fbpx
Fimmtudagur 17.október 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Leikdómur: Mistökin sem fylgja því að vera manneskja

Íris Hauksdóttir
Sunnudaginn 6. október 2019 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikhópurinn RaTaTam hefur á skömmum tíma stimplað sig inn sem framsækinn og áhugaverður leikhópur en hann frumsýndi nýverið sýninguna HÚH! Best í heimi, á litla sviði Borgarleikhússins.

Titillinn vísar vissulega í vandræðalegt víkingaklapp sem sameinaði þjóðina svo sannarlega á sínum tíma, en umfjöllunarefni sýningarinnar hverfist í kringum sjálfsmynd Íslendinga þar sem leikararnir afhjúpa sig á áhrifaríkan hátt.

Með verkinu varpar leikhópurinn ljósi á þær hliðar sem fæstir vilja beina sjónum að. Það sem við forðumst flest að tala um, vandræðalegar uppákomur og mistökin sem fylgja því að vera manneskja. Það er óhætt að segja að kvíði, höfnun og skömm leiki þar stórt hlutverk en sögurnar eiga það sameiginlegt að fjalla um sammannleg vandamál á hispurslausan hátt.

Plakat sýningarinnar er skemmtilegt.

Leikhópinn skipa þau Halldóra Rut Baldursdóttir, Hildur Magnúsdóttir, Guðrún Bjarnadóttir, Guðmundur Ingi Þorvaldsson og Albert Halldórsson, hvert með sína sérstöðu og ólíku frásagnaraðferðir. Þau beita bæði hlýju, húmor, leik og tónlist til að velta fram ófullkomleika mannsins og því hvernig sjálfsmyndin getur stangast á við raunveruleikann.

Handritið er afrakstur sjálfsskoðunar leikhópsins sem fullyrðir að sögurnar séu sannar og endurspegli upplifun þeirra af atburðum úr eigin lífi. Flutningur þeirra er fjölbreyttur og óhætt að fullyrða að áhorfendur geti samsamað sig fleiri en einni frásögn hvort sem hún er fyndin, einlæg eða átakanleg. Þetta á sérlega við um lýsingu Halldóru Rutar á æsku sinni en meðan hún greindi frá nístandi upplifun hlóð leikhópurinn yfir hana dýnum með táknrænum íþyngjandi hætti. Guðmundur Ingi fjallaði á spaugilegan hátt um það að feta sína eigin slóð og brjótast úr því formi sem nærumhverfið ætlast til. Áhorfendur átta sig fljótt á því að hann er ekki sveitamaður. Kostuleg sena sem margir ættu að tengja við sem og fullkomnu fegurðardrottninguna með filterað líf sitt á samfélagsmiðlum. Hildur tók svo fyrir hina stöðugu baráttu við aukakílóin sem og hina sjálfskipuðu útlitspressu í eilífri leit hennar að rétta sundbolnum. Sama bolta greip Guðrún á lofti sem Neanderdalsmaðurinn þar sem hún gerir grín að hárvexti sínum sem þykir samkvæmt einhverjum ósýnilegum stöðlum yfir meðallagi. Albert átti sömuleiðis stórleik með óstjórnlegu grátkasti sem hann vissi ekki sjálfur hvernig best væri að binda endi á.

Guðmundur Ingi í hlutverki sínu.

Björn Bergsteinn Guðmundsson sér um lýsingu verksins en Þórunn María Jónsdóttir hannar búninga og leikmynd. Hljóðmynd og tónlist er í höndum Helga Svavars Helgasonar ásamt leikhópnum en tónlist leikur stórt hlutverk í sýningunni.

Niðurstaða

Allt listilega leyst og flæðið milli frásagna skýrt sem skrifast á leikstjórann, Charlotte Böving, sem stýrir skútunni af sinni alkunnu snilld. Í heild er HÚH! Best í heimi stórskemmtileg sýning sem leikhúsunnendur ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Þetta er eins og eiturlyf, maður verður háður þessu“

„Þetta er eins og eiturlyf, maður verður háður þessu“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fanndís frumsýndi nýjan kærasta um helgina: Fyrrum landsliðsmaður

Fanndís frumsýndi nýjan kærasta um helgina: Fyrrum landsliðsmaður
Fókus
Fyrir 2 dögum

Pierce Brosnan þakkar Húsvíkingum fyrir hlýjar móttökur

Pierce Brosnan þakkar Húsvíkingum fyrir hlýjar móttökur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Linda Pé varð gjaldþrota: „Missti ég alla von og vildi ekki lifa lengur“

Linda Pé varð gjaldþrota: „Missti ég alla von og vildi ekki lifa lengur“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Leikarinn Robert Forster látinn

Leikarinn Robert Forster látinn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hugrún Egils vissi ekki að kærastinn væri heimsþekktur: „Alltaf skrítið að sjá hann á sviði“

Hugrún Egils vissi ekki að kærastinn væri heimsþekktur: „Alltaf skrítið að sjá hann á sviði“