fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Friðgeir bjó á götunum í Los Angeles: „Ég komst í gegnum þetta allt án þess að drepast“

Tómas Valgeirsson
Laugardaginn 19. október 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Friðgeir Trausti Helgason, matreiðslumaður og ljósmyndari með meiru, hefur búið í Bandaríkjunum um árabil og var illa farinn af áfengis- og fíkniefnaneyslu. Neyslan kom honum á götuna í Los Angeles þegar hann var búinn að missa allt og bjó hann í pappakassa á götum borgarinnar þegar hann neyddist til að taka á sínum málum. Auk þess var hann heppinn að sleppa lifandi frá skotárás í New Orleans og horfði hann upp á marga góðvini sína deyja þegar tímar voru sem verstir.

Friðgeir náði að snúa við blaðinu að lokum, hefur haldist edrú í hálfan annan áratug og frami hans í eldamennsku hefur verið skjótur. Hann hefur getið sér gott orð sem bæði kokkur og ljósmyndari. Næsta markmið hans er að koma sér á framfæri í Los Angeles sem glútenlausi kleinukóngur Kaliforníu.

Þetta er brot úr lengra viðtali úr helgarblaði DV

Friðgeir er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1966 en flutti upp á land í kjölfar gossins 1973 og ólst upp í Fellahverfinu í Breiðholti hjá afa sínum og ömmu. Að sögn Friðgeirs steig hann sín fyrstu skref í eldhúsinu hjá ömmu sinni þegar hann var fjórtán ára og varð þá ekki aftur snúið. Í New Orleans var hann svo heppinn að fá vinnu á mjög góðu, litlu veitingahúsi og í framhaldinu vann hann að eigin sögn á nokkrum af bestu veitingahúsum borgarinnar. Hann var á mjög góðri siglingu í bransanum vestanhafs en var mikil fyllibytta.

Friðgeir segir áfengisvandamál oft fylgja þessari starfsstétt og leiddi það til þess að hann brenndi ýmsar brýr að baki sér og varð að lokum heimilislaus í Los Angeles árið 2004. Friðgeir segir að hann hafi byrjað að drekka fimmtán ára gamall og bættist við eiturlyfjaneysla ofan á þetta tímabil.

„Nei, andskotinn. Endar sagan mín svona?“

Friðgeir segist hafa verið orðinn „agaleg fyllibytta“ þegar hann flutti til Los Angeles árið 1996. Lífið tók miklum stakkaskiptum þegar hann flutti frá New Orleans og varð aldrei hið sama að sögn matreiðslumeistarans.

„Ég var nánast búinn að vera í dagneyslu og drukkinn frá unglingsaldri. Þetta var komið á þann stað að ég var alltaf fullur í vinnunni og ég gat ekki unnið með áfengisneyslunni. Ég var að vinna fyrir bestu kokkana í Bandaríkjunum og gat ekki haldið mér saman. Ég drakk lífið alveg frá mér og tók áfengið fram yfir vinnuna,“ segir Friðgeir. „Það var farið að halla svolítið undan fæti. Ég var kominn inn og út af stofnunum og hættur að funkera sem manneskja.“

Upphaflega fór Friðgeir til Los Angeles til að fara í meðferð. „Ég var ekki tilbúinn eða búinn með kvótann og féll alltaf aftur. Ég var alveg kexruglaður. Ég var orðinn geðveiki róninn sem aðrir benda á til að sýna öðrum hvað hann er illa farinn.“

Friðgeir var staddur í Greyhound-rútu á leiðinni til Los Angeles og í ljósi þess hversu illa farinn hann var orðinn, ákvað rútubílstjórinn að henda honum út, í bænum Vanhorn í Texas-fylki.

„Ég var skilinn eftir og sá þá lögreglustjórann koma að mér. Ég hugsaði með mér: „Nei, andskotinn. Endar sagan mín svona?“ Að vera settur í fangelsi í Texas. Þá komu tveir lögreglumenn upp að mér og köstuðu yfir mig neti til að handtaka mig. Þeir drösluðu mér í bílinn og fóru með mig til læknis í bænum, sem sprautaði mig niður. Þegar ég fékk svo einhverjar pillur hjá lækninum skutlaði lögreglustjórinn mér að staðnum þar sem hann fann mig á og sagði svo við mig: „Aldrei framar sýna á þér smettið hér í Vanhorn!““

Á götum Los Angeles

Skid Row í Los Angeles.

Friðgeir endaði þá á stað, sem að hans sögn var mestmegnis ætlaður glæpafólki. „Reglan er þannig í Kaliforníu ef þú ert dæmdur, að þú getur farið í níu tíu daga meðferð eða í fangelsi í fimm til tíu ár. Í þessu hverfi var allt morandi í einhverjum „gangsterum“, sem flestir völdu fangelsisvistina frekar en að verða sínum mönnum til skammar og vera edrú í 90 daga,“ segir Friðgeir. Meðferðin gekk ekki og hann náði ekki að halda sér edrú fyrr en hann var kominn á Skid Row, hið alræmda hverfi heimilislausra í Los Angeles. Þá var loksins botninum náð.

„Í þessu hverfi er ótrúlega margt heimilislauss fólks að sprauta sig eða reykja krakk. Geðveikin var svakaleg, en í miðjunni á þessu öllu tekst mér að verða loksins edrú,“ segir Friðgeir og bætir við að ástand heimislauss fólks á þessu svæði fari hríðversnandi með árunum. „Þetta er ekki lengur neyslutengt eða geðtengt, heldur bara eðlilegt fólk sem missir vinnuna og íbúðina og endar á götunni.“

Friðgeir fékk í kjölfarið aðsetur í Midnight Mission-búðunum á Skid Row. Þar bjó hann með 300 manns í stórum sal, fékk koju og þrjár máltíðir á dag.

Fegurðin á Flatey

Friðgeir er sæll og sáttur við lífið í dag að eigin sögn og segir að heimildamynd sé í vinnslu um líf hans. Hann er kvæntur Susan Bolles sem vinnur sem leikmyndahönnuður í sjónvarpi í Hollywood. Þau eru búsett við rætur San Gabriel-fjallanna, í Altadena, fyrir ofan Los Angeles þar sem þau eru með sex appelsínutré og þrjú sítrónutré í garðinum.

Síðustu þrjú sumur hefur Friðgeir starfað sem yfirkokkur á Hótel Flatey og segir hann það vera einn af fallegri stöðum jarðar, það jafnist fátt á við að fara í kyrrðina á Íslandi eftir hasartörn í Kaliforníu.

„Það er ómetanlegt að stíga úr átján milljóna manna borg yfir á litla eyju í þrjá mánuði. Eftir alla geðveikina í Los Angeles var ég farinn að íhuga að gefa upp kokkaríið, en svo kom það allt saman aftur þegar ég var ráðinn á Hótel Flatey,“ segir Friðgeir.

„Áhuginn kviknaði alveg á hundrað í kjölfarið á því. Það er íslenskt yfirbragð á matnum sem ég geri á Hótel Flatey, en svo kemur alltaf bakdyramegin þessi keimur frá New Orleans, sem gerir matinn bragðmeiri að mínu mati. Þetta er svolítið sambland af öllu sem ég hef lært í kokkamennsku um allan heim.“

Friðgeir stendur í því þessa dagana að „hössla“ sig út í Los Angeles með matseld sinni, sem hann segir vera nýja áskorun fyrir sig. Hann segist hafa verið vanur því í gegnum árin að elda fyrir aðra en honum líst vel á tilbreytinguna sem fylgir því að vera sinn eigin yfirmaður, með sinn eigin matarstíl. Þá bætir hann við að það sé lúmskur aukadraumur hjá honum að spreyta sig meira í glútenlausri kleinugerð.

„Konan mín er með glútenóþol, þannig að ég ákvað að prófa mig áfram með ýmsu. Næsta viðskiptaplanið mitt er að vera glútenlausi kleinukóngur Kaliforníu,“ segir Friðgeir hress.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar