fbpx
Fimmtudagur 01.október 2020
Fókus

Berglind elti drauminn til Ítalíu – Framleiðir fatnað sem endist og erfist

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 11. janúar 2020 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fata- og fylgihlutahönnuðurinn Berglind Óskarsdóttir fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Ítalíu fyrir fjórum árum en nýlega kynnti hún fata- og fylgihlutalínuna Bibi & Bella sem ætluð er fyrir stelpur á aldrinum 4–10 ára. Merkið leggur áherslu á gæði og framleiðir fatnað sem ætlað er að endast og erfast. Berglind segir aðdragandann hafa verið langan og oft á tíðum strangan sem geri þó afraksturinn þeim mun betri.
Tildrög þess að Berglind fluttist suður um höf var framhaldsnám sem hún hugði á, en hún útskrifaðist sem fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2014. Námið var í Istituto Marangoni-háskólanum í Mílanó og útskrifaðist Berglind þaðan tveimur árum síðar. Hún segir námið hafa verið krefjandi en skemmtilegt og talsvert ólíkt því sem tíðkast hér heima.
„Ég vann lengi vel sem flugfreyja hjá Iceland Express og á þaðan ótrúlega góðar minningar, en eftir að yngri sonur minn fæddist þá langaði mig í meira nám. Ég hef alltaf verið mjög glysgjörn og hef alltaf haft mikinn áhuga á tísku. Ég er þó ekki týpan sem eltir alla tískustrauma. Ég hef mikinn áhuga á vönduðu handverki og útsaumur í alls konar formi hefur alltaf heillað mig mjög mikið. Ég ákvað því að sækja um í Listaháskóla Íslands og byrjaði námið þegar Sævar Stormur var átta mánaða og eldri sonur minn, Óðinn Styrkár, var þriggja ára. Þegar ég hugsa til baka þá var það mikið álag og ég varð að vera mjög skipulögð. Eftir námið varð ég ólétt að dóttur minni, Sæunni Stellu, og þegar ég var í fæðingarorlofi sótti ég um skólastyrk í Istituto Marangoni í Mílanó í masternám fyrir lúxusfylgihluti og framleiðslu.“

Flutti umsvifalaust út
Berglind kynntist eiginmanni sínum, Þórhalli Sævarssyni, fyrir tæpum tveimur áratugum og þau áttu lengi þann draum að búa erlendis. Hún segir þó ævintýraþrána ekki aðeins hafa ráðið för því vegna vinnu Þórhalls henti fjölskyldunni betur að búa meira miðsvæðis. „Þórhallur er leikstjóri og því starfi fylgja mikil ferðalög, þess vegna einfaldar það okkur lífið til muna að búa hér frekar en á Íslandi. Á þennan hátt eigum við mun fleiri stundir saman sem fjölskylda. Eftir að ég fékk skólastyrkinn var því aldrei neinn vafi í okkar huga og við fluttum umsvifalaust út.
Dóttir okkar var þarna á fyrsta ári og ég fann fljótt að ég var aftur lent í sams konar álagi og meðan á náminu heima á Íslandi stóð, en að þessu sinni var ég með þrjú börn, í öðru landi og kunni ekki einu sinni tungumálið. Við þurftum að koma okkur fyrir og aðlagast fljótt og það var ekki alltaf auðvelt. Við ákváðum að setja börnin í ítalskan hverfisskóla og leikskóla því okkur þótti mikilvægt að þau fengju þessa upplifun í gegn og næðu fljótt tökum á ítölskunni. Það er ótrúlegt að sjá hvað börn eru fljót að læra, en það tók strákana tvo mánuði að læra ítölsku og þeim hefur alltaf gengið mjög vel í skóla hér úti. Sæunn Stella var lengur að byrja að tala en strákarnir þegar þeir voru litlir, en þegar hún byrjaði þá talaði hún bæði íslensku og ítölsku og núna talar hún einnig ensku.“

Engar hugmyndir slæmar
Berglind segir kostina við flutningana mun fleiri en gallana, en einn helsti kosturinn sé auðvelt aðgengi þeirra að ferðalögum, því fjölskyldan er dugleg að bregða undir sig betri fætinum og kanna nærumhverfi sitt. „Okkur líður vel hérna, þótt auðvitað geri hversdagsleikinn vart við sig hér eins og alls staðar annars staðar. Námið í Mílanó var allt öðruvísi en því sem ég var vön í Listaháskólanum á Íslandi. Heima á Íslandi var miklu meiri áhersla lögð á að prófa sig áfram í sköpun og það mátti gera alls konar mistök og maður fékk einhvern veginn meira pláss. Engar hugmyndir voru slæmar og það mátti alltaf þróa þær áfram. Í Mílanó var áherslan önnur, það var meira verið að þjálfa mann fyrir vinnumarkaðinn og hugmyndir oft dregnar niður því þær þóttu of flóknar fyrir framleiðslu og fleira. Ég var í bekk með krökkum sem voru að koma úr mörgum af bestu skólum heims, en ég fann sem dæmi að námið úr LHÍ gerði mig oft sterkari en flesta hina í bekknum við að setja saman heildarlínu í hverju verkefni. Í náminu fórum við mikið í heimsóknir í verksmiðjur og skoðuðum hvernig framleiðsla á lúxusfatnaði og fylgihlutum fer fram, það var ótrúlega heillandi. Til dæmis heimsóttum við verksmiðju sem framleiðir töskur fyrir Chanel, þar sátu eldri konur sem hafa starfað við þetta í fjölda ára. Allar voru þær í hvítum sloppum með uppsett hár og varalit. Það er mikilvægt að vita hvaðan þær vörur sem við kaupum koma. Ég kláraði námið og fann í lokin að ég hafði fengið öðruvísi nálgun á hönnunarferlið og var orðin sterkari á margan hátt sem hönnuður. Strax eftir námið sótti ég um nokkur störf og vann sjálfstæð verkefni sem hentaði vel upp á fjölskyldulífið. Ég komst í langt umsóknarferli sem hönnuður hjá Prada, sem fyrir mig hefði verið draumastarf, en á endanum fékk ég ekki starfið, sem var mjög svekkjandi. Á þessum tíma var ítalskan mín einfaldlega ekki nógu góð. Hugmyndin að Bibi & Bella kviknaði þegar dóttir mín var tveggja ára, en ég hafði saumað handa henni kápu og ég fékk svo margar fyrirspurnir og fólk sýndi þessu mikinn áhuga. Ég var samt einnig með aðrar hugmyndir sem mig langaði að framkvæma og var ekki alveg viss í hvorn fótinn ég átti að stíga með það. En þessi hugmynd kom alltaf til baka til mín, svo ég ákvað að taka skrefið og hefjast handa. Markaðurinn fyrir barnaföt er á mikilli uppsiglingu erlendis og ég finn að áhuginn er líka mjög mikill á Íslandi. Ég vil samt stíga þessi skref mjög varlega og er að framleiða í litlu magni. Ég er með yndislega konu hér í Mílanó sem saumar fyrir mig. Áherslan er lögð á að allar flíkur séu mjög vandaðar í efni og frágangi. Ég vil að merkið stækki hægt og rólega og planið er að vinna með ákveðinni verksmiðju hér á Ítalíu þegar ég fer að framleiða í meira magni.“

 

Línan er innblásin af „vintage“ dúkkulísum og ítölskum lúxus.
Módelið á myndinni er dóttir Berglindar, Sæunn Stella Þórhallsdóttir.
Myndir/Saga Sigurðardóttir

 

Nú þegar jólahátíðin er yfirstaðin hefur fjölskyldan aftur snúið heim til Ítalíu eftir ljúfar stundir á Fróni. Berglind segist rútínunni fegin og nú taki við frekari framleiðsla á þessum fallega fatnaði. Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með Berglindi á Instagram undir nafninu bibibella.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Hæðir og lægðir Pamelu Anderson

Hæðir og lægðir Pamelu Anderson
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta fannst Ráðherrunum um Ráðherrann – „Ég neyðist hins vegar til að valda lesendum vonbrigðum“

Þetta fannst Ráðherrunum um Ráðherrann – „Ég neyðist hins vegar til að valda lesendum vonbrigðum“
Fókus
Fyrir 4 dögum

María Krista útbjó draumkennt barnaherbergi

María Krista útbjó draumkennt barnaherbergi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Karl Sigurbjörnsson berst við krabbamein – „Ég hræðist ekki dauðann“

Karl Sigurbjörnsson berst við krabbamein – „Ég hræðist ekki dauðann“