fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Móðir Rannveigar barðist við fíkn allt sitt líf: Heilbrigðiskerfið brást henni – „Í hennar verstu fíkniköstum var hún ekki mamma mín“

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 28. janúar 2020 21:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mamma mín var einstök kona, á svo marga vegu. Hún hafði ýmsa bresti, eins og margt samferðafólk okkar. Þeir gátu verið henni og okkur ástvinum hennar mjög íþyngjandi. Hún barðist við fíkn allt sitt líf en rótin að þeirri baráttu var þunglyndi sem oft á tíðum gat verið lamandi bæði henni og okkur á heimilinu.“

Svona hefst pistill sem Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúa Pírata, skrifar á Vísi um móður sína. „Sagan hennar mömmu er saga einstakrar konu,“ segir Rannveig. „Svolítið eins og einhvers konar sorgarsaga gyðju.“

„Í hennar verstu fíkniköstum var hún ekki mamma mín“

Móðir Rannveigar var ættleidd við fæðingu og segir Rannveig það mögulega vera fyrsta rofið í hennar lífi. „Geðtengslamyndunin varð fyrir hnjaski strax við fæðingu, þrátt fyrir að hún hafi fengið dásamlega og stöðuga foreldra. Hún hefði aldrei verið betur sett hjá blóðmóður sinni, en svona upphaf er samt erfitt nýfæddu barni, sama hversu mikið foreldrar hennar þráðu hana og lögðu sig fram við að veit henni gott líf og gott uppeldi.“

Rannveig segir móður sína hafa haft risastórt hjarta og að fáir gátu látið öðrum líða eins vel með sjálfa sig og hún. „Það þekktum við systkinin vel. En hún gat líka meitt, með orðunum og í hennar verstu fíkniköstum var hún ekki mamma mín, heldur einhver ómynd sem ég þekkti ekki,“ segir Rannveig. „En ég vissi að í kjarnanum hennar var ljósið hennar sem gerði þetta allt þess virði, það var þess virði að standa í baráttunni með henni, styðja hana og þola ástandið.“

Fékk krabbamein „loksins þegar hún vildi lifa“

Móðir Rannveigar sigraði fíknina reglulega. Þrátt fyrir brestina þá hefði Rannveig ekki viljað missa af tímanum með henni. Hún segir móður sína hafa verið sinn lærdóm í lífinu en um leið harkalega lexíu. „Því lífið er ekki sanngjarnt og það getur bitið þig fast og illilega og það meiðir! Þunglyndi er nefnilega ekkert grín og þótt hún hafi getað sigrast á fíkninni inn á milli, þá var þunglyndið sterkara og aldrei raunverulega unnið í þeirri rót. Samt tókst henni líka að yfirstíga það, að megninu til, á endanum. Þess vegna var svo sárt þegar hún greindist með krabbamein, að heyra hana segja, að loksins þegar hún vildi lifa, þá kæmi þetta verkefni, sem hún svo réð ekki við á endanum. Loksins þegar hún vildi lifa.“

Rannveig segir heilbrigðiskerfið hafa brugðist og komið of seint inn í veikindi móður sinnar. „Vegna sögunnar hennar var hún afskrifuð. Hún væri fallin, hún væri í þunglyndiskasti. Þegar við fjölskyldan grátbáðum um hjálp, því hvorugt væri tilfellið, fengum við sama viðmót. Við værum bara í afneitun,“ segir hún og bætir við að lífsgæði móður sinnar hafi orðið verri vegna viðmótsins. „Hún þurfti að berjast við fordóma í stað þess að fá læknisaðstoð. Þegar við gengum út frá bráðamóttökunni að morgni gamlársdags 2010, sagði hún ,,ég sagði ykkur það, ég er ekki geðveik!’’ Fyrir henni voru þessar fréttir léttir.“

„Mikill skaði var skeður, bæði hjá kerfinu sem og meðal hennar nánasta umhverfis,“ segir Rannveig en það eina sem hægt var að gera eftir þetta var að sjá til þess að það sem væri eftir væri tileinkað barátttu við alvarlegan sjúkdóm. „Hún ætlaði nefnilega að sigrast á honum. En ég held að við höfum öll vitað að hún átti aldrei séns, það gerði ég að minnsta kosti, þótt ég auðvitað vonaði heitt og innilega að hún myndi sigrast á þessu. Enda var óbærileg tilhugsun að missa hana.“

„Hún hélt alltaf að hún væri ekki nóg“

Rannveig lýsir móður sinni og segir það hafa verið einkenni hennar að láta öllum líða vel. „Það er engin furða að kirkjan hafi verið stútfull þegar við kvöddum hana,“ segir hún. Móðir hennar var hins vegar sjálf mjög lítil í sér. „Þegar ég fæddist fannst henni svo ótrúlegt að vera mamma mín að það var henni óraunverulegt. Henni fannst hún ekki getað kallað sig mömmu mína, svo hún bjó sér til gælunafnið ,,mommiesan’’, ,,komdu til mommiesan” sagði hún þegar hún tók mig upp eða knúsaði mig eða huggaði. Hún hélt alltaf að hún væri ekki nóg.“

En Rannveig segir móður sína hafa verið nóg. „Fyrir mig, systkini mín, börnin mín, manninn sinn og allan herskarann af ástvinum sem hún hafði sankað að sér frá barnæsku, jafnvel frá fæðingu.“

Rannveig segistt oft haffa velt því fyrir sér hvernig hún gæti haldið minningu móður sinnar á lofti. „Ég skil ekki enn í dag hvernig stendur á því að það sé ekki búið að nefna götu eða garð í höfuðið á henni. Ég veit ekki hvort það þurfi enn einn minningarsjóðinn sem tekur fyrir málefnin sem stóðu henni næst, fíkn, geðheilsa og málefni fatlaðra. En einhvern daginn ætla ég að standa fyrir einhverju til minningar um hana.“

„Takk fyrir ferðalagið mommiesan“

Í dag hefði móðir Rannveigar orðið sextug. Sjálf er Rannveig 40 ára gömul. „Samanlagt værum við mæðgur því 100 ára gamlar, mér finnst við hafa verið sviknar um það að geta haldið teiti saman en það hafði hún oft talað um að við ættum að gera. Jæja, svo hún verður ekki með í líffræðilegum skilning, en hún verður með okkur í hjörtunum okkar, þar sem hún verður alltaf geymd, því það er ekki mögulegt að gleyma svona mannveru. Takk fyrir ferðalagið mommiesan.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar