fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Drífa Snædal: Hrægammarnir reyna að endurskipuleggja auðinn

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 1. ágúst 2020 07:00

Drífa Snædal. Myndir/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Drífa Snædal hefur alla tíð brunnið fyrir verkalýðsbaráttunni og segir hana vera mest spennandi pólitíkina. Hún segir Íslendinga standa í mikilli þakkarskuld við það erlenda verkafólk sem hefur komið hingað til að hjálpa okkur að snúa hjólum atvinnulífsins. 

Hér birtist í heild sinni viðtal úr helgarblaði DV frá 24. júlí.

„Ég er stundum spurð hvort ég sé á leið í pólitík. Verkalýðsbaráttan er hins vegar í mínum huga mest spennandi pólitíkin. Þegar verkalýðshreyfingin er sterk er hún mun áhrifameiri en nokkur stjórnmálaflokkur. Fólk getur haft meiri áhrif á samfélagið með því að sitja í stjórn ASÍ en að vera þingmaður í stjórnarandstöðu,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Drífa tekur á móti blaðamanni á heimili sínu í gamla Vesturbænum, steinsnar frá Bræðraborgarstíg 1, sem brann í júnímánuði með þeim afleiðingum að þrír létust. Í yfirlýsingu kallaði ASÍ eftir ítarlegri rannsókn á aðdraganda og afleiðingum brunans. Þar kom einnig fram að verkalýðshreyfingin hafi um langt skeið kallað eftir samhæfðum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja aðbúnað erlends verkafólks á Íslandi, sporna gegn mansali og koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Enn skorti á að staðið sé við fyrirheit Lífskjarasamninganna þar að lútandi. Þetta hræðilega mál er enn í rannsókn og ASÍ fylgist með.

Drífa hefur alltaf látið sig verkalýðsbaráttu varða, segist hafa verið alin upp við að þetta sé barátta sem sé þess virði að heyja. Hún útskrifaðist sem tækniteiknari frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1998 en meðan á náminu stóð lét hún þegar til sín taka í baráttunni, rétt liðlega tvítug, sem formaður Iðnnemasambandsins.

Drífa tók við sem fræðslu- og kynningarstýra Samtaka um kvennaathvarf 2003 og varð síðan framkvæmdastýra samtakanna. Hún starfaði um tíma sem framkvæmdastýra Vinstri grænna, flokks sem hún seinna sagði skilið við. Drífa hafði áður lokið viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands en útskrifaðist með meistaragráðu í vinnumarkaðsfræði með áherslu á vinnurétt árið 2012, sama ár og hún var ráðin framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Hún var kjörin forseti ASÍ fyrir tveimur árum, fyrst kvenna.

Reynir að fá hlaupabakteríuna

Hún veit fátt betra en að vera með vinum og fjölskyldu, og nærfjölskyldan er ansi stór. Drífa á tvö alsystkini sem eru nálægt henni í aldri og tvær hálfsystur sem eru um tuttugu árum yngri. „Ég er alltaf að reyna að fá hlaupabakteríuna og fer reglulega út að hlaupa með annarri hálfsystur minni. Hún er að læra kvikmyndafræði og á hlaupum segir hún mér frá kvikmyndum sem hún er að horfa á og bókum sem hún er að lesa fyrir skólann. Ég er aðallega í því að reyna að ná andanum,“ segir Drífa og hlær. „Ég hleyp hvorki hratt né langt en finnst gott að fara út að hlaupa með henni, sérstaklega framhjá höfninni og út á Granda. Við eigum góðar stundir saman.“

Foreldrar Drífu eru báðir komnir á eftirlaun, faðir hennar starfaði sem öldrunarlæknir en móðir hennar var forstöðukona heimila fyrir karlmenn sem glímdu við fjölþættan vanda. Sjálf á hún eina dóttur, Silju, sem hún nær að verja sumrinu með. Silja er að verða 22 ára, nemur menningar- og fagurfræði við Árósaháskóla, en kom heim vegna COVID-19.

Þær mæðgur eru nýkomnar frá Reykholti þegar blaðamann ber að garði. „Þetta var afskaplega endurnærandi ferð þó að við hefðum bara gist eina nótt.“ Drífa þarf væntanlega á smá endurnæringu að halda. Hún er í sumarfríi þegar þetta viðtal er tekið, fær símtal í miðju viðtali frá lögmanni ASÍ vegna vinnunnar, og síðustu vikur hefur hún látið til sín taka vegna kjarabaráttu Flugfreyjufélags Íslands sem er beinn aðili að ASÍ.

Hrægammarnir fara á stjá

Rafrænni atkvæðagreiðslu félagsfólks Flugfreyjufélagsins lýkur á mánudag [aths. blaðamanns: viðtalið birtist á prenti þremur dögum áður en félagið samþykkti kjarasamninginn sl. mánudag] en sem kunnugt er hafa orðið miklar sviptingar í þeirri kjaradeilu, öllum flugfreyjum hreinlega sagt upp hjá Icelandair en þær uppsagnir síðan dregnar til baka.
„Það sem er uggvænlegt í þessu máli er að það kveður við nýjan tón hjá atvinnurekanda sem þarna ákvað að fara gegn viðsemjendum sínum og gefa út að semja ætti við annan aðila. Það sem kom okkur í verkalýðsbaráttunni ekki síst á óvart var að þetta skyldi Icelandair gera með vitund og vilja Samtaka atvinnulífsins sem lýstu velþóknun á þessum aðgerðum. Þetta er vonandi ekki vísir að því sem koma skal á íslenskum vinnumarkaði.“
Hún segir í raun engin fordæmi fyrir jafn harkalegum aðgerðum og Icelandair fór í gegn flugfreyjum. „Ég hef verið að ræða við þá sem eru eldri en ég í þessum bransa og þeir hafa ekki séð svona takta áður. Það þarf hreinlega að leita í sögubækurnar til að sjá jafn eindreginn vilja atvinnurekenda til að kljúfa samstöðu vinnandi fólks.“
Hún bendir á að þessar aðgerðir séu ekki í neinum takti við það sem er að gerast í alþjóðasamfélaginu þar sem stofnanir eins og Alþjóðabankinn og OECD séu alltaf að leggja meiri áherslu á jöfnuð og líta á hann sem markmið í sjálfu sér. „Stórkapítalistarnir á Íslandi eru eitthvað á eftir í þessari þróun. Síðan þarf að hafa í huga að þegar áföll verða, eins og það efnahagslega áfall sem er að verða um allan heim vegna COVID-19, þá byrjar baráttan um auðinn.“
Hún segir rithöfundinn og aðgerðasinnann Naomi Klein hafa lýst þessu ágætlega í tímamótaverkinu The Shock Doctrine, að þegar samfélag verður fyrir áfalli þá fari hrægammarnir af stað til að reyna að endurskipuleggja auðinn, og þá séu það yfirleitt vinnandi fólk og almennir borgarar sem verða verst úti.

Kaldur veruleiki við heilsuleysi

Að mati Drífu er tvennt sem þarf að gerast strax til að forða frekari samfélagslegum erfiðleikum. „Það þarf að hækka atvinnuleysisbætur. Við megum ekki missa fólk í fátækt. Slíkt er hættulegt fyrir einstaklingana sjálfa en það er líka hættulegt fyrir samfélagið. Fólk upplifir ekki að samfélagið standi með því, finnst því það ekki lengur vera hluti af samfélaginu og það getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið í heild sinni. Við þurfum líka að bæta kjör öryrkja og ýmissa hópa aldraðra. Það er kaldur veruleiki sem blasir við fólki sem missir heilsuna og verður því óvinnufært. Þetta eru stóru málin sem þarf að bregðast við strax. Til lengri tíma er það stöðugt viðfangsefni að fólk geti lifað af laununum sínum en því miður er það ekki alltaf hægt.“
Hún bendir á að til sé orðin ný tegund stéttaskiptingar hér á landi þar sem útlendingar séu hlunnfarnir á vinnumarkaði. „Það er mikið áhyggjuefni að ýmsir atvinnurekendur líta á útlendinga sem einnota vinnuafl. Fólk er flutt hingað í stórum stíl til að vinna oft vanþakklátt starf. Þetta er fólk sem nær ekki að tengjast íslensku samfélagi og almennur Íslendingur þekkir ekki vel aðbúnað þessa fólks.“
Eftir brunann á Bræðraborgarstíg 1 hefur blossað upp mikil reiði meðal innflytjenda og segir Drífa það vera mjög skiljanlegt. „Þá kom fram fólk sem sagði að það væri hreinlega farið með erlent vinnuafl eins og dýr. Við verðum að horfast í augu við að velsæld í íslensku samfélagi síðustu árin hefur að stórum hluta verið haldið uppi af fólki sem kom hingað til að hjálpa okkur að snúa hjólum atvinnulífsins. Öll umræða um að þeir sem koma hingað til að leggja hönd á plóg eigi ekki að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta eða önnur réttindi finnst mér mjög dapurleg því við stöndum í mikilli þakkarskuld við fólk sem hefur komið hingað til að vinna.“

Samtakamáttur Pólverja

Í brunanum á Bræðraborgarstíg 1 létust þrír Pólverjar og Íslendingar sáu vel í kjölfarið hversu sterkur samtakamáttur Pólverja var. Drífa bendir á að á Facebook telji samfélag Pólverja á Íslandi um 24 þúsund manns og með auknum fjölda séu þeir dug legri að deila upplýsingum sín á milli, svo sem upplýsingum um réttindi á vinnumarkaði. Hún segir að í raun sé það fólk frá öðrum löndum sem þurfi að hafa meiri áhyggjur af þegar kemur að upplýsingum um réttindi, svo sem Rúmena og Ungverja, sem hafi hér lítið tengslanet. Þetta rímar vel við það sem kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála um aðbúnað erlends starfsfólks þar sem segir að ýmis fyrirtæki leiti nú síður eftir starfskröftum Pólverja því þeir þekki almennt rétt sinn. Ótrúlegt en satt.
Drífa segir að á síðustu árum hafi hingað komið mikið af ungu og vel menntuðu fólki frá Póllandi sem jafnvel hafi tekið þátt í verkalýðsbaráttu í heimalandinu. „Mér finnst vera orðin vakning meðal fólks af erlendum uppruna þegar kemur að verkalýðsmálum og ég verð að hrósa Eflingu fyrir að lyfta þar grettistaki. Stór hluti þessa hóps er félagsfólk þar og Efling hefur virkjað það í starfi félagsins.“
Umræðan um erlent verkafólk hér á landi teygir sig einnig inn á slóðir vinnumansals en Drífa kynntist mansali strax þegar hún starfaði hjá Kvennaatvarfinu, og hjá Starfsgreinasambandinu sá hún um að mennta fólk í framlínunni til að bera kennsl á einkenni þolenda mansals. Þessi mál séu þó afar erfið og flókin enda haga þolendur mansals sér ekki á einn hátt frekar en þolendur annars konar ofbeldis eða óréttlætis, það þarf að sníða aðstoðina eftir einstaklingunum. Hún segir verkalýðshreyfinguna lengi hafa þrýst á stjórnvöld að koma með aðgerðaáætlun gegn mansali en það gengið illa.
Fyrr í þessum mánuði var tilkynnt að Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, hafi verið falið að hafa umsjón með framkvæmdarteymi um mansal og halda utan um tölfræði um mansal á Íslandi. Um er að ræða eins árs tilraunaverkefni. Drífa fagnar þessu sannarlega en segir að mun meira þurfi að koma til og engin heildstæð aðgerðaáætlun sé enn til staðar. En hvernig gengur það upp að Ísland sé ekki með neina aðgerðaáætlun gegn mansali? „Það bara gengur alls ekki upp. Við erum að brjóta alþjóðasamninga og fáum ítrekað skömm í hattinn frá umheiminum fyrir að standa okkur ekki. Það hefur einfaldlega skort pólitískan vilja, sérstaklega af hálfu þeirra sem hafa setið í dómsmálaráðuneytinu,“ segir Drífa. Það er hins vegar svo að til að gera þessa áætlun þarf að koma til forsætisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið. Í þessum ráðuneytum sitja nú ráðherrar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. „Það virðist vera lenska hér á landi að þegar fleiri en eitt ráðuneyti þurfa að koma saman að málum þá verður einhver stífla. Það er óþolandi að verða vitni að slíku í jafn mikilvægum og aðkallandi málum og mansali. Við höfum verið að ýta á eftir þessu en þetta er greinilega ekki ofarlega í bunkanum. Þetta sendir út þau skilaboð að við látum líðast að hér sé fólk misnotað í starfi eða öðrum tilgangi. Þetta er birtingarmynd á fyrirlitningu í garð þolenda mansals.“

Búið að „neutralisera“ Vinstri græna

Drífa hafði verið í Vinstri grænum í 18 ár, verið varaþingmaður og framkvæmdastjóri flokksins, þegar hún sagði sig úr honum eftir síðustu alþingiskosningar og sagði ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum „eins og að éta skít“. Hún er enn mjög sátt við þá ákvörðun. „Já, ég er sátt og get í fullri hreinskilni sagt að ég veit ekki hvað ég mun kjósa í næstu alþingiskosningum. Mér finnst alvarleg pólitísk staða að vera ekki með neinn róttækan vinstri flokk sem getur togað pólitíkina til vinstri. Það er búið að „neutralisera“ Vinstri græna að einhverju leyti með því að flokkurinn sé í ríkisstjórn. Þar er verið að gera ýmsar málamiðlanir sem maður sér ekki á yfirborðinu. Það á aldrei að vanmeta stjórnarandstöðuflokka sem geta dregið umræðuna í rétta átt. Mér finnst stjórnarandstaðan á þingi nú heldur ekki vera beysin. Mér líður vel að vera utan flokka,“ segir hún.
Reglulega kemur upp umræða um hvort verkalýðshreyfingin ætti ekki að stofna nýjan stjórnmálaflokk en Drífa er ekki á þeirri línu. „Af þeirri einföldu ástæðu að ég veit hvernig flokkapólitík getur farið með fólk og farið með samstöðu. Ég held að slíkt myndi draga úr samstöðu innan verkalýðshreyfingarinnar Auðvitað eru margir innan hreyfingarinnar flokksbundnir hinum ýmsu flokkum og það þarf ekkert að vera verra.“

Ábyrgðin getur verið þrúgandi

Hún segir margt til að vera stolt af í starfi forseta ASÍ. „Þegar gengið er frá kjarasamningum er maður yfirleitt aldrei ánægður með þá en þegar það er komin smá fjarlægð finnst mér okkur hafa gengið vel með þá samninga sem ég hef tekið þátt í að ná. Ég er líka mjög ánægð með að hafa haldið áfram uppbyggingu íbúðafélagsins Bjargs, þar sem fólki í lág- og millitekjuhópum gefst kostur á að fá öruggt húsnæði og lækka leiguna sína. Það er stórkostlegt að taka þátt í því. Þá stofnuðum við rannsóknarmiðstöðina Vörðu sem sérhæfir sig í rannsóknum á vinnumarkaði. Þannig aukum við þekkingu okkar og fáum fleiri vopn í hendur til að berjast fyrir bættu samfélagi. Við erum líka dugleg að leita þekkingar utan landsteinanna, enda eiga þau mál sem stranda erlendis einnig til að stranda hér.“
ASÍ er stærsta fjöldahreyfing landsins þar sem félagsmenn eru um 130 þúsund og um 60% af íslenskum vinnumarkaði undir. „Það hefur komið mér skemmtilega á óvart hvað verkalýðshreyfingin býr yfir mikilli þekkingu og hvað hér er mikið af virku fólki. Oft hefur hins vegar verið erfitt að ná saman um ákveðin málefni, sem ætti þó ekki að koma á óvart þegar um jafn stóra hreyfingu er að ræða. Það sem hefur gefið mér mest er að ná áþreifanlegum árangri til að bæta lífskjör fólks, sérstaklega þeirra sem verst hafa það. Í starfi hef ég þurft að eiga við stærstu persónuleika landsins, hvort sem er í pólitík eða verkalýðsmálum. Það er ekkert alltaf auðvelt. Ábyrgðin sem fylgir starfinu getur verið þrúgandi á köflum og ég þarf þá stundum að hafa fyrir því að halda í gleðina og léttleikann. Það á sérstaklega við þegar mér finnst ég vera að bregðast einhverjum eða hafa getað gert betur,“ segir hún en slíkt sé óneitanlega fylgifiskur þess að gegna jafn mikilvægu starfi. „Það eru svo miklir hagsmunir í húfi fyrir vinnandi fólk. Þetta snýst ekki bara um kaup og kjör heldur um lífsgæði og hvernig samfélagi við viljum búa í.“
Drífa hefur gríðarlega ástríðu fyrir starfinu og veit ekkert skemmtilegra en verkalýðsbaráttuna, jafnvel þótt hún þurfi að tala við fjölmiðla í sumarfríinu. En sumarfríið er alls ekki búið. Drífa er nýkomin frá Hrísey, sem er fastur viðkomustaður hennar og vinkvennanna. „Ég er í sterkum vinkvennahópi og við förum árlega til Hríseyjar. Þetta er fimmta árið mitt. Þetta er fjögurra kvenna kjarni en ýmsar sem hafa komið með í gegnum tíðina. Við höfum enga sérstaka tengingu við eyjuna, heldur tókum bara ástfóstri við hana. Þarna býr gott fólk sem við höfum verið að kynnast og ég hlakka til að verja meiri tíma þar,“ segir Drífa, sem ætlar aftur til Hríseyjar áður en fríið – „fríið“ – er úti.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“