fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Máni ræðir hæðirnar og lægðirnar – „Sá er líklegast einhver leiðinlegasti aðili í heiminum“

Jón Þór Stefánsson
Föstudaginn 16. október 2020 14:03

Þorkell Máni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útvarpsmaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn Þorkell Máni Pétursson var gestur í þættinum Einkalífið, sem er í umsjón Stefáns Árna Pálssonar. Í þættinum fór hann yfir víðan völl, fjallaði um starf sitt sem umboðsmanns, hugsanlegt framboð, neyslu og edrúmennsku.

Máni sagði til að mynda skemmtilega sögu frá því þegar hann var að „umba“ jaðarrokkhljómsveitina Mínus, en meðlimir hennar voru líkt og spyrillinn orðaði það „algjörir villingar“. Sagan sem Máni sagði á að hafa birst í breskum blöðum á sínum tíma, en hún segir frá erlendum blaðamönnum sem ætluðu að skrifa skemmtilega grein um Mínus.

„Einu sinni átti Mínus að spila á Airwaves-hátíð. Það var búið að leigja túr-bus því það átti að fara með tvo breska blaðamenn og sýna þeim fimmtán uppáhaldsstaðina sína eða eitthvað þannig. Það voru þrír meðlimir mættir á réttum tíma og svo hófst leitin að hinum tveimur í fullan gang. Við finnum þann fjórða einhversstaðar. Þetta hefur byrjað 9:30 eða eitthvað og við finnum fjórða meðliminn upp úr hádegi. En við finnum ekki fimmta meðliminn, það er sama hvað við reynum. Við vorum búnir að hringja út um, allt á meðan að við vorum að fara á þessa staði. En svo finnst þessi fimmti meðlimur og ég segi við blaðamennina: „Ég er bæði með góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að fimmti meðlimurinn er fundinn. Slæmu fréttirnar eru þær að hann er í fangelsi og verður ekki laus fyrr en klukkan átta. Og bandið átti að spila um níu.“

Í viðtalinu ræddi Máni um pólitík. Hann segist hafa verið alinn upp á mjög pólitísku heimili og hafi verið með skoðanir á hlutunum síðan hann var smábarn. Þrátt fyrir það segist hann eiga erfitt með að þrífast á einhverjum ákveðnum stað í pólitík, þar sem hann sé „of hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn og of vinstra megin við Vinstri græna.“ Þegar Máni var spurður út í hvort hann hefði áhuga á að fara sjálfur út í pólitík og fara í framboð þá svaraði hann játandi.

„Ef þú ert að spyrja mig að því, þá er svarið bara já. Það liggur beinast við og ég hef vitað það alla tíð, að ég mun fara gegn Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ, einn góðan veðurdag. Ég myndi telja mjög líklegt að ég geri það, eftir átján mánuði, eða hvað sem það nú er. Þá verði bara kominn tími til að láta slag standa. Sjálfstæðismennirnir vita alveg að ég ætla að skipta þeim út og þeir vita að ég mun skipta þeim út og það vita það allir Garðbæingar. Allir halda að Garðabær sé svo ótrúlega blár, jú við erum með blátt lið, en hann er ekki svona blár. Í garðabænum er skynsamt fólk. Og ef þú getur unnið Garðabæinn, geturðu þá ekki unnið allt?“

Þá ræddi Máni um neysluna og edrúmennskuna. Hann sagði að edrúmennskunni fylgdu hæðir og lægðir, sem væri virkilega eðlilegt. Hann hélt því meira að segja fram að sá sem tækist ekki á við áföll væri leiðinlegastur allra og hefði ekkert fram að færa.

„Mín neysla var aðallega í kannabis og amfetamíni og áfengi þar á undan. Ég fór í meðferð fyrir tvítugsaldur og þá var ég algjörlega búinn að keyra mig í þrot andlega. Búið að reka mann úr skólanum. Maður hafði ekki neitt.“

„Auðvitað hafa verið hæðir og lægðir í þessari edrúmennsku. Ég hef alltaf verið edrú og aldrei notað nein hugbreytandi efni í þennan tíma. En að sama skap þá hefur maður komist á allskonar staði í lífinu. Maður hefur fengið kvíðaköst, depurð og maður hefur orðið allt of þungur og farið illa með sig. Þetta er búið að vera ferðalag, en ég held að þetta sé búið að vera þroskandi ferðalag. Við höldum alltaf að við eigum ekki að lenda í áföllum og það er alltaf alveg þvílíkt drama ef við lendum í áföllum, en við eigum að gera það. Sá sem að hefur ekki lent í áföllum, ekki verið kvíðinn, eða þunglyndur, lent í slysi, eða verið laminn, eða lent í ástarsorg, sá er líklegast leiðinlegasti aðili í heiminum. Sá aðili hefur ekkert fram að færa til lífsins. Ef þú upplifir ekki eitthvað myrkur í lífi þínu þá ertu algjörlega gagnslaus með öllu,“

Þáttinn má sjá í heild sinni á Vísi.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“