fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Eftirminnilegar jólagjafir: „Gekk ég um ströndina með kærastanum mínum þegar hann óvænt féll á kné og poppaði upp stóru spurningunni”

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Þriðjudaginn 24. desember 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú jólin komin og þeim fylgja einlægar og fallegar gjafir frá okkar nánustu. Gjafir geta verið alls konar og þurfa ekki að kosta heilan handlegg. Bestar eru gjafirnar sem koma beint frá hjartanu, eins og frásagnir viðmælenda DV bera vott.

Á að eyðileggja fyrir manni jólin?

„Jólin 1988. Eftir jólasteikina kallar mamma á mig og biður mig að koma með sér inn í herbergi af því hún ætli að segja mér svolítið. Hún sest rólega á rúmið og ég verð alveg brjálaður og segi: „Ég veit alveg hvað þú ert að fara að segja mér.“ Mamma skildi ekki neitt og ég hélt áfram: „Heldurðu að ég viti það ekki, þú ert ólétt eina ferðina enn. Á að eyðileggja fyrir manni jólin?“ Ég hafði nefnilega eignast systkini tvö ár í röð 1987 og 1988. Mamma gjörsamlega sturlaðist úr hlátri yfir öskrunum í mér og kom ekki upp orði. En hún kallaði mig inn í herbergi svo pabbi gæti komið jólagjöfinni minni fyrir undir trénu en það var risa hljómborð sem mig hafði dreymt um.“

Hallgrímur Ólafsson leikari

Hallgrímur hélt að mamma myndi eyðileggja allt Fékk góða gjöf í staðinn.

Himinlifandi

„Ein eftirminnilegasta jólagjöf sem ég hef fengið var Arsenal-búningurinn frá mömmu og pabba þegar ég var sex ára gamall. Þau gáfu mér Arsenal-búning ásamt fullt af Arsenal-dóti. Ég gleymi því ekki hvað ég var himinlifandi þegar ég opnaði pakkann og sá búning sem mig dreymdi um að klæðast. Ég reyni að troða mér í hann á tyllidögum en hef því miður vaxið upp úr honum.“

Nökkvi Fjalar Orrason frumkvöðull

Arsenal-maður Nökkvi fékk ósk sína uppfyllta.

Hamingjudagur fyrir skilnað

„Besta jólagjöfin mín var á jólunum 1998 og kom frá dóttur minni sem þá var 14 ára, nýflutt heim til Íslands frá Svíþjóð eftir sjö góð ár þar sem hún elskaði lífið. Hún tókst á við breytingarnar og aðlagaðist íslensku skólakerfi hratt, en auðvitað saknaði hún vina sinna úti í Svíþjóð. Foreldrarnir höfðu ákveðið að slíta hjónabandi sínu og það vissi hún. Eins skelfilega erfitt og það er að skilja fyrir hjón er það oftast martröð fyrir börnin, það sá ég síðar betur og betur. En samt var skaðinn skeður og þessi síðustu jól okkar saman gefur hún mér myndaalbúm sem hún hafði búið til og týnt úr fjölskyldualbúmum myndir af okkur á öllum yndislegu stundunum í fjölskyldulífinu. Yfir hverri mynd var fallegur texti um hvað hún elskaði fjölskylduna sína, pabba sinn og mömmu og bræður sína. Ég opnaði gjöfina en treysti mér ekki í að lesa textann við allar myndirnar fyrr en ég hafði endanlega skilið. Öll jól síðan les ég textana og þakka Guði fyrir börnin mín og föður þeirra og bið hann að sýna krökkunum að þau eru elskuð af öllu fólki en mest þó af hvert öðru og okkur pabba og mömmu. Nú er ég með henni að pakka inn jólagjöf á fallegu heimili hennar þar sem við ræðum það gamla og góða og leggjum drög að jólunum saman með hennar börnum og yngri bróður hennar. Ég hef þá skoðun að þegar fólk á börn ætti það að reyna mikið og lengi að laga allar sprungur í hjónabandinu, því sársaukinn er slíkur hjá börnum þótt hann komi seint, því í áfalli deyfir fólk sársaukann. Börn eru alltaf blessun og nú þegar mín eru öll í góðu starfi gáfu þau mér nú í jólagjöf nýjan síma, þar sem minn var hættur að hringja, sú gjöf er líka fín en myndaalbúm dóttur minnar um hamingjudag fjölskyldunnar okkar fyrir skilnaðinn mun alltaf standa uppúr.“

Jónína Ben, kennari og detox-drottning

Falleg saga Jónína rifjar upp átakanlegan tíma.

Stóra systir fór að háskæla

„Ég hef fengið margar góðar gjafir en eftirminnilegasta var líklega frá litlu systur minni fyrir nokkrum árum. Það árið hélt ég upp á jólin í fyrsta skipti án fjölskyldunnar minnar – verandi skilnaðarbarn var það nú ekki mikið vandamál, en eitt hafði ég aldrei upplifað og það var að vera án litlu systur minnar um jólin. Frá því að við vorum litlar skottur höfum við alltaf haldið upp á jólin saman, hvort sem það var hjá mömmu, pabba eða ömmu og afa. En ekki þetta árið. Þetta árið var hún í Asíu og ég hjá tengdafjölskyldunni minni. Aðfangadagskvöld leið, allir opnuðu pakka, og undir lokin kom allt í einu óvæntur pakki undan trénu frá henni sem ég hafði ekki hugmynd um að hafði laumast með. Það voru nú bara rúmföt í pakkanum en með fylgdi langt kort sem varð til þess að stóra systir fór að háskæla fyrir framan alla. Og það er held ég uppáhaldið mitt við pakka almennt; kortin. Enda legg ég sjálf mikið upp úr fallegum og einlægum kortum og á fjölmörg kort frá hinum ýmsu afmælum og jólum sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina. En þetta jólakort er efst í bunkanum og fátt sem toppar það!“

Milla Ósk Magnúsdóttir, aðstoðarkona mennta- og menningarmálaráðherra

Sterk systraást Milla á eftirminnilega sögu með systur sinni.

Hugsun ekki peningur

„Ég er alltaf meira fyrir persónulegar gjafir með hugsun í heldur en dýrar gjafir, sú sem stendur upp úr var falleg stílabók sem litla systir mín hafði föndrað fyrir mig, með myndum af okkur sem börn, og eldri í bland, ásamt fallegum einlægum skilaboðum og einkahúmor til mín. Ég reyni að setja því frekar hugsun í þær gjafir sem ég gef, en að eyða bara x miklum pening í þær.“

Karitas Harpa Davíðsdóttir söngkona

Peningar eru ekki allt Karitas kann að meta gjafir með hugsun. Mynd: Eyþór Árnason

Aldrei betri í skrokknum

„Jólagjöfin sem hefur reynst mér best kom frá Ingu Nasa, vinkonu minni og aðstoðarkonu fyrir þremur árum síðan. Stundum er ég eins og undin tuska eftir að hafa troðið upp á dansiböllum langt fram á nótt. Inga hefur svo sannarlega tekið eftir því. Hún gaf mér því stóra nuddrúllu úr korki. Ég hélt fyrst að þetta væri plat-drasl í anda Clairol-fótanuddtækisins. En þessi korkrúlla hefur reynst mér gríðarlega vel síðustu þrjú ár. Nú rúlla ég mér upp úr þessu fyrir og eftir gigg og það svínvirkar. Þetta jafnast á við góðan nuddtíma. Ég hef sjaldan verið jafn mjúkur og góður í skrokknum síðan ég fékk þessa jólagjöf frá Ingu Nasa.“

Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður

Nýr maður Páll Óskar á Ingu á Nasa margt að þakka.

Bíómyndaklisjan alla leið

„Ég var tekin í helgarferð til Brighton um jólin í fyrra og grunlaus um hvað koma skyldi gekk ég um ströndina með kærastanum mínum þegar hann óvænt féll á kné og poppaði upp stóru spurningunni, bara um leið og sólin var að setjast. Já, ég er sko ekkert að grínast með þetta. Mér leið alveg eins og prinsessu í rómantískustu gamanmyndinni. Bíómyndaklisjan var tekin alla leið við mikinn fögnuð míns og verður sú minning ávallt flokkuð sem uppáhaldsjólagjöfin mín. Annars finnst mér ofsalega gaman að fá tilbúnar jólagjafir frá börnunum mínum, þær eru alltaf langskemmtilegastar.“

Hildur Magnúsdóttir leikkona

Draumajól Hildur fékk bónorð og sagði já.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla