fbpx
Mánudagur 18.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Embla Ósk er vegan-aktívisti: „Þetta er ekki persónulegt val ef það er fórnarlamb“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Föstudaginn 22. febrúar 2019 10:03

Embla Ósk Ásgeirsdóttir: „Það er eldur inni í mér og ég ræð ekki við hann“

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Embla Ósk Ásgeirsdóttir er 23 ára gömul. Hún býr í Grímsnesi með syni sínum, Henrik, sem er fjögurra ára, og kærastanum sínum, Styrmi Jarli. Embla Ósk hefur verið vegan í rúmlega eitt og hálft ár. Veganismi er ekki mataræði heldur réttindabarátta fyrir dýrin og lífsstíll þar sem leitast er við að útiloka og forðast, eftir fremsta megni, nýtingu og ofbeldi gagnvart dýrum. Veganismi er Emblu Ósk hjartans mál. Hún er vegan-aktívisti og heldur úti vinsælli Instagram-síðu, @embla_osk, þar sem hún breiðir út boðskap um veganisma og hvetur aðra til að taka fyrstu skrefin í átt að honum. Embla Ósk hefur verið kölluð „öfgavegan“ en segir það ekki trufla sig. Það sem heldur henni gangandi eru skilaboð frá fólki sem hefur hætt að borða kjöt eða orðið vegan vegna hennar.

DV spjallaði við Emblu Ósk um veganismann, aktívismann og allt þar á milli.

Alltaf verið með sterka réttlætiskennd

Embla Ósk hefur verið vegan síðan 1. júlí 2017. Frá áramótunum 2016/2017 var hún fiskæta (e. pescatarian) og þá af umhverfisástæðum.

„Ég horfði á Cowspiracy en var annars ekkert að kynna mér þetta. Ég var samt byrjuð að bögga fólk og spyrja af hverju það væri að borða kjöt. Ég er með sterka réttlætiskennd og hef verið með hana frá því ég man eftir mér,“ segir Embla Ósk.

„Mér fannst svör fólk alltaf áhugaverð. Oftast sagði það: „því mér finnst kjöt gott“, eða „þetta er próteinríkt“. En ég var sjálf ekki að borða kjöt, sem sýndi að kjöt er ekki nauðsynlegt.“

Smakkaði sojajógúrt og hætti við

Hvenær tókstu skrefið að verða vegan til fulls?

„Ég ætlaði að hætta að drekka mjólk af umhverfisástæðum. Ég vissi að það væri sami iðnaður og kjötiðnaðurinn. Ég keypti sojajógúrt, fannst hún ógeðsleg og hætti við. Þannig að ég skil fólk ótrúlega vel. Ég er alveg eins og allir aðrir og ég dæmi ekki neinn. En ég, eins og þeir sem fylgja mér á Instagram vita, skef ekkert utan af hlutunum,“

segir Embla Ósk.

„Með tímanum færðist ég sífellt nær veganisma. Litla systir mín ákvað að verða vegan og þá fór ég að kynna mér þetta fyrir alvöru. Ég datt inn í YouTube- og vegan-heim. Eftir það var ekki hægt að fara til baka. En það tók tíma fyrir mig að „afprógrammast“,“ segir Embla Ósk og bætir við: „Maður heyrir það frá barnsaldri að maður verði að drekka mjólk og verði að borða kjöt. Maður er líka vanur litlu öðru. Ég hafði til dæmis aldrei smakkað falafel-bollur eða kínóa.“

Fjölbreytni í vegan-netheiminum

Embla Ósk segist hafa stuðst mikið við netið til að afla sér upplýsinga um veganisma.

„Ég horfði mikið á James Aspey á YouTube þegar ég varð vegan og hann hjálpaði mér mikið. Mér finnst frábært hve margir samfélagsmiðlaáhrifavaldar í dag eru vegan, það geta allir fundið sér einhvern sem þeir eru hrifnir af og hjálpar þeim,“

segir Embla Ósk.

Fær jákvæð skilaboð

Hvernig varð Instagram-síðan þín að vinsælli vegan-aktívismasíðu?

„Þetta var ekkert planað og ég skipulegg ekki hvaða efni ég ætla að deila þennan eða hinn daginn. Það eldur inni í mér og ég ræð ekki við hann. Ég fylgi mörgum vegan-aktívistum og þegar ég sé eitthvað sem nær til mín, þá verð ég að deila því. Ef mér liggur eitthvað á hjarta, verð ég að deila því,“ segir Embla Ósk.

„Mér finnst geðveikt gaman að fólk sé að fylgja mér út af þessu. Það er ekki út af mér heldur hefur fólk virkilega áhuga á því að fræðast meira um veganisma. Sumum finnst gaman að fylgjast með „öfgavegan“ manneskju, sem er allt í lagi. Þá sér sá einstaklingur það sem ég er að deila og fræinu hefur verið komið fyrir.“

Hvaða viðbrögð færðu á Instagram?

„Ég er bara að fá góð skilaboð. En ég veit alveg að fólk talar um mig. Ein sagði mér að hún hefði byrjað að fylgja mér því einhver sagði henni að ég væri öfgavegan, en nú er hún hætt að borða kjöt. Sem mér finnst geðveikt. Ég elska hatarana,“ segir Embla Ósk.

Hvað finnst þér um að fólk kalli þig „öfgavegan?“

„Mér finnst það fyndið. Ég tek því ekkert persónulega. Fólki finnst ég öfgavegan, auðvitað. Það tekur því persónulega að ég sé vegan og tali um það, þótt þetta sé ekkert persónulegt. En þetta er það sem fólk borðar og því finnst eins og það sé verið að ráðast á það. En ég er auðvitað ekki að gera það. Það er þeirra egó sem þarf að losna aðeins um,“

segir Embla Ósk.

Hún segir að það sem henni þykir skemmtilegast við þetta allt saman séu skilaboðin sem hún fær. „Það fullkomnar daginn minn þegar ég fæ skilaboð frá fólki sem segist nýlega hafa gerst vegan. Það er best í heimi.“

Veganismi er Emblu Ósk hjartans mál.

Mikil reiði og sorg fyrst

„Fólk er á mismunandi stað í lífinu. Fyrst þegar ég varð vegan þá langaði mig að hrista hverja einustu manneskju og öskra: „Sérðu ekki að þú þarft ekki að borða þetta?!“ En svo með tímanum hef ég lært að tala við fólk. Ef maður er sífellt að benda á og gagnrýna þá gengur það ekkert. Frekar vil ég vera hvetjandi og svara spurningum fólks,“

segir Embla Ósk og bætir við: „Ég hika ekki við að tala við fólk. Það liggur við að ég tali við fólkið fyrir aftan mig í röðinni í Bónus sem er með kjúkling í körfunni.“

Embla Ósk segist alltaf vera tilbúin í samræður og rökræður. Hún segir það hins vegar ekki eiga við um alla grænkera.

„Það eru skiljanlegt að ekki allir séu með kjarkinn í að tala um þetta og finnist það óþæginlegt. Enda mætir maður miklu mótlæti. Ég nýti gjörsamlega öll tækifæri, ég er alveg pirrandi,“ segir Embla Ósk og hlær. „Ég hélt að ég myndi bara vera svona fyrst eftir að ég varð vegan, en þetta er ekkert að hætta.“

Embla Ósk segir viðbrögð fólks ólík. Hún segist tala við fólk á léttu nótunum og yfirleitt taki það henni vel. „En maður sér alveg þegar fólk er ekki tilbúið,“ segir Embla Ósk.

Ísland best í heimi?

Hver finnst þér vera algeng rangfærsla um dýraiðnaðinn?

„Fólk heldur að Ísland sé best í heimi. Dýraníðsmyndböndin sem fólk sér á netinu; það heldur að þetta sé ekki svona á Íslandi,“ segir Embla Ósk.

„Ég man þegar ég fór í fjós þegar ég var lítil og sá ekkert að því. Ég skil alveg að fólk sé ekkert að pæla í þessu. En um leið og þú byrjar að horfa á þetta frá sjónarhorni dýranna þá sérðu hvað þetta er hræðilegt. Fólk heldur líka að vegna þess að dýrin standa úti á túni á sumrin þá sé í lagi að drepa þau. En það er ekki rétt. Auðvitað eru til miklu stærri og grimmari fyrirtæki erlendis, en aðstæðurnar hérna eru samt hræðilegar. Svín sjá til dæmis ekki sólarljós. Þetta er ógeðslegur iðnaður,“

segir Embla Ósk og heldur áfram:

„Svo heldur fólk líka að kjöt- og mjólkuriðnaðurinn hér sé ekki að menga eins og iðnaðurinn úti. Ég hef fengið að heyra að vegan-vörurnar sem eru fluttar inn mengi meira. En hvað um allt fóðrið sem við flytjum inn fyrir dýrin? Við flytjum inn mörg tonn af fóðri fyrir dýrin. Það er fáránlegt magn og mengar miklu meira en vegan-maturinn okkar. Við erum líka að drepa dýr og flytja þau út og öfugt. Þetta er svo mikil græðgi.“

Vegan-fjölskylda

Báðir foreldrar Emblu Ósk eru vegan, kærastinn hennar er vegan, sonur þeirra, önnur amma Emblu er vegan og einnig systir hennar. Það er því óhætt að segja að hún sé umvafin ástvinum sem hún á auðveldlega samleið með. Embla Ósk hefur séð hvernig hún getur smitað út frá sér, enda er fjölskyldan sönnun þess. Það er ákveðinn drifkraftur fyrir hana að dreifa boðskapnum.

„Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið og mér finnst frábært þegar aðrir taka hana líka. Þegar fólk opnar augun og sér hvað er í raun og veru í gangi,“

segir Embla Ósk.

Ostur ávanabindandi

„Ég held að fólk mikli það mikið fyrir sér að breyta og verða vegan. Tökum ost sem dæmi. Það er ekkert skrýtið að fólk eigi erfitt með að hætta að borða ost. Hann er bókstaflega ávanabindandi,“ segir Embla Ósk.

Fannst þér erfitt að sleppa ostinum?

„Nei,“ segir Embla hugsi. „Þegar ég varð vegan gat ég ekki hugsað mér að borða ost. Ég sá bara sársaukann og þjáninguna sem ostur er.“

Embla Ósk: „Það eldur inni í mér og ég ræð ekki við hann.“

Af hverju vegan-aktívistar?

Af hverju þurfum við á vegan-aktívistum að halda?

„Ég ætla að koma með myndlíkingu. Ef það er maður að berja hund og þú hefur verið að borga manninum fyrir að berja hundinn en þú ákveður að það sé rangt og hættir að borga manninum. Þetta er eins og að verða vegan, þú hættir að borga fyrir dauð dýr og þjáningu þeirra,“ segir Embla Ósk og heldur áfram:

„En þú ert ekki að stöðva ofbeldið. Maðurinn er enn þá að berja hundinn þótt þú sért ekki að borga honum fyrir það. Það þurfa allir að hætta að borga manninum svo hann hætti að meiða hundinn. Ef enginn hefði byrjað að tala um kynþáttafordóma og að þrælahald væri rangt, þá hefði ekkert gerst. Fólk segir oft að það sé í lagi að borða kjöt því fólk hafi alltaf borðað kjöt. En við vorum líka eitt sinn með þræla og litum niður á konur, en við vitum í dag að það er rangt.“

Hverju svararðu þegar fólk segir: „Af hverju geturðu ekki haldið skoðun þinni fyrir þig sjálfa og virt það að ég borði kjöt?“

„Getið þið ekki virt dýrin? Dýr vilja ekki láta drepa sig, vill einhver láta drepa sig? Ef þú gengir að hundinum þínum með hníf og reyndir að drepa hann, hvað myndi hann gera? Svín gera það sama. Þetta er ekki persónulegt val ef það er fórnarlamb,“ segir Embla Ósk.

Mótlæti

Fallast þér aldrei hendur?

„Mér hafa fallist hendur þegar fólk veit og gerir ekkert. Það hefur mjög sjaldan gerst. En ég hugsa að þetta risti eitthvað dýpra, sumir höndla ekki mótlæti. Þegar þú ert vegan þá áttu eftir að finna fyrir mótlæti. Fólk á alltaf eftir að spyrja þig alls konar erfiðra spurninga og sérstaklega fjölskyldan þín. Þetta getur verið mjög erfitt, fólk getur verið mjög vont og ljótt við mann,“ segir Embla Ósk.

Embla Ósk rifjar upp fjölskyldumatarboð þegar hún var tiltölulega nýhætt að borða kjöt. „Þau voru að borða svínakjöt og ég sagði: „Þið vitið að svín eru jafn gáfuð og tveggja ára gamalt barn.“ Og allir hvæstu á mig og urðu reiðir. Ég fór inn á bað og hágrét í marga tíma. Þá fyrst áttaði ég mig á því hvað þetta væri mér hjartans mál.“

Ef þú mættir velja eitthvað eitt til að segja fólki, hvað væri það?

„Ef þú myndir ekki senda gæludýrið þitt í sláturhús af hverju finnst þér í lagi að önnur dýr séu þar. Fólk þarf líka að vita að það þurfi ekki að borða kjöt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Paris Jackson á spítala eftir sjálfsvígstilraun

Paris Jackson á spítala eftir sjálfsvígstilraun
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jóhann hefur myndað akstursíþróttir í áratugi

Jóhann hefur myndað akstursíþróttir í áratugi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Yfirheyrslan – Sigurður Þ. Ragnarsson: „Ég get orðið fjári reiður ef mér misbýður“

Yfirheyrslan – Sigurður Þ. Ragnarsson: „Ég get orðið fjári reiður ef mér misbýður“
Fókus
Fyrir 2 dögum

5 sem hefðu getað tekið við sem dómsmálaráðherra

5 sem hefðu getað tekið við sem dómsmálaráðherra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eurovision-sérfræðingar telja Hatara geta unnið Eurovision: Kalla Klemens „engilinn frá Reykjavík“

Eurovision-sérfræðingar telja Hatara geta unnið Eurovision: Kalla Klemens „engilinn frá Reykjavík“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gísli safnar fyrir Krabbameinsfélagið – Vinnufélagar ráða mottunni

Gísli safnar fyrir Krabbameinsfélagið – Vinnufélagar ráða mottunni