Fyrirsætan og dansarinn Vikki Lenolo frá Kanada segist þurfa að eyða 2000 dollurum, tæpum 300 þúsund krónum, á mánuði í klæðskeravinnu því brjóstin hennar eru of stinn að hennar mati.
Vikki, sem er 33 ára gömul, ræddi við The Sun. Hún segir brjóstin sín vera of stinn til að hún komist í venjuleg þröng föt. Hún segir að fylgjendur hennar á samfélagsmiðlum rífist oft um það hvort hún sé í sérstökum brjóstahaldara til að lyfta brjóstunum upp. „Sumir trúa því ekki að brjóstin mín séu svona hátt uppi og halda að ég hljóti að vera í einhverjum skrýtnum brjóstahaldara sem lætur þau líta út fyrir að vera stinnari,“ segir Vikki.
„Ég veit að ég gæti verið að glíma við verri vandamál en þetta er frekar pirrandi,“ segir Vikki um það að hún þurfi að laga fötin sín svo brjóstin hennar passi í þau. Eftir að hafa eytt fúlgu fjár í klæðskeravinnu ákvað hún að kaupa sér flotta saumavel og sjá sjálf um að laga fötin sín. „Fullt af fólki gerir grín að þessu og segir að þetta sé frábært vandamál. Einu sinni sagði einn í bransanum að brjóstin mín væru það sem gefur mér verkefni.“
Vikki kenndi sjálfri sér að sauma og æfði sig mikið. „Stundum tekur þetta rosalega langan tíma en svo getur þetta verið bara smá vinna sem breytir öllu,“ segir hún og bætir við að það sé gott fyrir alla að kunna handtökin á saumavélinni.