fbpx
Föstudagur 27.nóvember 2020
Fókus

Tímavélin: Hatur brottrekins flugmanns leiddi til grimmdarlegs morðs á Tómasarhaga

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 16. nóvember 2020 20:30

Ingólfur Þorsteinsson og Njörður Snæhólm unnu að rannsókn málsins. Skjáskot: Tímarit.is/Vísir 09.05.1968

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðfaranótt 9. maí 1968 vaknaði fjölskyldan að Tómasarhaga 25 í Reykjavík við brothljóð. Heimilisfaðirinn, Jóhann Gíslason sem var deildarstjóri hjá Flugfélagi Íslands, fór fram úr til að kanna hvað væri á seyði. Hann var þá skotinn fjórum skotum af manni sem hafði brotist inn á heimilið. Jóhanni, sem var helsærður, tókst að ná taki á manninum og koma honum í gólfið.

Árásarmaðurinn var Gunnar Frederiksen en hann taldi sig eiga óuppgerðar sakir við Jóhann en Gunnar taldi hann bera ábyrgð á að hann var rekinn úr starfi sem flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands. Bæði Morgunblaðið og Vísir skýrðu frá þessu á sínum tíma.

1967 var Gunnar staddur í Seattle þar sem hann var í þjálfun sem þotuflugmaður. Flugfélag Íslands hafði þá pantað sína fyrstu þotu og stóð til að Gunnar yrði annar þeirra flugmanna sem flygi þotunni til Íslands. Þetta þótti mikill heiður en þegar kom að afhendingu þotunnar hafði Gunnar ekki lokið tilskyldri þjálfun og gat því ekki flogið vélinni heim. Þetta urðu honum mikil vonbrigði.

Gunnar Frederiksen skaut Jóhann fjórum skotum. Skjáskot:Tímarit.is/Vísir 09.05.1968

Í Ísland í aldanna rás segir að þegar Gunnar hafi áttað sig á að hann gæti ekki flogið þotunni heim hafi hann leitað til Jóhanns um að tala máli hans við yfirmenn. Það gerði Jóhann en yfirmönnunum varð ekki haggað. Þegar vélin var að fara að leggja af stað til Íslands mætti Gunnar, ásamt félaga sínum, á flugvöllinn og voru þeir báðir ölvaðir. Ákveðið var að taka þá með til Íslands frekar en að láta lögregluna hirða þá en það var talið verða Íslandi til skammar ef sú leið væri farin. Gunnar og félagi hans voru síðan báðir reknir úr starfi. Gunnar kenndi Jóhanni um þetta.

Örlagaríkt kvöld

Að kvöldi 8. maí 1968 mætti Gunnar á kvöldverðarfund hjá Oddfellowreglunni. Jóhann var einnig félagi og mætti á fundinn en þeir töluðust ekki við. Gunnar drakk mikið magn áfengis á fundinum og eftir hann og sagðist síðar ekki muna mikið eftir kvöldinu.

Félagar úr reglunni sögðust síðar hafa hitt hann á leigubílastöð seint um nóttina. Hann hafi viljað slást í för með þeim en þeir vildu aka honum heim. Gunnar brást að sögn illa við þessu og yfirgaf bílinn.

Jóhann Gíslason lést áður en hann komst á sjúkrahús. Skjáskot: Tímarit.is/Vísir 09.05.1968

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að eiginkona Jóhanns hafi heyrt skothvelli  og hafi farið fram úr rúminu og séð Jóhann blóðugan í átökum við Gunnar. Eftir nokkur átök tókst hjónunum og 17 ára syni þeirra að koma Gunnari út.

„Ég hef lengi ætlað mér að launa ykkur þetta,“ sagði eiginkonan að Gunnar hefði sagt þegar hann yfirgaf heimilið.

Gunnar hafði skotið Jóhann fjórum skotum áður en átök þeirra hófust og lést Jóhann áður en hann komst á sjúkrahús. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Gunnar hafi farið í afgreiðslu Flugfélags Íslands eftir ódæðisverkið og hafi fengið leyfi til að koma þangað inn og reykja einn vindil. Næturvörðurinn spurði hann þá af hverju hann væri svo blóðugur: „Sennilega er ég búinn að myrða mann,“ svaraði Gunnar og bætti við: „Þegar ég hata, meina ég það.“

Næturverðinum skildist að Jóhann væri sá sem Gunnar hefði skotið. Hann hringdi í lögregluna þegar hann hélt að Gunnar heyrði ekki til. Þegar Gunnar spurði hann hvort hann hefði verið að hringja í lögregluna játaði hann því og hótaði Gunnar þá að drepa sig. Næturvörðurinn forðaði sér þá og kallaði á flugvirkja sem voru að störfum í nágrenninu.

Morðvopnið. Skjáskot:Tímarit/Vísir 09.05.1968

Þegar lögreglan kom á vettvang var Gunnar horfinn en hann fannst eftir nokkra leit. Hann hafði þá stungið sig í hjartað með litlum vasahníf en sárið var grunnt. Hann sýndi engan mótþróa við handtökuna en hrópaði: „Drepið mig, drepið mig. Þetta er búið hjá mér, ég er að deyja.“

Í mati geðlæknis kom fram að Gunnar væri sakhæfur en hann væri sjálfsmiðaður og tillitslaus og með mikla skapgerðargalla. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að Gunnar hafi áður hugleitt að skaða Jóhann og hafi leitað til annars manns til að fá hann til að aðstoða sig.

Gunnar var dæmdur í 16 ára fangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Daði og Gagnamagnið á lista Time yfir tíu bestu lög 2020

Daði og Gagnamagnið á lista Time yfir tíu bestu lög 2020
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu myndina: Svala Björgvins og Kristján fengu sér paratattú

Sjáðu myndina: Svala Björgvins og Kristján fengu sér paratattú
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gæludýrin í Hvíta húsinu

Gæludýrin í Hvíta húsinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum forseti borgarstjórnar selur fallega íbúð á Vesturgötu

Fyrrum forseti borgarstjórnar selur fallega íbúð á Vesturgötu