fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Sólveig fékk hvorki áfallahjálp né fjárhagsaðstoð eftir að syni hennar var drekkt – „Þetta fólk hefur örugglega verið hrætt alla ævi að vera með morð á samviskunni“

Óðinn Svan Óðinsson
Þriðjudaginn 25. september 2018 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ríkinu datt aldrei í hug að aðstoða mig við að jarða barnið mitt sem var myrt þegar það var í skóla á þess vegum. Það hvarflaði ekki að þeim. Engin aðstoð og ekki nokkur skapaður hlutur. Íslenska ríkið eyðilagði líf mitt,“ þetta segir Sólveig Austfjörð Bragadóttir, móðir Hartmanns Hermannssonar sem lést þann 2. maí árið 1990. Sólveig tjáir sig um lífið og tilveruna eftir morðið í einlægu viðtali hún en segist hafa  þurft að berjast við kerfið allt frá því að sonar hennar var myrtur. 

Morðin á Hartmanni og Bjartmari

Hartmann var annar tveggja drengja sem drekkt var í Glerá á Akureyri árin 1989 og 1990. Hinn drengurinn hét Bjartmar Smári Elíasson. Þeir voru báðir sjö ára gamlir. Eftir fyrra atvikið var gengið út frá því að um slys hefði verið að ræða en þegar Hartmann fannst látinn í ánni vorið 1990 vöknuðu grunsemdir um að ekki væri allt með felldu. Hafin var lögreglurannsókn á málunum tveimur og beindist fljótlega grunur að ungum pilti, Ara, sem vitni höfðu séð nálægt slysstaðnum í bæði skiptin. Meðal annars hafði miðaldra kona séð piltinn leiða síðari drenginn niður að ánni og síðar koma einan til baka.

Pressan fjallaði ítarlega um málið árið 2015 þar sem morðinginn tjáði sig sjálfur um voðaverkin. Fullt nafn Ara var ekki birt en hann átti síðan eftir að skrifa opið bréf og biðja mæðurnar afsökunar á að hafa myrt syni þeirra.

Mynd: Auðunn Níelsson.

Dagurinn örlagaríki

Móðir Hartmanns, Sólveig Austfjörð Bragadóttir, er búsett í lítilli verbúð við Óseyri á Akureyri. Það tekur á hana að rifja upp atvikið sem breytti lífi hennar 2. maí árið 1990. „Þennan morgun kvaddi Hartmann minn mig einstaklega vel með kossi og knúsi. Ætli það hafi svo ekki verið um 10 eða 11 leytið um morguninn sem hringt var úr skólanum og spurt hvort ég viti um drenginn minn. Þá strax var hafin leit og ég kannaði hina og þessa staði sem mér datt í hug að hann gæti verið á. Það kom svo mjög fljótlega í ljós að hann hafði lent í Glerá. Ég var á staðnum þegar þeir fundu hann í ánni en fékk ekki að sjá hann þar sem pabbi minn fór með mig heim,“ segir Sólveig en um leið og drengurinn fannst beindust spjótin að Ara.

„Það kom fljótlega í ljós að Ari hafði útbúið ratleik sem miðaði að því að hann færi með Hartmann niður að Glerá. Hann útbjó þennan ratleik gagngert til þess að fara með hann niður að á og henda honum út í.“

Sólveig segist aldrei hafa borið kala til Ara en segist reið fólkinu sem átti að passa bæði hann og drenginn hennar. Þeir voru saman í lokuðum skóla sem starfræktur var á þessum tíma undir nafninu Brattahlíð. Skólinn var lítill og var ætlaður börnum sem þurftu sérstaka aðstoð.

„Þetta var lokaður skóli sem var hugsaður fyrir krakka sem áttu eitthvað erfitt, þar sem börn áttu að vera sérstaklega pössuð. Minn drengur var með ADHD og skólinn sem hann var í fyrsta árið vildi ekki hafa hann inni hjá sér. Ég man að sumarið eftir fyrsta bekk gengu skólayfirvöld mjög hart að mér að setja Hartmann í þennan skóla. Einhvern veginn fannst mér alltaf eins og hann ætti ekki að fara í hann og ég neitaði því alltaf, en það endaði með því að ég gaf mig, sem ég hafði aldrei átt að gera,“ segir Sólveig.

Hún veltir því upp hvers vegna þeir sem stóðu að skólanum og höfðu það að atvinnu að passa drengina hafi ekki verið dregnir til ábyrgðar á sínum tíma. „Hvar er réttlætið? Af hverju var ekki réttað yfir fólkinu sem bar ábyrgð á þessu? Ég er ekki að tala um Ara, hann var veikur krakki. Ég hef aldrei borið kala til Ara, hef ekki getað réttlætt til það. Ég ber reyndar heldur ekkert kala til þessa fólks, þetta fólk hefur örugglega verið mjög hrætt alla ævi, að vera með morð á samviskunni.“

Segir Ara hafa misnotað Hartmann

Eftir umfjöllun Pressunnar um málið komu fram nýja upplýsingar en þá greindi bróðir Hartmanns fjölskyldunni frá því að Ari hefði misnotað Hartmann skömmu fyrir morðið. „Hartmann lenti í misnotkun í skólanum þegar Ari misnotaði hann. Hann hafði sagt eldri bróðir sínum frá þessu áður en hann dó. Ég hefði auðvitað viljað gera eitthvað í því máli, en mér skilst að það sér fyrnt,“ segir Sólveig.

Erfið æska Ara

Gerandinn, Ari,  var ungur beittur skelfilegu ofbeldi. Ofbeldið var svo hryllilegt að vart er hægt að setja það á prent. Ari vildi lítið tjá sig um ofbeldið þegar blaðamaður Pressunnar ræddi við hann á sínum tíma. „Ég sækist ekki eftir vorkunn. Ég varð fyrir mjög grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimili mínu og þá sérstaklega af stjúpa mínum. Ofan á það bættist kynferðisleg misnotkun stjúpa míns og fleiri einstaklinga sem í dag hefur enn áhrif á mig. Móðir mín átti sjálf mjög erfitt á þessum tímum og hafði því ekki tök eða getu til þess að styðja mig gegn ofbeldinu.“

Í frétt Pressunnar frá 1993 segir að hann hafi oftar enn einu sinni fundist að næturlagi fáklæddur og ráfandi talsvert fjarri heimili sínu. Aðspurður hvernig hafi staðið á því svarar hann: „Ég hafði ekki kjark í mér til að fara heim af ótta við barsmíðar.“

Mynd: Auðunn Níelsson.

Vistaður á vistheimili til 18 ára aldurs

Ari var sendur til Reykjavíkur og vistaður á barnageðdeild Landspítalans á Dalbraut í tvö og hálft ár eftir morðin. Að þeirri vist lokinni var honum komið fyrir á nýstofnuðu vistheimili, Árbót í Aðaldal, skammt frá Húsavík. Heimilinu var sérstaklega komið á fót til að vista Ara. Þar dvaldi hann til 18 ára aldurs.

Í viðtalinu við Pressuna árið 2015 sagðist Ari ekki hafa brotið af sér eftir að hann hélt út í lífið að nýju en fortíðin fylgir honum hvert skref. Hann flutti til Bandaríkjanna í kringum árið 2002 þar sem hann er búsettur í dag. „Að hafa tvö líf á samviskunni er mjög erfitt. Það er ekki hægt að lýsa því. Hver sem er náinn mér eða í nánu sambandi við mig þarf að vita sögu mína. Þú getur ímyndað þér hvernig það er fyrir mig að segja fólki sem ég elska að ég hafi drepið börn,“ sagði Ari í viðtali við Pressuna árið 2015.

Afsökunarbréf frá Ara

Í kjölfarið á ítarlegri umfjöllun Pressunnar um málið árið 2014 sendi Ari mæðrum drengjanna, þeim Bjarnheiði Ragnarsdóttur og Sólveigu Austfjörð Bragadóttur, opið bréf þar sem hann baðst afsökunar á gjörðum sínum. „Kæra Sólveig og Bjarnheiður. Það sem mig hefur langað að segja er að, já það er rétt að ég átti mjög erfitt sem krakki og já, það hefði átti að grípa inn í mörgum árum fyrr, en það breytir ekki því að ég er ábyrgur fyrir dauða barnanna ykkar. Ég hef aldrei ætlast til þess af neinum að fyrirgefa mér á þeim forsendum að ég hafi átt erfiða æsku, heldur frekar á þeim forsendum að ég er betri maður í dag,“ skirfaði Ari meðal annars í bréfinu sem vakti töluverða athygli.

Bréfið fór fram hjá Sólveigu á sínum tíma og það var ekki fyrr en DV rifjaði málið upp fyrr í sumar sem hún las það. Hún segir erfitt að lýsa tilfinningum sínum eftir lesturinn. „Hann var auðvitað bara barn á þessum tíma og ég hef alltaf litið svo á að allir eigi rétt á því að lifa. Líka Ari.“

Ofsótt af barnavernd og fékk enga aðstoð

Eftir morðið fékk Sólveig hvorki áfallahjálp né fjárhagsaðstoð frá ríki eða sveitarfélagi. Hún var mjög blönk og stóð frammi fyrir því stóra verkefni að bera sjö ára son sinn til grafar. „Ég átti ekki krónu en ég þurfti að jarða barnið mitt. Að ríkinu dytti í hug að aðstoða mig við að jarða barnið. Það hvarflaði ekki að þeim. Þeim datt það ekki í hug. Engin aðstoð og ekki nokkur skapaður hlutur,“ segir Sólveig sem viðurkennir að hún hafi oft verið nálægt því að gefast upp. „Ég hef nú alltaf haft það mottó að maður bognar en brotnar ekki, en auðvitað skælir maður oft. Það er bara þannig.“

Sólveig rifjar upp aðkomu barnaverndaryfirvalda eftir atburðinn. Hún segir stofnunin aldrei hafa þurft að hafa afskipti af henni og hennar fjölskyldu fyrr en eftir að Hartmann dó. Þá hafi sú stofnun farið að herja á hana með það eitt að markmiði að þagga niður í henni. Sólveig rifjar upp yfirheyrslur yfir Ara sem hún segir barnaverndaryfirvöld hafa eyðilagt til að verja eigin hagsmuni.

„Þegar að eiginlegum yfirheyrslum kom var barnavernd kölluð til. Þar fékk rannsóknarlögreglumaðurinn ekki að yfirheyra Ara eins og þurfti. Þær hjá barnavernd stoppuðu hann alltaf. Í dag veit ég að þær voru bara að passa sjálfar sig, þær voru hræddar af því að þær báru ábyrgð á Ara. Ég áttaði mig á því fyrir löngu að þær voru að passa starfið sitt og voru hræddar,“ segir Sólveig.

Þegar hún komst að þessu sagði hún þeim konum sem unnu hjá stofnuninni á þessum tíma að málið væri geymt en ekki gleymt. Það var í framhaldi af þeim orðum sem þær hófu, að sögn Sólveigar, að herja á hana. „Þær létu mig ekki í friði og héldu því fram að ég hugsaði ekki vel um börnin mín. Það var með ólíkindum hvernig þær töluðu. Foreldrar mínir voru kallaðir á fund þar sem þeim var sagt að þar sem stelpurnar mínar gengju ekki í merkjafötum þá gætu þær orðið fyrir aðkasti. Þá voru þær sagðar skítugar og bara ekki eðlilegar, sem var fjarri sannleikanum. Það sem er skrýtið er að ég átti þessar tvær dætur sem þær höfðu afskipti af. Ég átti líka tvo drengi sem bjuggu á heimilinu. Þær minntust ekki einu orði á drengina. Ég er einu sinni ekki viss um að þær hafi vitað ég ætti tvo drengi.“

Eftir þessar ásakanir ákvað Sólveig að fara með stelpurnar til barnalæknis á Akureyri sem komst að þeirri niðurstöðu að ekkert amaði að stelpunum. Umræddur læknir hafði í framhaldinu samband við barnaverndaryfirvöld. „Þá segist hann hafa grun um að málið hjá barnavernd sé persónulegt og til þess fallið að þagga niður í mér,“ segir Sólveig sem segir að ekki hafi liðið meira en vika frá athugasemdum barnalæknis þar til hún fékk símtal um að málið hefði verið látið niður falla.

„Eftir þetta var ég alltaf hrædd um að ég væri ekki að gera rétt. Ég var búin að missa eitt barn og var alltaf hrædd um hin börnin mín því það var fólk í bænum sem gat endalaust hamrað á manni,“ segir Sólveig og bætir því við að enn það dag í dag sé víða pottur brotinn í málefnum barnaverndar á Íslandi.

Mynd: Auðunn Níelsson.

Lífið með sorginni

Lífið hefur svo sannarlega ekki verið dans á rósum fyrir Sólveigu eftir morðið. Hún glímir við kvíða og var að lokum dæmd örorka, „Ónæmiskerfið bara hrundi og í gegnum árin hef ég þegið örorkubætur, sem er ekki gaman. Ég bað ekki um að verða öryrki en þannig fór það,“ segir Sólveig sem fór illa út úr bankahruninu 2008 eins og svo margir landsmenn. Sólveig dvaldi um tíma á Spáni  og skildi við sambýlismann sinn.

Eftir skilnað spruttu svo upp deilur við fyrrverandi eiginmann sem að sögn Sólveigar hertók litla verbúð við Óseyri á Akureyri sem Sólveig átti. Það mál fór alla leið til Hæstaréttar þar sem Sólveig stóð uppi sem sigurvegari og endurheimti eignina. Þótt Sólveig hefði unni málið og endurheimt eignina var hún skuldum vafin. „Einhverra hluta vegna fórst það fyrir að ég gæti sótt um gjafsókn í málinu sem ég er mjög óhress með. Núna stend eftir með rúmlega þriggja milljóna króna reikning frá lögfræðingum, þrátt fyrir að hafa unnið málið,“ segir Sólveig sem býr um þessar mundir í verbúðinni.

Sólveig er afar ósátt við stjórnvöld í málinu og segir það enn eitt dæmið um hvernig íslenska ríkið hefur farið með hana. „Ég varð rosalega reið og þetta kórónaði öll mín samskipti við ríkið. Hér sit ég eftir, mjög blönk og er að reyna að safna mér peningum svo ég geti lakkað gólfið og gert þetta aðeins fýsilegra,“ segir hún og bætir við: „Ríkið hefur alveg séns á því ennþá að borga mér miskabætur. Íslenska ríkið er búið að eyðileggja líf mitt.“ 

Sólveig og fjölskylda hafa ráðið sér lögfræðing til að fara ofan í saumana á morðinu á Hartmanni og það hvernig íslenska ríkið stóð að málum. „Morð fyrnist aldrei og nú er svo stutt síðan að hann viðurkenndi það opinberlega að hafa drepið Hartmann að við viljum kanna stöðu okkar.“

Þeir sem hafa áhuga á að létta undir með Sólveigu og styrkja hana er bent á reikningsnúmerið
0162-26-009777, kt. 210961-5859

Mynd: Auðunn Níelsson.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“