fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Jóna sigraðist á matarfíkn og alkóhólisma

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 9. febrúar 2019 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóna Kristín Sigurðardóttir er kona á góðum stað í lífinu. Hún er 51 árs gömul, í fínu formi og lítur út fyrir að vera yngri. Hún er hamingjusamlega gift, á börn og barnabörn og er afskaplega ánægð í starfi. En æviferill Jónu hefur verið grýtt braut, vörðuð ýmsum áföllum og baráttu við fíkn í áfengi og mat. Áþreifanlegasta breytingin á Jónu er sú að fyrir um þremur til fjórum árum var hún mjög þéttvaxin en tókst að losa sig við um 30 kíló á einu ári og hefur viðhaldið þeim árangri. Á bak við þann sigur er nokkuð flóknari saga, í henni er til dæmis sá kafli að löngu áður en Jóna fitnaði stríddi hún við alvarlega áráttu sem leiddi til þess að hún fór í megrun þó að hún væri tággrönn. Áfengisneysla hennar olli henni mikilli vanlíðan en eftir að hún tók áfengi út úr lífi sínu hefur sykur verið hennar skæðasta fíkniefni, fæða sem hún verður að mestu að láta eiga sig.

Jóna  er fædd í ágúst árið 1967 og býr á Djúpavogi. Á þeim slóðum er hún fædd og uppalin og hefur búið þar alla ævi. Jóna á tvo syni og samtals sex barnabörn ef talinn er með drengur sem fæddist andvana í haust. Jóna starfar við gæðamat í eldislaxi og saltfiski hjá fiskeldisfyrirtækinu Búlandstindi.

Fór 48 kílóa þung í megrun 

Eins og fyrr segir liggur rótin að ofþyngdarvanda Jónu aftur til þess tíma þegar hún var mjög grönn en var ósátt við líkama sinn og taldi sig vera feita. Má segja að löngu áður en matarfíknin kom til sögunnar hafi Jóna þjáðst af megrunarfíkn. Samhliða því leitaði hún mjög ung í áfengi. „Ég er 171 sentimetri á hæð og þegar ég var 48 kíló fannst mér ég vera allt of feit og var stöðugt í megrun. Í kringum fimmtán ára aldurinn fór ég svo líka að sækja í áfengi og notaði það til að líða betur á sálinni.“

Jóna sagði skilið við áfengi í 12 ár eftir að hafa veikst hastarlega eftir þorrablót. En þráhyggja varðandi vaxtarlag og mat hélt áfram að ásækja hana og tók á sig nýjar myndir. „Ég átti tíu ára langt átröskunartímabil þar sem ég borðaði yfir mig, setti síðan fingurinn í kokið og skilaði fæðunni aftur. Þannig byrjaði það, en fljótlega þróaðist það þannig að alltaf 15–20 mínútum eftir máltíð þurfti ég að æla matnum án þess að ég framkallaði uppköstin. Það var afar erfitt að komast út úr þessu en tókst að lokum með faglegri hjálp. Átröskun er ástand sem setur hausinn gjörsamlega á hvolf og fyllir mann ranghugmyndum, ofsakvíða og hræðslu. Ég varð hrædd við allt og miklaði allt fyrir mér.“

Eftir að Jóna hafði sigrast á átröskuninni tók við tímabil hinnar eiginlegu matarfíknar og þyngdaraukningar. Var hún um 32–33 ára þegar þetta vandamál kom til sögunnar. Jóna, sem er eins og fyrr segir 171 sentimetri á hæð, varð þyngst um 110 kíló, en er í dag 82 kíló.

Jóna segir að sykur hafi verið hennar helsti óvinur þegar hún var feit: „Sykurinn er fíkniefni rétt eins og áfengi og ég var alltaf að leita eftir einhverju rosalega sætu til að slá á vanlíðan. Nammipoki sem ætti að endast í heila viku var kláraður á fimm mínútum. Ég höndlaði engan veginn umgengni við sykur, ekki frekar en við áfengi.“

Gjörbreyting Jóna barðist við átröskun í tíu ár.

Áföll og fíkn

Jóna hneigist að þeirri skoðun að áföll geti ýtt undir fíknir en ýmis áföll sem hún hefur orðið fyrir á lífsleiðinni hafa gert baráttuna við matarfíkn erfiðari.

Megrunarþráhyggja og löngun í áfengi voru fyrirferðarmikil vandamál í lífi Jónu á unglingsaldri. „Ég var með lélega sjálfsmynd og var ósátt við líkamann. Upp úr því byrjaði megrunarfíknin, mér fannst ég vera feit þó að ég væri mjög grönn.“

Jóna hefur upplifað mörg áföll á lífsleiðinni sem hafa reynt mikið á hana en þegar horft er til baka kemur í ljós að þau hafa styrkt hana og þroskað.

„Árið 1996 svipti bróðir minn sig lífi. Við vorum mjög náin og þetta var mér afskaplega erfitt og er það enn þann dag í dag. Á svona áföllum jafnar maður sig aldrei til fulls þó að maður læri að lifa með missinum. Sjálfsvígið var mikið reiðarslag fyrir alla og engan grunaði að hann væri í erfiðleikum, hann átti til dæmis ekki við áfengis- eða vímuefnavanda að etja. Mig grunar að orsökin hafi verið þunglyndi og ég tel að það sé sjúkdómur sem eigi að taka grafalvarlega.“

Jóna á óskaplega gott og fallegt samband við syni sína tvo, en þeir hafa þó ekki farið varhluta af erfiðleikum í lífinu. „Þegar eldri sonur minn var 17 ára reyndi hann að svipta sig lífi og vinur hans bjargaði honum á síðustu stundu.“ Þessi sonur Jónu er með Aspberger-heilkennið, sem er afbrigði einhverfu, en hefur þrátt fyrir það náð miklum árangri í lífinu.

Árið 2009 var Jónu mjög þungt í skauti en þá riðu mörg áföll yfir sem reyndu mjög á hana. „Mamma dó þetta ár í fanginu á pabba heima. Hann langaði ekki til að lifa eftir það og svipti sig lífi ellefu vikum síðar.“

Sama ár lenti Jóna í alvarlegu bílslysi: „Ég var að koma að einbreiðri brú og hægði á mér og vék fyrir bíl sem kom af brúnni en sá vék ekkert og keyrði á miðjum vegi svo ég þurfti að fara of langt út í hægri kantinn til að forða árekstri. Malbikið brotnaði undan hægri hliðinni og ég missti alla stjórn og fór þvert yfir veginn og niður brattan vegarkant hinum megin; endastakk bílnum á hvolf ofan í vatn.“ Þrátt fyrir þessa óhugnanlegu atburðarás slapp Jóna lítið meidd frá óhappinu.

Sama ár veiktist eldri sonur hennar lífshættulega, en jafnaði sig sem betur fer. Við þetta má síðan bæta að uppeldisbróðir eiginmanns Jónu lést í hörmulegu vinnuslysi fyrir nokkrum árum.

Næst víkjum við að sigrum Jónu í baráttu við fíknina og þá fyrst þegar hún kvaddi áfengi fyrir fullt og allt.

Þegar hún skildi allt sem Megas söng varð henni ljóst að hún varð að hætta að drekka

Eftir tólf ára hlé byrjaði Jóna aftur að drekka. „Fyrst var þetta áhrifagirni, maður fékk sér bjór með hinum til að vera með. En bjórinn er eins og sykurinn, þetta eru efni sem henta mér ekki og ég missi algjörlega tökin. Rétt eins og gerðist með matinn og sykurinn seinna.“

Margir hafa sokkið miklu dýpra í drykkju en Jóna gerði nokkurn tíma og hún hætti löngu áður vandamál í einkalífi og starfi tóku að hljótast af drykkju hennar. Hins vegar olli drykkjan henni mikilli andlegri vanlíðan. Atvikið sem varð til þess að hún ákvað að kveðja áfengi fyrir fullt og allt er nokkuð spaugilegt:

„Hér er árlega haldin tónlistarhátíð sem ber heitið Hammond-hátíðin og er tileinkuð Hammond-orgelinu. Meðal þeirra sem komu fram var Megas og þegar ég stóð mig að því að skilja hvert einasta orð sem Megas sagði og söng á sviðinu áttaði ég mig á því að ég hafði misst raunveruleikaskynið.“

Lykilatriðið var að hætta í megrun og snúa baki við sykri

Þetta var fyrir um átta árum og Jóna hefur ekki snert áfengi síðan. Baráttan við matarfíknina hefur verið miklu erfiðari, en Jóna náði tímamótaárangri í þeirri baráttu haustið 2015.

Jóna nefnir til sögunnar konu að nafni Sólveig Sigurðardóttir sem náð hefur miklum árangri í baráttu við ofþyngd og hefur haft áhrif á margra. „Árið 2015 rak ég augun í pistla Sólveigar á Facebook og hún varð mér mikill áhrifavaldur – umfram allt varðandi það að hætta í megrun. Eins og margir aðrir feitir þá var ég alltaf í megrun og sú megrunaraðferð er varla til sem ég hef ekki prófað.“

Þarna urðu þau straumhvörf að Jóna hætti í megrun og tileinkaði sér lífsstíl sem hún heldur ávallt síðan. Hann felur í sér að taka út öll sætindi, takmarka mjög unna matvöru, vera mjög meðvituð varðandi magn og innihald og leitast við að minnka matarskammta. Afar mikil og markviss hreyfing er síðan hluti af prógramminu.

„Hér á Djúpavogi starfa engir einkaþjálfarar en ég komst í samband við manneskju sem var reiðubúin að hjálpa mér í gengum fjarþjálfun. Þarna skipti sköpum að fara að lyfta lóðum í stað þess að fara bara á hlaupabretti eða út að hlaupa. Stærri vöðvar auka brennslu og þetta skiptir miklu máli. Ég æfi eftir plani og allur líkaminn er þjálfaður.“

Jóna fer í ræktina sex sinnum í viku og stundar þar fjölbreyttar æfingar. Hún segir að ástundun líkamsræktar geti ekki gengið upp nema fólk hafi gaman af henni. „Þetta er aldrei kvöð hjá mér heldur nýt ég þess að gera þetta. Og þetta hefur gengið upp.“

Jóna nefnir einnig til sögunnar dáleiðslu sem hafi hjálpað henni að halda fíkninni niðri. Dáleiðsla geti verið mjög hjálpleg ef leitað er til hæfra aðila. „Hólmfríður Jóhannesdóttir, dáleiðari og heilari hjá Andlega setrinu, hefur reynst mér mjög hjálpleg og er stórkostleg í sínu starfi.“

Jóna missti 30 kíló á einu ári og hefur viðhaldið þyngdartapinu síðan. Í fyrsta skipti upplifði hún, síðastliðið haust, að þungbært áfall í fjölskyldunni ýtti henni ekki út í ofát – hún fór í gegnum sorgina með sínum nánustu án þess að deyfa sig með sykri og mat.

Áföll Ástvinamissir og veikindi settu strik í reikninginn.

Litli drengurinn sem sá aldrei dagsins ljós

Eldri sonur Jónu á þrjá syni og í fyrra gekk konan hans með þann fjórða. Það var á mánudegi að fjölskyldunni bárust þær alvarlegu niðurstöður að hjarta barnsins sló ekki lengur í móðurkviði. „Það kom hnútur á naflastrenginn sem olli því að honum barst ekki súrefni og hann kafnaði.“

Fæðing var sett af stað á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og tók hún fjóra daga. Þetta reyndi óskaplega mikið á fjölskylduna. „Hann átti að fæðast fjórum vikum síðar og þetta var fullburða barn, 11 merkur og 49 sentimetrar.“  Jóna segir að aldrei hafi komið annað til greina en að líta drenginn augum. Maðurinn hennar hafði þó miklar efasemdir um það og ætlaði ekki að sjá hann. Hann skipti hins vegar um skoðun á síðustu stundu. Bæði Jóna og eiginmaður hennar telja brýnt að fólk sem lendir í þessum sporum sjái og kveðji látna barnið.

„Það var mér ómetanlegt að fá að sjá hann og halda á honum góða stund og mynda þannig einstök tengsl við hann sem munu fylgja mér ævilangt. Hann var skírður Grétar Jónþór og er eina barnabarnið mitt sem ber mitt nafn,“ segir Jóna. Sem fyrr segir varð þetta áfall ekki til þess að sykurlöngunin vaknaði aftur, hvað þá áfengislöngunin. Jóna þakkar það meðal annars dáleiðslunni sem áður var minnst á og einnig telur hún að það skipti máli að hún hóf að iðka jóga í haust, sem stuðlar mjög að innri ró.

Bjartir tímar framundan eftir áföll og fíkn

Jónu líður vel í dag og horfir björtum augum til framtíðar. „Ég er umfram allt þakklát fyrir að vera á lífi og veit að það er ekki sjálfgefið eftir allt það sem ég hef upplifað á ævinni, þar á meðal andlát annarra,“ segir hún.

Hún hefur aldrei verið í betra formi en í dag og nýtur þess að rækta líkamlega og andlega heilsu. Fjölskyldan stendur sterk eftir að hafa farið saman í gegnum erfið áföll. Erfið reynsla hefur þroskað og eflt Jónu. Hún vill þroskast meira og verða betri manneskja. Hún segist sneiða hjá neikvæðu fólki, bæði í sínu daglega umhverfi og í netheimum þar sem hún er töluvert virk, sérstaklega á Facebook.

Mikilvægur hluti af hamingju og lífsfyllingu Jónu í dag er vinnustaðurinn Búlandstindur þar sem hún segir að ríki ákaflega jákvæður andi. „Fólk fær fallegt hrós fyrir vel unnin störf og er metið að verðleikum. Ég gæti ekki verið heppnari með vinnustað.

Það besta sem mér hefur hlotnast er að verða mamma og ekki síður amma, ég elska þessi hlutverk. Það sem hjálpaði mér mest við að komast aftur á rétta braut var að hætta að nota sykur og áfengi, stunda reglulega hreyfingu, fara í dáleiðslu og heilun og þora að tala um mín fíknivandamál og mitt líf almennt opinberlega.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Ragna gefur út ljóðakver í minningu bróður síns – Bjarni svipti sig lífi

Ragna gefur út ljóðakver í minningu bróður síns – Bjarni svipti sig lífi
Fókus
Í gær

„Ég er bara rétt að byrja, ef maður getur sagt það eftir 11 ár“

„Ég er bara rétt að byrja, ef maður getur sagt það eftir 11 ár“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mótmælir innantómum sjálfsmyndum með því að „deyja“ við fræg kennileiti – Ísland meðal áfangastaða

Mótmælir innantómum sjálfsmyndum með því að „deyja“ við fræg kennileiti – Ísland meðal áfangastaða
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hvað er Karítas Harpa að horfa á?

Hvað er Karítas Harpa að horfa á?