fbpx
Föstudagur 19.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Rakel Unnur hætti að drekka og ákvað að láta drauminn rætast: „Ég er loksins að fá allt til baka sem ég hef gert“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 16. mars 2019 11:15

Rakel Unnur Thorlacius ákvað að láta drauminn rætast og opnar verslun í miðbænum. Mynd: Hanna/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rakel Unnur Thorlacius, 29 ára, er menntaður stílisti, tískuritstjóri og annar eigenda vintage-fataverslunarinnar Wasteland sem var opnuð í miðbænum, við Ingólfsstræti 5, í gær, fimmtudag. Rakel Unnur segir að einn af lyklunum að hennar velgengni hafi verið að hætta að drekka áfengi. Hún sagði skilið við áfengi fyrir þremur og hálfu ári. Síðan þá hefur hún áorkað meiru en hún hefði nokkurn tíma geta ímyndað sér. Rakel Unnur segir að draumar geti ræst enda er líf hennar nú eins og hana hafði dreymt um.

Vildi vera öðruvísi

Rakel Unnur ólst upp í Breiðholti og flutti til Hafnarfjarðar tólf ára gömul. Frá því að hún man eftir sér hefur hún haft áhuga á öðruvísi fötum.

„Mig hefur alltaf langað að klæða mig öðruvísi. Þótt ég fylgdi tískustraumnum var ég alltaf með mína eigin sýn á fatnað,“ segir hún.

Rakel Unnur útskrifaðist af fatahönnunarbraut í FG með stúdentspróf. Eftir útskrift vann hún sem verslunarstjóri í vintage-fataverslun í Reykjavík.

Þorði ekki að drekka áfengi

Þegar Rakel Unnur var að verða tvítug byrjaði hún að drekka áfengi. Hún rifjar upp kvöldið sem hún ætlaði fyrst að smakka áfengi, þegar hún var átján ára gömul.

„Ég og mamma höfum alltaf verið bestu vinkonur og ræddum um áfengi áður en ég sagði við hana að mig langaði að prófa að drekka. Hún keypti handa mér Breezer og sagðist vera heima, tilbúin við símann ef mig vantaði eitthvað,“ segir Rakel Unnur og hlær.

„Ég tók einn sopa af drykknum og hugsaði svo: Nei. Ég þori þessu ekki. Ég hætti við og gaf vinkonum mínum drykkinn minn. Ég var alltaf sátt við að fara með kippu af kókómjólk í partí þegar ég var yngri.“

Rakel Unnur hefur alltaf heillast að öðruvísi fötum. Mynd: Hanna/DV

Félagslegur þrýstingur

Aðspurð af hverju hún hafi byrjað að drekka tæplega tvítug segir Rakel Unnur að félagslegur þrýstingur hafi leikið þar stórt hlutverk.

„Ég byrjaði ekki að drekka fyrr, því mér leið ekki vel með þá hugmynd að drekka og þorði því ekki. Mér fannst óþægilegt að sjá hvernig fólk gat breyst undir áhrifum. En pressan var mikil og á endanum lét ég undan, mig langaði að vera með. Það er rosalega mikil pressa í samfélaginu um að drekka,“ segir hún.

Rakel Unnur er nýflutt aftur heim til Íslands frá Danmörku. Hún segir pressuna í Danmörku vera gríðarlega.

„Það er rosalega mikil pressa um að drekka í Danmörku. Ég hef lent í því að spyrja um óáfenga kokteila og var boðinn bjór í staðinn. Það er mjög mikil bjórmenning í Danmörku og ungir krakkar drekka með foreldrum sínum þar og eru ekki að fela það fyrir þeim. Mér finnst að allir ungir krakkar ættu að geta rætt við foreldra sína um áfengi. Því þá geta foreldrar verið til staðar þegar og ef þá langar að prófa.“

Rakel Unnur: „Ég tjái mig mjög mikið með fötum.“ Mynd: Hanna/DV

London

Árið 2014 flutti Rakel Unnur til London, þá var hún 25 ára. Hana langaði að verða fatahönnuður, enda útskrifaðist hún af fatahönnunarbraut. En með tímanum komst hún að því að draumar hennar lágu annars staðar.

„Eftir að ég útskrifaðist vann ég í vintage-fataverslun og var þar verslunarstjóri í fjögur ár. Ég fann hvað ég hafði mikinn áhuga á vintage-fatnaði. Mig hefur líka aldrei langað að vera eins og aðrir. Ísland er svo lítið. Það er svo auðvelt að falla í þægindarammann og þora ekki að vera áberandi, í rauninni, því við erum svo fá. Okkur finnst það óþægilegt,“ segir Rakel Unnur.

„Ég komst að því að með vintage-fatnaði gat ég klæðst einhverju sem enginn annar átti og tjáð mig þannig. Ég tjái mig mjög mikið með fötum.“

Rakel Unnur hefur verið með blátt hár síðastliðin þrjú ár. Fyrir nokkrum mánuðum ákvað hún að lita það aftur dökkt, í upprunalega litinn, og segir að henni hafi aldrei liðið eins leiðinlega og hún var fljót að fara aftur í blátt.

„Ég hætti við að vilja verða fatahönnuður, mér fannst þægilegt að föt væru bara tilbúin,“ segir hún og hlær. „Ég er líka mjög góð í að sjá hvaða hlutir fara saman. Ég fann út að mig langaði að verða stílisti.“

Leiðin lá í London College of Fashion og hún innritaðist í BA-nám í Fashion Styling and Production. Eftir tveggja ára nám útskrifaðist Rakel Unnur með diplómu en gat ekki klárað þriðja árið sitt.

„ LÍN lánar bara ákveðna fjárhæð fyrir skólagjöldum. Ég hafði ekki efni á að borga mismuninn en árið kostar þrjár milljónir. Nám erlendis er mjög dýrt,“ segir Rakel Unnur og bætir við: „Það er mjög sárt að hafa ekki geta fengið að klára nám, aðeins vegna þessarar ástæðu. LÍN segir að maður geti unnið fyrir mismuninum á sumrin, en ef maður er duglegur og vinnur mikið þá skerðist hvað maður fær í framfærslu. Manni er refsað fyrir að vera duglegur.“

Rakel Unnur: „Einn af mínum stærstu draumum er að rætast.“ Mynd: Hanna/DV

Kaupmannahöfn

Rakel Unnur ætlaði að safna fyrir seinasta árinu sjálf og ákvað að taka eins árs pásu frá náminu til þess og flutti frá London. Kaupmannahöfn varð fyrir valinu sem næsti áfangastaður.

Hún fékk starf sem verslunarstjóri hjá Wasteland, sem er ein vinsælasta vintage-fataverslun í Kaupmannahöfn. Ábyrgðin jókst og verkefnunum fjölgaði með tímanum, eins og að fara til Bandaríkjanna og handvelja föt fyrir verslunina.

Á þessum tíma gat Rakel Unnur sér einnig gott orð sem stílisti, bæði í Kaupmannahöfn og á Íslandi. Hún komst á skrá hjá umboðsskrifstofu og hefur unnið að fjölda stílistaverkefna. Meðal þeirra eru tónlistarmyndband fyrir hljómsveitina Dream Wife, auglýsingu fyrir Ísey Skyr, herferð fyrir Hummel, Minimum, Soulland og tískumyndaþættir fyrir tímarit. Rakel Unnur er einnig tískuritstjóri hjá Bast Magazine og hefur skrifað þar greinar síðastliðin fimm ár.

Hætti að drekka áfengi

Þegar Rakel Unnur bjó í London ákvað hún að breyta um lífsstíl. Hún hætti að drekka áfengi.

„Ég gafst upp. Ég ákvað að það væri kominn tími til að breyta um lífsstíl. Ég gerði það ekki vegna þess að ég ætti beint við vandamál að stríða, heldur hafði drykkjan svo mikil áhrif á mig andlega. Ég vildi breyta því hvernig mér liði og ákvað að taka pásu frá drykkju og djammi.“

Rakel Unnur segir að henni hafi aldrei liðið vel í glasi.

„Ég átti ekki í neinum vandamálum með áfengi. En eins og það er hérna á Íslandi fóru helgarnar í drykkju, djamm og þynnku. Fólk bíður eftir helginni til að komast á djammið, svona er bara menningin hérna á Íslandi. Mig langaði sjaldan í áfengi, mér hefur aldrei fundist það einu sinni gott á bragðið. En það var hópþrýstingur um að fara að djamma og gleyma sér. Á endanum fékk ég ógeð af því andlega. Það tekur á að djamma hverja einustu helgi. Manni líður ekki vel. Ég fékk nóg á tímabili.“

Áfengispásan átti upprunalega að vera aðeins þrír mánuðir. Hins vegar leið henni svo vel að pásan lengdist. Í dag hefur Rakel Unnur ekki drukkið áfengissopa í þrjú og hálft ár.

„Það sem ég er búin að afreka síðan ég hætti að drekka er ótrúlegt. Ég er með miklu meiri orku. Mér hefur ekki liðið illa í líkamanum í þrjú og hálft ár. Þegar ég var þunn var ég bara veik og eyddi öllum deginum uppi í rúmi.“

Rakel Unnur hefur getið sér gott orð sem stílisti. Mynd: Hanna/DV

Fer út að skemmta sér

Rakel Unnur segist fara út að skemmta sér með vinum sínum. Hún segir það þó takmarkað hvað hún nenni að vera lengi.

„Mér líður alls ekki illa við að fara út að skemmta mér. Fyrst var erfitt að vera ekki í sama hugarástandi og aðrir. Það sem hjálpaði mér var að fá mér drykk með röri svo það liti út fyrir að ég væri að drekka. Því ef maður drekkur ekki fær maður endalausar spurningar og ég þurfti sífellt að útskýra af hverju ég væri ekki að drekka. Mér fannst það óþægilegt fyrst, en ekki lengur. Stundum langar mig auðvitað að komast út úr hausnum á mér eins og fólk gerir með drykkju. En það eru til aðrar leiðir til þess, eins og að hugleiða,“ segir hún.

„Arnar, kærasti minn, hætti að drekka áfengi fyrir tveimur árum af sömu ástæðu og ég. Að maki þinn sé með sömu áherslur og þú í lífinu, og að það snúist ekki allt um að fá sér bjór eða fara á djammið, er ótrúleg tilfinning.“

Draumurinn rættist

Rakel Unnur segir að hún hafi ekkert á móti áfengi, það sé bara ekki fyrir hana.

„Ég get alveg sagt að með því að hafa hætt að drekka hafi ég náð eins langt og ég hef gert.“

Aðspurð hver draumur hennar sé, brosir Rakel Unnur og segir: „Einn af mínum stærstu draumum er að rætast. Það er mjög skrýtið! Ég er loksins að fá allt til baka sem ég hef gert.“

Rakel Unnur í tómu verslunarrýminu áður en verslunin opnaði. Mynd: Hanna/DV

Opnar sína eigin verslun

Wasteland er að fara út fyrir landsteina Danmerkur og hefur opnað verslun á Ingólfsstræti 5. Rakel Unnur er meðeigandi verslunarinnar. Verslunin var opnuð 14. mars og verður opin frá fimmtudögum til sunnudaga næsta mánuðinn og mun vera opin á hverjum degi frá 4. maí næstkomandi.

Rakel Unnur segir að hún muni leggja áherslu á að allir geti komið að keypt hjá henni, bæði ungir sem aldnir og fólk í öllum stærðum og gerðum.

„Það er ótrúlegt að hafa náð þessu markmiði, að eiga mína eigin verslun sem er einnig góð fyrir umhverfið. Ég er búin að vinna svo ótrúlega ötullega að þessu. Ef þú átt þér draum, fylgdu honum og hann mun rætast ,“ segir Rakel Unnur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Bættu baðherbergið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Halldóra um móðurhlutverkið og athyglina: „Þetta var alls ekki það sem ég ætlaði mér að gera við líf mitt“

Halldóra um móðurhlutverkið og athyglina: „Þetta var alls ekki það sem ég ætlaði mér að gera við líf mitt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Unnar Þór og Agnes Ýr eiga von á barni

Unnar Þór og Agnes Ýr eiga von á barni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nornadans og galdrar í Skarðsdalsskógi – Sjáðu myndbandið

Nornadans og galdrar í Skarðsdalsskógi – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 2 dögum

Óvænt uppákoma í Hagkaupum – Spiluðu hljóð og öskur dýra í sláturhúsi

Óvænt uppákoma í Hagkaupum – Spiluðu hljóð og öskur dýra í sláturhúsi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Þorgrími blöskrar – Umhverfisspjöll í miðbæ Reykjavíkur

Þorgrími blöskrar – Umhverfisspjöll í miðbæ Reykjavíkur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gunnar upplifði versta dag lífs síns: „Ég þurfti að kyngja þessu og ég grét mikið“

Jón Gunnar upplifði versta dag lífs síns: „Ég þurfti að kyngja þessu og ég grét mikið“