fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Árstíðir fagna tíu ára starfsafmæli: „Að vera í hljómsveit er eins og hvert annað samband. Maður þarf að rækta það, vera auðmjúkur og læra af hvor öðrum.“

Guðni Einarsson
Laugardaginn 18. ágúst 2018 10:05

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lagasmiðirnir og söngvararnir Ragnar Ólafsson, Daníel Auðunsson og Gunnar Már Jakobsson skipa hljómsveitina Árstíðir sem fagnar í dag tíu ára starfsafmæli sínu. Bandið á að baki fimm glæsilegar hljóðversplötur en sú síðasta kom út fyrir skömmu undir heitinu Nivalis sem hlotið hefur frábæra dóma bæði hér heima og erlendis.

Það má með sanni segja að Árstíðir séu með duglegri hljómsveitum landsins en þeir hafa fjármagnað allar plötur sínar sjálfir ásamt því að spila út um allan heim en hljómsveitin hefur einbeitt sér nær eingöngu að erlendum mörkuðum frá því árið 2010.

Árið 2013, á lestarstöð í Dresden í Þýskalandi, komu þeir íslenska sálminu “Heyr Himna Smiður” eftir Kolbein Tumason í sviðsljósið fyrir heimsbyggðinni. Flutningur þeirra hefur verið streymt tæplega 7 milljón sinnum á Youtube og fengið mikið lof út um allan heim en myndbandið hefur opnað á margar dyr fyrir hljómsveitina frá því að það var birt.

Síðustu misseri hefur hljómsveitin unnið hörðum höndum að plötu með tónlistarmanninum Magnúsi Þór Sigmundssyni en um er að ræða ný óútgefin lög sem hljómsveitin útsetur með Magnúsi.

Undirritaður hitti hljómsveitarmeðlimi og fræddist um tónlistina, tónleikaferðalögin, innblásturinn og fleira.

Nú hafa Árstíðir verið til í um áratugaskeið. Hver er saga hljómsveitarinnar, hvenær og hvernig varð hún til? 

Í stuttu máli erum við þrír söngvarar og lagasmiðir sem höfðum dálæti á rödduðum söng og fórum að spila og semja saman.

Á okkar fyrstu tónleikum sumarið 2008 spiluðum við á Kaffi Hljómalind. Þar var maður frá borginni sem leist vel á það sem við vorum að gera og sagðist vera með tónleika fyrir okkur sem hentaði vel. Þeir fóru fram í Listasafni Reykjavíkur á menningarnótt og þar opnuðum við fyrir 200.000 Naglbíta og Lúðrasveit Verkalýðsins. Þar fór allt af stað og hefur ekki stoppað síðan.

Hvernig hefur samstarfið verið milli hljómsveitarmeðlima í allan þennan tíma?

Að vera í hljómsveit er eins og hvert annað samband. Maður þarf að rækta það, vera auðmjúkur og læra af hvor örðum og láta ekki utanaðkomandi stress bitna á sambandinu. Og það er sko nóg af stressi í þessum bransa, og þegar fjárhagslegar áhyggjur leggjast ofan á það reynir á manninn.

Það er ekkert leyndarmál að stundum hefur þetta verið erfitt hjá okkur. Margir góðir meðlimir hafa komið og farið í gegnum árin, en við höfum fengið einstakt tækifæri til að læra af þessu og þroskast. Í dag erum við aftur sami þriggja manna kjarni og þegar við byrjuðum, og erum orðnir nánast eins og bræður sem stöndum saman í einu og öllu.

Hvað er það erfiðast og besta við hljómsveitarlífið?

Það erfiðasta og það besta eru öll ferðalögin. Við höfum ferðast vítt og breitt um heiminn frá Serbíu til Svalbarða og frá Síberíu til San Diego. Það eru forréttindi tónlistarmannsinns að fá að upplifa heiminn, en að sama skapi eru þetta oft löng og strembin ferðalög þar sem við ferðumst langar vegalengdir og erum að bröltast um með mikið af hljóðfærum og búnaði.

Hvað stendur upp úr á þessum tíma sem þið hafið verið starfandi?

Það er margt sem stendur uppúr á öllum þessum tíma en líklega má nefna flutning okkar á laginu “Heyr, himna smiður” á lestarstöð í Þýskalandi sem ákveðinn hápunkt. Það var bara tilviljun að við sungum lagið þarna, og að það hafi verið tekið upp, en myndbandið hefur opnað margar dyr fyrir okkur í gegnum árin. Það fyllir okkur stolti að hafa náð að kynna þetta frábæra lag fyrir umheiminum, og þegar það birtist í þáttaröðinni A Handmaid’s Tale þá leyfðum við okkur að trúa því að við ættum aðeins í því að svo varð.

Hvað veitir ykkur innblástur þegar kemur að því að semja tónlist?

Lögin okkar eru oft um mjög persónulegar reynslur sem við klæðum í orð og tóna. Það hefur alltaf verið ákveðinn tregi í lagasmíðum okkar. Fyrir okkur eru lagasmíði leið að tjá flóknar tilfinningar og finna þeim útrás. Tónlistarsköpun er ákveðin heilun, og hún virkar líka á hinn veginn. Við höfum heyrt af því að lög okkar hjálpi fólki sem á við þunglyndi að stríða eða um sárt að binda. T.d. var þýsk kona sem hafði gefið upp lífsvonina en ákvað að takast á við erfitt krabbamein eftir að hafa séð okkur spila á tónleikum. Hún er í dag orðin góð vinkona okkar og segist eiga okkur lífið að þakka að hafa komist í gegnum þetta. Við höfum heyrt frá fleirum sem segja að tónlist okkar hafi komið þeim til bjargar í sínu persónulega lífi. Það er besta hrósið sem við getum hugsað okkur, og það er frábær tilhugsun að tónlistin okkar skipti máli fyrir fólk.

Nú var að koma út ný plata frá ykkur, Nivalis. Segið okkur aðeins frá henni, hvernig kom hún til og hvernig var ferlið? Unnuð þið með eitthvað þema? Hvaðan kemur nafnið?

Nivalis er latneskt lýsingarorð sem merkir að eitthvað sé “eins og snjór” nafnið er gjarnan notað í latneskum heitum plöntu og dýrategunda. T.a.m. heitir snjódropinn “Galanthus nivalis”. Nivalis getur líka átt við tegundir sem geta vaxið úr snjó og þrifist við erfiðar aðstæður, og því á þetta plöntuheiti svo marga snertifleti við hljómsveitina okkar.

Upphaflega stóð jafnvel til að skýra bandið Nivalis og var það ein af hugmyndunum sem við köstuðum á milli okkar í leit að nafni fyrir hljómsveitina, en á endanum varð Árstíðir varð fyrir valinu. Okkur fannst því tilvalið að leita aftur til fortíðar þar sem við vorum aftur orðnir þrír meðlimir eins og í upphafi.

Nivalis er fimmta hljóðversplatan okkar og líka sú fyrsta sem er gefin út af alþjóðlegu plötufyrirtæki, en við erum á mála hjá fransk-bandaríska útgáfufélaginu Season of Mist. Fyrirtækið nýtur virðinga í bransanum og á greiðari aðgang að fjölmiðlum og hlustendahópum sem við höfum áður ekki haft aðgang að. Til dæmis lásum við mjög jákvæðan dóm um Nivalis hjá Rolling Stone Magazine í Þýskalandi, þannig við erum strax farnir að njóta góðs af því að vera hjá útgáfufélagi.

[videopress weCkw6Tn]

Hvernig er vinnuferlið hjá ykkur?

Meðlimir semja oftast grunna af lögum hver í sínu horni. Fyrir gerð Nivalis vorum við með hátt í 30 hugmyndir okkar á milli sem við unnum síðan úr. Um leið og lag er kynnt fyrir hljómsveitinni er litið á lagið sem eign bandsins og allir fá skotleyfi á að breyta því. Við tökum okkur oft langan tíma í að útsetja og prufa okkur áfram með hljóðheima hverrar hugmyndar fyrir sig. Í hljómsveitinni verður ferlið oft mikilvægara heldur en grunnhugmyndin, hreinlega vegna þeirrar miklu sköpunar á sér stað í ferlinu. Í bandinu ríkir mikið jafnræði og við skiptum öllu jafnt eins og t.d. skráningu á lögunum en við reynum allir að setja jafn mikla vinnu í heildarferlið, allt frá lagasmíðum, umsjón með samfélagsmiðlum, samningagerð eða fjármál o.fl.

Við erum líka heppnir að hafa aðgang að frábæru tónlistarfólki hérna heima sem hjálpar okkur við útsetningar og upptökur. Sigrún Harðardóttir, Unnur Jónsdóttir og Viktor Orri Árnason strengjaleikarar hafa um áratíð verið okkur mikil stoð og stytta, og sáu Sigrún og Viktor um stærstan hluta strengjaútsetningarna á nýju plötunni. Magnús Magnússon trommari var með okkur í gegnum allt Nivalis ferlið og setti mikinn svip á lögin með sínum frumlega slætti og áhugaverðu hugmyndum. Að lokum unnum við með upptökustjóra frá Færeyjum sem heitri Sakaris Emil Joensen. Hljómsveitin okkar byrjaði sem órafmögnuð hljómsveit en hefur á seinni árum verið að fikra sig í átt að rafrænni hljóðheim. Sakaris er rafpopptónlistarmaður og var lykilmaður í að tvinna þessa tvo heima saman með okkur.

Hvað er það sem heldur ykkur gangandi í tónlistinni? Lifi þið á tónlistinni?

Sumir okkar lifa alfarið á tónlistinni en þá eru það önnur tónlistarverkefni en Árstíðir sem borga brúsann. Við eigum það allir sameiginlegt að vera með allskonar tónlistarverkefni í gangi samhliða árstíðum til að láta dæmið ganga upp. Að vera tónlistarmaður er ekki ferð til fjár, en það sem heldur okkur gangandi er dálæti okkar á tónlistinni og öllu því sem við fáum að upplifa á tónleikaferðalögum.

Hvað finnst ykkur um þróunina sem hefur átt sér stað í útgáfu á tónlist?

Ef maður lítur á sögu tónlistarútgáfunnar þá hefur í raun aldrei verið til neitt form sem sérlega hentungt tónlistarmönnum. Á áratugum stóru útgáfufyrirtækjanna voru menn í jakkafötum að græða milljónir á tónlistinni þótt þeir vissu ekki mikið um hana. Í dag eru það streymisveiturnar sem eru með yfirhöndina, og hægt að spyrja sig hvort tónlist sé ekki allt of ódýr neysluvara þegar nær allri heimsins tónlist á Spotify í heilan mánuð kostar svipað og einn bjór á bar. Sem tónlistarneytendur elskum við Spotify, en sem tónskáld gerum við okkur fyllilega grein fyrir því að við fáum mjög lítið fyrir vinnuna okkar. En þetta er samt skárra en niðurhalsmenninginn sem var í algleymi fyrir nokkrum árum.

En netið hefur einnig í för með sér nýja möguleika á tekjumyndun. T.a.m. vorum við með mjög vel heppnaða söfnun hjá Kickstarter fyrir nokkrum árum þegar við gerðum plötuna okkar Hvel.

Ljósmynd: DV/Hanna

Hvað finnst ykkur um íslensku tónlistarsenuna? Er eitthvað sem má betur fara?

Það er alveg ljóst að ísland er með alveg einstaka tónlistarsenu. Tónlistarunnendur, spekingar og fjölmiðlar um allan heim eru alveg undrandi á því hvernig svona lítil þjóð getur getið af sér svona ótrúlegan fjölda af góðum tónlstarmönnum og hljómsveitum. Þetta er alltaf fyrsta spurningin sem við fáum í útlöndum, og því höfum við mikið velt þessu fyrir okkur. Málið er það að smæðin vinnur með okkur. Við erum með allar tegundir af tónlist hérna, rétt eins og í öðrum löndum, en munurinn er sá að hér er ekki nóg af til að tónlisarfólki til að fylla hverja senu hverju fyrir sig, og í staðinn eru flestir virkir í mörgum mismunandi senum samtímis. Menn geta verið að læra djass á daginn, spilað þungarokk á kvöldin, komið fram í Eurovision og verið að semja raftónlist – allt á sama tíma! Þetta gerir íslenska tónlistarmenn mjög fjölbreytta, og þegar farið er í að semja tónlist þá blandast öll þessi áhrif saman þannig að útkoman verði spennandi og frumleg. Þessu má líkja við listmálara sem hefur úr fleiri litum að moða og getur því skapað magnaðri verk. Þetta viljum við meina er leyndarmálið bakvið “íslenska tónlistarundrið” eins og það er kallað í útlöndum.

Íslendingar geta verið stolt af þessu, og það er fullt af góðu fólki hjá Útón (Útflutningsstofa íslenskrar tónlistar) sem gera sér fyllilega grein fyrir menningarlegu verðmæti hennar og hvað þetta er mikil landkynning. En alltaf má gera betur, og það væri gaman að sjá fleiri flokka á þingi setja menningarmálinn á oddinn. Menning hefur svo verðmæt margföldunaráhrif sem skilar sér út í alla mögulega anga samfélagsins, þótt erfitt sé að mæla það í tölum og krónum. Hvað ætli Björk hafi skilað landinu í arð í gegnum árin þegar kemur að landkynningu, og túrisma í kjölfarið?

Hér í Reykjavík hafa stjórnvöld gert ýmislegt til að greiða götu upprennandi tónlistarmanna, eins og TÞM (tónlistarþróunnarmiðstöðin) er gott dæmi um. En það mætti hlúa betur að tónleikastöðum fyrir grasrótina. Harpa er alveg frábær tónleikastaður sem hefur umbylt tónlstarlandslaginu undanfarin ár, en það er hinsvegar ekki á færi harkandi hljómsveita að komast þar að, það er hreinlega of dýrt. Lykil-tónleikastaðir eins og Faktory hafa þurft að víkja fyrir hótelum og annars konar gróðastarfssemi. Það var líka mikið högg fyrir tónlistarsenuna að missa Kaffi Rósenberg, en hljómsveit okkar Rósenberg einmitt mikið að þakka fyrir að leyfa okkur að spila og þróast þar sem hjómsveit fyrstu árin. Þannig í smáu sem stóru mættum við Íslendingar vera betur meðvituð hvað þetta er mikið menningarlegt verðmæti sem við höfum í höndunum og hjálpast að við að styðja upprennandi kynslóðir tónlistarmanna.

Þið hafið verið að túra mikið undafarin ár. Finnst ykkur munur á því að spila hér heima og erlendis?

Við höfum aðallega einbeitt okkur að utanlandsmörkuðum síðustu árin. Síðasta tónleikaferðalag okkar um ísland var 2009 (!) ásamt Svavari Knút og Helga Val.

Mörg íslensk bönd setja mikla áherslu á útlönd, en við vorum svo heppnir að kynnast erlendum umboðsmanni strax á öðru starfsári okkar, 2010, og höfum í raun átt fullt í fangi með að sinna erlendum markaði síðan.

Við erum í raun búnir að vera svo mikið erlendis að við höfum verið að vanrækja Ísland. Fyrir utan okkar árlegu hátíðartóneika í Fríkirkjunni á Þorláksmessu og Airwaves þá hafa þetta ekki verið meira en 1-2 tónleikar á ári sem við höfum spilað heima undanfarin ár. En við ætlum að bæta okkar ráð og verða tónleikar okkar á Húrra næstu helgi liður í því.

Er munur á íslenskum og erlendum áðdáendum hljómsveitarinnar?

Það eru svo margir góðir tónlistarmenn hérna að Íslendingar er mjög afslappaður þegar það kemur tónlist og tónlistarmönnum. Úti er fólk meira að sýna tilfinningar sínar, og það er fastur liður hjá okkur að undirrita varning og hitta aðdáendur okkar eftir tónleikana. Margir þeirra tjá okkur einnig aðdáun sína á Íslandi og náttúrunni og þeim finnst tónlist okkar endurspegla hana svo vel. Okkur líður oft eins og við séum hálfgerðir sendiherrar og reynum að taka þvi hlutverki alvarlega.

Því austar sem við ferðumst því meiri verður æsingurinn, einfaldlega vegna þess að færri erlend bönd heimsækja þá staði. Við vorum til dæmis á tónleikaferðalagi um Síberíu og vorum komnnir langt austur fyrir Úral-fjöllin og upplifðum hálfgert bítlaæði þegar við komum þangað þar sem ágeng ungmenni biðu eftir tónleika í mikilli geðshræringu.

Ljósmynd: DV/Hanna

Hvar finnst ykkur skemmtilegast að spila? Einhver staður sem þið viljið ekki spila á aftur?

Allir í hljómsveitinni eru miklir græjukallar og áhugamenn um tæknilausnir í tónlist, og erum oft að grínast með að Þýskaland og Holland séu hin fyrirheitnu lönd þegar kemur að græjum. Það er alveg sama hvar maður spilar í þessum löndum, þá eru sviðsaðstæður alltaf í toppstandi og rótarar og hljóðmenn algjörir fagmenn. Það gerir okkur kleift að hámarka gæði hverra tónleika og hvílt okkur í stað þess eltast við að laga slæmt hljóð eða eitthvað tæknivesen.

Víða um heim höfum við svo lent í öllum mögulegum aðstæðum á sviði, þar sem allt hefur farið úrskeiðis. En það eru of langar og grátbroslegar sögur til að rekja hér. Ætli við skrifum ekki bara bók um það einn daginn!

Hvað er það sem tónlistin gefur ykkur?

Við lifum skemmtilegum og áhugaverðum lífum, og það er enginn tilfinning sem jafnast á við það að labba út úr tónveri eftir að hafa samið eitthvað sem maður er stoltur af.

Hvað er næst á sjóndeildarhringnum hjá ykkur?

Við geymdum einmitt mikilvægar upplýsingar fram í síðustu spurningu. Í rúmt ár höfum við útsett ruglað saman reitum með meistara Magnúsi Þór Sigmundssyni. Hann hafði sambandi við okkur í lok 2016 og vildi fá okkur í samstarf við gerð lagsins “Ein rónandi”. Við fórum að leggja leiðir okkar í Hveragerði til Magnúsar, en með tímanum tókst með okkur einstök og einlæg vinátta, og tónlistarsamstarfið vatt upp á sig. Þessa stundina erum við að leggja lokahönd á plötuna “Garðurinn minn” sem verður gefin út með haustinu. Um er að ræða ný óútgefin lög eftir Magnús sem við útsettum og tókum upp samann

Magnús dró okkur svolítið út úr þessum tæknivædda heimi sem tónlistin þrífst í um þessar mundir. Í stað þess að nota stúdíótöfra og upptökuforrit til að fegra eða breyta tónlistinni, þá fór Magnús fram á að öll platann yrði tekin upp lifandi. Með öðrum orðum spiluðu allir í bandinu lögin inn í heild samtímis, eins og í gamladaga. Það var gert í tónverinu Sundlaugin í Mosfellsbæ og er niðurstaðan mjög skemmtileg. Við tókum svo upp bakraddirnir heima hjá Magnúsi í stigaganginum hans, og við þrír Árstíðarmeðlimir sungum inn í einn og sama mækinn allir í einu, líkt og Lennon-McCartney, Jagger-Richards gerðu hér áður fyrr. Það var mjög gaman vinna plötu svona. Þetta verður stálheiðarleg plata af gamla skólanum sem mun vonandi fara mikið fyrir í plötuflæðinu í haust.

Hljómsveitin mun efna til útgáfutónleika á tónleikastaðnum Húrra í Reykjavík föstudaginn 24 ágúst og fer miðasala fram hér.

Nýjasta plata Árstíða, Nivalis, má hlýða á hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf stundum að standa með sjálfum sér“

„Maður þarf stundum að standa með sjálfum sér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sigríður lýsir lækningamætti Einars – „Gleymi aldrei svipnum á læknunum þegar þeir skoðuðu nýjar myndir af hnénu“

Sigríður lýsir lækningamætti Einars – „Gleymi aldrei svipnum á læknunum þegar þeir skoðuðu nýjar myndir af hnénu“