„Þetta byrjaði allt með dularfullu símtali um miðja hrímkalda þriðjudagsnótt fyrir einhverjum vikum síðan,“ segir listamaðurinn Páll Ívan í samtali við DV. Páll hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum fyrir að breyta fyrirsögnum fréttamiðla á hnyttinn, og oft grófan, hátt. Raunar dansar Páll svo á línunni að einhverjir láta blekkjast. Myndirnar eru orðnar svo vinsælar að þær hafa eignast sína eigin Facebook-síðu, Fréttir frá Eiðum. Upphaf þessarar iðju Páls má hins vegar rekja til dularfulls símtals.
„Í símanum var óhugnanlega skræk rödd sem hafði verið breytt, vildi sennilega ekki þekkjast. Mér var lofað meðalháum fjárhæðum ef ég tæki að mér þetta verkefni sem gengur út á að grafa undan trúverðugleika íslenskra fréttamiðla, nú og vonandi skemmta einhverjum í leiðinni. Ég sagði að sjálfsögðu já, peningar eru peningar og hvern vantar ekki peninga?“ segir Páll grafalvarlegur.
„Nú fæ ég vikulega greiðslu frá einhverjum nafnlausum aðila og hef sem betur fer gaman að þessu.“
Páll segist vera heillaður af fréttaljósmyndum.
„Það er eitthvað við ljósmyndir sem fylgja fréttum. Þær virðast oft segja sína eigin sögu úr allt öðrum veruleika,“ segir hann.
Þegar talið berst að hans uppáhalds fréttum í fréttasafninu sem telur nú tæplega hundrað myndir, stendur ekki á svörunum.
„Uppáhalds fréttirnar mínar gætu verið: Segja Báru vera einstaklega óumhverfisvæna, Þrír í haldi fyrir of hraðan bakstur, Sæðisgjafi vill fá sæðið sitt aftur, Meðvitund Sáms komið fyrir í líkama ungrar stúlku, Sendi andliti sínu póst um að breyta svip, Gæludýr yfirtaka taugakerfi.“
Þeir sem þekkja Pál vita hve eitrað skopskyn hann hefur og nú virðist hinn almenni borgari hafa áttað sig á kímnigáfu listamannsins í gegnum fréttasafnið. Páll segist vera opinn fyrir því að leyfa fjölmiðlum að nýta sér fyrirsagnalist sína.
„Ég væri auðvitað til í samstarf við alla fjölmiðlana. Ég þarf vinnu.“