Föstudagur 21.febrúar 2020
Fókus

Þórhallur stefndi aldrei á að verða neinn Spielberg: „Það er eins og þessi leið hafi valið mig frekar en ég hana”

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 25. ágúst 2019 10:00

Thor Sævarsson undirbýr tökur á kvikmyndinni The Hidden.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórhallur Helgi Sævarsson hefur starfað sem auglýsingaleikstjóri undanfarin sextán á en hann undirbýr nú tökur á sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd. Hann segist aldrei hafa stefnt á bíóbransann en í grunninn sé hann sögumaður og því sé eðlilegt framhald að víkka út karaktera og hughrif áhorfenda um leið.

Undirbúningsvinna myndarinnar The Hidden hefur staðið yfir lengi en Þórhallur segir hugmyndina hafa kviknað árið 2001 þegar hann var staddur á Hótel Skaftafelli. „Sagan hefur dvalið með mér mjög lengi. Ég mun ekki segja öllum að hún sé byggð á sönnum atburðum, en hún er það á vissan hátt. Tildrög myndarinnar urðu árið 2001 þegar ég vann að kvikmyndinni Tomb Raider en þar hitti ég ameríska jarðfræðinema sem höfðu lent í miður skemmtilegri reynslu á hálendi Íslands. Þau höfðu verið stödd við Lakagíga þar sem þau söfnuðu bergsýnum, en svæðið er annálað fyrir yfirnáttúrulegar sögur af alls kyns huldufólki. Fljótlega fóru undarlegir hlutir að eiga sér stað, búnaður tók að bila og að lokum féll einn úr hópnum, mjög vanur klifrari, niður margra metra hæð og braut á sér báða fæturna. Þeim reyndist erfitt að ná símasambandi og voru orðin mjög hrædd. Frásögn þeirra sat lengi í mér án þess þó að ég gerði neitt í því, en þegar ég komst á þann stað á ferlinum að hugsa til þess að gera kvikmynd fann ég að þetta var saga sem mér fannst ég þurfa að segja. Ég hófst því handa við að hripa atburðarásina niður en fann fljótt að ég er ekki besti rithöfundurinn. Fyrir einstaka tilviljun var gamall vinur minn úr Menntaskólanum við Hamrahlíð, rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð, staddur á landinu en hann hefur verið búsettur í Barcelona um langa hríð. Ég sendi honum línu og spurði hvort hann væri til í að kíkja á mig í kaffi, sem hann þáði. Honum leist strax vel á hugmyndina og í kjölfarið hófumst við handa við að skrifa og pæla, hægt og rólega fæddist svo handritið sem í dag er svo gott sem klappað og klárt.“

„Sagan hefur dvalið með mér mjög lengi. Ég mun ekki segja öllum að hún sé byggð á sönnum atburðum, en hún er það á vissan hátt.“

Þórhallur segir himin og haf vera milli þess að leikstýra auglýsingu og kvikmynd en í grunninn sé best að líkja þessu saman við maraþon. „Vinnan sem liggur að baki kvikmynd er algjört langhlaup sem reyndist mér ákveðin breyta, komandi úr auglýsingaheiminum en hann einkennist af einum allsherjar spretti. Kvikmyndagerð gerist hægar þar sem mikil vinna fer í fjármagns- og framleiðsluferli. Allt tekur lengri tíma og því upplifi ég þetta ferli frekar sem maraþon en spretthlaup.“

Justin Timberlake mjög fínn gaur

Ferill Þórhalls hófst sem fyrr segir fyrir sextán árum þegar hann tók þátt í keppninni Nike Young Directors Award þar sem hann hafnaði í öðru sæti. Hann hlaut jafnframt áhorfendaverðlaun hátíðarinnar. „Ég var skiljanlega pirraður að fá ekki gullið, enda ætlaði ég mér alltaf að vinna.“
Leikstjórinn Gurinder Chadha var formaður dómnefndar en hún er þekktust fyrir að hafa leikstýrt kvikmyndinni Bend it like Beckham. Eftir að úrslit voru kunn gekk Þórhallur á hana og spurði hvers vegna hann hefði ekki borið sigur úr býtum en hún tjáði honum þá að nefndinni hefði strax verið ljóst að hann myndi alltaf „meika“ það. „Það gerði mig ekkert minna pirraðan en þetta kennir manni að halda alltaf fast á spöðunum. Þetta var engu að síður mikið ævintýri og við sem enduðum í topp þremur efstu sætunum fengum tíu þúsund pund í verðlaun til að framleiða okkar eigið efni. Það þótti á þessum tíma heilmikill peningur og þar sem ég var þegar vel tengdur inn í þennan heim innan kollega í London, náði ég að gera enn meira úr þessari upphæð en ég hefði átt að geta gert. Þarna fór boltinn fyrst að rúlla.“
Eftir langan feril segir Þórhallur fátt koma lengur á óvart, hann ferðist meiru en góðu hófi gegni á ári hverju og sé því mikið fjarri fjölskyldunni, en undanfarið ár hafi eflaust náð að toppa öll fyrri, hvað ferðalög snerti. „Ég er fyrir löngu búinn að missa tölu á þeim ferðum sem ég fer á vegum vinnunnar. Bara á þessu ári hef ég ferðast svo mikið og víða að ég get varla talið löndin lengur. Auðvitað er þetta algjört djók og getur bitnað á fjölskyldunni, en ég bý svo vel að eiga einstaklega þolinmóða og skilningsríka konu.“
Fyrsta stóra tækifærið segir Þórhallur hafa komið árið 2005 þegar hann, ásamt tveimur öðrum auglýsingaleikstjórunum, fékk það verkefni upp í hendurnar að framleiða auglýsingarnar fyrir skyndibitakeðjuna McDonald’s þar sem stórsöngvarinn Justin Timberlake flutti línuna ógleymanlegu „I’m loving it“. „Við skutum þessar auglýsingar bæði í London, Suður-Afríku og Los Angeles. Það var gaman að hitta Justin og við héldum fínu sambandi í talsverðan tíma á eftir. Hann bauð mér á tónleika með sér í London stuttu síðar og við hittumst nokkrum sinnum. Hann var mjög almennilegur gaur og þetta var skemmtilegt verkefni. Eflaust eitt af þeim fyrstu stóru sem ég gerði, en nokkrum árum síðar gerði ég svo stóra auglýsingu fyrir Opel sem kýldi mig svolítið inn í heim bílaauglýsinga. Síðan þá geri ég alltaf nokkrar slíkar á hverju ári sem er gaman, þær krefjast mikilla tæknilegra atriða og eru í grunninn uppfullar af smáatriðum, en málið er bara það að í grunninn elska ég að segja sögur. Ég starfa við þetta af því að mér finnst gaman að færa frásagnir í myndrænt form en ég er þó ekki einn af þeim sem leiddust út í auglýsingaleikstjórn í von um að færast síðar yfir í kvikmyndir. Þetta virkar nefnilega öfugt hjá mér. Ég ætlað mér í raun aldrei út í kvikmyndaleikstjórn enda hef ég aldrei stefnt á að verða neinn Spielberg.“

Snýst ekki um að vera bíómyndatöffari í Hollywood

Þórhallur segir að áhuginn á kvikmyndagerðarlist hafi vaknað snemma því hann hafi verið alinn upp innan um áhugaverð tæki og tól til þess brúks fallin. Hann hafi þó ekki gert sér grein fyrir því að áhuginn gæti leitt til starfsframa fyrr en löngu seinna. „Pabbi hafði alltaf mikinn áhuga á ljósmyndun og keypti til að mynda Hi-8 myndavél og vídeómixer þegar ég var í kringum ellefu ára. Ég var því snemma farinn að prófa mig áfram og leika mér með myndefni, án þess þó að stefna á það sem starfsframa. Þegar ég hins vegar áttaði mig á að það væri hægt að gera þetta að framtíðarstarfi lagði ég allt í sölurnar. Mörgum árum síðar fór það svo fyrst að toga í mig að vinna með starfið í lengra formi og ég finn að það er sífellt að verða ríkara í mér núna.“

„„Ef ég hefði engar sögur að segja, hvað gæti ég þá gert“, ég tengi sterkt við þetta sjálfur því það er það sem maður gerir, hvort sem það snýr að auglýsingum, bíómyndum eða tónlistarmyndböndum – þetta snýst allt um að segja sögur.“

Eftir að hafa unnið lengi við gerð auglýsinga segir Þórhallur það spennandi áskorun að fá nú tækifæri til að byggja upp karaktera og á sama tíma byggja upp hughrif áhorfandans. Hann segist þó ekki hafa verið tilbúinn að taka skrefið fyrr en nú. „Það er eins og þessi leið hafi valið mig frekar en ég hana. Ég hafði lítið leitt hugann að kvikmyndaleikstjórn fyrr en þessari hugmynd laust niður, en hún lét greinilega vita af sér þegar ég var tilbúinn til þess. Ég hef nú sankað að mér reynslu og öðlast ákveðin höfundareinkenni sem reynast mér í dag raunhæf til að gera og prófa eitthvað nýtt og frábrugðið. Það sem mér finnst spennandi nýjung í þessu starfi er að fá tækifæri til að vinna lengur með tilfinningar áhorfenda. Fyrir mér snýst þetta ekki um að vera bíómyndatöffari í Hollywood heldur tækifæri fyrir mig sem skapandi einstakling til að fá hér tól til þess að segja sögur í lengri tíma, það er það sem þetta snýst um. Ég las einmitt viðtal við leikstjórann Pedro Almodovar, þar sem hann fer yfir nýjustu kvikmynd sína, sem margir vilja meina að sé sjálfsævisaga. Þar segir hann: „Ef ég hefði engar sögur að segja, hvað gæti ég þá gert“, ég tengi sterkt við þetta sjálfur því það er það sem maður gerir, hvort sem það snýr að auglýsingum, bíómyndum eða tónlistarmyndböndum – þetta snýst allt um að segja sögur. Frásagnirnar sem þú segir eru auðvitað persónubundnar og enginn að segja hverjar séu betri eða verri, en snýst að mestu leyti um að segja söguna.“

Fyrsta skandinavíska hryllingsþáttaserían

Spurður hvað sé framundan sé kvikmyndin frátalin, segir Þórhallur að auglýsingatökurnar haldi áfram að flokkast sem dagvinna þótt gæluverkefnin séu fleiri en bara bíómyndin. „Við Óttar erum með fleiri járn í eldinum en bara þessa kvikmynd því við höfum undanfarna mánuði verið að semja saman handrit að því sem virðist, samkvæmt mínum bestu rannsóknum, vera fyrsta skandinavíska hryllingsþáttaserían. Þetta hefur verið helvíti skemmtilegt verkefni sem við höfum bæði eytt tíma og púðri í en við stefnum á að kynna það fyrir Netflix á næstu dögum. Til að segja örlítið frá því, þá gerist sagan í íslensku sjávarþorpi í kringum 1990 en að því sögðu höfum við engan grun um það hvernig erlendir framleiðendur muni taka í þessa hugmynd, þótt við Óttar séum spenntir og klæi í fingurna að víkka út karakterana sem við erum þegar farnir að þenja út. Í fullkomnum heimi færi kvikmyndin í tökur næsta sumar og svo myndum við vinda okkur beint yfir í þessa þáttagerð strax veturinn á eftir, en ég hef lært það, að í þessum bransa er ekkert fast í hendi og allt tekur sinn tíma. Því er ekkert að gera nema bíða og sjá hvert framtíðin leiðir okkur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Júlíusson er listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar – „Ég hef gaman af ýktri tjáningu“

Gunnar Júlíusson er listamaður mánaðarins í Bókasafni Garðabæjar – „Ég hef gaman af ýktri tjáningu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristín nefnir bestu leiðina til að tækla óþolandi fólk – Svona gerir hún það

Kristín nefnir bestu leiðina til að tækla óþolandi fólk – Svona gerir hún það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ágústa miður sín yfir viðbjóðslegum rasisma í Ikea: „Vá hvað þetta var ljót stelpa“

Ágústa miður sín yfir viðbjóðslegum rasisma í Ikea: „Vá hvað þetta var ljót stelpa“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram: „Ég baða mig í tárum óvina minna“

Vikan á Instagram: „Ég baða mig í tárum óvina minna“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Úttekt – Vinsælustu kynlífstækin á Íslandi – Sogtæki, titringur og rassaleikir

Úttekt – Vinsælustu kynlífstækin á Íslandi – Sogtæki, titringur og rassaleikir
Fókus
Fyrir 6 dögum

Karitas Harpa á tímamótum: „Allt nýtt en aldrei verið meira ég“

Karitas Harpa á tímamótum: „Allt nýtt en aldrei verið meira ég“