fbpx
Mánudagur 18.mars 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Óvissuför Brands – „Þarna höfum við fullkomna hetjusögu þar sem hetjan stígur út í óvissuna“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 16. febrúar 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brandur Karlsson er metnaðarfullur frumkvöðull sem ætlar sér stóra hluti. Hann kallar sig framtíðarfræðing, þar sem hann er stöðugt að horfa til framtíðar og leita lausna til að gera framtíðina betri. Fyrir um áratug lamaðist hann frá hálsi og niður en hann lætur þær takmarkanir sem lömuninni fylgja ekki stöðva sig.

Þann 7. mars heldur hann af stað í för sem gæti breytt lífi hans. Áfangastaðurinn er Nepal en þar ætlar hann að leggja stund á og kynna sér óhefðbundna endurhæfingu og kanna hvort grundvöllur sé til staðar fyrir Ísland og Nepal að læra hvort af öðru.

Blaðamaður hitti Brand og föruneyti, á köldum mánudagsmorgni á Kjarvalsstöðum.

„Þá væri ég líklega í öndunarvél í dag“

Fyrir um áratug breyttist Brandur úr heilbrigðum, ungum manni í lamaðan mann sem þurfti að notast við hjólastól. „Það gerðist mjög hægt. Ég fékk líklega einhverja bakteríu sem hefur komist inn í heilastofninn minn og valdið einhverjum skaða. Svo er þetta svona í bland, skaðinn og rýrnunin sem kemur af því að vera hreyfingarlaus í svona langan tíma, sem gerir mig lamaðan.“

Læknar vita þó ekki alveg hver ástæða veikindanna var, en hreyfistöðvar heilans eru óskemmdar, skaðinn er bundinn við heilastofninn. „Í segulómun þá sést smá upplýsing, grátt svæði á heilastofninum sem passar við einkenni mín. Ég er í rauninni heppinn og óheppinn því ef þetta hefði verið aðeins stærra þá hefði þetta farið inn í öndunarstýringuna. Þá væri ég líklega í öndunarvél í dag. En maður lærir að meta það sem maður fær í lífinu.“

Fullkomin hetjusaga

Alma, Logi, Christian og Brandur fara saman til Nepal.

Með Brandi í för verða kvikmyndagerðarmennirnir Logi Hilmarsson og Christian Elgaard, sem reka saman fyrirtækið Vanaheim. Þeim kynntist Brandur í gegnum samfélagstengd verkefni. „Brandur var löngu búinn að áætla að fara til Nepal eða einhvers annars lands í Asíu og var alltaf að tala um að við kæmum með honum til að taka hann upp,“ sagði Logi. Skyndilega gerði Logi sér grein fyrir að þarna væri á ferðinni einstök saga.

„Þarna höfum við fullkomna hetjusögu þar sem hetjan stígur út í óvissuna og þar er einhvers konar kennari úti sem tekur á móti honum. Hann er að fara að reyna að gera góða hluti, breyta til og breyta sjálfum sér í leiðinni. Þá vorum við komnir með sögu, þótt við vitum ekki enn hvernig hún endar, við vitum bara að þarna er hann að fara að gera mjög spennandi og óvenjulega hluti og verður í kjölfarið breyttur, ef ekki bara andlega. Þá vissum við að þarna væri gott efni í mynd og við settum allt annað sem við vorum að vinna við til hliðar til að einbeita okkur að þessu.“

Í aðalhlutverki myndarinnar verða Brandur og kærasta hans, Alma Ösp Árnadóttir, sem hann kynntist fyrir fjórum árum á Reykjalundi, en hún skapar, að sögn Loga, mikið af skemmtilegum augnablikum.

Raðfrumkvöðull

Brandur er kallaður framtíðarfræðingur eða raðfrumkvöðull. En hvað felst í því? „Í því felst að leita stöðugt að lausnum á óleystum vandamálum, svona í stuttu máli, og reyna að beita fyrirtækjastrúktúr á þessar lausnir,“ sagði Brandur. Hann hefur mikinn áhuga á ýmsum samfélagslegum álitaefnum og hefur til dæmis sérstakan áhuga á sjálfbærni. Í þessari ferð verður fókusinn á lausnir fyrir fatlaða og aldraða, en þeir hópar eiga margt sameiginlegt. „Draumurinn var alltaf að stofna vettvang þar sem fatlaðir gætu skapað sín eigin tækifæri.  Það var svona hugmyndin, frekar en hefðbundnu lausnirnar þar sem skapaður er vettvangur þar sem er bara unnið út frá einhverju ákveðnu, eins og að plasta blöð eða búa til samlokur. Frumkvöðla- eða startup-heimurinn er nokkuð sem ég hef mikla trú á og tel að sé líklegastur til að skila okkur lausnum á þeim vandamálum sem kerfið okkar er ekki að standa sig í.“

Maður með dularfulla fortíð

Úti í Nepal mun hann leggja stund á endurhæfingu í samstarfi við mann að nafni Rahul sem hann kynntist þegar Rahul heimsótti Ísland og hélt hér námskeið. „Hann kom og gisti hjá okkur Ölmu á meðan hann var hérna og við náðum mjög vel saman. Ég var hins vegar svo upptekinn við önnur verkefni á þessum tíma að ég náði ekki að eyða jafn miklum tíma með honum og ég vildi.“

Rahul býr yfir mikilli þekkingu á bæði vestrænum og austrænum vísindum. Hann leggur meðal annars stund á heilun, hugleiðslu, thai chi og alls konar nuddaðferðir, þeirra á meðal thai-nudd. „Hann lærði það frá manninum sem er talinn vera upphafsmaður þess, en aðrir sem lærðu hjá sama manni eru töluvert eldri en hann, því Rahul byrjaði að læra nudd sjö ára og útskrifaðist sem nuddari aðeins níu ára,“ sagði Brandur. Að sögn Ölmu var æska Rahuls mjög óvenjuleg, en Brandur og Logi töldu rétt að fara ekki nánar út í það við blaðamann hvað í því fælist. Kannski að þeirri spurningu verði svarað í heimildamyndinni. „Hann hefur dularfulla fortíð,“ sagði Logi kíminn.

Finnur sársauka

„Það er ekkert rosalega langt síðan að vestræn læknavísindi viðurkenndu að taugafrumur vaxa eftir að maður verður fullorðinn. Það er hægt að örva vöxt þeirra með ýmsu móti. Þetta virðist vera meira í austrænum fræðum  en þar eru notaðar studdar hreyfingar og sársauki sem er nú ekki í uppáhaldi hjá okkur. En ég hef fundið þegar verið er að klípa í fingurna á mér og á ákveðna staði, þá kemur eitthvert hreyfiviðbragð,“ sagði Brandur.

„Munurinn á tauga- og vöðvafrumum er sá að taugafrumurnar þurfa mun meiri örvun. Til að endurnýja vöðva þarf að gera æfingar kannski 2–3 í viku í 1,5 klukkustund í senn. Taugafrumurnar þarf helst að æfa 6–7 daga vikunnar og töluverðan tíma hvern dag. Ég er að fara út til að takast á við þá vinnu. Það er talað um svona sex mánuði samfellt í þessari vinnu, til að hægt sé að sjá árangur,“ en Brandur mun halda meðferðinni áfram eftir að hann snýr aftur til Íslands. „Ég er bara spenntur að takast á við það.“

Út fyrir þægindarammann

„Ég er að reyna að yfirgefa svolítið þægindarammann. Þessi stóll sem ég er í núna er mjög þægilegur. Hinn er ekki þægilegur,“ sagði Brandur en stóllinn sem hann mun ferðast í er mun einfaldari en sá sem hann notast við hér heima.

Meðferðin sem Brandur fer í hjá Rahul er ólík því sem býðst hér heima. „Þetta eru allt öðruvísi æfingar og hreyfingar en það sem er í gangi hér. Þetta er sjúkraþjálfun sem er allt öðruvísi en er notuð í dag. Þetta eru í senn æfingar, hreyfingar og nudd; allt sem þessi maður kann í að meðhöndla fólk með mænuskaða. Hann er búinn að hjálpa mörgum með mænuskaða að fá meiri hreyfigetu, fólk hefur staðið upp úr  hjólastólum og alls konar,“ sagði Alma.

Önnur sjónarmið

„Segja má að Brandur hafi notfært sér allt sem vestrænt heilbrigðiskerfið býður upp á en er samtímis opinn og forvitinn um aðrar leiðir, eitthvað öðruvísi. Það sem við ætlum að komast að með myndinni er hvort eitthvað sé til í þessu og sjá hvort og þá hver árangurinn verður. Það er það sem áhorfendur verða forvitnir um,“ sagði Logi.

Endurhæfing er þó ekki eina markmið ferðarinnar. Brandur ætlar líka að kanna möguleika á samstarfi milli Íslands og Nepal. „Til að byrja með ætla ég að kanna möguleikana, meta og koma á opnu sambandi. Við höfum vissar lágmarksvæntingar um hverju það getur skilað af sér. Svo er ég með annan samstarfsaðila sem heitir Bishal. Hann stofnaði mjög spennandi fyrirtæki í Nepal sem hefur stækkað í gegnum árin og er núna að teygja sig yfir til Indlands og Srí Lanka. Hann er mjög spenntur fyrir þeim möguleika að sú lausn geti nýst Íslendingum líka,“ sagði Brandur.

„Þjónustan heitir Help At Home. Í Nepal, eins og víða í Asíu, er ekki heilbrigðiskerfi eins og við þekkjum það hér. Ef einhver veikist til lengri tíma er það fjölskyldan sem sér um viðkomandi. Þetta fyrirtæki kemur heim til fólks, með lækni, hjúkrunarfræðing og þess háttar. Þeir meta umhverfið og þjálfa fjölskylduna í að sjá um einstaklinginn. Hjálpa við að útvega nauðsynleg tæki, sjúkrarúm til dæmis, og hafa svo reglulegt eftirlit. Þetta fyrirkomulag gæti leyst það sem hjá okkur er alltaf leyst með því að henda fólki inn á spítala eða stofnanir. Svo kvarta allir yfir hvað stofnanir séu dýrar og illa reknar. Fjarlækningar eru framtíðin og vonandi getum við sparkað í rassinn á einhverjum hér heima til að gera þær reglubreytingar sem þarf til að hægt sé að bæta þetta hér heima.“

Söfnun fyrir ferðinni

Brandur, Alma, Logi og Christian.

Ferðin hefur verið fjármögnuð að hluta. Brandur og teymið hans hafa fengið styrk frá RÚV og bíða svara frá Kvikmyndasjóði Íslands. Með fjármögnuninni skapast líka tækifæri til að vekja athygli á verkefninu sem og tækifæri til að gefa til góðgerðarmála, en hluti fjármagnsins mun renna til samtakanna Einstök börn á Íslandi og spítala í Nepal sem er sérhæfður í endurhæfingu fatlaðra barna. Söfnunin verður í gangi til 5. mars á indiegogo.com og eru lesendur hvattir til að kynna sér verkefnið.

Brandur benti blaðamanni á að þrátt fyrir að Nepal og Ísland virðist í fyrstu ekki eiga ýkja mikið sameiginlegt þá sé þó eitt sem er áþekkt. „Ísland er á milli Ameríku og Evrópu og hefur lengi notið góðs af því að vera á milli tveggja öflugra efnahagssvæða. Nepal er svo á milli Indlands og Kína, tveggja vaxandi heimsvelda. Í Nepal hafa átt sér stað miklar pólitískar sviptingar sem hafa skapað ákveðin tækifæri. Mér þætti gaman að sjá hvort hægt sé að búa til brú milli Íslands og Nepal á þessum grunni. Við vonumst til að læra margt á ferðinni sem við getum nýtt til að setja á pressu um umbætur hér heima.“

Spennandi verður að sjá hvernig Brandi og félögum mun vegna í ævintýrum sínum í Nepal og það er deginum ljósara að Brandur býr yfir mikilli festu og veitir öðrum mikla andagift.

Hér má finna söfnunina þar sem má styrkja og fræðast um verkefnið og hér fyrir neðan má sjá glænýtt kynningarmyndband fyrir verkefnið.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Paris Jackson á spítala eftir sjálfsvígstilraun

Paris Jackson á spítala eftir sjálfsvígstilraun
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jóhann hefur myndað akstursíþróttir í áratugi

Jóhann hefur myndað akstursíþróttir í áratugi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Yfirheyrslan – Sigurður Þ. Ragnarsson: „Ég get orðið fjári reiður ef mér misbýður“

Yfirheyrslan – Sigurður Þ. Ragnarsson: „Ég get orðið fjári reiður ef mér misbýður“
Fókus
Fyrir 2 dögum

5 sem hefðu getað tekið við sem dómsmálaráðherra

5 sem hefðu getað tekið við sem dómsmálaráðherra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eurovision-sérfræðingar telja Hatara geta unnið Eurovision: Kalla Klemens „engilinn frá Reykjavík“

Eurovision-sérfræðingar telja Hatara geta unnið Eurovision: Kalla Klemens „engilinn frá Reykjavík“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gísli safnar fyrir Krabbameinsfélagið – Vinnufélagar ráða mottunni

Gísli safnar fyrir Krabbameinsfélagið – Vinnufélagar ráða mottunni