fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Baltasar efast um að Deeper verði einhvern tímann að veruleika: „Þetta er mjög dapurlegt mál“

Tómas Valgeirsson, Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Laugardaginn 22. júní 2019 11:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsvarsmenn kvikmyndaversins MGM hafa dregið sig útúr því sem átti að vera nýjasta mynd leikstjórans Baltasars Kormáks. Myndin ber heitið Deeper og stóð til að stórleikarinn Idris Elba færi með burðarhlutverkið. Tökur áttu upphaflega að fara fram í sumar í nýju mynd­veri fram­leiðslu­fyr­ir­tæk­is Baltas­ars, RVK Studi­os, í Gufu­nesi og á Faxa­flóa.

Fréttamiðillinn Variety greinir meðal annars frá málinu en þar kemur fram að verkefnið hafi verið sett á ís í kjölfar ásakana á hendur Max Landis, handritshöfundar myndarinnar, um kynferðisofbeldi. Á vefnum The Daily Beast er greint ítarlega frá sögum átta kvenna sem hafa stigið fram og sakað Landis meðal annars um nauðgunartilraun, andlegt ofbeldi og morðhótanir.

Max Landis.

Á meðal þeirra sem stigu fram er fyrrverandi kærasta Landis til tveggja ára, Julie að nafni, en í hennar frásögn kemur fram að höfundurinn hafi ítrekað farið yfir strikið. „Það var ekki fyrr en í dag, þegar ég skrifaði það niður, að ég áttaði mig á því að þessi maður nauðgaði mér,“ segir Julie og heldur áfram:

„Ég get fullvissað ykkur um það að hann hélt mér niðri og nauðgaði mér, sama hversu oft ég öskraði „nei“. Eitt skiptið kýldi ég hann í öxlina eftir á og sagði honum að nei þýddi nei, að þarna hafi nauðgun átt sér stað. Hann hélt að við værum að spila einhvern leik og að ég hefði gaman að þessu. Honum var skítsama.“

Dró sig úr verkefninu fyrir hálfu ári

Baltasar Kormákur segist í samtali við DV hafa dregið sig úr þessu verkefni fyrir hálfu ári síðan. Það var ekki tilkynnt opinberlega og er Baltasar ennþá tengdur myndinni sem leikstjóri á kvikmyndasíðunni IMDb.

Baltasar Kormákur.

„Ég dró mig útúr þessu fyrir hálfu ári og hef ekki haft neitt að gera með þetta verkefni síðan þá. Ég þekki málið voðalega lítið. Ég dró mig bara út úr þessu,“ segir Baltasar. Upprunalega stóð til að tökur á myndinni hæfust í maí síðastliðnum en nú telur Baltasar litlar líkur á að myndin verði að veruleika þar sem kvikmyndaverið MGM sé búið að draga sig útúr verkefninu.

„Mér finnst það mjög ólíklegt. Þetta er sérstakt mál allt saman og erfitt að breyta handritinu þar sem um er að ræða upprunalegan handritshöfund,“ segir Baltasar. „Þetta er mjög dapurlegt mál,“ bætir hann við.

„Hættu! Þetta er mjög slæm hugmynd“

Í desember 2017 fóru margir að ásaka handritshöfundinn Max Landis á Twitter um ósæmilega hegðun. Max hafði fram að þeim tíma verið afar virkur á samfélagsmiðlinum en í kjölfar þessara ásakana hefur hann haldið sig frá aðgangi sínum. Í febrúar á þessu ári birtist færsla á vefnum Medium frá nafnlausum notanda. Í færslunni segist notandinn vera kona sem varð fyrir kynferðislegri áreitni af hendi Landis. Konan segist vera gömul vinkona handritshöfundarins og rifjar upp ferðalag þeirra árið 2012. Tekur hún skýrt fram að þau voru vinir og stóð aldrei til að leggjast í ferðalagið með rómantískan ásetning í huga. Ferðinni var heitið til Kaliforníu og þegar áfangastað var náð er Landis sagður hafa reynt að stunda kynmök við hana þegar bæði voru undir áhrifum áfengis og neitaði að stoppa þegar hann var beðinn um það.

„Ég áttaði mig á því að ég myndi aldrei vinna þennan slag,“ segir í færslu stúlkunnar. „Hann greip utan um mig og þrýsti mér á rúmið. Ég fann fyrir holdrisi hans og áður en ég vissi af var hann byrjaður að klæða mig úr bolnum. Hann reyndi ítrekað að kyssa mig á meðan ég reyndi að snúa mér í hina áttina. Ég bað hann um að hætta en hann hlustaði ekki.“

Þá segist stúlkan hafa sagt „Hættu! Þetta er mjög slæm hugmynd“ og bætti við að eina leiðin til að ná stjórn á aðstæðum var að þykjast hafa fallið í yfirlið. Að hennar sögn fór Landis þá af henni, sofnaði við hlið hennar og knúsaði hana.

Einnig birti hún skjáskot af einkasamræðum þeirra þar sem atvikið var rætt í þaula. Landis blæs á möguleikann að um kynferðisbrot hafi verið að ræða og segir þau hafa verið „í glímu“ þegar atvikið átti sér stað.

Hver er Max Landis?

Max Landis, sem er sonur hins þekkta kvikmyndagerðarmanns John Landis, var um skeið einn eftirsóttasti handritshöfundurinn í Hollywood. Hann á að baki kvikmyndir á borð við Chronicle, American Ultra og Bright auk sjónvarpsþáttaraðarinnar Dirk Gently’s Holistic Detective Agency. Landis var með ýmis konar verkefni í vinnslu sem stöðvuðust hvert á eftir öðru vegna stigvaxandi umtals um meint kynferðisbrot hans. Um tíma var Deeper eina kvikmyndin frá handritshöfundinum sem var í þróun og samkvæmt áætlun.

Pabbinn sakaður um manndráp af gáleysi

Leikstjórinn John Landis er faðir Max Landis og er hvað þekktastur fyrir grínmyndirnar sem hann hefur leikstýrt, til að mynda The Blues Brothres, Trading Places, Coming to America og Beverly Hills Cop III. Á hápunkti ferilsins, á milli þess sem An American Werewolf in London og Trading Places voru frumsýndar, átti sér stað mikill harmleikur við tökur á kvikmyndinni The Twilight Zone árið 1982, sem John Landis leikstýrði í akkorði með Steven Spielberg, Joe Dante og George Miller.

John Landis.

Leikarinn Vic Morrow og barnungu leikararnir Myca Dinh Le, sjö ára, og Renee Shin-Yi Chen, sex ára, létu lífið þegar flugmaður missti stjórn á þyrlu á tökustað Twilight Zone. Þyrlan hrapaði og lenti á leikurunum. Orsök slyssins var rakin til þess að sprengjur hefðu verið sprengdar of nærri þyrlunni, sem flaug lágt, sem leiddi til þess að mylluvængir þyrlunnar ofhitnuðu og vængur í stéli klikkaði svo eitthvað sé nefnt. Sökinni var skellt á flugmanninn og leikstjórann sem höfðu ekki átt í nægilega góðum samskiptum þegar atriðið var tekið upp.

Svo fór að John Landis var ákærður fyrir manndráp af gáleysi ásamt fjórum öðrum meðlimum tökuliðsins. Saksóknari í málinu reyndi að sýna fram á að Landis hefði verið kærulaus og ekki upplýst foreldra barnanna um að ungviðið þyrfti að vera í návígi við sprengingar og þyrlur. Þá hafði hann ekki virt lögbundinn vinnutíma barna. Hann játaði að hafa brotið lög í Kaliforníu um vinnutíma barna en neitaði að hafa átt sök á slysinu. Landis, sem og hinir meðlimir tökuliðsins, voru loks sýknaðir af öllum ákærum. Hann var síðar áminntur fyrir að fara í kringum lög um vinnutíma barna. Foreldrar barnanna sem létust í slysinu fóru seinna í mál við kvikmyndaverið og fékk hvor fjölskylda um sig tvær milljónir dollara í skaðabætur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“