fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Frumkvöðullinn Alma Möller – „Nú, það er bara engill af himnum ofan“

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 28. nóvember 2020 21:45

Alma á þyrluvaktinni ásamt Helgu Magnúsdóttur lækni. Mynd/GVA/Timarit.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alma Möller er ekki bara fyrsta konan til að vera landlæknir hér á landi heldur var hún einnig fyrsta konan sem starfaði sem þyrlulæknir Landhelgisgæslunnar.

Við lítum á feril Ölmu í Tímavélinni.

Alma Dagbjört Möller er svæfinga- og gjörgæslulæknir og var skipuð landlæknir árið 2018. Hún er fyrsta konan til að gegna þessu embætti. Hún hefur staðið í eldlínunni síðustu mánuði sem hluti af sóttvarnaþríeykinu, ásamt þeim Þórólfi Matthíassyni sóttvarnalækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni. Hún þykir mikill skörungur og axla ábyrgð sína vel. Alma er fædd á Siglufirði 24. júní 1961. Foreldrar hennar eru hjónin Jóhann Georg Möller heitinn sem var verkstjóri og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins á Siglufirði og Helena Sigtryggsdóttir húsmóðir.

Alma er yngst sex systkina. Meðal systkina hennar er Kristján Möller, fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Samfylkingarinnar. Alma er gift Torfa Fjalari Jónassyni hjartalækni og eiga þau tvö börn.

Dúx í menntaskóla

Hún ólst upp á Siglufirði en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1981. Alma var dúx og sagt frá því í blöðunum á sínum tíma. Hún lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1988 og sérfræðinámi í svæfingum og gjörgæslu við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð árið 1995.

Alma prýddi forsíðu DV í september 1991 þegar helgarblaðið fór í sjúkraflugsæfingu með þyrlunni SIF og var ítarlega greint frá æfingunni í blaðinu, en Alma Möller var meðal þeirra sem voru með í för.

Þarna hafði Alma starfað á þyrlunni í sextán mánuði en það var helber tilviljun að hún hóf þar störf. Áður hafði Alma starfað alllengi með neyðarbílnum í Reykjavík, eða á meðan hún gegndi störfum á lyflækningadeild Borgarspítalans. Þegar í þyrluferðina var farið starfaði Alma sem læknir á svæfinga- og gjörgæsludeild. Hún var jafnframt fyrsta konan sem starfaði sem þyrlulæknir Landhelgisgæslunnar.

„Engill af himnum ofan“

„Í fyrsta skipti, sem ég þurfti að síga niður til sjúklings, var mjög slæmt veður og hánótt,“ sagði Alma í viðtali við blaðið. „Ég sá bát í öldunum þarna langt fyrir neðan. Þá var ég spurð hvort ég treysti mér til að síga. Þar sem ég kunni ekki að meta aðstæður þarna í fyrsta skipti spurði ég áhöfnina hvort það væri ekki í lagi og þegar svarið var já lét ég vaða án þess að hugsa frekar um það. Við læknarnir höfum í raun ekki mikið vit á veðurskilyrðum og treystum algjörlega á flugmennina í þeim efnum,“ sagði hún.

Það hafði vakið nokkra athygli að tvær konur væru læknar á þyrlunni og spurði blaðamaður þær til að mynda að þessu: „En er ekki gott fyrir ykkur stelpurnar að fá reynsluna á þyrlunni áður en þið haldið í sérnám ykkar?“ Þær játtu þessu en sögðust líka sannarlega geta gefið ráð. „Ef einhverjir sjómenn eru í vafa hvort kalla þurfi á þyrlu geta þeir alltaf hringt í okkur og spurt ráða. í raun erum við heimilislæknar sjómanna,“ svöruðu þær.

Þá spurði blaðamaður hina þrítugu Ölmu: „En eru sjúklingar, sem bíða eftir lækni í skipi langt úti í hafi í vondu veðri, ekki hissa þegar ung kona kemur sígandi niður úr þyrlunni?“ Hún sagði sjúklingana ekki láta á því bera og að hún hefði að minnsta kosti aldrei séð skelfingarsvip á neinum vegna þessa en rifjar upp orð eins skipverja þegar hann sá hver var að síga niður úr þyrlunni til hans: „Nú, það er bara engill af himnum ofan.“

Alma á þyrluvaktinni ásamt Helgu Magnúsdóttur lækni. Mynd/GVA/Timarit.is

Fyrsti landlæknirinn í 258 ára sögu embættisins

Alma varði doktorsritgerð sína við Háskólann í Lundi árið 1999 og hefur einnig lokið meistaraprófi í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu og hlotið sérfræðiviðurkenningu í heilbrigðisstjórnun. Skömmu eftir að hún tók við embætti landlæknis lauk hún diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.

Alma starfaði sem sérfræðingur við Háskólasjúkrahúsið í Lundi í Svíþjóð frá 1993-2002. Árið 2002 fluttist hún til Íslands og tók við starfi yfirlæknis á gjörgæsludeildum Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut. Frá árinu 2014-2018 var hún framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landspítala.

Þann 1. apríl 2018 tók Alma við embætti landlæknis og er fyrsta konan sem gegnir embættinu í 258 ára sögu þess. Alma var sæmd riddarakrossi fyrir störf í þágu heilbrigðismála þann 17. júní 2020.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 2 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“