fbpx
Mánudagur 06.júlí 2020
Fókus

Kvartað undan leyfislausum flúrurum í Reykjavík – Ellý Ármanns auglýsir grimmt á samfélagsmiðlum

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 24. maí 2019 11:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vinsældir húðflúrs aukast með hverju árinu sem líður og listamönnum og stofum í þeim geira fjölgar ört. Einnig fjölgar einstaklingum sem flúra heima hjá sér án leyfis. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir í samtali við DV að kvartanir hafa borist vegna þessa. Samkvæmt heimildum DV er þetta orðið að vandamáli sem lítið er aðhafst vegna.

DV hefur fengið fjölda ábendinga um einstaklinga sem eru að flúra í heimahúsi án leyfis. Meðal þeirra er fjöllistakonan Ellý Ármanns sem hefur verið í kastljósi fjölmiðla undanfarin ár. Ellý hefur gert garðinn frægan sem listakona, spákona og flotþerapisti. Síðustu mánuði hefur hún verið ófeimin að auglýsa húðflúrstarfsemi sína á samfélagsmiðlum en hún er hvorki lærð né með leyfi. DV hefur heyrt af nokkrum sem hafa farið í flúr til Ellýjar gegn gjaldi. DV reyndi ítrekað að ná sambandi við Ellý við vinnslu fréttarinnar.

Auðvelt aðgengi

Það er mjög auðvelt að nálgast húðflúrvélar, nálar og aðrar græjur fyrir húðflúr í Reykjavík. Verslun í miðbænum selur slíkar vörur.

Samkvæmt heimildum DV eru þessar vörur ekki sambærilegar þeim sem eru notaðar á viðurkenndum húðflúrstofum hvað gæði varðar. Einn húðflúrari, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sem DV ræddi við nafnlaust segist til dæmis hafa keypt kassa af nálum í neyð eitt sinn í fyrrnefndri verslun. Um var að ræða tuttugu nálar en þegar kom að því nota þær brotnuðu sextán þeirra auðveldlega og aðeins hægt að nýta fjórar.

Einnig er hægt að kaupa vélar og húðflúrvörur á netinu með einföldum hætti.

Kvartanir

Heimildir DV herma að kvartað hafi verið til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur yfir einstaklingum sem flúra í heimahúsi án starfsleyfis.

DV ræddi við Heilbrigðiseftirlitið í apríl síðastliðnum, sem gat ekki gefið nein svör um hvaða einstaklinga væri að ræða, en staðfesti að kvörtun hefði borist deginum áður, 7. apríl. Einnig var tekið fram að Heilbrigðiseftirlitinu hefði borist „örfáar kvartanir um starfslausa húðflúrstarfsemi.“

Þann 3. maí síðastliðinn gaf heilbrigðiseftirlitið út frétt á heimasíðu sinni þar sem kom fram að ábendingar hefðu borist eftirlitinu um einstaklinga sem stunduðu húðflúr án starfsleyfa og auglýstu starfsemina á samfélagsmiðlum.

„Húðflúrun er starfsleyfisskyld starfsemi skv. reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskyldan rekstur án starfsleyfis. Jafnframt þarf starfsemin að vera í samræmi við samþykkta notkun húsnæðisins. Það er því óheimilt að stunda húðflúrun í heimahúsi eða á húðflúrstofu sem hefur ekki aflað sér starfsleyfis frá viðkomandi heilbrigðisnefnd. Starfsleyfi skal hanga uppi á áberandi stað. Starfsleyfi er veitt með starfsleyfisskilyrðum sjá https://ust.is/atvinnulif/heilbrigdiseftirlit/starfsleyfisskilyrdi/ þar sem m.a. eru gerðar m.a. kröfur um húsnæði og búnað, hreinlæti og þrif, sóttvarnir, samþykki viðskiptavinar, matvæli og umhverfismál.“

Ellý er rétt að byrja

Fjöllistakonan og flotþerapistinn Ellý Ármannsdóttir hefur ekki farið leynt með að hún sé „húðflúrari.“ Hún kom fram í Ísland í dag og ræddi um að hún væri að flúra sig sjálfa. „Ég er rétt að byrja. Þetta er svo spennandi,“ sagði Ellý.

Ellý hefur einnig verið ófeimin að deila myndum af húðflúri sem hún hefur gert, bæði á sig og aðra.

Mynd: Skjáskot/ Instagram

Þann 21. febrúar síðastliðinn deildi Ellý mynd á Instagram af húðflúri sem hún sjálf hafði flúrað á sig. Með myndinni skrifaði hún: „Nýr kafli hafinn. Nýtt listform. Ég er byrjuð. Þetta er það skemmtilegasta. Mitt fyrsta húðflúr gert af mér […]“

Fyrir tveimur vikum, þann 9. maí, setti hún mynd af krossi sem hún flúraði á sjálfa sig og skrifaði: „Kross gerður af mér. Er lokins byrjuð að bóka í húðflúr (laust 1.–10. júní)

Mynd: Skjáskot/Instagram @Icelandink

Ellý heldur úti Facebook-síðunni Iceland Ink þar sem hún auglýsir húðflúrstarfsemi sína. Á síðunni stendur að stofan sé að Hafnarstræti 15 í Reykjavík og kemur fram nafn hennar og símanúmer. Á Hafnarstæti 15 er fjölskyldurekni veitingastaðurinn Hornið, en hann hefur verið þar um árabil. Hlynur Jakobsson, unnusti Ellýjar, er einn eiganda staðarins ásamt foreldrum sínum og systkinum.

Hún er einnig með síðu fyrir Iceland Ink á Instagram þar sem hún deilir myndum af húðflúri sem hún hefur gert, til dæmis rós á karlmann.

Mynd á Facebook-síðu Iceland Ink.

Myndina má einnig sjá á Facebook-síðu Iceland Ink.

Það sem þykir athyglisvert er að Ellý er hvorki lærður húðflúrari né með leyfi til að flúra heima hjá sér eða annars staðar. DV reyndi ítrekað að hafa samband við Ellý án árangurs.

Hvað þarf til þess að flúra?

DV ræddi við húðflúrara með yfir tuttugu ára reynslu. Hann segir að það sé nokkurra ára ferli að læra húðflúrun og fyrsta árið flúra nemarnir oftast ekkert heldur einbeita sér að því að teikna. Nemi í húðflúrun gæti því þurft að vera undir handleiðslu meistara í að minnsta kosti ár áður en hann snertir nál.

Á vef MBL.is er eftirfarandi svar við spurningu um hvernig sé lært að húðflúra. Svarið var unnið í samstarfi við Idan.is og námsráðgjöf við Háskóla Íslands.

„Tattoo eða húðflúrsnám fer fram undir handleiðslu annars (meistara) og mætti e.t.v. líkja þessu saman við meistara og sveinakerfið. Sá sem að er að læra verkið (sveinn/lærlingur) gerir það undir eftirliti og handleiðslu meistara eða þess sem hefur hlotið viðurkenningu á þessu sviði. Þessir þrír aðilar eru meðlimir í samtökunum „Association of Professional Tattoo Artists“ sem er með aðsetur í Bretlandi. Ákveðin viðurkenning fæst á starfi viðkomandi með aðild að þessum samtökum og jafnframt leyfi til að taka að sér lærlinga (nema). Á Íslandi hefur ekki verið komið á löggildingu í sambandi við þessa grein. Þeir sem bjóða upp á húðflúr þurfa að fá leyfi heilbrigðisyfirvalda.“

Til að fá starfsleyfi þarf að fylgja þessum skilyrðum.

Meðal annars ber rekstraraðila að afla vottorðs frá Landlækni og reglur gilda um hvernig nálum, öðrum hvössum hlutum, spilliefnum og umbúðum undan spilliefnum er safnað og fargað.

Ólga meðal viðurkenndra húðflúrara

Viðurkenndir húðflúrarar á Íslandi eru sumir hverjir ekki sáttir við aðgerðaleysi í þessum efnum og að hver sem er geti í raun flúrað án þess að við því liggi einhvers konar refsing. Einn starfsmaður húðflúrstofu sem DV ræddi við, sem vill ekki láta nafns síns getið, hafði miklar áhyggjur af því að þessi starfsemi ólærðra húðflúrara sem færi oft fram í heimahúsum byði hættunni heim. Strangar kröfur séu gerðar til viðurkenndra húðflúrstofa, til dæmis er varða hreinlæti og urðun sorps. Telur starfsmaðurinn að tímaspursmál sé þar til einhver slasist alvarlega vegna þessarar iðju eða smitist af hættulegum sjúkdómi. Þá blöskrar starfsmanninum einnig að viðurkenndar stofur þurfi að greiða fyrir leyfi frá Heilbrigðiseftirlitinu, greiða háar fjárhæðir fyrir losun á sorpi auk alls kyns tilfallandi kostnaðar við að halda umhverfinu þar sem starfsemin fer fram sótthreinsuðu, á meðan þeir sem engin leyfi hafa geti flúrað hvern sem er og auglýst starfsemina á samfélagsmiðlum án afleiðinga. Annar húðflúrari sem DV ræddi við segir að í hverri viku komi viðskiptavinir inn á stofuna hans til að láta laga húðflúr sem hafi verið gert af ólærðum húðflúrurum í heimahúsi.

Stofur með leyfi

DV fékk lista frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur yfir þær stofur í Reykjavík sem eru með leyfi. Við ítrekum að DV hefur eingöngu upplýsingar um húðflúrstofur með tilskilin leyfi í Reykjavík. Er stofan þín á listanum?

SkinnList

Húðflúrstofan Irezumi

Íslenzka Húðflúrstofan

Bleksmiðjan

Tattoo-Stofan

Reykjavík Ink

Valkyrie Tattoo Studio

White Hill ehf.

Húðflúrstofan Apollo Ink ehf

Húðflúrstofan White Rose

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig

Svafar var 17 ára sannfærður um að samfélaginu væri að öllu leyti sama um sig
Fókus
Fyrir 3 dögum

Pírati opnar pólitískan sportbar

Pírati opnar pólitískan sportbar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“

Ósammála um kynningarmyndband KSÍ – „Hjartað í mér sökk“- „Landsliðið í hneysklun“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Gréta ósátt með Keiluhöllina – ,,Þetta er spurning um að sýna ábyrgð“

Gréta ósátt með Keiluhöllina – ,,Þetta er spurning um að sýna ábyrgð“
Fókus
Fyrir 1 viku

Lokalag Eurovisionmyndarinnar þykir magnað en hver er íslenski textinn?

Lokalag Eurovisionmyndarinnar þykir magnað en hver er íslenski textinn?
Fókus
Fyrir 1 viku

Vinsælustu fegrunaraðgerðirnar á Íslandi í dag

Vinsælustu fegrunaraðgerðirnar á Íslandi í dag