fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Karlar eiga að stjórna: „Það eru ótrúlega mikil vonbrigði hvað við erum komin stutt á leið“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Sunnudaginn 13. október 2019 18:00

Vonar það besta Geena Davis segist skynja breytingu í dag. Mynd: Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ónákvæm og kynferðislega hlaðin mynd er dregin upp af konum og stelpum í stjórnunarstöðum í kvikmyndum um allan heim samkvæmt nýrri rannsókn sem kom út í vikunni. Rannsóknin er samstarfsverkefni bresku mannúðarstofnunarinnar Plan International og Geena Davis Institute on Gender in Media, sem leikkonan Geena Davis stofnaði árið 2004. Rannsóknin heitir á frummálinu Rewrite her story: How film and media stereotypes affect the lives and leadership ambitions of girls and young women, eða Endurskrifum sögu hennar: Hvernig staðalímyndir í kvikmyndum og fjölmiðlum hafa áhrif á líf og metnað kvenna og stúlkna fyrir stjórnunarstöðum.

56 myndir – 20 lönd

Við gerð rannsóknarinnar voru 56 vinsælustu myndir ársins 2018 í tuttugu löndum settar í gegnum sérstakt tól sem notar andlits- og talgreiningarhugbúnað til að kanna hvernig konur eru sýndar í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þessar 56 kvikmyndir komu til að mynda frá Bandaríkjunum, Kanada, Indlandi, Japan, Þýskalandi og Senegal.

Niðurstöður sýna að konur í stjórnunarstöðum eru oftar túlkaðar sem kynverur en karlar í stjórnunarstöðu. Þá er líklegra að þessar konur fækki fötum í kvikmyndum fremur en karlar. Hugtakið „male gaze“, eða „karlagláp“, kemur oft fyrir í rannsókninni, en það táknar að konur eru oft sýndar í kvikmyndum með þann einn tilgang að karlkyns áhorfendur glápi á þær.

„Vinsælustu myndirnar okkar senda þau skilaboð að karlar eigi að stjórna. Kvenkyns leiðtogar eru fyrir karla að glápa á og stjórna í raun engu,“ stendur til að mynda í niðurstöðum rannsóknarinnar. Niðurstöður sýna enn fremur að konurnar í þessum myndum voru næstum því fjórum sinnum líklegri til að vera hlutgerðar, til dæmis með því að myndavélin einblínir í hægagangi (e. slow motion) á líkama þeirra, og fimm sinnum líklegri til að vera áreittar samanborið við karlmennina í sömu myndum.

Nýtt stef Í Hustlers eru konurnar sýndar sem þrívíddarkarakterar en ekki aðeins einblínt á líkama þeirra.

Heimur sem stýrt er af karlmönnum

Þeir sem standa að rannsókninni stinga upp á ýmsum leiðum til að rétta hlut kvenna í kvikmyndum. Þar ber hæst að ráða fleira kvenkyns kvikmyndagerðarfólk og hylla verk þess.

„Þessar kvikmyndir sýna heim sem er stýrt af karlmönnum, fyrir karlmenn,“ stendur í niðurstöðum rannsóknarinnar og bent á kynjahlutfallið á bak við töldin við gerð þessara 56 kvikmynda. Ekki einni var leikstýrt af konu, fjórðungur þeirra var með að minnsta kosti einn kvenkyns framleiðanda og ein af tíu kvikmyndum var með að minnsta kosti eina konu í handritsgerðarteyminu.

Niðurstöðurnar eru svipaðar og í öðrum rannsóknum sem hafa verið gerðar síðustu ár um hlut kvenna í kvikmyndaiðnaðinum í Hollywood. Iðnaðurinn hefur hins vegar tekið nokkrum breytingum síðustu misseri, þökk sé að hluta MeToo-hreyfingunni, og er til dæmis hægt að horfa til kvikmyndarinnar Hustlers í þessu samhengi og Netflix-seríunnar Unbelievable. Hustlers er skrifuð og leikstýrt af konu og með konum í aðalhlutverki. Þó að myndin fjalli um fatafellur eru líkamar kvennanna ekki sýndir á þann hátt sem myndi flokkast undir „karlagláp“. Í Unbelievable er síðan fylgst með rannsókn á kynferðisafbrotamálum þar sem einblínt er á konurnar á bak við frásagnirnar án þess að sýna nauðganir sem spennandi eða heillandi.

Magnaðir Þættirnir Unbelievable á Netflix hafa hreyft við mörgum.

Ekkert gerst á 25 árum

Leikkonan Geena Davis segir í samtali við The Guardian að þessi nýja rannsókn sé á vissan hátt mikil vonbrigði

„Kenning mín er að við höfum ekki nógu mikið af fyrirmyndum og konum í mikilvægum stöðum í raunveruleikanum til að hvetja til breytinga, þannig að við þurfum að búa þær til. Ég trúði því að viðbrögðin við Thelma and Louise myndu breyta öllu og það yrðu miklu fleiri konur í aðalhlutverkum í kvikmyndum. Ég var hæstánægð með það,“ segir Geena, en Thelma and Louise var frumsýnd árið 1991. „Fjölmiðlar boðuðu það líka með næstu mynd sem ég gerði þar á eftir, sem var A League of Their Own – núna yrðu sko breytingar. Síðustu 25 árin hafa margar myndir komið út og fólk hefur sagt: Þetta á eftir að breyta öllu. En ekkert gerist. Það eru ótrúlega mikil vonbrigði hvað við erum komin stutt á leið.“

Átti að marka tímamót Susan Sarandon og Geena Davis léku Thelmu og Louise.

Raunveruleikinn smitar

Í rannsókninni var einnig talað við konur og stúlkur á aldrinum 15 til 25 ára í þessum tuttugu löndum og þær spurðar hvernig þeim fyndist konur vera túlkaðar í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og auglýsingum. Margar töluðu um að konur væru oft aukaatriði eða einungis á skjánum fyrir karla til að verða ástfangnir af.

„Þótt mig langaði að verða leiðtogi þá mun ég ekki gera það því mér finnst það bara vera fyrir karlmenn, ekki konur. Það hefur áhrif á mig. Ég þarf að halla mér aftur og sjá menn gera það þótt ég viti að ég geti það líka,“ sagði til að mynda 22 ára kona frá Úganda. Átján ára kona frá Kanada sagði að við værum í raun föst í vítahring.

„Konur eru ekki í æðstu leiðtogastöðum og við sjáum jafnvel mun færri konur en karla í stjórnmálum. Ég held að það smiti út frá sér í dægurmálamenninguna.“

Geena Davis segir í fyrrnefndu viðtali við The Guardian að hún finni fyrir alvöru breytingu núna, sérstaklega í ljósi hreyfinganna MeToo og Time’s Up.

„Mér finnst að auðveldasta leiðin til að breyta menningunni sé í gegnum skjáinn. Og ef það gerist þar, þá gerist það í raunveruleikanum.“

HLIÐAREFNI

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar

30% kvenkyns stjórnendur voru í efnislitlum fötum
7% karlkyns stjórnendur voru í efnislitlum fötum
15% kvenna voru naktar að hluta í myndunum
8% karla voru naktir að hluta að hluta í myndunum
2% kvenna voru allsnaktar í myndunum
0,5% karla voru allsnaktir í myndunum

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hjónabandsráðgjafi segir þetta merkið um að sambandið sé búið

Hjónabandsráðgjafi segir þetta merkið um að sambandið sé búið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á

Snorri vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar Sigmundur Davíð og Bergþór bönkuðu upp á