fbpx
Fimmtudagur 02.júlí 2020
Fókus

Klippir heimilislausa í Hong Kong – Fólk sefur í búrum og deyr á götunni: „Það er skelfilegt“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 7. júlí 2019 20:00

„Yfirvöld gera svo mikið til að fela þetta," segir Úlf um vanda heimilislausra. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Síðasti göngutúrinn í Hong Kong var erfiður. Ég var farinn að þekkja marga og sjá sama fólkið aftur og aftur. Það er erfitt að sjá gaurana sem maður er búinn að hanga með hálfdauða úti á götu með sprautunál í handleggnum. Það er ekki sérstaklega gaman,“ segir Úlf Mork.

Úlf er fæddur og uppalinn á Íslandi. Móðir hans er íslensk og faðir hans hálfur Norðmaður og hálfur Íslendingur. Úlf flutti til Noregs með fjölskyldu sinni tíu ára gamall og hefur síðustu ár búið í Hong Kong. Undanfarna mánuði hefur hann lagt hönd á plóg með góðgerðarsamtökunum ImpactHK. Samtökin voru stofnuð fyrir þremur árum og hafa vaxið hratt. Markmið þeirra er að hjálpa heimilislausum í Hong Kong, veita þeim stuðning og tækifæri til betra lífs.

Missti fjölskylduna og fór á götuna

Úlf byrjaði að vinna fyrir ImpactHK fyrir nokkrum mánuðum og tók til að byrja með þátt í svokölluðum kærleiksgöngum þar sem sjálfboðaliðar ImpactHK fara um þekkta íverustaði heimilislausra og gefa þeim mat, drykk, föt og annað. Smátt og smátt komst Úlf meira inn í starfið og fór að bjóða heimilislausum uppá klippingu og rakstur í nafni ImpactHK.

Nóg að gera Úlf klippir konu sem þrífur göturnar á lúsaralaunum.

„Margir sem setjast í stólinn eru spenntir að spyrja mig spjörunum úr. Vilja vita hvaðan ég kem og hver ég er. Þeir eru spenntir að æfa sig í enskunni því margir tala enga ensku. Ég kann ekki mikið við að spyrja þetta fólk um þeirra fortíð, því starf HK Impact snýst um að byggja upp vinatengsl og einskonar fjölskyldu – eitthvað sem marga vantar því þeir eru aleinir,“ segir Úlf og rifjar upp sögu af einum 72ja ára gömlum manni sem kom í klippingu.

„Hann er gífurlega vel menntaður. Hann lærði í Japan, ferðaðist um heiminn og var háskólakennari í Hong Kong. Hann missti fjölskyldu sína og þegar sonur hans svipti sig lífi fór hann að halda til í garði í Hong Kong og hefur dvalið þar í tólf ár. Hann á íbúð en vill ekki búa þar. Mér finnst saga hans sýna vel að það er ekki nóg að gefa þessu fólki íbúð eða peninga. Eftir viku gæti það verið komið á sama stað og áður. Þess vegna reynum við að binda saman þennan vinahóp og mynda litla fjölskyldu saman,“ segir Úlf. „Sumt af þessu fólki hefur bara tekið vitlausa beygju í lífinu og þarf hjálp. En þetta tekur allt tíma. Það tók þennan gamla mann tvö ár að koma til HK Impact í klippingu. Nú sæki ég hann alltaf þegar ég er að klippa og hann kemur með mér. Vonin er að hann ákveði að koma einhvern tímann upp á eigin spýtur.“

Heimilislausir sofa í búrum

HK Impact er opið frá 10 til 21 alla daga og boðið er upp á þrjár máltíðir á dag fyrir þá sem vinna. Þeir sem hafa áhuga á að komast af götunni, fá vinnu og húsnæði er hjálpað með það, en Úlf segir að engu sé þröngvað upp á fólk. Hann segir úrræði sem þessi þörf þar sem heimilisleysi sé gríðarstórt vandamál í Hong Kong.

„Yfirvöld gera svo mikið til að fela þetta. Það læsir af brýr og kemur fyrir steinum svo fólk geti ekki sofið undir þeim. Þannig að við þurfum oft að leita þetta fólk uppi. Einu sinni rakst ég á mann sem var bara í bol. Það var það eina sem hann var í, annars var hann allsber. Það er engin hjálp fyrir menn eins og hann. Heimilislausir fá fjögur þúsund krónur á mánuði frá ríkinu en fyrir tvö þúsund krónur er hægt að leigja sér búr til að sofa í. Þá er fjögur hundruð hundabúrum staflað ofan á hvort annað og fólk sefur þar. Alveg hræðilegt. Það eru margir sem deyja á götunni og oft gengur maður fram á hálfdautt fólk í gönguferðum. Það er skelfilegt.“

Stórir draumar í London

Úlf er í sambandi með ástralskri konu og eiga þau tveggja ára dóttur saman auk þess sem konan hans á níu ára dóttur úr fyrra sambandi. Þau eru á Íslandi fram í næsta mánuð þegar nýtt ævintýri tekur við. Fjölskyldan ætlar að setja að í London þar sem kona Úlfs fékk gott atvinnutilboð í bankageiranum. Úlf ætlar að næla sér í meistarpróf í hárgreiðslu í London og dreymir um að opna góðgerðadrifna hárgreiðslustofu þar sem hver keypt klipping þýðir ókeypis klippingu fyrir einhvern í neyð.

„Ég vona að ég nái að skapa það sama í London og HK Impact náði að skapa í Hong Kong.“

Úlf er á Íslandi núna en flytur til London í næsta mánuði. Mynd: Eyþór Árnason
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Vikan á Instagram: „Erfitt að vera Kim Kardashian fjölskyldunnar“

Vikan á Instagram: „Erfitt að vera Kim Kardashian fjölskyldunnar“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Þá byrjar einhver atburðarás sem líkist martröð“

„Þá byrjar einhver atburðarás sem líkist martröð“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jóhannes Kr. og Sölvi um símtölin eftir að dóttir Jóhannesar dó

Jóhannes Kr. og Sölvi um símtölin eftir að dóttir Jóhannesar dó
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“

Jói Haukur um Eurovision-myndina – „Þetta er meistaraverk“
Fókus
Fyrir 1 viku

Atli Þór fer úr Þjóðleikhúsinu í eigin rekstur – „ég er brúklegur sölumaður“

Atli Þór fer úr Þjóðleikhúsinu í eigin rekstur – „ég er brúklegur sölumaður“
Fókus
Fyrir 1 viku

Króli er Tóti tannálfur

Króli er Tóti tannálfur