætum sameinað þá hæfileika sem við búum yfir. Mínir hæfileikar liggja helst í hönnun, þannig ég gat til dæmis séð um að teikna upp alla grafík, búa til kassann og hanna spjöldin og allt sem tengist vörunni sjálfri. Svo koma þeir sterkir inn og sjá um sölu og markaðssetningu. Þetta tók eitthvað í kringum eitt og hálft ár, frá a til ö.“

Skúli Bragi með umhverfismálið. Aðsend mynd.

Ótrúlegt ævintýri

Það stóð fyrst til að gefa spilið út fyrir síðustu jól en það gekk ekki upp. Þá ákváðu vinirnir að nýta tímann og gefa út aðra vöru, Umhverfismálið, sem er fjölnota kaffimál búið til úr endurunnum kaffikorgi, ásamt öðrum náttúrulegum bindiefnum.

Skúli segir að þetta hafi verið ótrúlegt ævintýri og hann hefur lært mikið í þessu ferli. Það helsta er að áhuginn þarf að vera til staðar. „Ég hef ekki verið á launum undanfarin tvö ár sem ég hef unnið í þessu, ég vinn á kvöldin og nýti frítímann í þetta. Ég held að eitthvað annað en peningar þurfi að drífa mann áfram, allavega til að byrja með.“

Félagarnir eru hvergi nærri hættir. Það stendur til að búa til loftljós og hefur Skúli Bragi fjölda hugmynda sem hann langar að koma í verk.

Skúli Bragi Geirdal. Mynd/Valli

Fyrst að þóknast foreldrunum, svo að skapa

Skúli Bragi lýsir sér sem mjög skapandi einstaklingi, en hann kláraði einn kafla áður en hann gat byrjað á næsta. Foreldrar hans lögðu mikla áherslu á bóknám og fór hann í háskóla til að þóknast þeim. Eftir að hann útskrifaðist með BS-gráðu fannst Skúla hann loksins geta leyft sér að fara í listnám.

„Það opnaði á allar þessar dyr. Það opnaði á alla sköpun, ég komst í tæki og tól til að koma þessu frá mér, allri þessari sköpunarorku sem ég hafði til þessa ekki vitað hvað ég ætti að gera við,“ segir Skúli Bragi.

Skúli Bragi er nýfluttur til Reykjavíkur og vinnur í fjarvinnu. Hann á fjögurra ára gamla dóttur, Eygló Aríu, á Akureyri og segir að það erfiðasta við að flytja nær verkefnum sínum sé að vera fjær henni. „Maður verður að setja fordæmi. Ég myndi vilja að hún myndi elta sína drauma. Ég þurfti að læra það sjálfur að elta mína drauma, sem eru listræn og skapandi störf. Ég myndi ekki vilja að hún færi í nám fyrir mig. En hún þarf líka að sjá að pabbi hennar gerir það sem honum finnst skemmtilegt og eltir það,“ segir hann.

16 ára og á blóðþrýstingslyfjum

Þegar Skúli Bragi var sextán ára ákvað hann að breyta um lífsstíl. „Ég var alltaf í mikilli yfirþyngd í gegnum alla grunnskólagönguna. Ég forðaðist það eins og heitan eldinn að fara í íþróttatíma. Sjálfstraustið var lítið, andleg líðan mjög slæm og ég var kominn á lyf fyrir of háan blóðþrýsting á þessum tíma. Þannig að ástandið var orðið mjög slæmt, bara sextán ára,“ segir Skúli Bragi.

„Það mætti segja að það hafi verið mitt „wake up call“ – að vera kominn á lyf vegna offitu aðeins sextán ára gamall. Ég ákvað að taka mig taki, en fékk í raun enga aðstoð við það, sem eftir á hyggja var frekar erfitt. En ég byrjaði bara hægt. Ég byrjaði að taka út gos, svo tók ég út brauð og svo framvegis. Ég tók þetta út í skömmtum og hreyfði mig aðeins með, byrjaði á því að ganga, fór svo að hlaupa,“ segir hann.

Það var tveggja kílómetra hringur í hverfinu hans. Hann byrjaði á því að hlaupa að einum ljósastaur, svo hljóp hann að næsta og svo framvegis þar til hann gat hlaupið einn hring. „Það tók mig dágóðan tíma að geta hlaupið þennan hring án þess að stoppa. Í dag þegar ég hleyp mína tíu kílómetra þá tek ég alltaf þennan hring með til að minna mig á að það sé ekki sjálfsagt að geta hlaupið og farið út að hlaupa,“ segir Skúli Bragi.

Hann segir að vissulega hafi orðið útlitsleg breyting á sér, en stærsta breytingin hafi verið andleg. Sjálfstraustið hafi aukist til muna og honum hafi liðið mun betur.

„Ég set mér alltaf stór markmið og ef ég ætla að gera eitthvað þá vil ég gera það vel. Ég fór með þetta alla leið og keppti tvisvar á Íslandsmótinu í fitness,“ segir hann.

Skúli keppti tvisvar í fitness. Aðsend mynd.

Sama hversu mikið er að gera hjá Skúla Braga þá stundar hann hreyfingu og borðar hollt. „Ég veit hvernig mér líður ef ég er ekki með þessa hluti á hreinu, þannig að þetta verður aldrei kvöð. Þetta er partur af því að ég geti verið skapandi, unnið mína vinnu og verið faðir. Ég held mér góðum andlega með hreyfingu og næringu.“ Það var mikill persónulegur sigur fyrir Skúla Braga þegar hann fékk vinnu sem fótboltaþjálfari, en hann þurfti að hætta að æfa íþróttina á sínum tíma vegna yfirþyngdar.

„Ég var með fyrirlestra fyrir krakkana um næringu og fitness-þjálfun til að koma því til skila hvað það getur hjálpað að borða hollan og góðan mat,“ segir hann.

Notar snyrtivörur

Þegar kemur að snyrtivörum viðurkennir Skúli Bragi ófeiminn að hann noti þær. Hann segir það leitt að hann hafi fundið fyrir fordómum vegna þessa, því hann er gagnkynhneigður karlmaður sem notar snyrtivörur.

„Þegar ég byrjaði að vinna í sjónvarpi þá komst ég að því að þegar maður er í sjónvarpi þarf maður að vera almennilega til fara. Ég fór að leita í snyrtivörur þar sem það er engin sminka sem vinnur á N4, þannig að ég þurfti að sjá um þetta sjálfur,“ segir Skúli Bragi.

„Ég komst að því að ég var sjálfur svolítið feiminn við þetta þegar ég fór að kaupa farða úti í búð. Starfsfólkið var alveg jafn feimið og ég og kunni ekki að ráðleggja karlmönnum.“

En Skúli dó ekki ráðalaus og fékk aðstoð frá vini sínum sem notar einnig snyrtivörur. „Hann er samkynhneigður og ég held að það sé viðurkenndara að samkynhneigðir karlmenn noti snyrtivörur frekar en gagnkynhneigðir. Hann hefur allavega ekki orðið fyrir sama aðkasti og ég fyrir að nota vörurnar,“ segir hann og hlær.

Skúli Bragi í tökum fyrir N4 á Akureyri. Aðsend mynd.

„Upp úr þessu fór ég líka að hugsa um húðina mína og nota viðeigandi vörur. Ég velti því fyrir mér af hverju ég hafi ekkert verið að spá í þessu og hvort maður þurfi virkilega að byrja að vinna í sjónvarpi til að byrja að pæla í þessu. Og þá byrjaði ég að skrifa um þetta til að vonandi einhver karlmaður myndi lesa það og hugsa: Ef hann gerir þetta þá get ég það líka.“

Skúli Bragi viðurkennir að margar vörurnar séu kannski ekki beint heillandi fyrir karlmenn, bleikir brúsar og allt markaðsett fyrir kvenmenn. „En maður þarf kannski að yfirstíga sína fordóma og annarra í þessu. Ég nota þetta í vinnunni og svo er ég farinn að nota þetta mikið í minni daglegu rútínu. Eftir að ég skrifaði um þetta fékk ég fjölda skilaboða og fékk að heyra að ég væri hugrakkur að stíga fram og mér var þakkað fyrir skrif mín. Ég held að það séu fleiri karlmenn sem vilja nota snyrtivörur en gera það, en það getur verið ógnvægilegt að fara inn í verslun og allir starfsmennirnir eru kvenkyns. Þú þarft líka að vera tilbúinn að yfirstíga eigin eitruðu karlmennsku og ganga þarna inn og segja: Mig vantar vörur.“

Skúli Bragi Geirdal. Mynd/Valli

Framtíðin björt

Við ræðum um framtíðina og hver næstu skref hans eru. Svar Skúla Braga er einfalt, hann langar að halda áfram að gera það sem hann er að gera.

„Þegar maður tekur svona verkefni að sér, að leyfa sér að vera maður sjálfur og fara út fyrir þægindarammann, sama hvað það er, stíga fyrir framan myndavél í sjónvarpinu, leyfa sér að fara í listnám, taka sig í gegn og létta sig mikið og standa uppi á sviði í fitness, þetta eru allt sigrar, og sigrar sem koma því maður yfirstígur mótlæti og erfiðleika. Erfiðleikarnir móta mann gríðarlega mikið. Núna er ég í þessum fasa að stofna fyrirtæki og þetta eru ekkert nema veggir sem maður þarf að fara í gegnum. Maður þarf að muna eftir erfiðleikunum og hugsa að maður yfirstígi þá eins og maður hefur oft gert áður. Það stærsta sem ég hef lært af þessu, klisjukennt en satt samt sem áður, er að þú getur gert allt sem þig langar til að gera.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hannes birtir einstakar myndir af Davíð Oddssyni

Hannes birtir einstakar myndir af Davíð Oddssyni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Feminísk kvikmyndahátíð – Meðal annars stuttmynd úr undirheimum Reykjavíkur

Feminísk kvikmyndahátíð – Meðal annars stuttmynd úr undirheimum Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Mæðgur naktar saman í Playboy

Mæðgur naktar saman í Playboy
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ásmundur fylgdi tengdasyni sínum til grafar í dag – „Við eigum góðar minningar um dugnaðar tengdason“

Ásmundur fylgdi tengdasyni sínum til grafar í dag – „Við eigum góðar minningar um dugnaðar tengdason“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Manstu eftir ítalska kyntröllinu Fabio? – Svona lítur hann út í dag

Manstu eftir ítalska kyntröllinu Fabio? – Svona lítur hann út í dag
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mæðgur tóku þungunarpróf saman – Bjuggust ekki við þessu

Mæðgur tóku þungunarpróf saman – Bjuggust ekki við þessu
Fókus
Fyrir 5 dögum

Rebel Wilson var rænt og ógnað með byssu – „Ég var skíthrædd“

Rebel Wilson var rænt og ógnað með byssu – „Ég var skíthrædd“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Sýnir hvernig það er að vera lömuð með „kvíðavaldandi“ æfingu sem allir geta prófað

Sýnir hvernig það er að vera lömuð með „kvíðavaldandi“ æfingu sem allir geta prófað