fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Blaðamaður DV fórnar sér: Ég fór í ískalda sturtu á hverjum morgni í viku

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 1. nóvember 2020 19:00

Þarf hann að fara oftar í sturtu? Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kuldameðferðir á borð við ísböð og kaldar sturtur eiga að hafa margvísleg góð áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Blaðamaður DV ákvað að láta á þetta reyna og snarlækkaði hitastigið á sturtunni í viku.

Kaldar sturtur eru allra meina bót, eða svo hefur maður heyrt. Áður fyrr hryllti mig við tilhugsuninni um að fara í kalda sturtu, hverjum dettur slíkt í hug?! En eftir að ég lærði að borða grænmeti og byrjaði að æfa CrossFit fóru mér að þykja svona „heilsutengdir“ hlutir ekki jafn klikkaðir.

Ég fór fyrst að pæla í þessu þegar það kom ísbað í Sporthúsið, las mér til um Wim Hof-aðferðina og horfði á einhver myndbönd á YouTube. Svo bankaði COVID upp á og ég hef lítið farið í ísbað með ókunnugum síðan. Ég velti því fyrir mér hvort ég gæti ekki gert þetta í sturtunni heima – og svo sannarlega. Það er til eitthvað sem kallast Cold Shower Therapy (CST), það er meira að segja skrásett sem vörumerki.

Sjá einnig: Ég drakk sellerísafa á tóman maga í heila viku

Vísindin á bak við kalda sturtu

Á vefsíðu CST er farið nánar yfir áhrifin og vísað í nokkrar rannsóknir, það eru þó ekki rannsóknir sem staðfesta allar þessar staðhæfingar en það eru til rannsóknir sem styðja sumar þeirra. Til að mynda er fólk sem fer í kalda sturtu 29 prósent ólíklegra til að hringja sig inn veikt til vinnu samkvæmt rannsókn sem birtist í tímaritinu PloS One árið 2016.

Á vefsíðu MedicalNewsToday.com er vísað í fjölda rannsókna um kaldar sturtur og kaldar meðferðir. Eins og hvernig kaldar sturtur geta hjálpað við endurheimt eftir átök og dregið úr verkjum.

En nóg um rannsóknir og vísindi. Að fara í kalda sturtu gengur ekki aðeins út á líkamleg áhrif, heldur einnig andleg áhrif. Á vefsíðu CST stendur: „Ef þú getur ekki gert eitthvað óþægilegt eða erfitt í fimm mínútur í sturtu, hvernig í fjandanum ætlarðu að gera eitthvað óþægilegt eða erfitt í raunveruleikanum?“

Ég varð að sjálfsögðu að prófa þetta sjálf.

Áhrif kaldra sturta samkvæmt CST

Kaldar sturtu:

  • Styrkja ónæmiskerfið
  • Auka blóðflæði
  • Vinna gegn þunglyndi
  • Hafa góð áhrif á húð og hár
  • Auka testósterón
  • Auka orku
  • Hraða endurheimt eftir átök
  • Bæta svefn
  • Auka þol gagnvart stressi
  • Brenna fitu
  • Og margt fleira

Út á hvað gengur þetta

Ég var kannski enginn byrjandi, þar sem ég hafði stundum farið í eins til tveggja mínútna ísböð og stuttar kaldar sturtur, en samkvæmt Cold Shower Therapy (CST) þarf sturtan að vera ísköld og þú átt ekki að vera skemur en fimm mínútur.

Þannig að ég ákvað að láta á það reyna. Ég setti fimm mínútur á klukkuna, snarlækkaði hitastigið á sturtunni og lét vaða. Ef þér finnst einhvern tíma tíminn líða of hratt þá líður hann aldrei hægar en þegar þú ert í kaldri sturtu.

Mín upplifun

Í fyrsta lagi er kalda vatnið á Íslandi kalt. Það var beinlínis vont að hafa vatnið í neðstu stillingu þannig ég gerði vel við mig á fyrsta degi og var í þrjár mínútur í mjög kaldri sturtu.

Eftir að hafa skipst á að dangla hægri og vinstri fæti undir bununni manaði ég mig til að fara með allan búkinn undir og vá hvað það var kalt, og vá hvað það var hressandi. Ég vaknaði öll til lífsins, tilbúin að takast á við daginn.

Á degi tvö var ég í fimm mínútur og hafði vatnið örlítið kaldara. Ég þvoði á mér hárið og ég verð að viðurkenna að það er ekkert kósí við að skola hárnæringu úr síðu hári með ísköldu vatni.

Ég hélt áfram ótrauð næstu daga, stillti klukkuna og skellti mér undir ískalt vatnið. Þetta varð auðveldara með hverjum deginum en ég verð að viðurkenna, ég er enn að vinna mig upp í að geta stillt alveg á köldustu stillinguna. Ég komst ansi nálægt samt

Hvað gerði köld sturta fyrir mig?

Þar sem ég fór bara í kalda sturtu í eina viku þá get ég ekki lýst því yfir að það hafi breytt lífi mínu til hins betra. En ég viðurkenni að ég fann fyrir jákvæðum áhrifum. Ég var meira tilbúin í daginn, öll morgunfýla hvarf og mér fannst ég hafa byrjað daginn á því að klára verkefni.

Ég get með engu móti sagt til um hvort ónæmiskerfi mitt sé sterkara eða hvort húðin sé betri. En eitt er víst, ég ætla að halda áfram að fara í kaldar sturtur. Kannski finn ég fyrir frekari áhrifum með tímanum.

Eini gallinn er tíminn. Fimm mínútur er ansi langur tími til að eyða í sturtu ef þú ert ekki að þvo á þér hárið. Meira að segja þær sturtur þar sem ég þvoði hárið með sjampói og hárnæringu og skrúbbaði mig alla þá varði ég alltaf 2-3 mínútum í að skiptast á að hafa framhlið eða bakhlið undir bununni og fylgjast með skeiðklukkunni.

Héðan í frá mun ég ekki stilla klukku, heldur bara skella mér í kalda sturtu til að byrja daginn af krafti. Kaldar sturtur fá toppeinkunn frá mér. Fyrir byrjendur mæli ég með að byrja á nokkrum mínútum og ná fyrst stjórn á önduninni svo þú sért ekki að ofanda. Það er ótrúlegt hverju líkaminn venst.

Góð ráð

Lenka Chubuklieva er forstjóri Le Chalet Cryo, stofu í London sem býður upp á kuldameðferð. Hún gaf góð ráð í viðtali við Dose.

„Við mælum með að þú byrjir á volgri sturtu og lækkir hitastigið hægt og rólega þar til þú ert tilbúin fyrir ískalda sturtu. Það getur einnig hjálpað að byrja á því að setja handleggi og fótleggi undir vatnið áður en þú ferð með allan búkinn undir. Það er mikilvægt að hlusta alltaf á líkamann og viðbrögð hans við sturtunni. Ef þú getur ekki hætt að nötra, þá hefurðu verið of lengi í sturtunni. Sumir geta farið í kalda sturtu í allt að fimm til tíu mínútur, en það er gott að byrja á 30 til 60 sekúndum,“ sagði hún.

Wim Hof

Wim Hof, betur þekktur sem „Ísmaðurinn“, er Hollendingur sem kleif Mount Everest í aðeins stuttbuxum og skóm. Hann hefur lengi stundað ísböð og segir það gefa sér lífskraft. Hann segir ískalt vatn hafa lækningarmátt og þjálfar reglulega fólk í því sem kallast Wim Hof-aðferðin, sem samanstendur af kaldri meðferð og öndunartækni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar