fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Henrý Steinn var óléttur transmaður og komst í heimspressuna: Föðurhlutverkið, fjölmiðlafárið og fordómarnir

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Sunnudaginn 24. mars 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Henrý Steinn kom fyrst fram í sviðsljósið á Íslandi fyrir þremur árum. Þá átti hann von á barni sem hann bar sjálfur undir belti. Henrý Steinn er fyrsti transmaðurinn á Íslandi sem verður óléttur í miðju kynleiðréttingarferli. Margir fjölmiðlar, bæði íslenskir og erlendir, fjölluðu um Henrý og sögu hans á sínum tíma. Síðastliðin þrjú ár hefur Henrý mestmegnis haldið sig frá sviðsljósinu og einbeitt sér að föðurhlutverkinu.

Blaðamaður DV hitti Henrý til að spjalla um lífið sem faðir og transmaður. Við ræddum um fæðinguna, brjóstagjöfina, fjölmiðlafárið og fordómana.

Fór á hinsegin fund

Við hittum Henrý Stein á kaffihúsi í Grafarvogi. Hann býr á Dalvík með dóttur sinni, en kom til Reykjavíkur vegna aðgerðar sem hann er að fara í daginn eftir viðtalið. Henrý er einlægur og brosmildur. Það er stutt í hláturinn og hann skellir oft upp úr meðan á viðtalinu stendur.

Henrý Steinn fór í fyrsta sinn á hinsegin fund þegar hann var í níunda bekk. Hann fór með vinkonu sinni sem var að koma út sem lesbía og vantaði stuðning. „Við fórum á hvern einasta fund í nokkra mánuði. Með tímanum áttaði ég mig á því að ég hafði ekki bara áhuga á karlmönnum og opnaði á þann möguleika að ég væri tvíkynhneigður,“ segir Henrý.

„Þeir vinir sem hafa sýnt einhverja mótspyrnu eru ekki lengur vinir mínir.“
Mynd: Hanna/DV

Komst að því í sögutíma að hann væri trans

Nokkrum árum síðar, eftir fyrstu önn sína í framhaldsskóla, kom Henrý út úr skápnum sem trans. Hann segir að samtökin Hinsegin Norðurland hafi hjálpað honum mikið á þessum tíma.

Henrý segir söguna af því hvernig hann uppgötvaði að hann væri trans vera frekar fyndna. „Ég hafði lengi spáð í hvað trans væri og var orðinn frekar fróður um það allt saman. Svo einn morguninn í sögutíma í VMA, sem ég var augljóslega ekki mikið að fylgjast með, poppaði þetta allt í einu upp í hausnum á mér. Að ég væri sennilega bara ekki kvenkyns. Út frá því fór ég að láta fólk vita að ég ætlaði að prófa mig áfram og reyna að finna mig. Ég byrjaði að klæða mig frekar karlmannlega, hætti að reyna að passa í eitthvert norm og var bara ég,“ segir Henrý og heldur áfram:

„Það liðu ekki margar vikur af þessari tilraunastarfsemi þar til ég áttaði mig á að það gladdi mig vandræðalega mikið þegar fólk „ruglaðist“ og notaði karlkyns fornöfn og karlkyns lýsingarorð yfir mig. Ég fór svo á mannanafnanefndarsíðuna og skrollaði þar þangað til ég fann nafn sem ég tengdi við.“

Kom út sem transmaður

Tveimur til þremur mánuðum seinna ákvað Henrý að koma út úr skápnum sem transmaður.

„Ég boðaði mömmu á kaffihús,“ segir Henrý og hlær. „Ég vildi ná henni í einrúmi. Mömmu grunaði að ég ætlaði að segja henni eitthvað, maður boðar ekki aðra á kaffihús sí svona. Það fyrsta sem hún spurði eftir að ég kom út sem trans var: „Þarftu ekki að prófa að vera með stelpum fyrst?“ Ég svaraði því neitandi og sagði henni að það virkaði ekki svoleiðis. Ég útskýrði þetta betur fyrir henni, að kyn og kynhneigð séu ekki samtengd. Við erum og höfum alltaf verið rosalega góðir vinir. Ég er langyngstur af fimm systkinum og við vorum aðeins tvö í langan tíma.“

Nýbakaður faðir. Henrý Steinn og Védís.
Mynd úr einkasafni.

Pabbi lengur að samþykkja

Faðir Henrýs Steins var lengi að taka hann í sátt eftir að hann kom út úr skápnum. „Ég held hann sé búinn að átta sig á því að það er annaðhvort að samþykkja mig eða það slitni upp úr sambandi okkar. Nú er ég kominn með barn svo það er aðeins meira í húfi, og ég er einkabarnið hans. Pabbi er að reyna og hann hefur bætt sig helling,“ segir Henrý.

Þeir feðgar búa saman og segir Henrý það hjálpa. „Með því að búa hjá honum er ég að bjóða honum upp á að kynnast mér og þessu betur. Þá þarf hann að umgangast mig á hverjum degi, frekar en til dæmis að hringja einu sinni í viku.“

Sjálfstraustið jókst

Eftir að Henrý kom út úr skápnum sem trans fór hann að nota karlkyns fornöfn. Aðspurður hvort það hafi verið erfitt fyrir fólk í kringum hann að nota rétt fornöfn fyrir hann svarar Henrý játandi.

„Já, það var erfitt fyrir mig líka,“ segir Henrý og brosir. „Þetta voru viðbrigði fyrst. Það var tímabil þar sem ég hreinlega forðaðist að nota fornöfn. Mér fannst það eitthvað skrýtið. En svo fór þetta að passa. Ég áttaði mig líka á því að þegar aðrir notuðu rétt fornöfn jókst sjálfstraustið heilmikið. Þess vegna fattaði ég að þetta passaði vel. Mest svekkjandi var þegar einhver notaði rétt fornafn og leiðrétti sig svo og notaði þá rangt fornafn,“ segir Henrý og hlær.

Henrý Steinn
Mynd: Hanna/DV

Óléttur transmaður

Henrý Steinn er fyrsti transmaðurinn sem verður óléttur í kynleiðréttingarferli. Hann var tiltölulega nýbyrjaður í kynleiðréttingarferlinu þegar í ljós kom að hann gekk með barn undir belti.

„Ég var svolítið smeykur við það að láta transteymið vita að ég væri óléttur. En það gekk vel. Ég tók pásu frá viðtölum hjá transteyminu á meðan ég var óléttur og meðan dóttir mín var á brjósti. Þegar ég hætti með hana á brjósti fór ferlið aftur í gang,“ segir Henrý.

Henrý var með dóttur sína á brjósti í mánuð. „Ég held að það hafi verið stressið í kringum nafnaveisluna sem gerði það að verkum að ég hætti með hana á brjósti. Ég var að hugsa hvernig ég ætti að fara að þessu á almannafæri. Mér fannst það ekki þægileg tilhugsun. Mér fannst líka brjóstagjöf ekki vera þessi dans á rósum sem allir tala um. Þetta var erfitt fyrir mig, andlega og líkamlega. Meira stress en gleði. Það eru til vísindamenn sem sérhæfa sig í að búa til fullkomna næringu fyrir ungbörn. Af hverju ekki að nýta sér það?“ segir Henrý og bætir hlæjandi við: „Ekki allir geta sagt að pabbi sinn hafi verið með sig á brjósti.“

Henrý Steinn á síðustu metrum meðgöngunnar.
Mynd úr einkasafni.

Fæðingardeildin

Henrý átti dóttur sína, Védísi, þann 13. apríl 2016. Til að búa sig undir fæðinguna gekk Henrý í Facebook-hóp fyrir transmenn sem eru, hafa verið eða vilja verða barnshafandi.

„Frá meðlimum hópsins fékk ég þá hugmynd að skrifa efst í fæðingarskýrsluna mína: „Ég heiti Henrý Steinn og nota karlkyns fornöfn. Ég vil biðja ykkur að virða það.“ Ég gerði það og svo var mamma mín viðstödd fæðinguna. Hún sagðist ætla að passa upp á þetta og að ég ætti ekki að hafa áhyggjur af neinu nema að fæða,“ segir Henrý og hlær.

„Mamma hefur verið stoð mín og stytta. En fyrir utan fæðinguna sjálfa þá var þetta allt mjög auðvelt.“

Henrý Steinn og barnsfaðir hans hættu saman stuttu eftir fæðingu dóttur þeirra. Þeir ákváðu að búa saman fyrstu mánuðina í lífi Védísar svo að þeir gætu notið þess dýrmæta tíma með henni.

Hann segir það ekki hafa verið skrýtið að búa saman eftir sambandsslitin. „Við höfum alltaf verið góðir vinir.“

Mótspyrna
„Þeir vinir sem hafa sýnt einhverja mótspyrnu eru ekki lengur vinir mínir.“
Mynd: Hanna/DV

Sviðsljósið

Þegar Henrý Steinn var óléttur kom hann fram í mörgum viðtölum á Íslandi, meðal annars við DV og Gay Iceland. Gay Iceland er alþjóðlegur fjölmiðill um hinsegin menningu á Íslandi. Viðtalið birtist því á ensku og fljótlega fóru erlendir miðlar að veita Henrý og sögu hans áhuga. Í kjölfarið fór Henrý að sjá fréttir um sig á mörgum erlendum fjölmiðlum, eins og Daily Mail.

„Það sprakk allt út fyrir landsteina eftir að ég fór í viðtal hjá Gay Iceland. Áður en ég vissi af voru fjölmargar erlendar fréttasíður að fjalla um mig og sögu mína. Það voru myndbönd á YouTube um mig og ég var að finna þetta alls staðar,“ segir Henrý.

Aðspurður hvernig það hafi verið að vera skyndilega í sviðsljósinu og í öllu fjölmiðlafárinu, segir Henrý:

„Það voru alveg viðbrigði. Sambýlismaður minn á þeim tíma, hinn faðir dóttur minnar, fékk alveg nóg. Þegar ég var boðaður í þriðja viðtalið spurði ég hann hvort honum þætti þetta orðið of mikið. Hann sagði að svo væri. Ég kláraði viðtalið sem ég hafði lofað mér í og ákvað síðan að stíga til hliðar,“ segir Henrý.

„Það var líka skrýtið að fólk var farið að heilsa mér úti á götu og tala við mig. En ég bjóst svo sem alveg við því á þessu litla landi.“

Stoltur pabbi
Mynd úr einkasafni.

Tekur spurningum fagnandi

Henrý Steinn segir að hann hafi fengið fjölmargar vinabeiðnir á Facebook í kjölfarið. Hann segir að honum hafi liðið eins og fólk hafi viljað fylgjast með honum frekar en að tala við hann. Henrý segist taka öllum spurningum og skilaboðum fagnandi, en vill síður að ókunnugt fólk njósni um hann og persónulegt líf hans á Facebook.

„Ég setti inn opna færslu þar sem ég tók það fram að ég hleypti ekki hverjum sem er inn, ég væri að fara að eignast barn og vildi hafa það út af fyrir mig. En ef fólk langaði að þekkja mig og spyrja mig spurninga þá mætti það senda mér skilaboð, það væri meira en velkomið,“ segir Henrý.

Fordómar á netinu

Athugasemdirnar voru vægast sagt „líflegar“ við viðtölin við Henrý og greinarnar um hann. Henrý segir að fólk hafi gert það að reglu að segja ekki ljóta hluti við hann heldur um hann. Athugasemdakerfið væri mjög vinsæll vettvangur fyrir neikvæð ummæli.

„Ég náttúrlega skoðaði kommentakerfin við greinarnar um mig, þar var margt sem ekki allir myndu höndla. En ég veit alveg að fólk skilur þetta ekki og að þetta sé bara fáfræði sem býr til fordóma. Þetta hafði lítil áhrif á mig þannig séð,“ segir Henrý. „En ég var líka duglegur að svara spurningum þar.“

Kostur við athugasemdakerfin að sögn Henrýs Steins er sá að auðvelt er að velja út fólk sem hann vill ekki eiga neina samleið með.

Feðgin á jólunum.
Mynd úr einkasafni.

Fjölskylduerjur

Ekki hafa allir í fjölskyldu Henrýs Steins tekið honum opnum örmum. Hann segir þó fjölskyldumeðlimi aldrei segja neitt beint við hann.

„Ég heyri það frá öðrum fjölskyldumeðlimum sem þau hafa talað við. Það hafa verið fjölskylduerjur á milli fólks út af þessu. Um mig. Til hvers?“ segir Henrý Steinn og hlær og verður svo alvarlegri á brún.

„Ég er ekki að missa af neinu. Þetta er þá ekki fólk sem ég vil vera í sambandi við. Þeir vinir sem hafa sýnt einhverja mótspyrnu eru ekki lengur vinir mínir,“ segir Henrý, en bætir við að það hafi aðeins verið ein vinkona sem hann hafi þurft að loka á.

Kynleiðréttingaferlið

Henrý fór í brjóstnám 17. október 2017. Hann segir að það hafi verið allt annað líf eftir það.

„Það eru ótrúlegustu hlutir sem manni hefði ekki dottið í hug að myndu gleðja mann. Ég get núna gengið í hvítum bolum,“ segir hann og bætir við að hann sé ekki viss hversu langt hann ætlar í kynleiðréttingarferlinu.

„Ég er ekki búinn að taka endanlega ákvörðun þar sem neðri aðgerðir í dag eru ekki komnar á það stig sem ég vildi óska. Ég ætla að gefa því nokkur ár. Ég hrífst meira af karlmönnum en konum og er bara sáttur við það sem ég hef í rauninni. Það er að nýtast mér ágætlega,“ segir Henrý og hlær. „Ég er ekki að stressa mig á því.“

Aðspurður hvort hann langi í fleiri börn verður Henrý hugsi. „Sko, já og nei. En ég veit ekki hvort ég myndi leggja það á mig að ganga með það. Það er alveg klárlega í myndinni að ættleiða eða taka barn í fóstur. Ég veit ekki hvort ég myndi höndla það að ganga aftur með barn.“

Henrý Steinn með Védísi nýfædda í fanginu. Mynd úr einkasafni.

Föðurhlutverkið

„Það mjög skemmtilegt, en mjög erfitt á sama tíma,“ segir Henrý um föðurhlutverkið.

„Ég er búinn að átta mig á því að Védís skilur þetta hefðbundna fjölskyldumynstur. Ef hún er í einhverjum leik þá er það alltaf mamma og pabbi, en hún á tvo pabba. Það fer örugglega að koma að því að hún átti sig á því að það er ekki eins. Ég stefni að því að svara því þegar þar að kemur. Það kemur henni algjörlega við,“ segir Henrý. Hann segist ekki vera stressaður fyrir því en kvíði fyrir öðrum hlutum.

„Ég er ekki stressaður að tala við hana um þetta, heldur frekar á því hvort hún verði fyrir aðkasti. Líka að þetta eigi eftir að hafa einhver áhrif á hana á mæðradaginn til dæmis,“ segir Henrý og rifjar upp atvik sem er honum sérstaklega minnisstætt.

„Við Védís vorum stödd á Akureyrarflugvelli. Védís var að hlaupa um og ein eldri kona fylgdist með henni. Védís fór til hennar að spjalla og konan spurði hvar mamma hennar væri. Ég sagði að hún væri ekki í myndinni. Mér var frekar brugðið og vissi ekki alveg hvernig ég átti að svara þessu. Konan spurði þá hvort Védís þekkti mömmu sína og hvort hún væri að taka á móti okkur hinum megin. Ég endurtók mig og sagði að hún væri ekki í myndinni. Ég hugsaði með mér eftir þetta, hvort þetta væri komið til að vera. En ég hef ekki lent í þessu aftur.“

Atvik eins og þetta veldur Henrý hugarangri en hann segir kvenímyndirnar ekki skorta í lífi Védísar.

„Védís á þrjár ömmur og tvær langömmur. Það var gott tímabil sem allar ömmurnar hétu mamma. Hún áttaði sig ekki á muninum þar á milli, þar sem þetta eru hennar kvenímyndir. Það er hægt og rólega að koma núna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“