fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Patrekur á og rekur 100 manna fyrirtæki í Noregi

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 16. mars 2019 09:00

Patrekur Sólrúnarson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Patrekur Sólrúnarson er tuttugu og þriggja ára gamall Íslendingur sem á og rekur 100 manna ræstingafyrirtæki í Noregi. Fyrirtækið, Support Services Partner A/S, veltir hálfum milljarði á ári en félagið stofnaði Patrekur ásamt vini sínum þegar þeir voru 18 ára gamlir. Norskir fjölmiðlar hafa veitt fyrirtækinu eftirtekt í gegnum árin sem varð til þess að DV fjallaði stuttlega um Patrek og afrek hans fyrir þremur árum. Á dögunum átti Patrekur síðan erindi til Íslands og settist niður með blaðamanni til þess að fara yfir ævintýrið sem byrjaði með  vinskap við kúrdískan innflytjanda og ryðgaðri skúringamoppu.

Erfið fyrstu ár í Noregi

Patrekur flutti til Noregs árið 2008, þegar hann var þrettán ára gamall, ásamt móður sinni og tveimur systrum. „Við fluttum til bæjarins Kongsberg mánuði áður en að bankahrunið gekk yfir á Íslandi. Það má því segja að tímasetningin hafi verið heppileg. Æskuvinur minn hafði einnig flutt út ásamt fjölskyldu sinni aðeins fyrr. Þannig vildi til að fyrr um sumarið hafði ég heimsótt hann út til Noregs. Mér líkaði sú dvöl afar vel. Sérstaklega hvað veðrið var gott og því var ég spenntur fyrir því að flytja til Noregs,“ segir Patrekur.

Þegar blákaldur hversdagsleikinn í Noregi tók við þá var gleðin skammvin. „Þetta var mjög erfiður tími og ég var mjög einangraður. Í rauninni var ég hálfþunglyndur á þessum tíma. Þar sem ég kunni ekkert í norsku þá var ég ekki inni í neinu sem var í gangi í kennslustofunni né utan hennar. Ég man að ég grátbað mömmu um að fá að fara aftur til Íslands,“ segir Patrekur. Hann hafði alltaf verið góður námsmaður en fljótt fjaraði undan því. „Ég fékk hræðilegar einkunnir og vanlíðanin var mikil,“ segir Patrekur.

 Heppinn með stjúpföður

Hlutirnir áttu þó eftir að breytast. Um leið og Patrekur hafði náð tökum á norskunni fór hann aftur að blómstra í námi. „Ég var svo heppinn að ég eignaðist frábæran stjúpföður sem ég leit mjög upp til. Hann hafði verið kennari í Noregi og hjálpaði mér mikið með námið. Þá fór allt að ganga mun betur,“ segir Patrekur. Svo vel gekk honum að hann fékk hæstu einkunn skólans í norsku við útskrift. Þegar í menntaskóla var komið þá tók Patrekur námið enn fastari tökum, sérstaklega þegar hann eygði tækifæri til þess að útskrifast fyrr en ella.

„Menntaskólanámið í Noregi er venjulega þrjú ár. Ég áttaði mig hins vegar á því að ég gat skráð mig í lokapróf í fögum þegar ég treysti mér til þess og það gerði ég óspart. Það endaði með því að ég útskrifaðist eftir tvö ár,“ segir Patrekur. Þrátt fyrir að hann elski að læra hefur frekara nám setið á hakanum, enn um sinn. Patreki lá nefnilega á að komast í eigin rekstur.

Á menntaskólaárunum kynntist Patrekur sínum besta vini og samstarfsfélaga, Ghazi Khder. Ghazi er innflytjandi af kúrdísku bergi brotinn en Patrekur þvertekur fyrir að sameiginleg reynsla þeirra sem innflytjenda hafi leitt þá saman. „Reynsla okkar af því að vera innflytjandi í Noregi er allt öðruvísi. Norðmenn líta á Íslendinga sem frændur eða bræður en það er frekar litið niður á þá sem flytja til Noregs úr austri. Hann átti því mun erfiðara uppdráttar en ég, en vann sigur á þeim hindrunum,“ segir Patrekur.

Þeim Ghazi varð vel til vina og fljótlega fundu þeir sameiginlega löngun til að stofna fyrirtæki og láta til sín taka. „Við ræddum þetta mikið og vorum mjög spenntir að fara út í einhvern rekstur. Við hugsuðum þetta mjög stórt frá fyrstu tíð og vorum fullir af bjartsýni. Það var svo í raun tilviljun að ræstingar urðu fyrir valinu. Faðir Ghazi hafði reynslu af því að vinna við ræstingar og þannig kom sú hugmynd til. Við redduðum okkur síðan efnum og ryðgaðri skúringamoppu og fórum að taka að okkur stök verkefni sem auglýst voru. Við reyndum yfirleitt að skúra fyrir skólann,“ segir Patrekur.

Töldu niður dagana til að stofna fyrirtæki

Hann segir hlæjandi frá því að móðir sín hafi ekki verið sérstaklega bjartsýn á þennan nýja starfsferil til að byrja með, enda umgengni Patreks á heimilinu ekki alltaf til fyrirmyndar. „Henni fannst skrýtið að ég nennti að byrja skúra hjá fyrirtækjum en nennti því varla heima hjá mér,“ segir Patrekur og hlær.

Félagarnir voru aðeins sautján ára gamlir og þurftu að bíða til átján ára aldurs til að stofna fyrirtæki. „Við töldum niður dagana þar til við gátum skráð fyrirtækið okkar og það var stór stund þegar það gekk í gegn,“ segir Patrekur. Til að byrja með reyndist reksturinn þó erfiðari en félagarnir bjuggust við.

„Við keyrðum um bæinn okkar og rukum inn í fyrirtæki til þess að bjóða þeim þjónustu okkar. Okkur var yfirleitt tekið hlýlega en mjög fáir vildu gefa okkur tækifæri, sem er kannski skiljanlegt í ljósi þess hversu ungir við vorum. Við héldum þó ótrauðir áfram og létum ekki deigan síga þó að sumir væru margoft búnir að segja nei. Að lokum gaf húsgagnaverslun ein okkur tækifæri og við lögðum okkur alla fram um að gera eigendurna ánægða. Eftir rúman mánuð fórum við svo að banka upp á hjá nærliggjandi fyrirtækjum og benda þeim á að við værum að sjá um þrif hjá nágranna þeirra og þeir væru himinlifandi með þjónustuna. Smátt og smátt fór þannig viðskiptavinum að fjölga,“ segir Patrekur og brosir.

Sköpuðu sér nafn í fjölmiðlum

Fljótlega þurftu félagarnir að byrja að ráða starfsfólk, kaupa merkta fyrirtækjabíla og leigja fyrsta skrifstofuhúsnæði félagsins, litla kjallaraholu. „Orðspor okkar var aðeins byrjað að breiðast út en það sem kom okkur endanlega á kortið var athygli fjölmiðla,“ segir Patrekur.

Dagblöð í heimabæ þeirra fengu veður af hinum ungu athafnamönnum og fljótlega fóru að birtast um þá fréttir í héraðsmiðlum. „Þannig fóru eigendur fyrirtækja að kannast við okkur og það gerði allt markaðsstarfið mun auðveldara. Smátt og smátt fóru viðskiptavinir að átta sig á að við værum ekki ungir strákar að leika okkur heldur ætluðum að standa í alvöru rekstri,“ segir Patrekur.

Viðskiptavinum fjölgaði hratt og það skapaði úlfúð meðal samkeppnisaðila. „Við fengum margar reiðihringingar á þessum tíma enda vorum við að hirða óánægða viðskiptavini af öðrum fyrirtækjum. Ég svaraði því alltaf til að fyrirtækin þyrftu engar áhyggjur að hafa ef þjónustan væri góð,“ segir Patrekur. Hann segir að reiðisímtölunum fari fækkandi en þess í stað hafi símtölum fjölgað þar sem eigendur stærri ræstingafyrirtækja séu að kanna hvort Patrekur og Ghazi geti hugsað sér að selja fyrirtækið.

„Við höfum engan áhuga á því á þessum tímapunkti og sjáum mörg tækifæri til áframhaldandi vaxtar. Við erum eiginlega komnir með rekstur í öllum sveitarfélögum í kringum Ósló og á einhverjum tímapunkti munum við hefja innreið okkar þangað. Við erum ákveðnir í að bjóða upp á þjónustu okkar um allan Noreg,“ segir Patrekur.

Ghazi og Patrekur hafa vakið talsverða athygli í Noregi

Reyna að þjónusta starfsfólkið

Aðspurður hvað hann telji fyrirtæki sitt gera öðruvísi en samkeppnisaðilarnir segir Patrekur: „Áherslan okkar er á starfsfólkið. Ég og Ghazi lítum svo á að okkar hlutverk sem stjórnendur sé að þjóna starfsfólkinu og tryggja að því líði vel í vinnunni. Það er oft talað um þennan klassíska valdapýramída en hjá okkur er hann öfugur. Við reynum líka að skapa góðan móral og ráða fólk á ólíkum aldri og með fjölbreytta reynslu. Elsti starfsmaðurinn okkar er áttræður og á dögunum réðum við sjötugan mann til þess að sjá um að bóka sölufundi hjá væntanlegum viðskiptavinum. Hann var búinn að vera á eftirlaunum í nokkur ár en leiddist þófið og ákvað að skella sér aftur út á vinnumarkaðinn. Ég og Ghazi gerum okkur fyllilega grein fyrir því að við eigum margt ólært sem stjórnendur og það er því ómetanlegt fyrir okkur að fá að skyggnast í reynslubanka slíkra starfsmanna,“ segir Patrekur.

Að hans sögn er daglegur rekstur skrifstofu fyrirtækisins að mestu í hans höndum á meðan Ghazi vill helst sjá um að allt gangi vel við þjónustu við viðskiptavini. „Við vinnum mjög náið saman og bætum hvor annan upp. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tölum og því fór ég sjálfkrafa að veita fjármálahliðinni meiri áhuga. Ghazi á hins vegar mjög erfitt með að sitja kyrr og vill því helst vera úti að þjónusta viðskiptavini og sjá til þess að allt gangi vel fyrir sig,“ segir Patrekur.

Í dag eru 100 starfsmenn hjá Support Service Partner A/S og veltir fyrirtækið rúmlega hálfum milljarði íslenskra króna á hverju ári. Þrátt fyrir umfang starfseminnar þá grípur Patrekur reglulega í skúringamoppuna. „Við Ghazi leysum báðir af við skúringarnar ef þörf er á. Fyrir mér er það að skúra eins og róandi hugleiðsla og það heldur okkur við efnið að rifja reglulega upp hvaða þjónustu við erum að selja,“ segir Patrekur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana