fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Blaðamaður fórnar sér – „Þetta er það allra versta sem ég hef gert“

Máni Snær Þorláksson
Sunnudaginn 25. október 2020 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mér finnst matur ekkert eðlilega góður. Eitt af því sem ég hlakka mest til að gera á hverjum degi er að fá mér góðan hádegisverð. Stundum sit ég við tölvuna frá því að ég mæti í vinnuna og hugsa og spekúlera í því hvað ég eigi að fá mér í hádegismat. Er það hamborgaratilboð eða salat, fæ ég mér gott vínar-schnitzel eða tvær pulsur og kók?

BÚMM, ritstjórinn minn slær mig utan undir og segir mér að koma aftur í kaldan raunveruleikann. Í dag fékk ég nefnilega ekki að velja mér hvað ég ætti að fá mér í hádegismat, ekki frekar en síðustu tvo daga. Ég var nefnilega plataður í að fara á einhvern djúskúr. Þá má maður víst ekki borða neitt heldur drekkur maður bara djús.

„Þetta er ekkert mál,“ sagði ritstjórinn sem plataði mig grunlausan tvítugan drenginn. „Þetta eru svo góðir djúsar og síðan máttu drekka átta svoleiðis á dag – maður verður ekkert svangur.“

Þræll hamborgarans

Þegar ég hugsaði um að slá til og skella mér í þennan djúskúr heyrði ég í efasemdaröddunum í kringum mig. „Þú munt aldrei ná þessu,“ sagði einn. „Þú munt svindla fyrsta daginn,“ sagði annar. „Þú ert síðasta manneskjan í heiminum sem gæti klárað svona djúskúr,“ sagði þriðja manneskjan og þá ákvað ég að sýna þeim í tvo heimana og bara fara á þennan andskotans djúskúr. Ég er ekki þræll hamborgaratilboðsins!

Ég pantaði mér 24 stykki af djúsflöskum á föstudegi og hugsaði ekki mikið meira út í það fyrr en ég mætti til vinnu á mánudaginn. Þá gerði ég mér fyrst grein fyrir því að ég væri bara að fara að drekka djús næstu þrjá dagana. Ég ætlaði samt að klára þetta svo ég skellti í mig einum ísköldum banana- og berjadjús. „Þetta var bara fínt,“ hugsaði ég með mér en ég átti svo sannarlega ekki eftir að hugsa það næstu tvo daga. Það er nefnilega ekkert mál að fá sér einn og einn djús en það að fá sér ekkert nema djús er alveg gífurlega erfitt. Ég þurfti að leita djúpt inn á við.

Byrjaði vel

Fyrsti dagurinn gekk þó alveg ágætlega, ég svindlaði ekkert. Ég drakk appelsínusafa, sem var frekar góður, rauðrófusafa, sem var ekkert alltof góður, og síðan drakk ég grænmetissafa, sem var ekkert annað en viðbjóðslegur á bragðið. Allt í allt var þetta þó allt í lagi þennan fyrsta daginn, fjölbreytileikinn var fínn og gerði það að verkum að mér leið ekki eins og ég væri að borða það sama allan daginn.

Annan daginn gerði ég mér þó grein fyrir því að fjölbreytileikinn var ekki eins mikill. Ég átti að drekka nákvæmlegu sömu djúsa og í gær – en bara í annarri röð. Alveg var það hreint frábært, ég sem hélt að ég fengi að smakka nóg af skrýtnum og skemmtilegum djúsum átti bara að drekka það sama þrjá daga í röð. Allt í einu varð appelsínusafinn ekki svo góður, berjasafinn varð sömuleiðis slappur og grænmetissafinn varð enn viðbjóðslegri. Mig langaði heitt og innilega að tyggja eitthvað.

Allt fór þó til andskotans þegar ég gerði mér grein fyrir því að ekki má fá sér bjór í djúskúr. „Þetta er bara hveitidjús,“ sagði ég með tárin í augunum við ritstjórann sem sparkaði í hnéskeljarnar á mér og reif bjórinn af mér. „Þú færð þetta aftur á fimmtudaginn og ekki einu sinni hugsa um að fá þér bjór á leiknum í kvöld.“

Ömurlegur leikur

Alveg rétt, ég var að fara að horfa á fótboltaleik í kvöld með strákunum, ég ætlaði að fá mér bjór og horfa á Þrótt vinna Magna í Lengjudeildinni. Hvorugt af þessu gerðist, Þróttur tapaði og ég drakk ógeðslegan eplasafa í staðinn fyrir bjór með leiknum. „Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað?“ hugsaði ég með mér þegar ég horfði á lið frá 300 manna bæjarfélagi vinna liðið mitt og ég þurfti að sötra volgan eplasafa á meðan. Ég fann hamborgaratilboðið hvísla nafn mitt.

Síðasta daginn sem ég var á djúskúrnum gat ég varla hugsað um annað en hvað ég ætti að fá mér að borða á morgun. Ég hlakkaði svo til, ekki bara til að fá gott bragð heldur líka bara til að tyggja matinn minn frekar en að drekka hann. Safarnir sem mér fannst vera góðir fyrsta daginn voru orðnir fyrirsjáanlegir, leiðinlegir og vondir. Safarnir sem mér fannst vera vondir voru orðnir verri. Ég fann lífsvilja minn leka í burtu með hverjum sopa. Ég var meira að segja hættur að nenna að ropa.

Keisarinn er nakinn

Ég náði að klára þetta en ef það er eitthvað sem ég hef lært af þessu þá er það að fara ekki á svona djúskúr. Ég fann að ég varð líka að miðla reynslunni minni áfram til fólks og þess vegna er ég að skrifa þetta, svo engum sem les þetta muni detta það í hug að fara á svona djúskúr. Þetta er það allra versta sem ég hef gert, meira að segja var þetta verra en að drekka piss.

Ef yfirmaður þinn, kæri lesandi, reynir einhvern tímann að plata þig á djúskúr þá skaltu einfaldlega segja þetta:

„Nei. Ég læt ekki plata mig í svona vitleysu. Þú ert að ljúga að sjálfum þér og öðrum þegar þú segir að þetta sé gott. Er ég sá eini sem sér að keisarinn er nakinn? Þetta er ekki gott, þetta er viðbjóður og ég ætla aldrei að gera þetta.“

Gerið það fyrir mig, ekki fara á djúskúr. Farið frekar á Hanann og fáið ykkur kjúklingaborgara með frönskum og extra skammti af Lemon&Herb sósu. Og já, ég léttist slatta og naut þess óheyrilega að raða þeirri þyngd fallega á mig aftur eins og arkitekt að vinna að næsta meistaraverki sínu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“