fbpx
Föstudagur 05.júní 2020
Fókus

Áfengisneysla Sólborgar ýtti fólki úr lífi hennar: „Ég hugsaði bara um rassgatið á sjálfri mér“

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 8. september 2019 20:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd: Eyþór Árnason

Sólborg Guðbrandsdóttir er fædd og uppalin í Keflavík og hefur verið áhugamanneskja um tónlist frá ungum aldri. Um þessar mundir stundar hún lögfræðinám og horfir til baka á áfengisneyslu sína og hvernig upp úr henni var risið. Sólborg byrjaði að drekka áfengi á framhaldsskólaárum og samkvæmt henni fór neyslan að stigmagnast án þess að hún gerði sér grein fyrir vandamálinu.

Að sögn Sólborgar er alkohólismi ríkjandi í fjölskyldu hennar en við upphaf drykkjutímabilsins þótti henni áfengi ekki vera neitt tiltökumál í eigin tilfelli. „Við upplifum kúltúrinn oft þannig að við þurfum að drekka til að eiga heima í þessari veröld og okkur langar öllum að tilheyra einhverjum hópi,“ segir hún.

„Mig minnir að ég hafi smakkað áfengi nokkrum dögum áður en ég átti sautján ára afmæli. Smám saman var þetta þannig að ég fór á djammið með vinum mínum og fékk mér einn og einn Breezer. Það var mikil spenna í þessu tímabili, að vera með fölsuð skilríki og koma mér inn á skemmtistaði. Mér fannst það rosa gaman.“

Líf Sólborgar breyttist síðan ört þegar hún lenti í ástarsorg á framhaldsskólaárum, sem hún segir að hafi verið mjög auðveld leið til að sækjast meira í áfengið, sem leiddi til óhóflegrar neyslu næstu tvö árin.

„Það að ég hafi leitað í vímuefni til að byrja með var alvarlegt. Ég gerði mér ekki grein fyrir því á þeim tíma að þetta væri flótti en ég geri það í dag. Mig grunaði ekki á þessum tíma að ég gæti þurft að vinna í sjálfri mér. Það eitt og sér að finnast maður þurfi að drekka, að innbyrða róandi eða slakandi efni, er vandamál,“ segir Sólborg.

„Ég var búin að gera lítið úr þessu hjá sjálfri mér, að það væri bara hefð að kíkja út á lífið allar helgar. En þegar ég var yngri fannst mér eins og ég þyrfti að vera orðin x mikið full til að fara niður í bæ. Annars treysti ég mér ekki til að vera í þessu umhverfi.“

Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem Sólborg segir sögu sína í DV sjónvarpi:

Á allra vörum – Sólborg Guðbrandsdóttir from DV Sjónvarp on Vimeo.

Sólborg segir hefðina hafa náð föstum tökum á sér og fór megnið af vikudögunum í það að búa sig undir næstu helgi. „Ég djammaði stundum á bæði föstudegi og laugardegi. Sunnudagarnir voru alltaf ömurlegir. Ég var í þunglyndiskasti, ógeðslega lítil í mér og þunn. Mánudagarnir voru þannig líka og þá er maður ekkert tilbúinn í vikuna á þriðjudegi. Svo kemur miðvikudagur og fimmtudagur og maður hugsar: „Ég get bara flúið allt þetta kjaftæði og farið að djamma með vinkonum mínum.“ Við tölum oft um þynnku eins og það eigi bara við um daginn eftir drykkjuna, en þynnkan mín var bara þunglyndi. Ég hafði enga orku eða metnað í þetta bull, að fara í skólann eða vinnuna fannst mér ömurlegt,“ segir Sólborg.

Hvað leiddi til botnsins?

„Upp undir lokin átti ég nokkur kvöld þar sem ég mundi ekki eftir neinu. Einu sinni fengu vinkonur mínar símtal frá stelpu sem fann mig á Laugaveginum. Þar sat ég, komin úr skónum og varla með meðvitund. Að vita af sjálfri sér í svona aðstæðum, þar sem maður getur ekki varið sig og hefur enga meðvitund, er ömurlegt. En stuttu eftir þetta ákvað ég að taka pásu frá drykkjunni. Þetta var 12. nóvember 2016 sem ég drakk síðast. Ég ætlaði að taka mér pásu fram að áramótum en ég fékk mig ekki til að byrja aftur.“

Sólborg segist hafa þurft að lenda á þessum vegg og telur hún líklegt að hún hefði leitað til eiturlyfja ef lífsstíllinn hefði haldið áfram eins og hann var orðinn. „Ég ætlaði ekkert að hætta að drekka út líf mitt, heldur taka mér pásu út árið – sem voru í rauninni bara nokkrar helgar. Minni markmiðin urðu svo að stærri markmiðum og allt í einu var liðið ár og núna á ég bráðum þriggja ára edrúafmæli. Ég myndi hvetja alla sem ætla sem ætla sér að breyta til í þessum málum að taka þetta í skrefum.“

Vímuefni normalíseruð víða

Sólborg fullyrðir að fólk sem finnur sig í svipaðri stöðu þurfi ekki að finna fyrir skömm þegar kemur að því að leita sér hjálpar. „Það á ekki að vera nein skömm við það að eiga erfitt með að setja eiturefni í líkamann sinn og tækla það ekki nógu vel,“ segir hún.

Að mati Sólborgar þarf sú umræða að aukast um að líta ekki á fólk sem kýs að halda sér frá áfengi- eða vímuefnum sem einhver „frík.“ Hún segir: „Það er mjög töff að neyta ekki áfengis eða vímuefna og við þurfum að hvetja og ýta upp þeim lífsstíl. Við sjáum þetta alls staðar í kringum okkur hvað djammið er æðislegt; í tónlist, í bíómyndum, alls staðar. Við erum búin að normalísera vímuefni alveg rosalega, sérstaklega áfengi.“

Leið þér eins og þú værir að missa af einhverju þegar þú tókst þér pásuna?

„Fyrstu mánuðina, já. En mig langaði heldur ekki að vera í þessu umhverfi þá. Ég fór ekki niður í bæ eftir að ég hætti að drekka í þónokkra mánuði. Það dugði mér. Í dag fer ég alveg niður í bæ og skemmti mér, en ég drekk þá kannski eitthvað annað í drykkjuleikunum heldur en ég gerði. Þegar ég drakk tók ég fólkið í kringum mig sem sjálfsagðan hlut og missti ýmsa úr lífi mínu vegna þess að ég hugsaði bara um rassgatið á sjálfri mér.“ segir Sólborg.

„Eftir hálft ár fór ég að sjá rosalega jákvæðar breytingar á sjálfri mér, ég hafði meiri þolinmæði, ég fór að setja mér fleiri markmið og var meira samkvæm sjálfri mér. Ég pældi minna í áliti annarra, en það sem mér var mikilvægast var þegar mágkonan mín sagði að ég væri meira til staðar fyrir fjölskylduna. Það skiptir öllu máli fyrir mig.“

Mynd: Eyþór Árnason

DV hvetur alla sem geta að styrkja þetta góða málefni. Í ár nýtur Eitt líf stuðningsins, en þar hefur verið unnið óhefðbundið forvarnarstarf í grunnskólum landsins, sem vakið hefur mikla athygli. Starfsemin hófst eftir lát ungs drengs, Einars Darra í maí 2018, og byggir á því að fræða börn og ungmenni, foreldra þeirra og kennara um þá hættu sem fylgir neyslu vímuefna og lyfseðilsskyldra lyfja.

Þú getur lagt þitt af mörkum með því að greiða ákveðnar upphæðir beint á söfnunarreikning Á allra vörum í Landsbankanum: 101 – 26 – 55555, kennitala 510608-1350. Eins er hægt að leggja söfnuninni lið með því að hringja í eftirtalin símanúmer.

907-1502 fyrir kr. 2.000
907-1504 fyrir kr. 4.000
907-1506 fyrir kr. 6.000
907-1508 fyrir kr. 8.000
907-1510 fyrir kr. 10.000

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Lagði frá sér nautasteikina og tók upp símann – Nokkrum dögum síðar var hann orðinn yfirlæknir á COVID-göngudeild

Lagði frá sér nautasteikina og tók upp símann – Nokkrum dögum síðar var hann orðinn yfirlæknir á COVID-göngudeild
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta er hægt að gera á Flúðum í sumar

Þetta er hægt að gera á Flúðum í sumar
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég þarf að biðja hana um að „passa“ börnin okkar“

„Ég þarf að biðja hana um að „passa“ börnin okkar“
FókusFréttir
Fyrir 4 dögum

Kallar veggjakrotara glæpamenn sem svífast einskis – „Það þarf, nauðsynlega, að stöðva veggjakrot“

Kallar veggjakrotara glæpamenn sem svífast einskis – „Það þarf, nauðsynlega, að stöðva veggjakrot“
Fókus
Fyrir 1 viku

Flotta fólkið lét sig ekki vanta í opnunarpartý Bubblur og Beyglur

Flotta fólkið lét sig ekki vanta í opnunarpartý Bubblur og Beyglur
Fókus
Fyrir 1 viku

Bjartasta vonin Bríet á lausu

Bjartasta vonin Bríet á lausu
Fókus
Fyrir 1 viku

Guðni fagnar stórafmæli móður sinnar

Guðni fagnar stórafmæli móður sinnar
Fókus
Fyrir 1 viku

Klæðaburður Kára vekur athygli – „Ekki spurning að hann er trendsetter“

Klæðaburður Kára vekur athygli – „Ekki spurning að hann er trendsetter“