fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Tvær hliðar Doctors Victors: „Ég segi já við nýjum tækifærum og síðan gerast hlutirnir“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 7. júlí 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistin hefur verið rauði þráðurinn í lífi læknanemans Victors Guðmundssonar, sem dvelur núna heima á Íslandi þar sem hann starfar á bráðamóttöku Landspítalans og semur tónlist þess á milli. Hann á vinsælasta lag Íslands um þessar mundir, Sumargleðin, sem jafnframt er fyrsta lagið sem hann gefur út í samstarfi við aðra. Victor segir að mikilvægast sé að taka fagnandi á móti nýjum tækifærum.

„Ég var að klára fimmta árið,“ segir Victor, sem er 28 ára gamall og stundar nám við læknaskólann Jessenius Faculty of Medicine í Slóvakíu. Sjötta árið getur hann tekið að hluta til hér heima og mun hann ljúka lyflækningum og skurðlækningum á Akureyri, en síðan tekur hann kven- og barnalækningar í Slóvakíu. „Svo er það ein ritgerð, kandídatsárið og að lokum sérhæfing.“

Hann er fæddur í Stuttgart í Þýskalandi þar sem foreldrar hans voru að læra, en flutti heim eins árs gamall og fyrir átta árum síðan flutti fjölskyldan til Noregs, þar sem faðir hans starfar sem verkfræðingur og móðir hans vinnur á leikskóla. Systir Victors, Eva Mey, var að ljúka fyrsta ári í læknisfræði við sama skóla og hann.

„Mig langaði bara að prófa eitthvað nýtt,“ segir Victor aðspurður um af hverju hann valdi Slóvakíu. „Ég er kannski öðruvísi en flestir því að fjölskylda mín býr erlendis og ég var svolítið rótlaus hér á Íslandi þannig að ég hugsaði með mér af hverju ekki að prófa eitthvað annað. Ég bjó í Noregi í eitt ár, lærði norsku og hóf að undirbúa mig fyrir inntökupróf í læknisfræði, sem mig langaði alltaf í, en ég var mjög opinn fyrir því að læra erlendis. Fyrsta inntökuprófið var í Slóvakíu, en ég náði því og sló bara til, var búinn að lesa mér til um landið og námið og leist vel á.“

Námið er á ensku og því skipti ekki máli í fyrstu að Victor talaði ekki tungumálið. „Við eigum hins vegar að læra tungumálið jafnt og þétt því á þriðja ári förum við inn á spítala og þar eigum við að geta talað við sjúklinga á slóvakísku,“ segir Victor og bætir við að honum finnist gaman að hjálpa og vera umkringdur fólki og því hafi læknisfræðin legið vel við.

„Mín helsta fyrirmynd í læknisfræðinni er afi minn, Frosti Sigurjónsson, sem var þekktur skurðlæknir hér heima. Við vorum miklir mátar, töluðum mikið um læknisfræði og fleira. Ég fékk stundum að vera með honum upp á stofu og bara féll fyrir læknisfræðinni.“

Læknir Victor að störfum á bráðamóttökunni.

Ætlar að sérhæfa sig í bráðalækningum

Victor starfar í sumar á bráðamóttöku Landspítalans á Fossvogi og er það í þriðja sinn sem hann er þar. Deildin skiptist í G2 og G3, og er Victor meira á þeirri síðarnefndu, á 2. hæð, þar sem beinbrot, skurðir og fleira er meðhöndlað.

„Mér finnst fjölbreytnin skemmtilegust. Á fjórða árinu í náminu fékk ég að fara á bráðamóttökuna í verknám og féll fyrir þeirri deild, en þar er nóg um að vera og frábær starfsandi. Ég er ekkert stressaður að eðlisfari og mér líður betur undir pressu heldur en þegar lítið er að gera. Í sumar fæ ég að starfa sem aðstoðarlæknir þar sem ég tek á móti sjúklingum og meðhöndla þá, en ber allar mínar ákvarðanir undir vakthafandi sérfræðing. Þetta er mikill skóli og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt,“ segir Victor og bætir við að draumasérhæfingin sé bráðalækningar, en heimilislækningar komi líka sterklega til greina. „Þar ertu að hitta fólk með allskonar vandamál. Þú átt líka kost á að fara út á land og ég sé það alveg fyrir mér, vera á nýjum stað.“

Nýtur fulls stuðnings kærustunnar

Dagbjört Guðjohnsen Guðbrandsdóttir, kærasta Victors, var að útskrifast úr læknisfræði í Ungverjalandi núna í vor, en þau kynntust fyrir þremur árum í skíðaferð í Slovakíu sem skólarnir héldu sameiginlega. „Hún er líka með listræna hlið og hefur verið að taka ljósmyndir og mála.

Við erum búin að vera í fjarsambandi síðan við byrjuðum saman, en við höfum keyrt í um fimm klukkustundir á milli til að hittast. Núna verðum við saman á Akureyri, en hún tekur kandídatsárið sitt þar. Hún hefur líka áhuga á að sérhæfa sig í heimilislækningum þannig að við erum samstíga og við erum dugleg að hvetja hvort annað áfram,“ segir Victor og bætir við að þau sjái alveg fyrir sér að vinna erlendis líka.

„Við ætlum að vera heima en þar sem við höfum  bæði búið erlendis sjáum við það alveg fyrir okkur líka, við erum einhvern veginn tilbúin í allt. Maður finnur samt alltaf að rætur manns eru heima á Íslandi og okkur líður vel hérna.“

Íslendingum alltaf að fjölga í Martin

Bærinn sem Victor býr í í Slovakíu heitir Martin, lítill og vinalegur 60 þúsund manna bær að hans sögn, þar sem allt er til alls í stuttu göngu- eða hjólafæri. „Ég hjóla eða labba hvert sem ég þarf, þetta er svona radíus; skólinn, spítalinn, búðin, miðbærinn. Fyrst var maður pínu óviss og varð að bjarga sér, en um leið og maður fer að læra inn á bæinn og tungumálið þá byrjar þetta að rúlla. Bæjarbúar taka manni mjög vel og sérstaklega þegar maður lærir slóvakískuna.“

Martin er sannkallaður stúdentabær og er íslenskum læknanemum alltaf að fjölga. „Þetta hefur aukist verulega og í dag eru yfir 100 læknanemar þar, en meirihluti þeirra skilar sér heim þegar þeir eru búnir að sérhæfa sig. Mér finnst gaman að sjá að fólk er farið að sækja erlendis í nám sem það langar í – það er ekkert að láta neitt stoppa sig.“

Píanóleikarinn Victor spilar á burtfararprófstónleikum sínum árið 2011.

Leitar í tónlistina þegar mikil pressa er

Tónlistaráhuginn hefur alltaf verið til staðar hjá Victori. „Pabbi minn er lærður píanóleikari og hann smitaði mig svo rækilega að hann kom mér í Tónlistarskóla Kópavogs þegar ég var 10 ára hjá Kristni Gestssyni, sem kenndi pabba líka,“ segir Victor sem lauk burtfararprófi í júní árið 2011, þegar hann var tvítugur, „sama ár og ég lauk stúdentsprófi frá Verzló og foreldrar mínir fluttu til Noregs, þannig að það var mikið að gera þetta ár.

Píanónámið var rosalega góður skóli, ég var alltaf að æfa og tónleikar voru reglulega 1-2 sinni í mánuði. Þannig að ég var orðinn vanur því að koma fram og leið vel. Þetta hefur hjálpað mér við að koma fram og vera ekkert að stressa mig á því,“ segir Victor sem fékk rautt NORD-píanó í fermingargjöf frá foreldrum sem hann er enn að nota og segist kunna betur á í dag en þá.

„Í grunnskóla tók ég aukatíma í tónsmíðum og þar vorum við að vinna með forritið FL Studio. Síðan þegar ég flyt til Noregs þá byrja ég aftur að vinna með það forrit og gera mín fyrstu lög, sem hafa sem betur fer skánað með tímanum,“ segir Victor brosandi. „Það er svo einkennandi að þegar það er mikil pressa á mér í námi eða vinnu þá leita ég í tónlistina, sest bara við píanóið og byrja að spila.“

Í mars árið 2015, þegar Victor var á öðru ári í læknanáminu, langaði hann að prófa að vera plötusnúður. „Strax á fyrsta ári var maður farinn að kíkja aðeins út á lífið. Í Slovakíu og löndunum í kring er mikil klúbbamenning og allt öðruvísi en hér, þar er áherslan á plötusnúðinn og þá tónlist sem hann er að spila, sem er helst svokölluð House-tónlist. Ég er sjálfur að gera tónlist í þeim stíl sem er taktföst og skemmtileg og er mjög mikið í austrinu, en ég hef alltaf haft þennan takt í mér sem tvinnast út frá píanóinu,“ segir Victor. „Ég fæ skilaboð þar sem ég er beðinn um að spila í nemendapartýi, karnivali þar sem allir áttu að mæta í búningi og ég segi bara já, þrátt fyrir að hafa aldrei spilað áður sem plötusnúður. Ég er svolítið þannig að ég segi bara já við tækifærum og svo gerast bara hlutirnir. Ég hef þarna nokkra daga til að æfa mig, ég var með píanóbakgrunninn sem hjálpaði mér mikið þar sem þetta snýst mikið um takt og talningu, en ég var nokkur kvöld fram á nótt að undirbúa mig, safna og setja saman lög,“ segir Victor og bætir við að þegar hann mætti til að spila hafi hann loksins fundið það sem hann var búinn að leita að.

Í kjölfarið var Victori boðið að spila á öðrum klúbbum í Martin, og síðan koll af kolli á sífellt stærri stöðum og nýjum löndum. Síðan spurðist það heim að hann væri að spila og hann var beðinn um að spila á Þjóðhátíð í Eyjum, þar sem hann kemur fram í þriðja sinn nú í ágúst og í júní kom hann einnig fram á Secret Solstice þar sem hann spilaði á stóra sviðinu með Svölu Björgvins og kom einnig fram einn. „Þetta er eins og snjóbolti, maður spilar meira og meira og þannig koma ný og ný tækifæri. Eftir tvær vikur er ég á Krít og svo á Seychelles-eyjum í lok ágúst, þar sem ég kem fram með  Willy William og fleiri erlendum tónlistarmönnum. Þetta hefur þróast svolítið hratt.“

Plötusnúður Victor spilar í stærsta Halloweenpartýi í Ungverjalandi.

Verður að vera með listamannsnafn

Á þriðja árinu í læknisfræðinni hitaði Victor upp fyrir stærsta plötusnúð Slovakíu og sagði vinur hans þá að hann yrði að vera með listamannsnafn. Victor lagði heilann í bleyti til að finna hvaða nafn væri mest einkennandi fyrir hann og Doctor Victor varð ofan á. „Vinur minn sagði að DJ Victor væri ekki nógu sterkt. Ég er bæði plötusnúður og „pródúsent“, það er geri mína eigin tónlist, þannig að nafnið varð að gefa það til kynna, í stað þess að vera með DJ í nafninu,“ segir Victor. „Doctor Victor var síðan prentað á plakatið, það var fullt hús og þannig var nafnið bara meitlað í stein.

Ég hef stundum verið í læknasloppnum á stærri kvöldum. Á Seychelles-eyjum ætla ég að vera með einhverja grafík á skjá fyrir aftan mig og veit hvað ég vil hafa, ég á bara eftir að útfæra það. Ég er kominn með lógó, sem ég átti hugmyndina að og sendi svo á grafískan hönnuð, sem ákvað að hafa hjartalínuritið sem mér fannst koma mjög vel út.“

Veðurguðinn Victor og Ingó að hittast í fyrsta skipti eftir útgáfu.

Fyrsta lagið vinsælasta lag landsins

Victor gefur einnig út eigin tónlist, sem í byrjun voru remix, en árið 2017 gaf hann sitt fyrsta lag út á Spotify. „RVK Events höfðu síðan samband við mig og báðu mig að gera þemalag fyrir Sumargleðina sem er ein stærsta grunnskólahátíð landsins og ég segi bara já þó ég hafi verið í miðjum prófum á þeim tíma. Og ég hugsaði hvað það væri gaman að fá Ingó Veðurguð með mér, ég hringi í hann og hann var klár í slaginn. Ég fékk einnig Gumma Tóta bróður hans með, en hann býr í Svíþjóð. Við unnum síðan lagið saman í þremur löndum, þeir tóku hvor upp sinn hluta, ég setti það saman og síðan unnum við saman að því að klára textann sem ég hafði samið.“ Lagið er núna það vinsælasta á Íslandi og þykir Victori ótrúlega gaman að fá fullt af snöppum og myndböndum send þar sem fólk er að dansa og syngja við lagið.

„Þetta finnst mér svo skemmtilegt við tónlistina sem ég er að gera að það er hægt að gera hana hvar sem er. Ég er bara með tölvuna með mér, svo sit ég til dæmis á flugvellinum, skelli á mig heyrnartólunum og er bara byrjaður. Það er líka svo gaman að vera í 40 þúsund feta hæð að gera tónlist,“ segir Victor.

Þeir Ingó hittust í fyrsta sinn í lok júní við útskrift Dagbjartar. „Ég hringdi í hann og spurði hvort hann vildi ekki slá tvær flugur í einu höggi, hittast og taka saman acoustic útgáfu af Sumargleðinni, en ég spilaði á píanó og hann gítar. Nú er bara að bíða eftir að Gummi komi heim, spurning hvort við tökum lagið ekki saman á Þjóðhátíð.“

Sumargleðin Plötuumslag lagsins.

Nýlega kom út lagið Running Back sem Victor vann með Svölu Björgvins ásamt tónlistarmyndbandi. „Síðasta vetur var ég byrjaður að vinna í lagi og hugsaði að þetta væri flott klúbbalag sem væri epískt að fá kraftmikla kvenmannsrödd eins og Svölu í og hafði ég því samband við hana. Hún sló til og við hittumst tvisvar í stúdíói, tókum lagið upp og kláruðum, en vorum áður búin að vera að vinna að því saman í sitt hvoru landinu. Ég hef góða trú á að það lag verði líka vinsælt.

Ég er með fullt af tilbúnum lögum og ég hef verið að vinna með nokkrum listamönnum, þannig að það er margt spennandi á leiðinni. Það sem er skemmtilegast við tónlistina núna er að vinna með öðrum listamönnum, eins og Svölu, þar sem maður hittir þá og vinnur með þeim, það veitir manni mikinn innblástur. En mér finnst gaman að vera um stund á Íslandi og mig langar að vinna með nokkrum hér, það er fullt af flottum listamönnum hér heima.“

Secret Solstice Á stóra sviðinu með Svölu.

Læknisfræðin og tónlistin tvinnast vel saman

„Læknisfræðin og tónlistin hefur tvinnast vel saman, þegar ég er undir pressu þá leita ég í tónlistina,“ segir Victor aðspurður um hvort að hann muni alltaf vera bæði í lækningum og tónlist. „Allur minn aukatími fer í tónlist, hún lífgar mig upp þegar ég kem heim þreyttur. Ég get alltaf gripið í tónlistina.“

En er tími fyrir fleiri áhugamál? „Já ég hef gaman af að ferðast, sem er hluti af bæði tónlistinni og læknisfræðinni, en svo er ég nýbyrjaður á hlaupaprógrami hjá Arnari Péturs og það er einhver mesta snilld sem ég hef kynnst.  Kannski kemur eitthvað nýtt þegar ég er búinn með læknisfræðina. Ég mæli með því að fólk segi já og keyri á það sem það hefur áhuga fyrir, maður veit aldrei hvað getur gerst.“

Fylgjast má með Victori á helstu samfélagsmiðlum, Facebook og Instagram: Doctor Victor Sound og Spotify: Doctor Victor.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“