fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

„Ég hef mínar kenningar um afdrif Guðmundar og Geirfinns“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 30. nóvember 2019 11:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hugur Bjarka Hólmgeirs Halldórssonar hefur dvalið á myrkum slóðum undanfarin ár en hann hefur sökkt sér ofan í íslensk mannshvörf. Málin eru furðumörg og sum þeirra dularfull og óhugnanleg. Afrakstur þessa grúsks birtist nú í nýrri bók Bjarka, Saknað – Íslensk mannshvörf. Áður en við víkjum betur að efni bókarinnar viljum við forvitnast örlítið um manninn á bak við höfundinn. Hver er Bjarki Hólmgeir Halldórsson?

Hann er fæddur 17. júní árið 1984 og ólst upp í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Bjarki bjó á sveitabæ en þar var þó ekki búskapur heldur rak faðir hans verkstæði fyrir bíla og landbúnaðartæki í héraðinu. Móðirin vann í mötuneyti skólans á svæðinu.

Bjarki var langyngstur fjögurra bræðra og aðspurður segir hann að æska hans hafi verið upp og ofan:

„Ég lenti í miklu einelti í grunnskóla. Það varði megnið af minni skólagöngu en orðið einelti var ekki til þá,“ segir Bjarki. Aðspurður hvort ofbeldið hafi verið líkamlegt eða andlegt segir hann að andlega hliðin hafi vegið þyngra. Hann viðurkennir að minningarnar um eineltið hafi fylgt honum fram á fullorðinsár.

„Ég gerði þetta upp fyrir nokkrum árum þegar ég gaf út fyrsta lagið mitt, Fortíð,“ segir Bjarki en hann hefur mikið fengist við tónlist. „Ég hef spilað á gítar, bassa og trommur í hljómsveitum og gefið út tvær fjögurra laga plötur. Ég á síðan í skúffu um 70 lög og texta sem ég hef samið.“

Bjarki hefur átt í mismiklum samskiptum við ofsækjendur sína úr æsku og gert upp málin við suma þeirra. „En ég nenni ekki að eyða meiri tíma og orku í þetta, mér finnst svo margt annað mikilvægara í lífinu,“ segir hann. „Ég er fyrir löngu búinn að sleppa frá mér allri biturð vegna eineltisins.

Ég sótti mikið í frænda minn sem bjó á næsta bæ en hann lést í fyrra og andlát hans var mér þungbært. Hann og kona hans voru ekki bara skyldfólk mitt og nágrannar, þau voru í raun bestu vinir mínir á þessum tíma.“

Bjarki fluttist síðan á mölina. Hann býr á höfuðborgarsvæðinu og starfar sem vinnuvélastjórnandi hjá Ístaki, mest á jarðýtu og gröfu. Í frístundum sinnir hann skrifum og tónlist. Bjarki á eina dóttur og hann er í sambúð með konu sem á son fyrir. Bjarki lítur á bæði drenginn og stúlkuna sem börnin sín.

„Börnin mín gera mig að betri manni á hverjum degi,“ segir Bjarki.

Mynd: Eyþór Árnason

Margir vinklar í mannshvörfum órannsakaðir

Málin í bókinni hans Bjarka eru mörg og sumar frásagnirnar stuttar. Í önnur mál er síðan kafað dýpra. Blaðamaður spyr Bjarka hvort hann sé sammála því að dularfyllstu málin fái mesta rýmið á síðum bókarinnar.

„Já, og þau mál sem best hefur gengið að fá upplýsingar um eru gjarnan þessi dularfullu mál, því þar hafa ættingjar og aðrir nákomnir verið meira leitandi.“

Lesandi hlýtur að staldra við framgöngu lögreglu á áttunda áratugnum, annars vegar vegna andvaraleysis hennar í nokkrum mannshvarfsmálum og hins vegar undarlegra vinnubragða í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum.

Þannig hvarf háskólaneminn Sverrir Kristinsson með afar dularfullum hætti um páskana árið 1972 en hann bjó á Nýja Garði á háskólasvæðinu í Reykjavík. Lögreglan rannsakaði hvarf hans aldrei sem sakamál og virtist mjög kasta til höndum við rannsóknina. „Í því máli neitaði lögreglan að kalla til sporhund við leitina að Sverri og það var ekki gert fyrr en fjölskylda hans gekk í það mál,“ segir Bjarki. Hann bendir líka á að ekki hafi síður verið mannaferðir hafi verið kringum hvarf Sverris en til dæmis í kringum hvarf Geirfinns Einarssonar tveimur og hálfu ár síðar, mannshvarfs sem varð að einu þekktasta sakamáli Íslandssögunnar.

Það sama má segja um hvarf Kristins Ísfeld en þar hafði lögregla ekki áhuga á vitnisburði manns sem taldi sig hafa upplýsingar í málinu. Og þegar sjómaðurinn Willy Petersen hvarf árið 1974 sýndi lögregla engan áhuga á hvarfinu. Eru því allnokkur dæmi um andvaraleysi lögreglunnar í mannshvarfsmálum.

Blaðamaður spyr Bjarka hvort hann telji að saknæmt atferli hafi átt sér stað í mörgum þeirra mála sem fjallað er um í bókinni.

„Ég held að í mörgum tilvikum hafi fólk horfið af öðrum ástæðum en einhverju saknæmu. Það er að segja, slys eða sjálfsmorð. Engu að síður held ég að ástæða hafi verið til að rannsaka miklu fleiri sem möguleg sakamál. Og vinna vel og skipulega en ekki kasta til höndum eins og við þekkjum úr Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, þar sem rannsóknin virðist hafa snúist um að finna einhverja blóraböggla.“

Eitt dularfyllsta málið sem fjallað er um í bókinni er hvarf Þjóðverjans Max Robert Heinrich Keil sem varð íslenskur ríkisborgari og tók sér nafnið Magnús Teitsson. Hann hvarf árið 1968. Magnús bjó í Kópavogi og hvarf kvöld eitt um kvöldmatar leyti eftir að hann hafði verið hjá vini sínum í Fossvogi. Bíllinn hans fannst fyrir utan heimili hans að Þinghólsbraut en Magnús sjálfur fannst aldrei aftur. „Þetta mál er með þeim dularfyllri sem ég hef skoðað,“ segir Bjarki. „Þetta er svo skrýtið, ef hann lét sig hverfa sjálfur, hvert fór hann? Aftur til Þýskalands? Átti hann sökótt við einhverja?“

Annað mál sem vakti mikla athygli á sínum tíma var hvarf Guðmundar Finns Björnssonar, sem hvarf árið 1987 eftir að hafa gefist upp á biðröð fyrir utan skemmtistaðinn Hollywood og gengið út á Reykjavíkurflugvöll. Starfsmaður þar gaf sig á tal við Guðmund og bað hann um að halda sig frá flugvallarsvæðinu. Guðmundur gekk burtu og hefur ekki sést síðan. Bjarki telur að lögregla hefði átt að kanna tilgátu frá Freyju Jónsdóttur um málið, en hún kom henni á framfæri. Freyja skrifaði síðan á níunda áratugnum langan greinaflokk um mannshvörf í íslensk blöð og hefur Bjarki stuðst mikið við skrif hennar við sína vinnu. Þess má geta að Freyja er móðir blaðamannsins sem skrifar þessa grein.

„Freyja benti á að einstaklingar hafi átt það til að stunda einhvers konar kappakstur á vegaslóðum í og við Öskjuhlíð. Guðmundur gekk í þá átt og sú tilgáta var rannsóknarinnar virði hvort óhapp hefði orðið og hann gengið í veg fyrir einhvern af þessum ökuþórum. Hinir seku hafi síðan losað sig við líkið.“

Við ræðum einnig lítillega um unglingspiltana Júlíus Karlsson og Óskar Halldórsson, sem hurfu í Keflavík árið 1994. Talið var að piltarnir hefðu fallið fyrir björg og drukknað. „Þetta er eitt af þessum málum þar sem ég veit ekki hvað ég á að halda. Ég er ekki sannfærður um þá skýringu að þeir hafi farið fyrir björgin en ég hef ekki aðra á takteinum,“ segir Bjarki.

Aðspurður hvort lögregla myndi í dag bregðast öðruvísi við sambærilegum mannshvörfum og virðast hafa verið svo illa rannsökuð á sínum tíma, segir Bjarki:

„Það eru allt aðrir tímar. Tæknin er öðruvísi, þú ert alltaf með síma á þér og það er hægt að komast með ótrúlegri nákvæmni að staðsetningu þinni, eða hvar síminn var síðast. Eflaust hafa rannsóknarlögreglumenn í dag betri tæki og meira til að byggja á og ég held að oft hafi vanþekking ráðið för hjá lögreglumönnum hér áður fyrr, þöggun hugsanlega í einhverjum tilvikum, án þess að ég ætli að fullyrða um það.“

„Þau hefðu játað á sig móðuharðindin“

Bjarki telur útilokað að fyrrverandi sakborningar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum beri ábyrgð á hvarfi mannanna. „Ef þau væru sek þá hefðu komið fram betri upplýsingar í byrjun og líkin fundist. Þau virtust til í að játa á sig hvað sem var, þau hefðu meira að segja játað á sig móðuharðindin ef þau hefðu verið borin á þau,“ segir Bjarki.

En hefur Bjarki sjálfur einhverjar kenningar um afdrif Guðmundar og Geirfinns?

„Ég hef mínar kenningar um afdrif Guðmundar og Geirfinns, það væri samt óábyrgt af mér að setja þær fram, til þess skortir meiri sannanir svo ég treysti mér til að standa með þeim eða falla. Ég tel þó ýmislegt vanrannsakað, eins og vitnisburð varðandi tvo einstaklinga sem voru handteknir árið 2014 vegna mögulegrar aðildar að hvarfi Guðmundar.“

Við ræðum örlítið heimildamynd þýsks manns um Geirfinnsmálið sem Sjónvarp Símans sýndi í vor. Þar var meðal annars fjallað um elskhuga eiginkonu Geirfinns, Vilhjálm Svanberg Helgason. Bjarki gagnrýnir að lögreglan hafi ekki rannsakað Vilhjálm Svanberg betur á sínum tíma, en hefur engu að síður efasemdir um að hann sé valdur að hvarfi Geirfinns, enda hafi hann ekki virst svo ýkja hugfanginn af konunni.

Mynd: Eyþór Árnason

Gætir þess að áhugamálið verði ekki að áráttu

Hugur Bjarka er hjá aðstandendum hinna horfnu og hann segir að þungbært hljóti að vera að burðast með óvissuna um afdrif ástvina sinna. Hann hefur náð góðu samband við marga aðstandendur horfinna við rannsóknir sínar. „Sumir vilja vissulega ekki tjá sig, en svo eru dæmi um aðra sem hafa haft samband að fyrra bragði og viljað að fjallað yrði um mál.“

Bjarki hefur lifað og hrærst lengi með þessum málum, en þegar blaðamaður spyr hvort þau geti haldið fyrir honum vöku og orðið að áráttu þá svarar hann:

„Ég passa að þetta verði ekki að áráttu. Þegar ég hef lokið við kafla þá þarf ég að gæta þess að hvíla mig og fá þetta ekki á heilann. En það er samt ekki hægt að neita því, að þetta er alltaf með einum eða öðrum hætti í huga manns.“

Bjarki vill í lokin minna á að þó að bókin sé komin út sé hann ekki hættur að skrifa um mannshvörf. Hann tekur við ábendingum á netfangið mannshvarf@gmail.com og heldur áfram að skrifa um mannshvörf á vefsíðuna mannshvorf.is og Facebook-síðuna Íslensk mannshvörf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana