fbpx
Mánudagur 15.júlí 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Fókus

Ævar Þór opnar sig um föðurhlutverkið: Barnaefni í dag ágengara en áður

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 12. ágúst 2018 18:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá sex ára aldri átti Ævar Þór Benediktsson þann draum að gerast leikari. Þann draum fékk hann uppfylltan með meiru og er, ásamt mörgum heitum, orðinn einn vinsælasti höfundur Íslands. Eins og lengi hefur tíðkast eru mörg járn í eldinum hjá Ævari og á næstunni bíða hans stærri verkefni en hann hefur áður fengist við.

Ekki er nóg með að bókafjöldi hans verði kominn langt yfir fyrsta tuginn fyrir lok ársins, heldur vinnur hann hörðum höndum við metnaðarfulla leiksýningu og sjónvarpsþáttaröð af stærðargráðu sem á sér ekkert fordæmi á klakanum, en þess á milli tekst hann á við sitt mikilvægasta hlutverk, sem skákar öllum öðrum: hlutverk hins nýbakaða foreldris.

Ævar lagði á dögunum lokahönd á bókina Þitt eigið tímaferðalag, sem stendur til að gefa út í vetur. Sögurnar í þessum bókaflokki hjá höfundinum hafa selst eins og heitar lummur á síðustu árum og stefnir allt í að sú fimmta og nýjasta verði sú umfangsmesta til þessa. Lesandinn ræður hvað gerist í bókinni, en allar bækurnar bjóða upp á fleiri tugi mögulegra málalykta og þannig er hægt að lesa bókina aftur og aftur. Þá bætir Ævar við að Tímaferðalagið muni bjóða upp á enn fleiri málalok en venjulega og á einum stað gengur bókin í hring og verður þannig endalaus.

Í janúar á næsta ári má sjá lokaafrakstur Ævars í að flytja sögustíl bókanna frá lesendum til áhorfenda. Þá hefjast sýningar á Þínu eigin leikriti – Goðsögu, þar sem salurinn ræður því hvað gerist næst. Sýningar fara fram í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu og segir Ævar markmiðið vera að búa til einstaka leikhúsupplifun. „Það var haldinn samlestur í vor og eftir það var handritið sett ofan í skúffu til að marínerast yfir sumarið. Ég hlakka til að kíkja á það aftur nú þegar skrifum á Tímaferðalaginu er lokið,“ segir hann hress. „Þú getur farið á leikritið aftur og aftur og færð aldrei nákvæmlega sömu sýningu.“

Ævar segir Kúluna vera fullkominn stað fyrir sýningu af þessu tagi. „Það er svo mikil nánd í Kúlunni. Það er ekki langt á milli leikara og áhorfenda, sem er fullkomið þar sem áhorfendur eru hluti af sýningunni því þeir ráða hvað gerist. Að því sögðu verður enginn dreginn upp á svið,“ segir hann en bætir þó við, ,,allavega ekki margir.“

Hitt verkefnið sem Ævar hefur glímt við er sjónvarpsþáttaröð sem byggð verður á bókinni Þín eigin þjóðsaga, sem að hans sögn verður „í anda Lemony Snicket og Tim Burton.“ Þættirnir eru unnir í samstarfi við RÚV, kvikmyndagerðarmanninn Guðna Líndal Benediktsson, bróður Ævars, og Fenrir Films.

„Góðir hlutir gerast hægt, en þetta er í vinnslu,“ segir Ævar. „Það er líka gott að það gerist hægt, því þá höfum við tíma til að virkilega vanda okkur. Þættirnir verða sex talsins og þegar áhorfendur sjá þá eru þeir rúmar 20 mínútur að lengd. Hins vegar verður búið að taka upp 50 mínútur af efni vegna þess að líkt og í bókunum og leiksýningunni munu áhorfendur ráða hvað gerist í hverjum þætti. Ég skrifa tvo og Guðni bróðir fjóra. Eins og við sjáum þetta fyrir okkur er þetta barnaefni á skala sem hefur ekki verið í boði hér á landi áður. Þetta verður stórt og öðruvísi.“

Ævar bætir því við að það sé æðislegt að takast á við svona verkefni með bróður sínum og fá um leið að kynnast betur kvikmyndagerðarmanninum í bróður sínum og vinna með honum.

Þurfti að setja hálftímareglu

Af þaulreyndum raddleikara að vera þykir Ævari það ekki fara á milli mála að barnaefni sé orðið miklu ágengara og hraðara í dag en áður fyrr, en segir það fylgja þróun þegar streymisveitur og sjónvarpsstöðvar eru við hvert horn. „Þegar allir eru með þúsund stöðvar, þá þarftu að ná fólki í þessar sekúndur sem það er að flakka á milli. Þetta er agressífara en til dæmis teiknimyndirnar voru sem ég horfði á í æsku, en í dag þarf að alltaf að vera eitthvað til þess að ná þér strax og halda þér,“ segir hann.

„Eftir að ég byrjaði að vinna við að talsetja komst ég að því að helmingurinn af starfinu er að öskra. Flestar teiknimyndapersónur eru ýmist að hrapa, detta eða meiða sig. Það er reyndar magnað, því maður kemur stundum sveittur út úr stúdíóinu. Ég var kannski búinn að vera öskrandi íkorni í einhverja klukkutíma og fannst eins og ég þyrfti að fara heim og leggja mig.“

Á móti segist Ævar fullkomlega skilja hvernig börnum þyki símar og spjaldtölvur ofboðslega spennandi. „Það er náttúrlega bara allt þarna,“ segir hann. „Ef þú hefur til dæmis áhuga á fótbolta, þá kveikirðu bara á YouTube og það er endalaust af myndböndum þar. Þegar ég var yngri og fékk lánað tölvuspil hjá vini mínum, þá þurfti strax að setja hálftímareglu og ekkert meira, annars hefði ég bara verið í þessu stanslaust. Ég skil því vel að síminn sé spennandi.“

Ævar vill meina að höfundum beri ákveðin skylda til að „búa til bækur sem eru vonandi nógu skemmtilegar, spennandi og áhugaverðar til að, ef ekki trompa símann, allavega sýna að bækurnar séu spennandi á allt annan hátt. „Þar býrðu til þinn eigin heim, þær ýta undir ímyndunaraflið og setja allt af stað. Það er nefnilega ekkert sem jafnast á við góða bók. Nema ef vera skyldi tvær góðar bækur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Í gær

Edda rænd og segir þjófinum til syndanna – „Skíttá’ðig!“

Edda rænd og segir þjófinum til syndanna – „Skíttá’ðig!“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Nína, Skólaball og Móðir – Sögurnar á bak við dægurperlurnar

Nína, Skólaball og Móðir – Sögurnar á bak við dægurperlurnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Mögnuð ábreiða af „Imagine“ lætur okkur gráta – Sjáðu myndbandið

Mögnuð ábreiða af „Imagine“ lætur okkur gráta – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 5 dögum

Berglind gefur karlmanni í öngum sínum hollráð: „Ég gelti og ýlfraði í loðbúningnum“

Berglind gefur karlmanni í öngum sínum hollráð: „Ég gelti og ýlfraði í loðbúningnum“