fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Stína talar opinskátt um nauðgun og sjálfsfróun til að ná til ungra krakka: „Ég vil vera manneskjan sem þorir“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Miðvikudaginn 27. febrúar 2019 20:00

Stína talar opinskátt um tabú málefni til að hjálpa öðrum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég ákvað fyrir ári síðan að segja já við öllu, þó það væri óþægilegt. Þá gerist ótrúlega margt spennandi og lífið varð í raun mun skemmtilegra,“ segir ACC markþjálfinn Kristín Þórsdóttir, ávallt kölluð Stína. Stína útskrifaðist í vor sem markþjálfi og nældi sér nýlega í alþjóðlega vottun í faginu. Hún gengur nú á milli skóla og annarra staða og heldur forvarnarfyrirlestra fyrir ungt fólk um sjálfsmynd og kynheilbrigði.

Breyttist úr unglingi í brjálæðing eftir nauðgun

„Mér hefur fundist vanta slíka forvarnarfyrirlestra. Í raun er ég að halda forvarnarfyrirlestur um það sem ég hefði þurft að heyra sem unglingur,“ segir Stína, sem nýtir sína eigin persónulegu reynslu í fyrirlesturinn.

„Ég tala mikið um hvernig sjálfsmyndin mín var. Ég var ótrúlega brotin og þráði ekkert nema virðingu og athygli. Mér fannst ég mjög ljót og leit hræðilega mikið niður til mín. Ég tek mig ekki of alvarlega og brýt ísinn með því að segja vandræðalegar sögur af mér sem fá krakkana til að hlæja, til dæmis þegar ég byrjaði fyrst að stunda sjálfsfróun og allar mýturnar sem fylgdu því,“ segir Stína.

Þó Stína segi frá ýmsu á unglingsárunum á gamansömum nótum þá leyfir hún þeim sem hlusta einnig að komast að hennar innsta kjarna og segir frá lífsreynslum sem hafa markað hana ævilangt.

Stína talar opinskátt um vandræðalega og óþægilega hluti.

„Þegar allir voru byrjaðir að sofa hjá á unglingsárunum bað ég einfaldlega besta vin minn um að klára þetta með mér. Ég ræði einnig mjög opinskátt um nauðgun sem ég varð fyrir. Skömmin var mín, ég sagði ekki neitt og sýndi af mér sjálfskaðandi hegðun í kjölfarið. Ég breyttist úr unglingi í brjálæðing. Ég vil ræða mjög opið um þetta allt sem víti til varnaðar. Ekki gera eins og ég. Það er mikilvægt að kunna á líkamann sinn áður en maður stundar kynlíf með öðrum aðila. Það er mikilvægt að maður fylgi sínu, ekki alltaf hópnum, sem er svo auðvelt þegar maður er unglingur. Ef eitthvað kemur upp á – talið um það og fáið aðstoð. Ef ég hefði mögulega sagt frá atvikinu þegar að tveir strákar nauðguðu mér hefði ég fengið aðstoð og hefði ekki þurft að vera leitandi að viðurkenningu í mörg, mörg ár,“ segir Stína.

„Má ég bara tala um sjálfsfróun, nauðgun og allt þar á milli fyrir framan altari?“

Upphaflega ætlaði Stína aðeins að tala í framhaldsskólum en hefur verið beðin um að koma í efri bekki grunnskóla og einnig í fermingarfræðslu í kirkju. Í fyrstu fannst henni það ógnvekjandi tilhugsun að tala við svo unga krakka.

„Má ég bara ræða þetta við svona unga krakka? hugsaði ég,“ segir hún og brosir. „En auðvitað þarf að byrgja brunninn áður en barnið fellur ofan í hann og krakkar eru miklu þroskaðri en maður heldur. Ég viðurkenni að það var samt áfall að ganga inn í fyrstu fermingarfræðsluna þar sem ég hélt upphaflega að ég væri að fara að tala við fimmtán krakka í safnaðarheimilinu en fékk svo taugaáfall þegar ég sá fulla kirkju. Má ég bara tala um sjálfsfróun, nauðgun og allt þar á milli fyrir framan altari?“ segir hún og hlær.

Að sögn Stínu hafa fyrirlestrarnir gengið vonum framar hingað til, en hún er nýleg byrjuð að halda þá. Hún segir viðbrögðin líka hafa verið mjög jákvæð.

„Það eru flestir sammála um að það sé nauðsynlegt að ræða um þessa hluti,“ segir hún. „Það finnst mörgum óþægilegt að ræða þetta við krakkana sína, en það er svo mikilvægt að ræða opinskátt um þessi málefni. Ekki láta börnin komast að hinu og þessu annars staðar frá. Börn eru miklu meira á undan en við nokkurn tímann höldum. Við setjum símann í hendur á barni og segjum: Gjörðu svo vel, skoðaðu allt í heiminum. En það þarf ekki neima einn smell og það er komið inn á eitthvað svakalegt efni sem er ekki við hæfi þess.“

Vill vera manneskjan sem opnar sig upp á gátt

Hún ætlaði þó ekki upprunalega að hafa fyrirlestrana svona persónulega.

„Ég var að gera beinagrindina að þessu í tíma hjá markþjálfa sem heitir Guy Woods. Hann spurði mig af hverju ég væri að þessu. „Því ég vil ekki að aðrir lendi í því sem ég hef lent í. Ef mín orð geta mögulega hjálpað einni manneskju er ég búin að mínusa út mitt fokk,“ sagði ég og talaði mikið um það sem hafði gengið á í mínu lífi. „Af hverju segirðu þetta ekki?“ spurði hann mig þá. Þá hugsaði ég: Af hverju ekki?“ segir Stína og bætir við að fyrirlestrarnir henti öllum kynjum. „Þrír af hverjum tíu lenda í misnotkun eða nauðgun á ævinni. Við þurfum að læra að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og þekkja okkar mörk. Hvernig líður okkur eftir kynlíf? Erum við með hnút í maganum, á bömmer eða ánægð? Ef það kviknar á viðvörunarbjöllum og við hlustum á þær getum við gert eitthvað í málunum strax. Þegar ég var unglingur var ekki eins mikil fræðsla og er núna, en eini fyrirlesturinn sem ég man eftir var maður sem kom í skólann og lýsti sínu lífi. Hann var ekki að skafa af neinu og sagði hreinskilið frá hlutunum sem hann lenti í þegar hann var í neyslu. Hann var einlægur, heiðarlegur og opnaði sig upp á gátt. Ég vil vera manneskjan sem þorir þessu.“

Stína missti eiginmann sinn, Kidda, fyrir tæpum tveimur árum.

„Ég elska að tala um það sem er tabú“

Stína stofnaði Eldmóður markþjálfun en hóf að auki nám í kynlífsmarkþjálfun fyrir stuttu. Hennar markmið er að vinna sem kynlífsmarkþjálfi í framtíðinni.

„Ég heyrði af þessu námi í vor en í markþjálfun getur maður í raun sérmenntað sig í því sem þú hefur áhuga, nánast hverju sem er. Það er enginn með vottun sem kynlífsmarkþjálfi á Íslandi svo ég viti um. Ég gúgglaði og fann virtasta kynlífsmarkþjálfunarnám í heimi og fyrir tveimur vikum byrjaði ég í fjarnámi frá Kaliforníu,“ segir Stína, en hvað er eiginlega kynlífsmarkþjálfun? „Þetta er mögulega miklu meira nám en ég hélt en mjög áhugavert. Kynlífsmarkþjálfar eru með svipaðan grunn og kynlífsráðgjafar og læra allt sem varðar kynlíf, óháð hvaða kyni. Hlutverk markþjálfa er í raun ekki að ráðleggja heldur að spyrja fólk spurninga svo það opni sig. Ég er ekki að segja neinum hvað hann á að gera heldur spyrja spurninga þannig að fólk skilji hvað það vill og vantar. Erlendis starfa kynlífsmarkþjálfar og kynlífsráðgjafar mikið saman. Það er draumurinn minn líka,“ segir Kristín.

Kristín hefur einmitt verið í samstarfi með Áslaugu Kristjánsdóttur, kynfræðingi, og hafa þær haldið fyrirlestur undir nafninu Kynkraftur, sem fjalla um um kynlíf og krabbamein, fyrir Kraft. Á þeim fyrirlestri var hlutverk Stínu að miðla sinni reynslu sem aðstandandi krabbameinssjúklings, en eiginmaður hennar, Kristján Björn Tryggvason, oftast kallaður Kiddi, lést um mitt ár 2017 eftir hetjulega baráttu við krabbamein. Nú eru þær Áslaug og Stína einnig með paranámskeið í bígerð um kynlíf og krabbamein.

„Ég elska að tala um það sem er tabú að tala um. Eins og ég gerði með Kidda. Við töluðum opinskátt um dauðann. Það er erfitt að ræða þessa hluti en það er mjög mikilvægt. Það er enginn að tala um kynlíf og krabbamein því það er ótrúlega vandræðalegt, en þegar maður er í þessum sporum er svo mikilvægt að ræða þessa hluti.“

Stína segir það í raun Kidda að þakka að hún hafi hugrekki til að standa fyrir framan sal af fólki og tala um það sem er vandræðalegt og óþægilegt.

„Þegar ég var 29 ára talaði ég ekki fyrir framan fólk. Ég roðnaði og stamaði og gat ekki andað,“ segir hún og hlær. „Kiddi gaf mér svo Dale Carnegie-námskeið í þrítugsafmælisgjöf og ég hef ekki haldið kjafti síðan. Kiddi var alltaf svo sjúklega opinn og ég meikaði það ekki. Stundum hugsaði ég: Þarf hann alltaf að vera í sviðsljósinu og vera svona opinn? Ég bara höndlaði það ekki. Eftir að hann dó lít ég hins vegar upp til þessa eiginlega hans. Af hverju eru ekki allir svona opnir, heiðarlegir og hreinskilnir? Það er miklu betra.“

Vildi ekki vera „zombie“

Barátta Kidda við krabbamein vakti athygli þjóðarinnar, en þau Stína töluðu opinskátt um veikindin.

Stína er lífsglöð og opin og um stund gleymir maður að hún hafi staðið uppi sem ekkja á besta aldri með þrjú ung börn fyrir tæplega tveimur árum. Hún segir að líðan hennar í dag sé afrakstur mikillar sjálfsvinnu og að vissulega komi dimmir dagar.

„Eftir að Kiddi dó var ég með áfallastreituröskun. Ég var eins og „zombie“. Ég hef þurft að vinna mikið í sjálfri mér síðasta rúma árið og hef leitað til ýmissa sérfræðinga til að hjálpa mér. Ég hef verið í endalausri vinnu í sjálfri mér sem ég hef í raun aldrei gefið mér tíma fyrir út af því að ég hef verið að sinna öðru. Allt í einu þegar að lífið tekur u-beygju sér maður hvað skiptir máli. Það skiptir máli að maður sjálfur fúnkeri fyrir börnin því þetta virkar ekkert ef mamma er bara „zombie“. Það má hlæja, það má hafa gaman, en það má líka vera leiður og gráta. Líf mitt er ekkert alltaf partí. Langt frá því. Ég viðurkenni að það var drulluerfitt að vera allt í einu ein með þrjú börn. Ég á gott stuðningsnet sem bakkar mig upp en ég viðurkenni alveg að stundum er ég að kafna. Ég held að allir upplifi það sem eiga börn. En það má bara fríka út stundum. Lífið þarf ekki að vera glansmynd. Ég stóð mig að því að ég væri alltaf að pósta myndum á Instagram þegar eitthvað spennandi væri í gangi, og ég hugsaði: Oj, ég er bara að pósta einhverju dásamlegu. Ég pósta hins vegar engu þegar ég er grenjandi uppi í sófa og sakna Kidda eða krakkarnir með vesen eða heimilið í rúst. Maður horfir svo mikið til annarra á samfélagsmiðlum og hugsar hvað allir í kringum sig eiga fullkomið líf, en við erum öll að kljást við okkar vandamál,“ segir Stína. Hún hefur meðvitað tileinkað sér nýtt mottó eftir að Kiddi dó, sem hefur hjálpað henni að takast á við lífsreynslu sem enginn óskar sér.

„Ég tileinkaði mér það mottó að segja já við tækifærum, vera heiðarlega og lifa þessu lífi. Ég nenni ekki að vera „zombie“ í þessu lífi. Ég vil gera eitthvað úr þessari reynslu. Ég held að þegar maður er búinn að ganga í gegnum svona reynslu þá setur maður hlutina í annan forgang. Hverju vil ég áorka í lífinu? Hvað vil ég skilja eftir mig? Ef ég get mögulega hjálpað einhverjum þá er ég sátt við að fara. Ég vil ekki hafa eftirsjá. Ég vil ekki spá í hvað öðrum finnst. Ég er þakklát fyrir að vera bara 34 ára og vera búin að átta mig á að lífið snýst ekki bara um að eiga geggjaða hluti, geggjað hús og flottan bíl. Þetta snýst líka um það að geta hjálpað öðrum með sinni reynslu. Það er miklu meira þarna úti sem maður getur sótt sér ef mann langar til þess. Þetta líf er alltof stutt til að gera eitthvað leiðinlegt.“

Kynlíf er ein af grunnþörfum mannsins

Stína hefur unnið mikið í sjálfri sér síðasta rúma árið.

Stína segir að í raun liggi sama ástæða á bak við að hún fór að halda forvarnarfyrirlestra og að þau Kiddi töluðu opinberlega um krabbamein, en þau hjónin vöktu mikla athygli þegar þau töluðu opinskátt um þá ákvörðun sína að taka Kidda úr lyfjameðferð. Þau vildu frekar njóta þess tíma sem hann átti eftir án allra aukaverkana sem fylgja sterkri lyfja- og geislameðferð.

„Það sem við gerðum með krabbameinið og veikindi Kidda var að taka erfiða reynslu og líta á hana til góðs. Nú er ég að gera það við unglingsárin mín. Ég reyni að sjá tilgang í því að mér var nauðgað og nota þá reynslu til að fá fólk til að hugsa um að virða sín mörk, segja frá og leita sér aðstoðar. Ég er í raun að taka eitthvað gott úr einhverju sem var slæmt. Auðvitað hefði ég aldrei viljað vera nauðgað en ég get ekki tekið það til baka. Ég get hins vegar reynt að breyta því í eitthvað sem hugsanlega hjálpar öðrum,“ segir Kristín. „Ástæðan fyrir því að ég valdi kynlífsmarkþjálfun er að mikið af fólki á mínum aldri er ekki að ræða saman. Ég sé endalaust af fólki í kringum fertugt skilja því það er óhamingjusamt. Í grunninn er það oft út af kynlífi. Fólk sest niður og planar kvöldmatinn og sumarfríið en það sest aldrei niður til að ræða um kynlíf eða leiðir til að krydda það. Við þurfum að kunna að tala opinskátt um samlífi hjóna og hvað við getum gert saman svo samlífið verði betra og við hamingjusamari. Kynlíf er ein af grunnþörfum mannsins og ef henni er ekki sinnt getur allt farið á versta veg.“

Hægt er að hafa samband við Stínu á Instagram eða í gegnum heimasíðu hennar. Einnig er hægt að senda henni töluvpóst á eldmodur@outlook.com.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst

Eiginmaður Katrínar segir þau hafa farið að rífast þegar þau hittust fyrst
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“

Gunnar sat 12 spora fund í morgun þegar eitt vakti áhuga hans – „Ég er sjálfur sekur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Alda vann til verðlauna annað árið í röð

Alda vann til verðlauna annað árið í röð