fbpx
Föstudagur 05.júní 2020
Fókus

Valgeir þróaði með sér „brjálaða búlimíu“ eftir magaermi: „Ég gerði allt sem ég gat þá til að halda áfram að grennast“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 5. nóvember 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valgeir Elís er 31 árs og býr í Keflavík. Kannski kannast einhverjir landsmenn við hann sem manninn sem sagði Ladda látinn í fyrra. Valgeir fór í magaermi fyrir um tveimur árum. Hann hefur misst fimmtíu kíló síðan þá en ferlið hefur langt frá því verið dans á rósum. Fljótlega eftir aðgerð sá Valgeir mikið eftir aðgerðinni en hann hafði óafvitandi verið mjög hátt uppi í maníu þegar hann pantaði sér utanlandsferð í aðgerðina og einnig þegar hann fór í aðgerðina. Hann var greindur með geðhvarfasýki 2 í byrjun árs 2019 sem útskýrði ýmislegt í fari hans. Hálfu ári eftir aðgerð þróaði Valgeir með sér lotugræðgi og ældi upp hverri máltíð. Í dag er hann í bata, kominn í ágætis jafnvægi og líður vel.

Valgeir er nýjasti gestur Föstudagsþáttarins Fókuss og ræðir þar um lífið, tilveruna, magaermina og maníuna.

Var einu sinni mjög feitur

„Ég var einu sinni mjög feitur með dökkt krullað hár og gleraugu,“ segir Valgeir. „Um ellefu til tólf ára byrjaði ég að bæta á mig og svo byrjaði boltinn að rúlla. Um fimmtán til sextán ára var ég í mikilli ofþyngd og fór upp í 140 kíló. Einhvern veginn náði ég því aldrei af mér almennilega, ég fór kannski í átak og borðaði bara gulrætur og sellerí en blés alltaf aftur út. Þetta var rússíbani, upp og niður,“ segir Valgeir.

Fyrir tveimur árum tók hann mjög stóra ákvörðun og fór í magaermi. Magaermisaðgerð minnkar magann um 75–80 prósent og verður maginn eins og ermi í laginu.

Valgeir segir ákvörðunina hafa verið tekna í hvatvísi og stuttu eftir aðgerð hafi hann upplifað mikla eftirsjá. Hann sagði frá því í viðtali við DV í mars 2018. En síðan þá hefur ýmislegt breyst. Hann hefur verið greindur með geðhvarfasýki 2 og er í bata frá átröskun. Í dag sér hann þó ekki eftir ákvörðun sinni. „Ég sé ekkert eftir því, bara ekki neitt,“ segir hann.

Valgeir segir að það hafi ekki verið mikil hugsun á bak við ákvörðunina. Hann og vinkona hans sáu auglýsingu á Facebook frá fyrirtæki sem auglýsir megrunaraðgerðir utanlands og daginn eftir pöntuðu þau sér ferð út.

„Ég hugsaði þetta eiginlega ekkert í þaula á þessum tíma,“ segir hann. Þau ákváðu að bíða fram yfir hátíðirnar 2017 og fóru í byrjun árs 2018 út í aðgerðina. „Við vorum ekki alveg tilbúin að sleppa jólamatnum, bæði mjög miklar bollur,“ segir Valgeir.

Valgeir Elís. Mynd: Eyþór Árnason

Erfitt ferli

„Á Íslandi kostaði aðgerðin 1,5 milljónir króna en ég borgaði 880 þúsund fyrir flug til Lettlands, hótel, keyrslu til og frá, túlk, aðgerðina sjálfa og fékk að taka eina manneskju með mér,“ segir Valgeir

Tveimur vikum eftir aðgerð þurfti Valgeir að vera á fljótandi fæði og tveimur vikum eftir það á maukuðu fæði. Þetta reyndist honum afar erfitt og að eigin sögn átti Valgeir mjög óheilbrigt samband við mat.

„Það var mjög erfitt. Tveimur vikum eftir aðgerð fékk ég svo mikla eftirsjá. Ég hugsaði hvað ég hefði í ósköpunum gert. Maður getur ekki tekið þetta til baka. Eftir einhvern tíma varð ég svo sáttur, mjög sáttur við þetta,“ segir Valgeir.

„Ég held að það hafi tekið mig um þrjá mánuði að verða sáttur við þetta. Ég var ekki alla daga grenjandi uppi í rúmi því mig langaði í Toblerone,“ segir hann og hlær. „Ég varð saddur af desilítra af mat, en samt var hausinn alveg að hugsa um mat. Því vandamálið var ekki hversu mikið ég borðaði eða hversu feitur ég var orðinn heldur var hausinn á mér vandamálið. Og ef maður vinnur ekki í honum þá hverfur vandamálið aldrei,“ segir Valgeir.

Valgeir Elís áður en hann fór í aðgerðina.

Átröskun

Um hálfu ári eftir aðgerð þróaði Valgeir með sér átröskun og lotugræðgi.

„Af því að maður er að grennast er maður stöðugt að stíga á vigtina og sjá árangur. Svo lendir maður alltaf í einhverju þyngdarstoppi. Og það er svo ógeðslega fúlt, eða mér fannst það, ég tala auðvitað bara út frá mér,“ segir Valgeir.

„Ég gerði allt sem ég gat þá til að halda áfram að grennast og inni í því var að æla upp öllum mat sem ég borðaði. Fyrst var það því ég borðaði of mikið og fékk samviskubit. Svo fór ég að æla upp öllu sem ég borðaði. Það var svo mikil brenglun í gangi í hausnum á mér,“ segir Valgeir og lýsir átröskuninni sem „brjálaðri búlimíu“.

„Ég var svo orkulaus, mig svimaði, fékk aðsvif, var alltaf kalt, þetta var ekki þægilegt,“ segir Valgeir og bætir við að þetta hafi einnig farið mjög illa með tennurnar og húðina.

Hann glímdi við lotugræðgina í ár og hefur nú verið um ár í bata.

„Það var ekkert eitt augnablik sem leiddi til þess að ég náði bata. Ég vaknaði bara einn daginn og hugsaði að ef ég héldi þessu áfram þá yrði ég handónýtur. Ég ákvað að hætta þessu og það var mjög erfitt. Ég þurfti að tala við geðlækninn minn og fá hjálp,“ segir Valgeir.

Valgeir Elís og vinkona hans Sunna Dís.

Greining

Valgeir var greindur með geðhvarfasýki 2 í byrjun árs 2019. „Það útskýrði mjög margt fyrir mér. Eins og hvernig ég get tekið svona stórar ákvarðanir án þess að hugsa um afleiðingarnar. Ég sé engar afleiðingar þegar ég er svona hátt uppi. Ég vann í mér,“ segir hann.

„Ég var alveg klárlega í maníu þegar ég pantaði mér ferðina til Lettlands og allan tímann meðan ég var úti. Ég var líka í bullandi maníu þegar ég deildi þessu um Ladda. En ég er ekki að nota það sem afsökun en þegar ég er á þeim stað þá sé ég ekkert slæmt við það sem ég geri,“ segir Valgeir.

Hann segist ekki vera kominn í fullkomið jafnvægi á lyfjunum en fari þó ekki eins mikið upp og hann gerði áður. Valgeir segist hafa lesið sér til um átraskanir og megrunaraðgerðir og segir að það sé nokkuð algengt að fólk þrói með sér átröskun í kjölfar megrunaraðgerða.

„Eins og fólk sem er eitthvað andlega veikt fyrir og fer í svona aðgerð, þetta er brjálæðislega mikið inngrip og rosalega mikil breyting á lífi manns, ef maður passar sig ekki og fylgist ekki með því, þá fer allt í rugl. Þetta er bara það sem ég hef lesið mér til um,“ segir Valgeir.

Valgeir Elís. Mynd: Eyþór Árnason

Fitufordómar

Valgeir tók eftir því að framkoma fólks í garð hans breyttist þegar hann grenntist. „Ég fékk miklu meiri athygli frá strákum og þá vildi ég ekkert fitna,“ segir Valgeir. „Það eru ákveðnir fitufordómar í samfélaginu sem er mjög slæmt, en ég viðurkenni að eftir að ég grenntist þá fékk ég alveg fitufordóma gagnvart öðrum.“

Aðspurður hvernig það gerðist segist Valgeir ekki vita það.

„Ég get ekki útskýrt hvernig það gerðist. Af því að ég var byrjaður að grennast og byrjaður að líta betur út og hugsa betur um sjálfan mig og svona, þá horfði ég á fólk í yfirþyngd og hugsaði: „Finnst þér þetta bara allt í lagi?“ Þetta er svo brenglað,“ segir Valgeir og viðurkennir að hann finni enn þá fyrir fitufordómum. „Ég þarf alveg að passa mig. Ég þekki marga sem hafa farið í magaermi og upplifa það sama.“

Svindl?

Aðspurður hvað honum þyki um þá gagnrýni að fólk sem fer í megrunaraðgerðir sé að „svindla“ segir hann:

„Upp að vissu marki er þetta alveg „svindlleið“ en burtséð frá því þá virkar þetta. Ef þú ert á leiðinni að drepast úr offitu, af hverju ekki þá að svindla? Það er ekkert að því að leita sér hjálpar á sviði eins og þessu af því að þetta er vandamál. Ef manneskja er orðin 45 ára og hefur aldrei náð að missa af sér aukakílóin, af hverju ekki að fara í þetta? Allt annað hefur greinilega ekki virkað. Sjálfsaginn er ekki þarna til að ná að grennast, af hverju að fá ekki hjálp? Alveg eins og ef þú ert með skurð á fætinum, ferðu þá ekki til læknis? Þetta er alveg eins mikið vandamál og allt annað.“

Svuntuaðgerð

„Ég var 120 kíló þegar ég fór í aðgerðina og í dag flakka ég á milli þess að vera 72 til 75 kíló,“ segir Valgeir.

„Stærsti fylgikvillinn við þessa aðgerð, sem ég spáði ekkert í og held að enginn spái í áður en hann fer í hana, er öll þessi aukahúð sem maður fær eftir á. Þegar maður fer úr fötunum þá lítur maður út eins og bráðnað kerti. Það er bara ekki sexí,“ segir Valgeir og hlær.

Hann fór til Tyrklands í svuntuaðgerð, fitusog og lét laga brjóstkassann. „Ég ákvað að fara til Tyrklands því það var þrisvar sinnum ódýrara en hérna heima. Ég borgaði í kringum 500 þúsund fyrir flug fram og til baka og keyrslu fyrir tvo, ég var með fylgdarmann, og aðgerðirnar.“

Laddi (ekki) látinn

Við ræddum um Ladda og ástæðuna fyrir því að Valgeir sagði hann látinn, en eins og fyrr segir var Valgeir í maníu á þeim tíma en vill þó ekki nota það sem afsökun.

„Mér til varnar, en kannski ekki til varnar, en þá bjó ég ekki myndina til,“ segir Valgeir og vísar í myndina sem hann deildi af Ladda sem gaf í skyn að hann væri látinn.

„Ég sá myndina hjá öðrum manni í Keflavík, sem ég ætla ekki að nefna á nafn, og deildi þeirri mynd. En um leið og ég var búinn að því þá eyddi hann sinni mynd út, og það varð allt brjálað, fokking brjálað.“

Facebook-síða Valgeirs var og er opin þannig hver sem er gat séð færsluna. „Ég svaraði engum ummælum við myndina og svo fór sonur Ladda að skrifa við myndina og mér fannst mjög fyndið að eyða þeim ummælum. Ég veit ekki af hverju. Svo allt í einu sprakk þetta. Ég bjóst ekki við að þetta yrði svona, engan veginn,“ segir Valgeir.

„Ég fékk alveg sjúklega mikið af haturspósti. Fólk var að segja hvað ég væri ömurlegur og ógeðslegur og hvað ég ætti aldrei að gera þetta. Vinnan mín fékk sendan póst um „þennan homma sem er að vinna þarna“ og bara endalaust.“

Aðspurður hvað honum hafi þótt um fjölmiðlaathyglina vegna málsins í kjölfarið segir Valgeir:

„Mér fannst það alveg gaman. Ég elska alla athygli.“

Hann segir að hann hefði grunað að þetta myndi koma í áramótaskaupinu en ekki að þetta yrði svona stórt atriði.

„Miðað við karakterinn sem átti að vera ég, þá fannst mér eins og þeir hefðu skoðað gamlar myndir af mér. Voru alveg með gleraugun á hreinu, og hárið. Þetta var mjög gott djók,“ segir hann.

Valgeir Elís er mjög virkur á samfélagsmiðlum og heldur úti opnum Snapchat-reikningi, @valgeirelis. Það er einnig hægt að fylgjast með honum á Instagram @valgeirelis.

Þú getur horft á Föstudagsþáttinn Fókus í heild sinni hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 3 dögum

Biggi lögga í nýju hlutverki – „Hér er loksins komin alvöru stjörnuspá“

Biggi lögga í nýju hlutverki – „Hér er loksins komin alvöru stjörnuspá“
Fókus
Fyrir 3 dögum

5 veitingastaðir sem Svala mælir með

5 veitingastaðir sem Svala mælir með
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellen tók sumarbústaðinn í gegn á 39 dögum

Ellen tók sumarbústaðinn í gegn á 39 dögum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Eitt efnilegasta listafólk landsins á lausu – Högni og Snæfríður hætt saman

Eitt efnilegasta listafólk landsins á lausu – Högni og Snæfríður hætt saman
Fókus
Fyrir 6 dögum

Eliza Reid: Ef mér er ekki boðið þá mæti ég auðvitað ekki.

Eliza Reid: Ef mér er ekki boðið þá mæti ég auðvitað ekki.
Fókus
Fyrir 1 viku

Tímavélin: Íslenskar útihátíðir sem heyra sögunni til

Tímavélin: Íslenskar útihátíðir sem heyra sögunni til