fbpx
Föstudagur 23.júlí 2021
Fókus

Hilmir Snær taldi sig of góðan fyrir viss hlutverk – Var hræddur um að festast sem „loverboj“

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 15. mars 2020 09:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikarinn góðkunni, Hilmir Snær Guðnason, er fyrir löngu orðinn eitt af okkar allra þekktustu andlitum, en stjarna hans skaust hratt upp á himininn við útskrift frá Leiklistarskóla Íslands. Hann veitir þó sjaldan viðtal enda segist hann forðast það eins og heitan eldinn að vera sjálfur í framlínunni.

Það kann að hljóma furðulega að starfa innan leiklistargeirans en vera á sama tíma svo fráhverfur sviðsljósinu. Spurður hvort mýtan um athyglissjúka leikarann sé byggð á sandi segist Hilmir frekar fara áfram á þörfinni til þess að skapa. „Ég sótti eflaust meira í athyglina þegar ég var yngri, en í dag hef ég enga þörf til þess að trana mér fram. Með aldrinum breytast áherslurnar og mér finnst dásamlegt að eldast. Mér líður betur og tek árunum fagnandi. Maður er afslappaðri í eigin skinni og hefur meira vit fyrir sjálfum sér.“

Eins og að vera sjóveikur sjómaður
Spurður hvernig hann komi sér í gírinn fyrir sýningu segist Hilmir ósjálfrátt hverfa inn í einhverja hugarmöntru en hann hefur jafnframt gengið svo langt að kalla til látna ættingja í von um styrk. „Sýningarnar eru auðvitað miserfiðar tilfinningalega sé og stundum er maður ekki vel stemmdur. Maður getur verið veikur eða einfaldlega þreyttur, en áhorfendur gefa manni alltaf þá pressu sem þarf. Það er ótrúlegur styrkur sem felst í þeim, því maður getur komið til vinnu alveg dauðþreyttur og sannfærður um að maður muni sofna á sviðinu en svo stígur maður á svið og eitthvað snarbreytist. Þreyta er nefnilega nýja stressið mitt, áður fyrr fékk ég fiðrildi í magann en núna verð ég gríðarlega syfjaður. Það er eins og líkaminn sé að undirbúa sig fyrir átök án þess að ég viti af því, svo vakna ég við það að ganga inn á sviðið. Þetta er oft eins og eitthvert dáleiðsluástand og þarna líður mér jafnframt best. Meðan á æfingaferlinu stendur er maður svo mikið í því að hugsa um tæknileg atriði og hvernig framkvæma skuli hvert atriði, en eftir að sýningar hefjast sleppir maður þessu taki og því fylgir ákveðið frelsi. Ég get alveg dottið út í því ástandi en svo er hægt að gleyma texta og það köllum við að vera stödd á þrettándu hæð, hæðinni sem er ekki til á neinum hótelum. Þá horfir maður á sjálfan sig utan líkamans, sem er auðvitað agalegt – að sjá sig gleyma og gera mistök, en þá verður maður bara að feika það.“

Mynd: Eyþór Árnason

 

Saknarðu aldrei fiðrildanna? „Nei, ég er feginn að vera laus við þau. Ég var svo kvíðinn fyrstu árin að ég ældi næstum fyrir sýningar. Þetta var eins og að vera sjóveikur sjómaður. Ég get ekki sagt að ég sakni þess. Það er hins vegar hægara sagt en gert að ná sér niður eftir sýningu, það lærist ekki með aldrinum því þótt sýning sé búin á miðnætti er nær útilokað að ég nái að sofna fyrr en tæplega fjögur, sama hvað ég geri, maður er svo vakandi.“

Maður þarf ekki alltaf að vera aðal
Hilmir viðurkennir jafnframt að hafa talið sig of góðan fyrir ákveðin hlutverk. „Já, hér á árum áður fannst mér ég um tíma kunna allt og hélt þá um stund að ég væri orðinn svo góður að ég hefði ekkert fyrir neinu, en þá fyrst fór maður að verða lélegur. Þetta er hroki sem á ekki heima í leiklist. Aðrir sjá þetta samt á undan manni og þá er gott að eiga góða vini og fjölskyldu sem beina manni á rétta braut. Svo getur það líka gerst að maður verður leiður og þá er mikilvægt að velja vel hvað maður tekur að sér. Maður verður að hafa brennandi áhuga fyrir þeim verkefnum sem maður tekur að sér. Auðvitað er auðvelt að halda að maður sé búinn með þetta allt, en leiklist er rétt eins og læknisfræði, maður hættir aldrei að læra. Þú verður stöðugt að vera að endurskoða sjálfan þig. Um tíma var ég sem dæmi hræddur um að festast sem einhver „loverboj“ og vildi fá að leika önnur hlutverk og ég reyndist mjög heppinn og fékk að fást við fleira en það. Í seinni tíð koma svo áhugaverð, dýpri hlutverk og það er gaman að leika menn á mínum aldri því lengi vel var ég að leika niður fyrir mig, einhverja unga stráka. Svo er það nú annað, maður þarf ekki alltaf að vera aðal, maður getur alveg verið í góðum aukahlutverkum og ég er ekkert hræddur við það.“

Viðtalið í heild má lesa í helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 6 dögum

„Mennski djöfullinn“ lét fjarlægja af sér fingur og nefbrodd

„Mennski djöfullinn“ lét fjarlægja af sér fingur og nefbrodd
Fókus
Fyrir 6 dögum

Fráskilin kona á sextugsaldri lifir nú sínu besta kynlífi með þrítugum „leikfangadrengjum“

Fráskilin kona á sextugsaldri lifir nú sínu besta kynlífi með þrítugum „leikfangadrengjum“