Fimmtudagur 12.desember 2019
Fókus

Af hverju þolum við ekki líkamshár kvenna? – „Áður fyrr voru konur með líkamshár í klámi“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 23. júlí 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Af hverju gera líkamshár kvenna okkur svona reið? Hvort sem það eru hár undir höndunum, á fótunum eða á kynfærum, þá virðast þau vekja mikla andúð.

Það er spurningin sem við köstum fram í dag. Við ræðum við Siggu Dögg kynfræðing og Vigdísi Howser femínista með meiru. Við förum skoðum einnig nokkur eftirminnileg atvik þar sem frægar konur skörtuðu líkamshári.

Sigríður Dögg Arnardóttir, sem oftast er kölluð Sigga Dögg. DV/Mynd: Hanna

Af hverju hötum við líkamshár kvenna?

„Það á sér nokkrar skírskotanir. Ég fór á fyrirlestur hjá írönskum kynfræðingum þar sem þeir töluðu um að þótt konur væru undir búrku væri ætlast til að þær fjarlægðu líkamshár samkvæmt skilgreiningu hreinleika. Þar er það tengt trúnni,“ segir Sigga Dögg.

„En svo höfum við líka séð að það var „aðför“ gegn líkamshárum, markaðsherferð á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar þar sem Gillette þurfti að selja rakvélar. Auglýsingarnar eru frekar sláandi,“ segir Sigga Dögg.

„Ég held að þetta komi sterkt úr öllum auglýsingabransanum. Allar myndir sem þú sérð, alls  staðar, þú sérð aldrei hárin.“

Góð spurning

Sigga Dögg varpar fram spurningu sem allar konur ættu að spyrja sig og velta fyrir sér svarinu.

„Ég hef oft spurt konur að þessu: Ef þið eruð að fara með vinkonum ykkar í eitthvert spa eða sund, biðjið þið þær afsökunar ef þið hafið ekki nýlega rakað ykkur, eða reynið þið að raka ykkur inni á klósetti eða eitthvað áður en þið farið ofan í, eða passið að lyfta ekki upp höndunum ef þar skyldu vera hár. Nánast undantekningarlaust svara konur játandi,“ segir Sigga Dögg.

„Spáðu í hvað reglur um okkar hárvöxt stýra og hamla lífi okkar ógeðslega mikið. Eins og að fara ekki í sund því þú ert ekki nýbúin að raka þig, eða ekki lyfta höndunum því þú ert órökuð.“

Unglingar

Sigga Dögg er reglulega með kynfræðslu fyrir unglinga og segir orðræðuna hjá þeim vera mjög svart hvíta.

„Þeim finnst líkamshár ógeðsleg á konum. Ég spyr þau hvaðan þau halda að þetta komi, því hárin vaxi þarna. Af hverju ættu kynfæri okkar að ráða því hvort það megi vera líkamshár á ákveðnum stöðum eða ekki.“

Sigga Dögg segir að það sé misjafnt hvort hún raki sig eða ekki. „Oftast nær er ég ekkert að pæla í því. Ég er dökkhærð og þar af leiðandi með dökk hár, og hef alveg tekið eftir því að fólk verður sjúklega vandræðalegt fyrir mína hönd ef það sér hárin mín. Halló, þetta verður að breytast,“ segir Sigga Dögg.

Gömul Gilette auglýsing.

Hár kvenna rammpólitísk

Aðspurð hvort kynið sé með meiri andúð gegn líkamshárum að hennar mati segir Sigga Dögg það vera misjafnt.

„Mér finnst konur mjög duglegar að „lögga“ aðrar konur. Við pössum alveg upp á að konur fari ekki gegn þeim normum sem við þurfum að lifa við. Þetta er svolítið svona: „Eitt skal yfir allar ganga“.“

Sigga Dögg segir að gagnvart drengjum sé búið að normalísera að konur eiga að vera á einhvern ákveðinn hátt.

„Svo fara þeir í samband og átta sig á hvernig konur eru í raun og veru,“ segir hún.

„Það er ótrúlega stífur rammi og rosalega lítið svigrúm til að fara út fyrir hann. Nema þú sért yfirlýstur femínisti, öfgafemínistinn. Pólitíkin birtist alltaf í hárvexti þínum, hvernig hann er og hvar hann er.  Við sjáum þetta í umræðunni um hár. Ef þú skoðar umræður um kynþætti og hár, umræður um hársídd á höfði kvenna. Hár, sérstaklega á konum, er rammpólitískt,“ segir Sigga Dögg.

„Þó að ég fari í sund og sé ekki búin að raka mig í tvær vikur, þá þýðir það ekki að ég sé að flagga hárunum mínum því ég elska hárin mín. Ég er bara manneskja sem var ekkert að pæla í því.“

Hvað getum við gert svo þetta breytist?

„Fólk verður að fá að haga sér eins og það vill. Sumar konur eru með brúsk og aðrar ekki og það er í himnalagi. Það þarf að klippa í sundur þá hugmynd að líkaminn sé hreinni ef líkamshár eru fjarlægð,“ segir Sigga Dögg.

Vigdís Howser Harðardóttir skilur ekki þennan ofsa í kringum líkamshár

Vigdís Howser Harðardóttir. Mynd: Berglaug Garðarsdóttir

Vigdís Howser, rappari og femínisti með meiru, skilur ekki þennan ofsa í kringum líkamshár kvenna. Vigdís rakar sig stundum, stundum ekki. Það fer eftir veðri.

Hún hefur búið í Þýskalandi síðustu ár og segir þar vera einstaklega mikla andúð gegn líkamshárum. Þó hefur hún fengið sinn skerf af neikvæðum ummælum á Íslandi.

Misjöfn viðbrögð

Berglaug Garðarsdóttir, vinkona Vigdísar, tók af henni myndir þar sem handarkrikahár Vigdísar fengu að njóta sín. Vigdís deildi þeim á samfélagsmiðla og fékk mikil viðbrögð.

„Þegar ég deildi myndunum fyrst á samfélagsmiðlum þá fékk ég fullt af skilaboðum, aðallega jákvæð. Ég finn mestmegnis fyrir andúð frá fólki í persónu. Í Þýskalandi er mjög „anti-hár“ hugsunarháttur. Það er meira að segja ætlast til að karlmenn raki sig. Allir eiga að raka sig,“ segir Vigdís.

„Ég hef fundið mjög mikið fyrir því hérna, eins og þegar ég lyfti upp höndunum, að það sé starað á mig. Svo er fólk endalaust að blætisvæða þau: „Ohh, ég hef aldrei séð konu með hár þarna,“ og „þetta kveikir svo í mér,“ og alls konar svona perradót. Annaðhvort er fólk hissa yfir hárunum eða reynir að blætisvæða þau, ég get ekki fengið að bara vera,“ segir Vigdís.

Hún segir að það fari mikið eftir veðri hvort hún rakar sig eða ekki. Ef það er mjög heitt þá rakar hún sig, annars leyfir hún hárvextinum að ráða ferðinni.

Vigdís Howser. Mynd: Berglaug Garðarsdóttir

Leiðinlegt atvik

Vigdís segist líka fá neikvæð viðbrögð á Íslandi við líkamshárum sínum.

„Á Íslandi hef ég ótrúlega oft fengið einhver komment. Ég var einhvern tímann í útskriftarveislu og var að teygja mig yfir matarborðið. Ég var með smá hár undir höndunum og það öskraði kona yfir sig að ég færi nú ekki að vera með hárin mín í matnum hjá fólki. Sem er ótrúlega fyndið því fólk er með hár á hausnum og alls staðar á sér. En það er eitthvað við þessi hár sem kallaði fram þessi ýktu viðbrögð hennar,“ segir Vigdís.

Aldrei verið jafn vinsæl á Tinder

Vigdís notaði tvær af myndunum, sem Berglaug tók, á stefnumótaforritinu Tinder.

„Ég hef aldrei fengið jafn mikið af „mötchum“ og skilaboðum. Það var verið að lofsyngja hárin. Bæði á þeim skala að mér fannst það óþægilegt því þetta var frekar öfgakennt, eins og ég væri eina konan í heiminum með hár. Svo einhvern veginn hefur líka verið mjög fínt að fá þau skilaboð hvað það sé hressandi að sjá konu með hár, því oft gleymist að við séum með hár,“ segir Vigdís.

Hún segir að það skipti máli að konur séu öruggar með hárin sín, því ef ekki geta neikvæð viðbrögð og ummæli haft mikil áhrif á sjálfstraustið.

„Maður þarf að vera öruggur í sínum líkama og með allt sem viðkemur honum.“

Vigdís Howser Harðardóttir. Mynd: Berglaug Garðarsdóttir

Af hverju hötum við líkamshár kvenna?

Vigdís telur að mikið af andúðinni koma frá klámi. „Áður fyrr voru allar konur með líkamshár í klámi. Síðan kom einhver tískubylgja og nú eru þær allar vaxaðar frá toppi til táar,“ segir Vigdís.

„Ég held samt að það séu algjörir pappakassar sem hafa andúð á líkamshárum.“

Brá í rúminu

Vigdís rifjar upp nýlegt atvik þegar hún svaf hjá karlmanni sem er að nálgast fertugt.

„Honum brá svolítið þegar hann sá mig nakta, því ég er með hár undir höndunum og hár að neðan. Ég spurði hann hvort hann hefði aldrei séð konu með hár áður þar sem hann væri að verða fertugur. Hann sagði þá: „Jú, ég var bara að fatta hvað það væri ógeðslega langt síðan.“ Hann fór í smá panikk, því í Þýskalandi mega konur ekki vera með hár. Það er ekki í lagi hérna,“ segir Vigdís.

Vigdís segir að nektinni sé fagnað í Þýskalandi og til að mynda sé #FreeTheNipple ekkert mál. En þegar kemur að hárum hins vegar, þá eru þau tabú.

„Það eru nektarstrendur, nektarklúbbar og alls konar, og ég fer stundum á þannig staði. Það er ótrúlega skrýtið að sjá allt þetta fólk vera svona frjálst en svo panikka þegar það sér mig loðna,“ segir Vigdís og hlær.

Sögulegt atvik.

Á spjöld sögunnar

Einn eftirminnilegasti „líkamsháraskandallinn“ var árið 1999 þegar leikkonan Julia Roberts mætti á frumsýningu Notting Hill. Julia veifaði aðdáendum og það sást í handarkrikahár hennar. Á svipstundu varð þetta atvik skráð í sögu dægurmálamenningar fyrir valdeflandi og femínísk skilaboð.

Árum síðar ræddi Julia um atvikið og segir að þetta hafi ekki verið gert viljandi.

„Ég hafði ekki hugsað alveg út í ermalengd kjólsins og um veifið, og hvernig þetta tvennt myndi passa saman og uppljóstra persónulegum hlutum um mig,“ sagði Julia Roberts í viðtali í Busy Tonight. „Þetta var ekki beint yfirlýsing, frekar en hluti af þeirri yfirlýsingu sem ég set fram sem manneskja á þessari plánetu, fyrir mig sjálfa.“

Það er hægt að fjarlægja líkamshár með alls konar tæki og tólum.

Stór markaður

Það er mikill gróði fólginn í andúðinni gegn líkamshárum. Reiknað er með að alþjóðlegi markaðurinn fyrir tæki sem fjarlægja líkamshár muni verða rúmlega 429 milljarða króna virði fyrir 2025, samkvæmt nýrri skýrslu frá Grand View Research. Meðal tækja eru rakvélar, lasertæki og vaxtæki.

Auglýsingaherferð Billie.

Auglýsingaherferð sem fagnar líkamshárum

Rakvélafyrirtækið Billie sendi nýverið frá sér auglýsingu sem olli miklum usla. Í auglýsingunni má sjá fjölbreytilegar fyrirsætur slappa af við sundlaugarbakkann eða á ströndinni. Þær eru allar í bikiníi og eru sumar með líkamshár. Markaðsherferðin „Red, White and You Do You“ hefur fengið mikið lof á samfélagsmiðlum. Enda er það sjaldgæf sjón að sjá líkamshár í auglýsingum. Stjórnendur Billie hafa sagt að þeir voni að þessi herferð muni hjálpa við að normalísera líkamshár kvenna.

Auglýsingaherferð Billie.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Hlustaðu á vinsæl íslensk jólalög komin saman í einni syrpu

Hlustaðu á vinsæl íslensk jólalög komin saman í einni syrpu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Taktu þátt í kosningunni á manni ársins

Taktu þátt í kosningunni á manni ársins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Smiðsþokki menningarvitans

Smiðsþokki menningarvitans
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kristina syngur í stórmynd sem framleidd er af Warner Brothers – „Leikstjórinn vildi nota útgáfuna okkar“

Kristina syngur í stórmynd sem framleidd er af Warner Brothers – „Leikstjórinn vildi nota útgáfuna okkar“