fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Guðrúnu var sagt upp og þá tók lífið í taumana: „Skyndilega heyrðist kunnuglegt blikkhljóð úr tölvunni“

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 25. ágúst 2019 14:30

Hörkukvendi Guðrún Ólafsdóttir er sannarlega með bein í nefinu. Mynd: Úr einkasafni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðatiltækið „Þegar einar dyr lokast, opnast aðrar“, á einkar vel við þegar kemur að sögu Guðrúnar Ólafsdóttur en fyrir þremur árum umturnaðist líf hennar.

Guðrún, sem hafði lengi starfað sem bókari, missti vinnuna og stóð ráðalaus með uppsagnarbréf í höndunum þegar henni barst aðstoð úr óvæntri átt.

„Ég vissi ekkert hvert ég vildi stefna en skyndilega heyrðist kunnuglegt blikkhljóð úr tölvunni þar sem gamall bekkjarbróðir minn spurði hvernig ég hefði það. Við höfum lært saman í Englandi, en þarna voru liðin þrjátíu og fimm ár frá því við töluðumst við. Mér fannst þetta undarleg tilviljun og fannst heldur leitt að þurfa segja honum að ég hefði verið að missa vinnuna. Ég sagðist því vera upptekin, en seinna um kvöldið kom hann aftur á spjallið og við hófum samtal sem stóð allt kvöldið. Að endingu viðurkenndi ég að ég væri nýlega orðin atvinnulaus og í kjölfarið spurði hann mig hvað ég hygðist gera í framhaldinu. Mér varð svarafátt en sagði í rælni að kannski myndi ég bara fara að selja sokka, en hann er tyrkneskur og rekur sokkaverksmiðju. Honum fannst þessi hugmynd mín stórgóð og hvatti mig óhikað til að láta slag standa. Ég sagðist hvorki hafa fjármagn né kunnáttu til þess enda þekki ég lítið til textíls eða efnisframleiðslu. Hann lofaði að hann skyldi hjálpa mér og að endingu var þetta alls ekki svo galin hugmynd.“

Lagði land undir fót og kynnti vöruna fyrir landsmönnum

Uppsagnarfrestinn nýtti Guðrún svo til að koma nýja fyrirtækinu á fót sem hún segir að hafi verið erfitt ferli enda margt nýtt að setja sig inn í.

„Við byrjuðum á því að búa til heimasíðu, sem dóttir mín hjálpaði mér við, ásamt því að finna nafn á vörumerkið. Þannig urðu Socks2Go að veruleika. Ég fór nokkrar ferðir að heimsækja verksmiðjuna, skoða vörurnar og hafa gæðaeftirlit með framleiðslunni. Tíu mánuðum síðar fékk ég svo tuttugu feta gám, fullan af sokkum, til Íslands þar sem ég hafði komið mér fyrir. Svo nú gat ég byrjað að selja. En þá kom upp ný áskorun; það vissi enginn af okkur og ég hafði ekki fjármagn til að leggjast í stórar auglýsingaherferðir. Því tók ég til þess ráðs að leggja land undir fót og kynna vöruna fyrir landsmönnum. Ég fyllti bílinn af sokkum og keyrði af stað í von um að orðspor af gæðum sokkanna bærist manna á milli. Ég gekk í hús, heimsótti fyrirtæki og fór svo í eina og eina verslun sem allar tóku vel á móti mér og vildu selja sokkana. Oftar en ekki seldi ég sokka úr skottinu á bílnum og einu sinni þegar ég var að setja bensín á bílinn, hópuðust verkamenn í kringum bílinn og keyptu sokka.“

Ótrúlegt ævintýri sem er rétt að byrja

Í dag eru sokkarnir hennar Guðrúnar fáanlegir í yfir fimmtíu verslunum vítt og breytt um landið en hún segir gæði og þægindi þeirra, það sem laði viðskiptavinina að.

„Þeir sem prófa vilja ekki aðra sokka, það er svona mín reynsla,“ segir Guðrún og heldur áfram. „Sokkarnir hafa sömuleiðis verið til sölu í verslun einni í Bandaríkjunum og hefur viðskiptaaðili innan útivistargeirans gerst áhugasamur um að gera þá að sínu eigin vörumerki. Eins hafa erlendir ferðamenn keypt sokkana hér á landi og haft samband. Í kjölfarið hef ég sent þeim sokka til síns heima. Það er alveg ótrúlegt að hugsa til þess að daginn sem ég stóð með uppsagnarbréfið í höndinni og hélt að mín biði langt ferli í atvinnuleit, hafi lífið tekið þessa óvæntu stefnu og nýjar dyr hafi opnast að ótrúlegu ævintýri í sjálfstæðum atvinnurekstri, sem er bara rétt að byrja. Eitt er víst, að ég nýt þessa ævintýris og það hefur verið yndislegt að fá að ferðast svona um landið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Smellti í nektarmynd til að sýna brúnkusprautunina

Smellti í nektarmynd til að sýna brúnkusprautunina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslendingar fljúga snemma úr hreiðrinu – Goðsögnin um ítölsku mömmustrákana er sönn

Íslendingar fljúga snemma úr hreiðrinu – Goðsögnin um ítölsku mömmustrákana er sönn
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Það var mjög erfitt að horfa upp á ungan mann í dauðastríði“

„Það var mjög erfitt að horfa upp á ungan mann í dauðastríði“